Category Archives: Uncategorized

Friðarey

Friðarey, Fjárey eða Frjóey (Fair Isle á ensku, Fara á gelísku) er lítil eyja milli Orkneyja og Hjaltlands. Þar búa sennilega núna um 70 manns. Upplýsingar um Friðarey má finna á íslensku Wikipediu, ensku Wikipediu og upplýsingasíðu Friðareyjar.

Minnst er á Friðarey í nokkrum Íslendingasögum. Er væntanlega frægast dæma þegar Kári Sölmundarson dvaldi þar einn vetur hjá Dagviði hvíta og hafði fréttir úr Hrossey (Mainland á Orkneyjum) um veturinn. Kári skrapp svo til Orkneyja á jóladag “og hjó á hálsinn Gunnari Lambasyni og svo snart að höfuðið fauk upp á borðið fyrir konunginn og jarlana.” Gunnar Lambason ýkti nefnilega og skrumskældi lýsingu sína á Njálsbrennu svo Kára sárnaði. (Sjá 154. – 155. kafla Brennu-Njáls sögu.)

Núna er algengast að sigla til Friðareyjar frá Leirvík á Hjaltlandi. Það væri óneitanlega gaman að koma þangað einhvern tíma. Ég hef bara komið til Orkneyja og sú ferð er meira og minna útþurrkuð úr minni en sem betur fer er til myndasíða úr ferðinni.

Ástæða þess að ég fór að pæla í Friðarey er að ég er nýbúin að lesa reyfara sem gerist akkúrat þar. Þetta er fínn reyfari, heitir Blue Lightning og er eftir Ann Cleeves. Ég varð dálítið hissa á hve mér líkaði bókin því einhvern tíma á útmánuðum gafst ég upp í öðrum reyfara eftir sama höfund, sem gerist á svipuðum slóðum og fjallar um sömu lögguhetjuna. Ætli ég gefi þá ekki Red Bones annan séns? (Báðar þessar bækur eru til á okkar ágæta bókasafni.) Blue Lightning gerist í fuglaskoðunarmiðstöðinni á Friðarey og í textann er lítilsháttar stungið mállýsku, t.d. orðinu “bairns”, sem þýðir börn. Reyndar held ég að þetta orð sé notað víðar, allt suður til Jórvíkurskíris, og byggi ýmist á reyfaraþekkingu eða samskiptum við jórvískan stjórnanda í The Viking Network, sællar minningar. En ég ætla ekki að blogga um mállýskur núna … 

Fyrir utan það að kannast mætavel við kaflann úr Njálu hef ég haft Friðarey “i baghovedet” í nokkurn tíma út af peysunum sem kenndar eru við eyna. Hef lengi ætlað að kynna mér þau prjónafræði og nú gafst upplagt tækifæri til þess.

Myndin til hægri sýnir klassíska símunstraða peysu, svokallaða Friðareyjarpeysu. Til er sérstök síða á ensku wikkunni,  Fair Isle (technique), sem fjallar um þennan prjónaskap.

Á Friðarey þróuðust tvíbanda peysur líkt og í Færeyjum og í Skandinavíu. Elsta dæmi á safni þar er peysa sem var prjónuð um 1850. Svona peysur urðu vinsælar þegar Prinsinn af Wales skartaði opinberlega Friðareyjar-peysu árið 1921. Til eru þjóðsögur sem tengja Friðareyjarprjón við strand spænskrar freigátu við eyjuna 1588 og er talið að spænsku skipverjarnir hafi kennt eyjarskeggjum að prjóna.

Friðareyjarpeysa

Hefðbundin prjónaplögg á Friðarey einkennast af hringprjóni og munstri í tveimur litum. Þannig verða flíkurnar, t.d. peysur,  þykkari og hlýrri. Í grúski á Vefnum kemur fram að þótt notast sé við hringprjón var allt eins algengt að klippa fyrir ermum og setja þær beinar í. Þá voru bolurinn og ermarnar fyrst prjónaðar alveg upp. Þannig virðist símunstraða peysan hægra megin í þessari færslu vera prjónuð.

Aðrar heimildir gera mikið úr sérstöku berustykki sem kennt er við eyjuna, svokallað Fair Isle Yoke. Ég sé ekki betur en þarna sé átt við hefðbundna íslenska hringúrtöku, sbr. peysuna hér til vinstri. Sú aðferð er þó væntanlega miklu yngri á Íslandi en á Friðarey, miðað við að “íslenska lopapeysan” er talin um 50 – 60 ára gömul hönnun.

Í hefðbundnum Friðaeyjarpeysum má svo að sjálfsögðu finna þá frægu áttblaðarós en ég hallast nú helst að því að áttblaðarósin sé samevrópskt munstur …

  

Áhugasömum prjónakonum í hópi dyggu lesendanna er bent á síðurnar: Fair Isle Crafts LdtThe History of Fair Isle Knitting, Part 1 (annar hlutinn birtist aldrei), What is traditional Fair Isle knitting?,  Fair Isle Knitting List – Wee Fair Isle Sweater Project (uppskrift með krækjum í munstursíður), About Fair Isle Sweater (fínt sögulegt yfirlit, hvaðan ég stal myndunum af peysunum) og  Lopi Fair Isle Yoke Pullover Kit (auglýsingasíða sem auglýsir íslenskan lopa til að prjóna Friðareyjarpeysu – sé ekki betur en úr verði lopapeysa).

  

 

Skemmdarverk á Laugarvatni, seinni hluti

Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”. (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettu)

        
Fagurt upplag 

Í upphafi voru Hollvinasamtök Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni hópur hugsjónamanna sem vildu endurbæta menningarverðmæti:

“Eins og fram hefur komið, er um mjög merkar menningartengdar byggingar að ræða. Smíðahúsið var listaskáli Danakonungs á Alþingishátíðinni 1930. Liggur það undir skemmdum. Þak er farið að síga og og ytri járnklæðning ryðguð og illa farin. Gufubaðið sem á sér enga hliðstæðu í heiminum hefur verið haldið gangandi, en þarf algerrar endurnýjunar við.”  … “hugmyndin er ekki eingöngu að gera við húsin heldur allt umhverfið, það er að útbúa ylströnd með tilheyrandi þjónustu og leiktækjum, sem sagt frábæra fjölskylduparadís.”  Þetta sagði Hafþór B. Guðmundsson, kennari við Íþróttakennaraskólann, í viðtali árið 2003. (Nú verður eitthvað að gerast, Mbl. 22. mars 2003. )

Sami Hafþór er nú kominn óravegu frá hugsjónum sínum, ásamt fleiri stofnendum Hollvinasamtakanna. Hann er nú annar af tveimur Laugvetningum í stjórn Gufu ehf, hinn er Halldór Páll Halldórsson,  skólameistari ML. Báðir eru varamenn. Báðir voru í fyrstu stjórn Hollvinafélags Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni.

Upphaflega hugmyndin með stofnun Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni var að hlynna að þessum húsum. Fólki gafst kostur á að ganga í samtökin og greiða smáupphæð með gíróseðli. Eflaust hafa margir raunverulegir hollvinir húsanna, dyggir gufubaðsgestir, gert það. Hvað gerðist eiginlega?

  

Hlæjandi glæpa hljóp ég stig …

Í fyrri færslu voru þeir sem skipuðu fyrstu stjórn Hollvinasamtakanna taldir upp. Mig langar að staldra við tvo þeirra; Friðrik Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóra Húsbyggingafélags námsmanna, og  Þorstein Kragh. Báðir tóku þátt í að stofna Gufu ehf sem gekk til samstarfs við Bláa Lónið árið 2006, hafandi í fórum sínum risastóra landspildu sem Hollvinasamtökin höfðu einhvern veginn haft út úr ríkinu.

Munnleg heimild hermir að Friðrik hafi séð mikla peningavon í Gufu ehf. Hann átti hlut í fyrirtækinu og fékk vini sína til að kaupa hluti. Þegar halla tók undan fæti í efnahagi landsmanna fékk hann Byggingafélag námsmanna (BN) til að kaupa hluti vina sinna svo þeir töpuðu ekki fé á ævintýrinu. Enda kemur fram í frétt Fréttablaðsins 9. júlí 2008 að Byggingafélag námsmanna eigi stóran hlut í Gufu ehf.

Friðriki Guðmundssyni var sagt upp störfum hjá BN vegna fjármálaóreiðu (sjá Opinber rannsókn á byggingafélagi, Fréttablaðið 24. apríl 2008, og Vilja ekki tjá sig um málið- Formaður og fjármálastjóri Byggingafélags námsmanna kærðir til lögreglu, Viðskiptablaðið 21. maí 2008). En Friðrik þessi virðist slyngur fjármálamaður; hann snérist til varnar og fékk BN dæmt til að greiða sér talsvert yfir 3 milljónir í ógoldin laun. Hann tapaði þó málinu í Hæstarétti nú í vor. [Leiðr. 14. ágúst.] 

Byggingafélag námsmanna sat sumsé uppi með stóran hlut í verðandi stóriðjutúristafyrirtæki því Friðrik átti marga vini og einn þeirra var Grímur Sæmundsen, þá framkvæmdarstjóri og nú forstjóri Bláa lónsins. Í desember 2006 var Gufa ehf komin í samstarf Bláa lónið og er enn.

Byggingafélag námsmanna virðist þó einkum hafa þetta hlutverk, skv. þess eigin heimasíðu: “Byggingafélag námsmanna ses, sjálfseignarstofnun með sjálfstæðan fjárhag. Annast kaup og uppbyggingu húsnæðis til rekstrar stúdentagarða í þágu námsmanna. Hlutverk þeirra [svo!] er að bjóða námsmönnum í nemendafélögum innan BN til leigu hentugt og vel staðsett húsnæði.”  Á annarri undirsíðu segir: “Stúdenta/nemandafélög innan aðildarskóla BN eru nú: Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Fjöltækniskóli Íslands auk séraðildar félagsmanna innan Iðnnemasambands Íslands.”   Og Byggingafélag námsmanna leigir einmitt úr íbúðir handa íþróttakennaranemum á Laugarvatni.  Mér finnst í rauninni afskaplega hæpið að eigendur BN (nemendafélög ofangreindra skóla) séu sammála kaupunum í Gufu ehf og efast jafnvel um að þau hafi verið löglegur gjörningur.

Formaður stjórnar BN, Sigurður Grétar Ólafsson, situr í núverandi stjórn Gufu ehf svo ætla má að enn eigi BN þennan stóra hluta sinn.

Friðrik Guðmundsson var duglegur að afla fjár og koma Hollvinasamtökunum í Gufu ehf og í eina sæng með Bláa lóninu, með peningum Byggingafélags námsmanna. Ekki var Þorsteinn Kragh síðri agent því  hann gumaði af því við fjölmiðla að nú skyldu reist “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar”. (Tilvitnun í samtal við Fréttablaðið 8. apríl 2006, í frétt sama blaðs 9. júlí, 2008.) En ævintýrið tók skjótan enda því 19. mars 2009 var Þorsteinn Kragh dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir aðild sína að “stærsta fíkniefnasmygli Íslandssögunnar”.   Svona getur farið fyrir gufubaðsrekendum sem hugsa of stórt.

Hugsanlega var enn einn stjórnarmaður Gufu ehf eitthvað tæpur á löglegu línunni, sbr. “Fyrrverandi framkvæmdastjóri þess [BN], Benedikt Magnússon, sat í stjórn þess [Gufu ehf]. Hann sætir nú rannsókn efnhagsbrotadeildar lögreglu.” (Fréttablaðið 9. júlí 2008.)

  

Settu kíkinn fyrir blinda augað

Þáttur sveitarstjórnarmanna í gufuævintýrinu mikla er óljós. Ragnar Sær Ragnarsson, þáverandi sveitarstjóri Bláskógabyggðar, tók þátt í að stofna Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, 2003 og var talsvert innviklaður í Gufu ehf fyrstu árin. Hann virðist enn stefna að nánum tengslum við félagið.

Ótrúlega fátt er um þetta ritað í fundargerðum Bláskógabyggðar. 16. desember 2004 er sagt í fundargerð skipulagsnefndar uppsveita:

“Lögð fram tillaga frá Landformi ehf að deiliskipulagi gufubaðs á miðsvæði í þéttbýlinu á Laugarvatni og er tillagan unnin fyrir Bláskógabyggð. Tillagan var lögð fram á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þann 7.desember og þar var samykkt [svo!] að heimila auglýsingu tillögunnar auk þess sem henni var vísað til skipulagsnefndar uppsveita til fullnaðarafgreiðslu.
Deiliskipulagssvæðið sem er 4,8 ha nær yfir lóð hollvinasamtaka gufubaðsins, opin svæði meðfram vatnsbakka, suður fyrir íþróttahúsið, að Laugarbraut og Lindarbraut í vestri , norður fyrir veitingastaðinn Lindina og norður fyrir Vígðulaug.
Greinargerð deiliskipulagsins er ítarleg og vel unnin. Skilmálar gera ráð fyrir allt að 1600 m² gufubaðsbyggingu innan byggingarreits sem má vera tvær hæðir en mælst er til þess að hún verði lágreist.
Bílastæðum er komið fyrir á 4 stæðum, alls um 170 stæði.  Skilgreindar eru lóðir Lindar, Heimakletts, Lindargarðs og íþróttahúss auk lóðar hollvinasamtakanna.
Skipulagsnefnd tekur undir með sveitarstjórn að heimila auglýsingu deiliskipulagsins og beinir því til sveitarstjórnar að unnið verði rammaskipulag fyrir byggðina á Laugarvatni með sérstakri áherslu á aðkomu að gufubaðinu og tengingu innan byggðar.”

Seinna lagði skipulagsnefnd til veigalitlar breytingar á þessu, eftir að einungis 2 athugasemdir Laugvetninga höfðu borist, og sveitastjórn samþykkir allt fyrir sitt leyti (segir í fundargerð sem Ragnar Sær sveitarstjóri ritar 10. maí 2005).

Í sömu fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar segir:

“Hlutafjárkaup vegna nýsköpunar og atvinnuþróunar á Laugarvatni. 
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að leggja til kr. 500 þús. sem hlutafé til nýsköpunar við atvinnuþróun á Laugarvatni í Eignarhaldsfélagið Gufu ehf.  húsbyggingar á nýju gufubaði og heilsulind. 
Auk þess samþykkir sveitarstjórnin að leggja á næstu árum hlutafé til viðbótar til að tryggja framgang verkefnisins og verður sú upphæð kr.  4.500.000. Hlutafé þetta greiðist í samræmi við álögð
fasteignagjöld þar til heildarkrónutölu hefur verið náð.
Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmd þessa verkefnis geti orðið allt að kr. 350 milljónir sem koma til nýsköpunar í atvinnumálum í Bláskógabyggð.”

Einu og hálfu ári síðar hefur hlutur Bláskógabyggðar í Gufu ehf snaraukist, upp í 8.936.600 kr. Áætlað heildarhlutafé Gufu ehf þá eru 92 milljónir svo Bláskógabyggð á tæplega 10% í eignarhaldsfélaginu og hefur gerst dyggur áskrifandi að væntanlegum gróða. (Sjá Bláskógafréttir 6. árg. 2 tbl. febrúar 2007)

Eitthvað virðist boðleiðir innan sveitarinnar vera tregar því í  fundargerð umhverfisnefndar Bláskógabyggðar 2. maí 2007 Fundur 28. mars 2007 segir: ” Fegrun umhverfis
Laugarvatn – vatnið, ströndin og umgengni …  
7.Gamla smíðahúsið sem upplýsinga- og ferðamannamiðstöð í námunda við Náttúrustofuna á Laugarvatni …” 

Á þeim tíma var löngu búið að ákveða að rífa smíðahúsið og sennilega hafði þegar verið drifið í því þótt umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefði ekki haft spurnir af.

  

Skítugt?

Bláa lónið og Gufa ehf hafa eitthvað rifað seglin í byggingaráformum þótt byggingin verði síst ódýrari eftir því sem hún bíður þess lengur að rísa. Nú er ekki lengur verið að spá í 1600 fermetra gufubaðsbyggingu heldur datt áætlaða framkvæmdin niður í 750 fermetra strax síðla sumars 2007 og er þar enn.

Heildarkostnaður núna er áætlaður um 400 milljónir en var 100 milljónir árið 2004 þegar ævintýrið var að byrja. Kannski verður eitthvað slakað á kröfunum um “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar.”

Hlutafé Gufu ehf hefur aukist og er nú 170 milljónir.

49 manns hafa sótt um stöðu framkvæmdarstjóra nýja spasins, sem á að verða tilbúið næsta vor. Verður spennandi að sjá hvort einhver úr hópi frumkvöðlanna, Hollvina Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugavatni, dúkkar upp í slíkri stöðu.

Í stjórn Gufu ehf eru [feitletraðir þeir sem voru í fyrstu stjórn Hollvinasamtaka gufubaðsins og smíðahússins á Laugarvatni]:

  • Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, Kópavogi, stjórnarformaður
    Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
    Sigurður Grétar ólafsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
    Eðvard Júlíusson, Grindavík, meðstjórnandi,
    Böðvar Jónsson, Reykjanesbæ, meðstjórnandi.
  • Halldór Páll Halldórsson og Hafþór Guðmundsson, Laugarvatni, varamenn. 
  • Prókúruumboð fyrir félagið hafa Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík og Kristján Einarsson, Reykjavík.

   

“Og það verð ég að segja að eigi Bláa lónið að vera fyrirmyndin eru það slæm skipti. Þar mun aldrei nást að myndast nein saga, aldrei nein stemmning. Þar er bara hugsað um að reka túrista hratt í gegn og rýja þá eins og hverja aðra sauði. Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”.” (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettur, bloggfærsla frá 8.7. 2007.)

  

Skemmdarverk á Laugarvatni!

Ég var svo lúsheppin að rekast á Rit Nemendasambands Laugarvatnsskóla 1933 í Búkollu (Kolaporti okkar Skagamanna) á laugardaginn og keypi náttúrlega dýrindið. Þar kennir ýmissa grasa, þ.á.m. er greinin “Draumar og veruleiki” eftir Jónas Jónsson frá Hriflu (sem laugvetnska styttan “Jónas frá vinum” sýnir). Í greininni stendur m.a.:

“Snemma vetrar 1931 – 32 kom mér í hug að landið átti sýningarskála mikinn frá þjóðhátíðinni. Stóð hann til hliðar við þinghúsgarðinn. Þar höfðu verið sýnd listaverk sumarið 1930. Skála þennan varð að rífa um það leyti. Mér datt í hug, að gera mætti úr honum leikfimissal [hér sést að Jónas beygir orðið leikfimi á þjóðlegan hátt en því miður hafa íslenskukennarar og íþróttakennarar lagst á eitt áratugum saman í að útrýma þessari eðlilegu beygingu] á Laugarvatni, og talaði um þetta við skólastjóra. Hann sá einhverja útvegi og skálinn var keyptur. Tólf piltar frá Laugarvatni komu suður og rifu skálann … Þetta var sjálfboðavinna, unnin fyrir þá hugsjón að skapa skilyrðin fyrir íþróttalíf og uppeldisframfarir. Síðan var efnið flutt austur. Tveir smiðir fengnir til að standa fyrir verkinu, en nemendur unnu annars að því að koma upp húsinu, og tókst það í hjáverkavinnu á 2 mánuðum, að mig minnir. … Seint um veturinn stóð fullger stærsti leikfimissalur á landinu. Það var þrekvirki, sem æskumenn skólans leystu af hendi með hjáverkavinnunni þennan vetur. … Ég vona að þetta átak nemenda á Laugarvatni verði lengi til fyrirmyndar.” (s. 84)

Þegar ég flutti á Laugarvatn árið 1970 var þessi stærsti leikfimissalur á landinu löngu orðinn að Smíðahúsinu. Systur mínar (yngri – á mínum tíma tíðkaðist ekki að stelpur böðluðust í smíðum!) lærðu þarna smíði og smíðuðu sér báðar skrifborð, auk fleiri muna.

Smíðahúsið stóð á vatnsbakkanum, við hliðina á gömlu Gufunni; tveimur gufubaðsklefum sem reistir voru yfir hver. Ég vann eitthvað svolítið í Gufunni, líkast til hefur það verið fyrir Lions-félagið, og fór náttúrlega öðru hvoru í gufu eins og aðrir Laugvetningar þótt ég væri aldrei hrifin af fyrirbærinu. Man eftir því að væri gufan léleg var kveikt á eldpýtu og hún látin detta ofan í hverinn, það þótti auka gufuna og hitann. (Svona eftirá þá finnst mér ólíklegt að þetta húsráð hafi virkað.)  Ég man líka að stundum þurfti að kalka veggina í gufubaðsklefunum upp á nýtt og skipta um gólf. Þá var veitt köldu vatni í hverinn á meðan.

Á vatnsbakkanum stóðu líka gróðurhús, í hverjum ég vann eitt sumar og sumargestir keyptu sér tómata og gúrkur beint af garðyrkjumanninum. Gróðurhúsin stóðu rétt hjá Vígðulaug og Líkasteinum. Sagt var að dr. Haraldur Matthíasson baðaði sig í Vígðulaug en aldrei sá ég hann þar. Aftur á móti las ég fyrir skömmu að hann hefði upp á eigið eindæmi hlaðið Vígðulaug upp – á þeim tímum var ekki allt jafn andsk. friðað og nútildags. (Hefði dr. Haraldur ekki farið að dæmi Arthurs Evans væri ábyggilega búið að slétta yfir Vígðulaug núna, svo grasflöt vatnsbakkans mætti vera sem “náttúrulegust”.)

Fyrir meir en áratug (byggt á stopulu minni) byrjaði eitthvert lið (sem ég er ekki klár á hvert var) með einhverjar tiktúrur í þá átt að gera Laugarvatn sem “náttúrulegast”. Það er víðar en í AA sem “back to the basics”-hugmyndin ríður röftum. Partur af þessari “náttúrulegu rétthugsun” var að flæma garðyrkjumenn burt frá Laugarvatni með því að láta rífa gróðurhúsin, svo vatnsbakkinn yrði á ný “náttúrulegur”. Ruglið í þessu fólki var náttúrulega algjört því garðyrkjan og gróðurhúsin voru órjúfanlegur hluti af hugmyndinni um Laugarvatn sem skólastað!

Næsta skref virðist svo hafa verið að stofna félagsskapinn “Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugavatni”, vorið 2003. Í þessu kompaníi voru: Hafþór B. Guðmundsson, lektor við Íþróttafræðasetur KHÍ, Ragnar Sær Ragnarsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsbyggingafélags námsmanna, Kristján Einarsson, forstjóri í Rekstrarvörum, Tryggvi Guðmundsson, framkvæmdastj. Flugleiðahótela, Ólafur Örn Haraldsson, alþingismaður, og Bjarni Finnsson, fyrrv. framkvæmdastj. Blómavals. Varamenn eru Þorsteinn Kraag, umboðsmaður, og Halldór Páll Halldórsson, skólameistari ML. Ólafur Örn Haraldsson virðist prímus mótor í þessum samtökum, hann var þingmaður á þessum tíma og notaði tækifærið til að skora “á núverandi og næstkomandi ráðherra menntamála og menntamálaráðuneytið að vinna duglega og af myndarskap með Hollvinasamtökunum að þeirri uppbyggingu sem nú væri farin af stað.” Ég reikna með að Ólafur Örn hafi stundað gufubaðið meðan hann ólst upp á Laugarvatni og hafi lært að smíða í Smíðahúsinu … jafnvel baðað sig í Vígðulaug eins og faðir hans. Hinir eru ýmist aðfluttir eða hafa aldrei búið á Laugarvatni. Við skulum vona að þeir hafi samt einhvern tíma farið í Gufuna, greyin.

Það varð strax mikil drift í Hollvinasamtökunum því árið eftir hafa þau náð tangarhaldi á þeim húsum sem hollusta þeirra hneig í áttina til: “Gengið hefur verið frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið um yfirtöku Hollvinasamtakanna á 8.798 fermetra lóð, þar af 3.436 fermetra í vatninu framan við gufubaðið. Helsta markmið félagsins er að bjarga menningarverðmætum sem liggja í sögu húsanna við vatnið og að bæta aðstöðu fólks til að njóta baða og slökunar í heilsusamlegu umhverfi og hreinni náttúru staðarins.” (“Endurbygging gufubaðs á Laugarvatni“, Mbl. 25. mars 2004.)  Síðla árs 2004 er ljóst að hollvinirnir plana “Tólf hundruð fermetra heilsulind … við Laugarvatn” og þykir Þorgerði Katrínu, þáverandi menntamálaráðherra þetta “”stórhuga menn með alvöruhugmyndir sem styrkja myndu ferðaþjónustuna á svæðinu í heild”. Hún sagði mikilvægt að ýta undir framtakssemi sem þessa og ekki mætti láta gamla og úrelta eignaskiptingu hamla vexti staðarins. Í því sambandi nefndi hún hitaréttindi sveitarfélagsins og landskiptingu á Laugarvatni.” (Mbl. 26. 10 2004.) Væntanlega hefur ráðherra, sem allir vita hve stórhuga var sjálf í fjármálum,  og meintum hollvinum húsanna gengið vel að semja við pöpulinn á Laugarvatni.

Svo byrjar peningaplokkið: Hollvinasamtökin frá strax vilyrði fyrir styrk frá Bláskógabyggð og styrk úr Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, síðan mokar Húsafriðunarnefnd ríkisins í þau 9 milljónum fram í janúar 2009. Þá loksins dettur sömu Húsafriðunarnefnd í hug að athuga hvað hafi orðið af peningunum: ” … óskaði Húsafriðunarnefnd eftir upplýsingum um það hvernig styrkjum var varið sem veittir voru úr Húsafriðunarsjóði skv. ákvörðun fjárlaganefndar, til endurbóta á smíðahúsi og gufubaðinu á Laugarvatni á árunum 2003, 2004 og 2005, samtals kr. 9.000.000″ og komst að því að húsin sem átti að varðveita höfðu verið rifin, á þessu tímabili! Þó kemur fram að Hollvinasamtökin lofa að endurgera gufubaðið í sinni upprunalegu mynd, þegar þau eru tekin á teppi Húsafriðunarnefndar. Svo öllu sé til haga haldið þá virðast hollvinirnir einungis hafa nýtt 7 milljónir til að ekki-varðveita húsin og Húsafriðunarnefnd taldi sig geta náð hinum tveimur milljónunum aftur. (Sjá Fundargerð Húsafriðunarnefndar ríkisins þann 13. febrúar 2009.)

Árið 2006 stofnuðu Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni hlutafélagið Gufu ehf. Má segja að nafnið sé mjög lýsandi fyrir starfsemi þessara samtaka.

Gufa sat ekki auðum höndum heldur gekk til samstarfs við fjárplógsfyrirtækið Bláa lónið í desember 2006.  Hefði öllum, þ.m.t. Húsafriðunarnefnd ríkisins, þá mátt vera ljóst að gamla huggulega gufubaðið á Laugarvatni yrði slegið af við fyrsta tækifæri. Strax í maí árið áður var varað við eyðileggingarnáttúru Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, sjá hér. Enda var drifið í að rífa búningsklefana og loka gufunni árið 2007 og er saga þessi rakin í fréttinni “Ekkert gufubað við Laugarvatn næstu ár“, í Fréttablaðinu 9. júlí 2008. Í mogganum segja menn kokhraustir að framkvæmdum verði lokið sumarið 2008 enda kosti “Fyrirtækið Gufa ehf. uppbyggingu á staðnum og er fjármagn fyrir framkvæmdunum alveg í höfn …”

Eitthvað hafa menn þó verið gufulegir í Gufu ehf. því allir sem hafa komið á Laugarvatn undanfarin ár vita að vatnsbakkinn er meira og minna í messi, sundurgrafinn, girtur og tættur. Þar er sumsé ekkert gufubað hvað þá tólfhundruðfermetra heilsulind! En þrátt fyrir hrunið mikla  eru hollvinirnir eða gufurnar ekki af baki dottnar enn: Í vor birtist frétt í þeim væna mogga, “Gufubaðið á Laugarvatni opnað næsta sumar?” og formaður Gufu ehf segir að “menn hafi fullan hug á að opna gufubaðið fyrir næsta sumar. Hann segir fjármögnun verksins að mestu vera lokið og að það verði fjármagnað til helminga með innlendu hlutafé og lánsfé úr íslenskum bönkum.”

Eftir stendur að þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu taldi að “stigin hefðu verið merkileg spor í baðmenningu Íslendinga” hefur svonefndum hollvinum tekist að rústa merkilegum minjum og stefna rakleiðis að massatúrisma með okurverðlagningu. Mér finnst út í hött að halda að fólk streymi í eitthvert Bláa-lóns spa í flugnageri, þó ekki sé nema verðlagning Bláa lónsins höfð í huga. Sjarmi gömlu Gufunnar var einmitt hversu frumstæð hún var og hve ódýrt var að stunda hana.

Hvernig í ósköpunum hópi einhverra karla tókst að sölsa undir sig merkilegar byggingar og stóra lóð á Laugarvatni, blóðmjólka ríkið á þeim forsendum að þeir ætluðu að hlynna að þessum byggingum á meðan þeir stóðu fyrir að rífa þær og tala sveitarfélagið inn á að afhenda sér tögl og hagldir á þessum stað … allt saman til þess að geta byggt upp túristastóriðju á bakka hins grunna og saurgerlamengaða Laugarvatns – er ofar mínum skilningi! Þetta sem þeir “afrekuðu” eru ekki bara skemmdarverk heldur bæði rán og skemmdarverk! Það er næsta augljóst að þessir karlar ættu að skammast sín fyrir eyðilegginguna og bera hauspoka sem oftast, a.m.k. á Laugarvatni.

Þeim sem vilja lesa meira og sjá myndir af eyðileggingunni er bent á bloggfærslu Sigurðar Hreins Sigurðssonar, Niðurgreidd skemmdarverk.

Myndir af gömlu Gufunni má sjá á þessari Fésbókarsíðu.

  

  

  

Bókafíkn

Ég er fíkill, ég veit það! Sumri fíkn hefur mér tekist að vinna á, annarri ekki og ein er sú sem ég læt mér í léttu rúmi liggja; það er bókafíknin! (Hugsa að ég gangi aldrei í LA – Liberaholic Anonymous, séu þau sjálfshjálparsamtök til …)

Ég er sumsé alin upp með “lykil að bókasafninu”, frá blautu barnsbeini. Þ.a.l. les ég allt sem kjafti kemur og er fljót að því (sem kom sér óneitanlega vel á námsárunum). Þótt ég sé auðvitað líka internetfíkill hefur mér tekist merkilega vel að seðja bókafíknina jafnframt. Og síðarnefnda fíknin blossaði náttúrlega upp í mánaðarlangri dvöl okkar hjóna á Krít nú í sumar enda fátt um að vera í litlu þorpunum sem við dvöldum í og við misstum okkur alveg í bækurnar. Maðurinn las krískar rímur og Kazantzakis, sem hann endursagði mér í sólbaðinu, en ég las um morð á morð ofan, fyrir utan sagnfræði um andspyrnu Krítverja í seinni heimstyrjöldinni. Sá fróðleikur var miklu ógeðslegri en morðlitteratúrinn svo ég hætti því fljótlega.

Síðan við komum heim hef ég verið lúsiðinn kúnni á bókasafninu og hef einnig dottið í að kaupa bækur á hundraðkall, á útsölu bókasafnsins – bækur sem ég hef í rauninni ekkert pláss fyrir. Eiginlega líður mér ekki vel nema ég hafi svona 4 – 6 ólesnar bækur í hillunni; Kannski ég ætti að útbúa bókabar í stofunni? Hafandi verið meira og minna höll úr heimi undanfarin ár get ég lesið aftur og aftur sömu bækurnar … reyndar tolla þær núna í minni komandi með betri bata.

Í augnablikinu er ég með þessar bækur í láni:

Nýja Ísland og Annað Ísland (vesturfarabækur eftir Guðjón Arngrímsson, enn ólesnar);

Sporaslóð eftir Braga Þórðarson (neftóbaksfræði um Akranes sem ég fattaði að ég hef lesið áður og man því miður alltof vel eftir bókinni);

Truntusól eftir Sigurð Guðjónsson (hef lesið hana áður en lesturinn strokaðist út og mér fannst mjög gaman að lesa hana núna);

Dauð þar til DiMMIR eftir Charlaine Harris (fyrsta atrenna í vampýrubókum – ég gafst upp eftir 100 síður og sé að ég höndla ekki svona skáldskap);

Dauðinn kemur til miðdegisverðar eftir Peter Sander (veit ég las þessa bók á unglingsárum, jafnvel oftar en einu sinni, en var búin að gleyma henni … hún var í bókasafnshillu rétt hjá Truntusól svo ég tók hana. Þetta er skemmtileg bók en þýðingin óskaplega hroðvirknisleg, t.d. ökklabrotnar sögumaður í upphafi en seint í bókinni er hann allt í einu sagður úlnliðsbrotinn … og fleiri truflandi villur eru í bókinni);

Deadline eftir Simon Kernick (á Krít fengust margar bækur eftir þennan höfund svo ég ákvað að tékka á honum … þetta er allt-í-lagi reyfari en ekki meira en svo);

Leikur engilsins eftir Carlos Ruiz Zafon (sem er frábær! Ég fæ lánaða hina bókina höfundarins sem hefur verið þýdd, strax eftir helgina. Þessi bók gerist í Barcelona og hefst um 1917. Í vor las ég Kirkju hafsins, sem gerist líka í Barcelona, reyndar miklu fyrr. Mér er sagt að við höfum farið til Barcelona og ég hef reynt að læra minningar af myndum en satt best að segja er sú ferð í huga guðs. Ljósi punkturinn er náttúrlega sá að ég get þá farið aftur fersk til Barcelona, kannski enn munandi Kirkju hafsins og Leik engilsins 😉

Og slatta af gömlum prjónablöðum (er að spá í lopapeysumunstur).

Í hillunni / á bókabarnum eru líka bækur sem ég keypti á bókamarkaði í Köben, flestar enn ólesnar. Þetta eru:

At elske er at dø eftir Torben Nielsen (hef ábyggilega lesið hana einhvern tíma – ég gerðist á tímabili mikill aðdáandi Torbens Nielsen);

Vi som går køkkenvejen eftir Sigrid Boo (hef marglesið Við sem vinnum eldhússtörfin, ill-í-náanlega nútildags, og fannst jafnskemmtilegt að lesa bókina á dönsku);

Skæve Toner eftir Val McDermid (algerlega misheppnuð bók og má þakka fyrir að höfundurinn bjó til Tony Hill og snéri sér í blóðugri átt);

Ægte skotsk eftir Eric Linklater (keypti bókina af því hún gerist í “Laxdale Hall, et stort hus i en afsides egn i det skotske højland” en er bara rétt byrjuð á henni. Bókin lofar góðu.);

Spejldans eftir Helle Stangerup (hef sjálfsagt lesið hana áður, var aðdáandi höfundar um tíma, vonandi er þetta spennandi sálfræðitryllir);

… i al sin glans og herlighed eftir Kirsten Holst (sem ég held að enn sé ólesin).

Nú tíunda ég ekki fleiri bækur að sinni, er þó með nokkrar síðan í vor, af bókasafni FVA, og nokkrar keyptar. Eins gott að hafa armana krosslagða núna á eftir en við ætlum einmitt að kíkja í Búkollu, kolaportið hér á Skaganum, sem er stórhættuleg heimsókn fyrir bókafíkil!  Svona fyrirfram reikna ég þó með að falla eilítið …

Bögg og málfar

Af iðni bloggynju undanfarið í að lesa bloggsíður hefur lærst tvennt: Vilji menn bögga einhvern á bloggi er fyrsti kostur að brigsla viðkomandi um að vera geðveikur og næstbesti kosturinn er að hanka viðkomandi á “rangri” málnotkun. Stundum ná menn að sameina þetta, t.d. á bloggi Eiðs Guðnasonar og kommentum (athugasemdum er líklega kórréttara) við það: Eiður bloggar um “auglýsingahórerí” (skemmtilegt orð) Ásgerðar Jónu Flosadóttur, hankar hana á að hafa sagt: “Þátturinn Á ferð og flugi með  Iceland Express er lokið að sinni” og einn aðdáenda Eiðs, Atli nokkur, gefur í skyn að konan sé geðveik, “Hvernig er það Eiður. Telur þú líklegt að Eyjan muni láta geðfatlaða einstaklinga fá lista yfir þá sem kommenta við hjá þér?”, í kommenti við aðra færslu.

Ég þekki Ásgerði Jónu ekki baun. Mér finnst hins vegar ekkert skrýtið að hún sé að íhuga kæru miðað við umfjöllun Eiðs um hana. Atli þessi, sem getur sjúkdómsgreint fólk eftir málfari og óánægju með skítkast, kemur ekki fram undir fullu nafni. Það eru náttúrlega bara mannleysur og skítseiði sem ekki þora að leggja nafn sitt við hrokafullar sjúkdómsgreiningar á fólki úti í bæ. (Ég breyti færslunni núna því sá sem mér datt í hug að væri Atli föðurleysingi er algerlega blásaklaus af skíthæla-geðduldinni.)

Skemmtilegasta dæmið um málfarsskítkast undanfarið er líklega frétt Eyjunnar, Málvilla menntamálaráðuneytis, þar sem málfátækt fréttaritara verður honum að fótakefli og hann kannast ekki við fallbeygingu í algengu orðtaki.

Næstskemmtilegustu dæmin eru komment við blogg Eiðs Guðnasonar 😉

Það hefur alltaf farið dálítið í taugarnar á fordómafullri bloggynjunni þegar menn mæla manngildi í málnotkun (þetta er ofstuðlað, ég veit). Einu sinni þekkti ég mann sem sýndi mér margar stílabækur (þetta var fyrir daga tölva) í hverjar hann skrifaði samviskusamlega upp ýmsar ambögur úr fréttatímum ríkisútvarpsins. Mér þótti þetta fáfengilegt áhugamál. Auðvitað er æskilegt að menn leggi sig eftir blæbrigðaríku máli og tali sem þokkalegasta íslensku. Á hinn bóginn hefur alltaf verið munur á talmáli og ritmáli og það að tala í ritmálsstíl er ankannalegt, jafnvel hallærislegt. Í óundirbúnu spjalli getur ýmislegt fokið sem ekki tekur sig vel út á prenti. Nóg hefur verið alið á málfarsótta þjóðarinnar síðustu hundrað ár eða svo og í rauninni er gleðilegt hve margir eru tilbúnir til að tjá sig núna, óhræddir við málfarslögguna. Ef íslensk tunga á að lifa verða menn að tala og skrifa og lesa hana, óttalaust.

En bloggynja gerir sér grein fyrir því að ekki kunna allir að rísla sér við sauma, prjón eða aðra tómstundavinnu og verða því að fylla út stílabækur eða tölvuskjái með því að agnúast út í hvernig aðrir tala, skrifa og lesa, eins og ég er einmitt að gera sjálf, í þessari færslu 😉  Sá er þó munurinn að ég greini ekki geðsjúkdóma fólks sem er mér ósammála eða talar / skrifar ekki eins og mér hugnast best sjálfri.

Svo verð ég að fara að venja mig af þessum eilífu tilvísunum í blogginu, færslurnar eru farnar að líkjast heimildaritgerð!

Um geðveiki

Mér varð hugsað til þunglyndis og kvíða, aðallega af því ég var að tala um slíkt núna áðan og af því ég var að fá þær góðu fréttir að kraftaverkalyfið nýja virðist ekki skemma mína góðu lifur og af því ég hraðlas Truntusól í gær og af því ég lenti í smá umræðum um hugtakið truntusól við ungling heimilisins þá hann kom af næturvakt núna í morgun.

Truntusól er afbökun á lyfjaheitinu Tryptizol (sem er svokallað þríhringlaga geðdeyfðarlyf en þau lyf eru með elstu geðlyfjunum … lyfið kom á markað 1961 en hugsanlega er lyfjaheitið tryptizol yngra). Sjálf tók ég þetta lyf um tíma, þá gegndi það nafninu Amilín, en ég held að nú sé búið að taka það af skrá hér á landi. Reynsla mín af Amilín var ekki góð en reyndar er reynsla mín af geðlyfjum almennt slæm uns kraftaverkalyfið kom á markað nú nýverið.

Truntusól er líka bók eftir Sigurð Þór Guðjónsson, útg. 1973 en segir frá reynslu höfundar af geðdeildarvist árið 1970. Bókin er kölluð skáldsaga en er svona álíka skáldsaga og endurminningarbækur Þórbergs Þórðarsonar, nema Sigurður varð að breyta öllum nöfnum persóna til að bókin fengist gefin út.  Ég las þessa bók í denn og hef sennilega verið að lesa hana í þriðja sinn í gær. Þetta er rífandi skemmtileg bók og góð lýsing á þunglyndi og kvíða. Höfundur er undir sterkum áhrifum af Þórbergi og það fer náttúrlega eftir ást manna á slíkum frásagnarhætti hvort þeir lesa allt eða skruna yfir hástemmdar lýsingar í þórbergskum anda ; ) Sjálf hafði ég meira gaman af einlægum köflum í skertari skrúðstíl.

Í samtali við ungling heimilisins kom fram að Megas hefði samið texta um truntusól. Það vissi ég ekki en ég er náttúrlega álíka lítill aðdáandi Megasar og Þórbergs. En það gladdi mig mjög að unglingurinn hefur þó tekið almennilega eftir í áföngum sem honum þóttu skemmtilegir 🙂  Ég tékkaði á texta Megasar, ljóðið heitir Paradísarfuglinn og má sjá brot úr því hér … en í því segir m.a.: “Þeir gáfu henni truntusól og tungl / og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli”. Textinn fjallar um stúlku sem “gjörðist veik á geði”.

Brotið úr Paradísarfuglinum fékk mig til að spá í hvort Megas héldi að lyfið væri einhvers konar læknadóp – sem það er alls ekki. Það er algengur misskilningur enn þann dag í dag að þunglyndislyf  séu vímugefandi. Ég hvet þá sem svo telja til að verða sér út um svoleiðis pillur og reyna að selja þær … held að markaðurinn sé enginn. Texti Megasar birtist fyrst 1977 og því miður hefur álit fólks á geðlyfjum breyst alltof lítið síðan þá.

(Mér finnst við hæfi að punta þessa færslu með Ópinu hans Munch. Svo hvet ég áhugasama til að lesa frumlega túlkun á myndinni, sjá föstudagssvar Vísindavefjar við spurningunni “Af hverju er karlinn að hrópa á myndinni “ópið”? Hvað gerðist svona hræðilegt?” Kannski hefði karlinn haft gott af truntusól en því miður var ekki búið að finna lyfið upp á tímum Munch.)

Talandi um geðveiki og lækningar þá sá ég að sænska sjónvarpið ætlar að sýna þátt kl. 18 (að ísl. tíma), sá heitir Uppdrag granskning – sommarspecial (líklega læknisfræði fyrir pöpulinn) og í kvöld er einmitt fjallað um raflækningar, “Ikväll: Patienter vilseledda om riskerna med ECT – elbehandlingar inom psykiatrin.”  Hugsa að ég horfi á þáttinn.

Ég hef tvisvar farið í raflækningar. Í fyrra sinnið gerðist kraftaverk og ég varð frísk í eina þrjá mánuði. Að vísu tapaði ég tveimur árum úr minni en náði að læra slatta af minningum með því að skoða myndasöfn og lesa bloggið mitt. Í seinna skiptið tapaði ég aftur tveimur árum og því miður batnaði mér ekki hætis hót.

raflækningarFordómar almennings í garð geðsjúkra og í garð geðlyfja eru umtalsverðir. Það er þó hjóm eitt miðað við fordómana þegar kemur að raflostum / raflækningum. Enda byggja margir eingöngu á Gaukshreiðrinu án þess að átta sig á því að sú mynd gefur algerlega skakka mynd af geðlækningum enda höfundur bókarinnar á endalausum LSD-trippum. Úr því ég minntist á Megas er rétt að nefna Bubba líka (þótt hann verði reyndar seint talinn “póstmódernískt skáld”, ætla ég að vona!).  Bubbi samdi hið ódauðlega lag og texta “Stórir strákar fá raflost“, útg. 1982. Lagið er fínt en textinn alger steypa. Ekki hvað síst vegna botnlausra fordóma í garð geðlækninga sem kristallast í honum.

(Það er eiginlega dálítið merkilegt að þessir trúbadúrar tveir, Bubbi og Megas, skuli báðir velja sér kvenkyns persónu þegar þeir fara að fjalla um geðsjúkan einstakling. Stúlkan í Paradísarfuglinum er nafnlaus en allir vita að hjá Bubba er það “Lilla”, sem er “orðin ær” og leggst inn á geðdeild. Ætli þeir séu að koma í veg fyrir að vera tengdir geðsjúkdómum sjálfir?)

Raflækningar hafa tíðkast gegn svæsnu þunglyndi í bráðum 70 ár. Á Íslandi voru skiptar skoðanir um ágæti þessarar aðferðar; Karl Strand, sem varð yfirlæknir á geðdeild Borgarspítalans þegar hún opnaði 1957, var hlynntur notkun raflækninga og þær voru því brúkaðar þar. (Sjá viðtal við hann í Mbl. 25. 6. 1993.) Fyrir þann tíma tíðkuðust einnig raflækningar, t.d. á Farsóttahúsinu (sjá frétt frá 1953 um þetta) og, að ég hygg, fyrir norðan. Aftur á móti var Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, eindregið á móti raflækningum (sjá árás á hann í Mánudagsblaðinu 11. janúar 1954), hvers vegna veit ég ekki. En ég vorkenni sjúklingunum á Kleppi sem ekki fengu þennan séns út af tiktúrum yfirlæknisins. Ef allt um þrýtur er skárra að þiggja þessa meðferð en lifa við óbreytt ástand, þrátt fyrir aukaverkanir (minnistap – alla jafna er það tiltölulega lítið en ég var sérlega óheppin, að venju).

Sem geðsjúklingur er ég afskaplega þakklát fyrir að vera uppi á þessum lyfjaþróunartímum. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt er hve fordómar fríska fólksins gagnvart svona sjúkdómum eru lífsseigir. Ég er handviss um að slæmt endurtekið þunglyndi og kvíði eru arfgengir sjúkdómar og í rauninni ekkert dularfyllri en sykursýki eða kransæðaþrengingar. Samt er það svo að ég verð hvað eftir annað vör við þá skoðun fólks að veikindin séu að einhverju leyti sjálfskaparvíti, þ.e. að sjúklingar kalli þau yfir sig sjálfir, væntanlega með syndugu líferni og óhreinu hjarta …? Og þegar kemur að læknisráðum er sama fríska fólkið andsnúið þeim og telur jafnvel að geðsjúklingar séu að gadda í sig dóp alla daga (væntanlega af syndugri fíkn). Þetta er ótrúlegt!

M.a. út af þessu dáist ég að bók eins og Truntusól því hún gefur þokkalega raunsæja mynd af því hvernig er að þjást af geðsjúkdómum. Mér finnst það afrek af tæplega hálfþrítugum manni að skrifa svo góðan texta og einstakt að hafa komið bókinni í útgáfu árið 1973.

Virkjun Öxarár og Jón á Brúsastöðum

St�flan � ÖxaráÍ gær gengum við maðurinn upp að stíflunni í Öxará, skammt ofan Brúsastaða. Bóndinn á Brúsastöðum var svo almennilegur að leiðbeina okkur að þessari dularfullu stíflu …  Ég segi dularfullu því afar erfitt er að finna upplýsingar um hana og svo virðist sem menn vilji þagga niður tilvist stíflunnar (sbr. fyrri bloggfærslu) enda þykir pólitískt ekki mjög rétt á þessum síðustu ofurgrænu tímum að selveste Öxará skuli hafa verið virkjuð!

Nú hef ég eytt ómældum tíma í að gramsa á timarit.is og gegni.is, í upplýsingaleit. Miðað við það sem ég fann held ég að stíflan hljóti að hafa verið reist fyrri hluta árs 1929 og rafmagnið brúkað til að raflýsa Valhöll. Það hefur verið mikið afrek að reisa staura og leiða rafmagn frá stöðvarhúsinu niður á Þingvelli á þessum tíma en hótelið hefur þá væntanlega verið spikk og span á Alþingishátíðinni sumarið 1930.

Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið hinum megin ár við það sem seinna varð, á svokölluðum Köstulum. Hann dreif í að raflýsa hótelið árið 1927 (sjá frétt í Vísi 3.8. 1927, s. 3), sem þótti mikill munur en “olíumótor framleiðir rafmagnið til bráðabirgða” segir í fréttinni.

raflýst Valhöll

Til hægri sést auglýsing úr Vísi 2. 9. 1927. Jafnframt því að raflýsa hótelið hafði Jón komið upp miðstöðvarhitun og lagt vatn í hótelið. Þetta hefur því verið talsvert lúxushótel á þeim tímum þótt húsakostur hafi verið af vanefnum, frá upphafi.

Árið 1929 var Hótel Valhöll rifin og flutt hinum megin ár, þar sem hótelið stóð síðan, allt til þess það brann sumarið 2009.

Menn höfðu vonað að hægt yrði að flytja partana á ís en sú von brást og þurfti að djöfla þessu yfir ána sjálfa. Þótt Jón Guðmundsson fengi nokkurn styrk frá ríkinu til verksins virðast allir sammála um að sá styrkur hafi dugað skammt og hann hafi þurft að leggja fram stórfé sjálfur. (Sjá t.d. “Gistihúsið Valhöll” í Fálkanum 9.8. 1930, s. 4 og “Aukning Valhallar” í Vísi 30.8. 1929, s. 2.)

Jón lagði ekki árar í bát þótt ekki fengist fé heldur dreif hlutina áfram. Hann fer fljótlega að kanna hvernig lýsa megi nýju húsakynnin með notkun nýjustu tækni. Í BA ritgerð Torfa Stefáns Jónssonar, Aðdragandi að friðun Þingvalla 1930, segir á s. 68 [merkt s. 72 í pdf-skjalinu sem ég vísa í með leyfi höfundar]: “Jónas [Jónsson frá Hriflu] óttaðist og sagði frá því að bæði presturinn á Þingvöllum, Guðmundur Einarsson, og Jón Guðmundsson, bóndinn á Brúsastöðum hafði komið til hugar að virkja Öxará. Óvíst er hvenær þeir sendu inn virkjunarbeiðni en í það minnsta kom fram í símskeyti frá Guðmundar Sveinbjörnssonar [svo!], skrifstofustjóra, að virkjunarbeiðnin eigi vera látin bíða. Jónas tók það þó fram að þeir ætluðu sér ekki að virkja sjálfan fossinn en “slíkt mannvirki á þessum stað mundi særa fegurðartilfinning manna … ef bygðir yrðu ljótir steinsteypukassar á vestari bakka Almannagjár.” Hann afsakaði þó þá félaga með því að þeir vildu hita og lýsa upp heimili sín. Reyndar virðist hugsanleg virkjun ekki vera neitt stórmál í hugum þingmanna, enda bar Jónas þetta frekar hæversklega fram. Bernharður Stefánsson, þingmaður framsóknarflokksins, var hlynntur friðuninni og mælti með henni en talaði jafnframt um mikilvægi þess að geta virkjað ár. Magnús Guðmundsson, þingmaður Íhaldsflokksins, taldi það jákvætt að menn nýttu sér ár og strauma til virkjunar og í sama streng tók Magnús Torfason, þingmaður framsóknarflokksins, sagði að býli yrðu vistlegri og hlýrri.”

(Þessar umræður virðast vera um friðunarfrumvarpið sem lagt var fram 1928.)

Jón á BrúsastöðumRaunar er ekki víst nema Jón Guðmundsson bóndi á Brúsastöðum hafi átt talsverðan hluta af Þingvöllum þegar þessi umræða fór fram. Kjartan Sveinsson segir í bók sinni Afbrigði og útúrdúrar, í kaflanum “Dauða kýrin á Þingvöllum“: “Jón heimsótti mig í Þjóðskjalasafnið og bað mig að finna fyrir sig landamerki Brúsastaða. Við athugun á þessu máli fann ég mér til skelfingar að þetta kindakot ætti meginið af helgi Þingvalla um Kárastaðastíg. Á hvaða verði hefði helgi Þingvalla verið metin til kaups og sölu, ef Hæstiréttur hefði útnefnt menn í gerðardóm? En málið leystist blessunarlega með sátt og hamingju á báða bóga. Nokkrum vikum síðar hittumst við Jón að máli. Hann var himinlifandi. Hann hafði skipt við Þingvallanefnd á öllum þessum sögulega helgidómi fyrir móamýri fyrir neðan Brúsastaði sem ríkið hafði átt. “Þetta er asskotans ári gott engjastykki,” sagði Jón. Hvers virði var Almannagjá eða jafnvel þetta Lögberg, þar sem varla var sauðkropp? ”

(Myndin sýnir Jón á Brúsastöðum.)

 Þótt ég hafi ekki fundið neinar heimildir fyrir því þá held ég að Jón hljóti að hafa stíflað Öxará og reist virkjunina einhvern tíma á árinu 1929, sennilega fyrri hluta árs svo hið endurreista Hótel Valhöll hafi verið raflýst frá opnun, vorið 1929. Mér finnst þetta ótrúleg drift einkum þar sem ætla má að Jón hafi þurft að borga talsvert úr eigin vasa. Það er líka spurning hvort hann var ekki meira og minna að leggja rafmagnið yfir eigið land.

Stöðvarhúsið við ÖxaráÍ rauninni er ótrúlegt hvað Þjóðgarðurinn heldur minningu Jóns lítt á lofti og reynir jafnvel að stroka út verkin hans, sjá fyrri bloggfærslu sem vitnað er í hér í upphafi. En á okkar “upplýstu” andvirkjanatímum ganga menn stundum helsti langt í að varðveita ósannar myndir um meintan helgidóm landsins, hvort sem um er að ræða Kárahnjúka eða Öxará. 

(Myndin sýnir stöðvarhúsið og staurinn eina, við Öxará.)

Jón seldi svo Hótel Valhöll árið 1944 og gaf hluta söluhagnaðarins til Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Einnig arfleiddi hann þjóðgarðinn að stórum hluta eigna sinna, skv. erfðaskrá. Honum var skógrækt og umhirða Þingvalla mjög hugleikin og sjálfsagt hefur virkjunin í Öxará og raflagning á Þingvöllum verið til úrbóta svæðinu, að hans mati.  

Ég hafði gaman af að sjá að Jón keypti Hótel Akranes og rak það 1944 – 1946, en þá brann það hótel. Önnur kjördóttir Jóns settist að hér á Skaganum og vafalaust eru margir Skagamenn komnir út af henni. (Sjá minningargrein um Jón Guðmundsson í Valhöll í Morgunblaðinu 5. 5. 1959, s. 8.)

Er sumur sæll af fé ærnu?

Nú fyllast fjölmiðlar af tíðindum af mánaðarlaunum þessa og hins, aðallega til að vekja öfund pöpulsins. Sumt er auðvitað bráðfyndið, eins og t.d. að áætla tekjur af kleinusölu í Húsdýragarðinum eftir launum föður kleinusalans, en sumt er sárgrætilegt.

Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilyndi sitt,
ef maður hafa náir,
án við löst að lifa.

Fordómafull sem ég er hefur mér tekist að læra (the hard way) að Hávamál hafa nokkuð til síns máls í þessu erindi um hið mikilvægasta í lífinu.

Að vísu eru Hávamál karlrembukvæði og einungis talað um syni og karla og að vísu er heppilegra fyrir fordómafulla (mig) að skilja “löst” sem “fötlun” … en breytir ekki því að birta, ylur og góð heilsa er mikilvægast af öllu. Þökk sé öllum hinum ágætu virkjunum er birta og ylur ekki vandfengið nútildags. Góð heilsa er aftur á móti meira happdrætti.

Í augnablikinu er ég rosalega frísk, eðlilegri en ég hef orðið í meir en áratug! Hamingja mín stafar af nýju lyfi og nú krossa ég fingur og vona að a) Lyfið verði áfram flutt inn og b) Lifrin í mér þoli lyfið. Hvorugt er náttúrlega fast í hendi ennþá en béið virðist ætla að rætast. Þetta er dýrt lyf og ekki til samheitalyf … en það er örugglega ódýrara fyrir þjóðfélagið að hafa mig á þessu lyfi, vinnufæra í framtíðinni, heldur en standa uppi með öryrkja til lífstíðar. Og ég hef vissulega lagt mig fram: Er búin að prófa nánast öll hin lyfin og allan andskotann annan! Mun fljótlega fá hið gullna tækifæri til að prófa að verða pappírslegur og viðurkenndur öryrki en stefni auðvitað á það að losna einhvern tíma úr þessu helvíti sem ég hef dvalið í æ lengri tíma hvert ár í meir en áratug og geta orðið sæl af verkum vel.

Satt best að segja held ég að lyfjaneysla okkar geðsjúklinganna séu langt langt frá því að vera stórkostlegur baggi á þessu þjóðfélagi. Eðli sjúkdómsins vegna erum við samt heppilegur hópur til að böðlast á, heppilegri en aðrir sjúklingahópar því sjúkdómsins síns vegna eiga margir erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér. Þó telja áður ívitnuð Hávamál þunglyndi verstu veikindi sem á menn geta lagst:

Öng er sótt verri
hveim snotrum manni
en sér engu að una. 

Því miður er þetta ágæta kvæðasafn ekki brúkað nóg nútildags 😉 

En Hávamál eru jarðbundin kvæði og nefna aðra möguleika til að gleðjast yfir klikki heilsan. Þeir eru listaðir í þessu erindi:

Era-t maður alls vesall,
þátt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.  

Ég hef reynt að vera af sonum sæl enda eru synir mínir bráðmyndarlegir báðir. Hinir glaðsinna möguleikarnir koma vel til greina og jafnvel mætti hugsa sér að einhverjir séu sælir af fé ærnu, þegar allt annað bregst, þótt mér finnist það reyndar frekar ólíklegt, ekki síst af því Hávamál nefna líka að “Margur verður af aurum api”.  Sumir af þeim best launuðu, skv. uppslætti fjölmiðla, eru nefnilega algerir apar, jafnvel gjammandi klapptíkur. Er það eftirsóknarvert? Nei!

Potið að auka við fé ærið verður til þess að margir eru geðvondir – stundum svo geðvondir að þeir verða að ráða sér sérstakt fólk til að tala máli sínu. Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman að starfa sem talsmaður og fagna því að svokallaðir talsmenn (í Hávamálum kallaðir formælendur) skuli fá þokkalega borgaða sína iðju.

Niðurstaða þessarar færslu er að það borgar sig ekki að öfunda þá sem hafa yfir milljón á mánuði í laun. Há laun færa þeim ekki hamingju. Há laun eru ekki trygging fyrir góðri heilsu sem er hið eftirsóknarverðasta í þessu lífi, þótt við heilsulausir getum samt glaðst yfir öðru. Þeir sem ota sínum tota hvað mest eru eins og Jóakim Aðalönd en í pistlinum “Hvorfor være Verdens rigeste and? – et religions-psykolgisk kig ind i Joakim von Ands selvopfattelse” er einmitt reyfað hvussu innihaldslítið og rýrt líf Aðalandarinnar er!

Það er reyndar skemmtilegt og  fordómafullt verkefni að bera saman persónuleika fjáraflamanna og Jóakims Aðalandar, í ljósi þessarar greiningar 😉

 

Þögguð virkjun í Öxará!

Maðurinn hafði á orði í gær að gaman væri að labba upp að gamalli virkjun í Öxará, “einhvers staðar ofan við veginn”, sagð’ann, þessi elska. Við þýfgun kom í ljós að hann var ekkert svo viss um hvar þessi stífla væri en vissi þó að um heimarafstöð var að ræða. Ég samþykkti, eins og góðri eiginkonu sæmir, að tölta með honum á morgun upp með Öxará, þess vegna að Myrkavatni (úr hverju Öxará rennur).

Maðurinn gúgglaði og eins og sést á niðurstöðum sjálfs Gúguls hefur áður verið labbað að þessari stíflu:

 En svo einkennilega vill til að þegar smellt er á krækjuna kemur upp önnur frétt, satt best að segja lítur sú frétt út fyrir að vera “eftir-á-löguð” útgáfa, með annarri fyrirsögn en Stíflan við Öxará. Fréttinni hefur snemma verið breytt því á Vefsafninu, www.vefsafn.is, er afrit af thingvellir.is frá 15. nóvember 2006 og þar er einungis að finna löguðu útgáfuna af fréttinni frá 29.5.2006.

Augljóst er að fréttin er löguð því enn fylgja henni myndir af stíflunni í Öxará þótt ekki sé minnst á stífluna; skipt hefur verið um fyrirsögn svo hún er ekki eins og flýtiminni Gúguls telur og enn fremur hafa menn gert mistök í fyrstu málsgrein; skrifað “… gengu fylgdu Öxará”; svoleiðis mistök geta alltaf átt sér stað í hraðvirkri copy-paste yfirhalningu. Núna heitir þessi frétt Gengið með Öxará, sjá http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/321

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir öfgafullri andvirkjunarstemningunni fyrr og finnst reyndar ansi hallærislegt að fréttir skuli “leiðréttar” eða öllu heldur pólitískt-réttrúnaðar-lagaðar á opinberum vef Þjóðgarðsins á Þingvöllum! Þetta gat varla verið rétt – en á hinn bóginn hafa Gúgul og maðurinn ævinlega rétt fyrir sér svo ég var í vanda … hverju skyldi trúað?

Svo leitaði ég og leitaði, hjá Gúgli sjálfum og á timarit.is. Lengi vel fann ég ekki neitt (en datt þess í stað ofan í mikið drama um Svartagil, altso þegar tvær fyllibyttur úr Reykjavík óku í hlað á leigubíl, réðust á bóndann og hröktu hann af bæ og kveiktu svo í öllum bæjarhúsunum!). Fann loks upplýsingarnar sem mig vantaði en það dugði ekki minna en vefsíða svo til ættuð frá Rannsóknarlögreglunni í Reykjavík til að segja sannleikann!

Til er göngufélagið Ferlir. Á síðunni þeirra, ferlir.is,  segir:  “FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík …”  Þeir halda greinilega í heiðri lög og reglu og heiðarleika þótt fleiri hafi hafi slegist í hópinn. Á undirsíðunni Kárastaðasel – Selgil – Skálabrekkusel – Selgil. segir:

“Um Virkjunina í Öxarárgilinu sagði hann [Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum] hana vera frá árnu 1928 og hefði hún verið með fyrstu virkjunum á landsbyggðinni á sínum tíma. Hún hafi ekki verið lengi í notkun, en rafmagn úr henni hafi verið tengt niður í Valhöll. Þar rak Jón Guðmudsson, kenndur við Brúsastaði, þekktur maður í sinni tíð, veitinga- og gistiaðastöðu.”

Nú þarf ég að setja mig inn í sögu Hótels Valhallar en nenni því ekki í kvöld.

Það verður spennandi að sjá hvort stíflu-þöggunar-sinnar eru búnir að rífa gömlu stífluna í Öxará og sótthreinsa umhverfi þjóðgarðsins af illum virkjunum eða hvort rústirnar fá að standa í friði. Auðvitað er ekki fallegt til afspurnar að selveste Öxará hafi verið virkjuð á sínum tíma … en mér finnst nú samt óþarfi að ritskoða fréttir thingvellir.is og ótrúlegt hvað er erfitt að finna upplýsingar um þessa stíflu …

Lifi stíflan enn mun ég birta myndafjöld af dýrindinu fljótlega, því lofa ég 😉

Ástkæra ylhýra málið

Mér til mikillar ánægju las ég fyrsta pistil um norðlensku hjóðvilluna í dag og bíð spennt eftir næsta! Aðallega fannst mér pistillinn skemmtilegur út af kvikindislegri tilhugsuninni af því að hugsanlegir Akureyringar eða sannfærðir málfarskverúlantar kunni að lesa hann 😉 (Ég er sumsé enn að velta fyrir mér hvort Mía litla eða Búdda er æskilegri fyrirmynd í þessu lífi … er þ.a.l. stopp í gjörhyglibókmenntinni en greip þó á lofti að þau Mía og Búddi eru sammála um að allt skuli prófað áður en menn mynda sér skoðun á því. En þetta hjal kemur efni bloggfærslunnar ekkert við og er því sjálfhætt.) En mér fannst líka gaman að skoða, í pistlinum, þennan framburð undir nýju og hressandi sjónarhorni.

Davíð Þór heldur því fram í sínum pistli að raddaður norðlenskur framburður sé í rauninni dönsk áhrif. Það er svo sem ekkert ólíklegt, hvað veit maður? En þar sem ég ólst upp var frekar snobbað fyrir Norðmönnum en Dönum, t.d. sletti amma mín markvisst norsku. Og kom inn hjá mér dýrkun á norskri tónlist, sem og söng dægurlög með norskum textum. Samt sem áður var það svo að Familie Journal, og Hjemmet lágu í stöflum á háaloftinu og í húsi ömmu minnar og Anders And var gáttin að Disney, líklega af því sambærilegar norskar bókmenntir lágu ekki á lausu. (Auðvitað ólst ég upp við það að fólk þyrfti ekki að læra dönsku, maður byrjaði bara að lesa hana og þar með kunni maður dönsku – þetta var allt svo gamaldags norður á hjara veraldar.  Allt annað mál er svo að tala dönsku en það uppgötvaði ég ekki fyrr en komin á fullorðinsaldur. Á svipuðum fullorðinsaldi lagði ég dönsku blöðunum og skipti yfir í Norsk Ukeblad og norska Hjemmet sem reyndust ólíkt efnismeiri og skemmtilegri en þau dönsku.)

Ég er greinilega komin á þann aldur að “mér eru fornu minnin kær” … rifja því upp í leiðinni að í Fríðubúð (ömmu minnar) héngu uppi skilerí með dönsku kóngafjölskyldunni og maður fann til náins skyldleika við þær Margréti, Benediktu og Önnu Maríu. Samúðin var öll með þeirri yngstu, annars vegar vegna þess að aumingja Anna María var alltaf að missa fóstur og hins vegar hið hroðalega áfall þegar Grikkir flæmdu þau Konstantín úr landi, ung og sæt sem þau nú voru, a.m.k. hún! En nú er ég enn og aftur horfin frá bloggefninu …

Mér finnst raddaður framburður ekkert sérstaklega fallegur. Maður reyndi að hugga sig við að þetta væri eðalframburður fyrst eftir að fjölskyldan flutti suður (þegar ég var 11 ára) enda var gert stólpagrín að talandum (en ekki búið að finna upp hugtakið “einelti” þá). Ennþá þarf ég ekki nema klukkustundarsamtal við þvottekta Norðlending til að smitast og byrja að tala alveg eins. En svona dags daglega er ég ekki hrifin af “púnturis” eða öðrum álíka frösum sem eiga að sannfæra okkur á byggilegri hluta landsins um að RÚV sé útvarp allra landsmanna. Enn pínlegra er þegar menn gera sér upp þennan talanda … hef t.d. heyrt framburðinn “únklíngar” … eða herða sinn upphaflega framburð einum of.

Það sem mér finnst miklu meir áberandi í tali norðausturmanna er þó tónfallið. Hinn rísandi tónn í lok málsgreinar eða hryssingsleg syngjandin greinir þá auðveldlega frá Akureyringum og öðru miðjuliði. Sunnlendingum finnst þetta tónfall reiðilegt, a.m.k. fór um manninn minn á því fyrsta ættarmóti sem hann sótti með mér – en hann er náttúrlega kominn af uppkreistingum úr Landsveit og kartöfluætum í Þykkvabænum sem ekki þola mikið. Mér finnst þetta tónfall doldið flott, líklega af því að enn er Mía litla mitt átrúnaðargoð.

Í gær las ég Lost in Translation, grein sem á að vera gagnrýni á kenningar Chomsky en er það ekki, að mati sumra málfræðinga. Nú man ég ekkert af því sem ég lærði um Chomsky nema að hann taldi að grænar hugmyndir svæfu brjálæðislega (sem er út af fyrir sig smart hugmynd). Sú afleidda Chomsky-málfræði sem ég þurfti að kenna á tímabili fólst einkum í tiltekt, þ.e. að grúppa saman og hrísla huggulega sérútbúnar setningar. Svoleiðis málfræði hefur alltaf virkað sem róandi hobbí á mig, alveg eins og algebra, sunnudagskrossgátan og tiltekt í bókahillum heimilisins (ég raða reyfurunum eftir Dewey-kerfi, hvað annað?). Þegar nemendur spurðu af hverju þeir væru að læra þetta (illþolanleg spurning sem ég veit að kennurum finnst ekki gaman að svara) var ég vön að segja þeim að þetta nýttist ágætlega til að hafa ofan af fyrir sér í Akraborginni. En nú er engin Akraborg til lengur …

Verandi svona mikill málfræðisauður get ég því ekkert tjáð mig um greinina nema það að mér fannst hún skemmtileg.

Þeir sem glöptust á að lesa þessa færslu í þeirri trú að hér mundi ég bögga mann og annan fyrir að fara útaf málfarssporinu verða náttúrlega fyrir vonbrigðum. En það virðist reyndar vera nóg framboð af svoleiðis efni og sumt af því er virkilega fyndið, einkum kommentarinn sem var nýbúinn að frétta að “ágætlega” hefði gengisfallið – hvað ætli séu margir áratugir síðan “ágætlega” fór að þýða “svona la-la”, í skásta falli “vel”? “Ágætt” hefur gengisfallið alls staðar annars staðar en í skólakerfinu. En eins og Davíð Þór bendir á í öðrum pistli er búið að finna upp langefsta stigið svo við erum í “ágætum” málum þrátt fyrir gengistap.