Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”. (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettu)
Fagurt upplag
Í upphafi voru Hollvinasamtök Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni hópur hugsjónamanna sem vildu endurbæta menningarverðmæti:
“Eins og fram hefur komið, er um mjög merkar menningartengdar byggingar að ræða. Smíðahúsið var listaskáli Danakonungs á Alþingishátíðinni 1930. Liggur það undir skemmdum. Þak er farið að síga og og ytri járnklæðning ryðguð og illa farin. Gufubaðið sem á sér enga hliðstæðu í heiminum hefur verið haldið gangandi, en þarf algerrar endurnýjunar við.” … “hugmyndin er ekki eingöngu að gera við húsin heldur allt umhverfið, það er að útbúa ylströnd með tilheyrandi þjónustu og leiktækjum, sem sagt frábæra fjölskylduparadís.” Þetta sagði Hafþór B. Guðmundsson, kennari við Íþróttakennaraskólann, í viðtali árið 2003. (Nú verður eitthvað að gerast, Mbl. 22. mars 2003. )
Sami Hafþór er nú kominn óravegu frá hugsjónum sínum, ásamt fleiri stofnendum Hollvinasamtakanna. Hann er nú annar af tveimur Laugvetningum í stjórn Gufu ehf, hinn er Halldór Páll Halldórsson, skólameistari ML. Báðir eru varamenn. Báðir voru í fyrstu stjórn Hollvinafélags Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni.
Upphaflega hugmyndin með stofnun Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni var að hlynna að þessum húsum. Fólki gafst kostur á að ganga í samtökin og greiða smáupphæð með gíróseðli. Eflaust hafa margir raunverulegir hollvinir húsanna, dyggir gufubaðsgestir, gert það. Hvað gerðist eiginlega?
Hlæjandi glæpa hljóp ég stig …
Í fyrri færslu voru þeir sem skipuðu fyrstu stjórn Hollvinasamtakanna taldir upp. Mig langar að staldra við tvo þeirra; Friðrik Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóra Húsbyggingafélags námsmanna, og Þorstein Kragh. Báðir tóku þátt í að stofna Gufu ehf sem gekk til samstarfs við Bláa Lónið árið 2006, hafandi í fórum sínum risastóra landspildu sem Hollvinasamtökin höfðu einhvern veginn haft út úr ríkinu.
Munnleg heimild hermir að Friðrik hafi séð mikla peningavon í Gufu ehf. Hann átti hlut í fyrirtækinu og fékk vini sína til að kaupa hluti. Þegar halla tók undan fæti í efnahagi landsmanna fékk hann Byggingafélag námsmanna (BN) til að kaupa hluti vina sinna svo þeir töpuðu ekki fé á ævintýrinu. Enda kemur fram í frétt Fréttablaðsins 9. júlí 2008 að Byggingafélag námsmanna eigi stóran hlut í Gufu ehf.
Friðriki Guðmundssyni var sagt upp störfum hjá BN vegna fjármálaóreiðu (sjá Opinber rannsókn á byggingafélagi, Fréttablaðið 24. apríl 2008, og Vilja ekki tjá sig um málið- Formaður og fjármálastjóri Byggingafélags námsmanna kærðir til lögreglu, Viðskiptablaðið 21. maí 2008). En Friðrik þessi virðist slyngur fjármálamaður; hann snérist til varnar og fékk BN dæmt til að greiða sér talsvert yfir 3 milljónir í ógoldin laun. Hann tapaði þó málinu í Hæstarétti nú í vor. [Leiðr. 14. ágúst.]
Byggingafélag námsmanna sat sumsé uppi með stóran hlut í verðandi stóriðjutúristafyrirtæki því Friðrik átti marga vini og einn þeirra var Grímur Sæmundsen, þá framkvæmdarstjóri og nú forstjóri Bláa lónsins. Í desember 2006 var Gufa ehf komin í samstarf Bláa lónið og er enn.
Byggingafélag námsmanna virðist þó einkum hafa þetta hlutverk, skv. þess eigin heimasíðu: “Byggingafélag námsmanna ses, sjálfseignarstofnun með sjálfstæðan fjárhag. Annast kaup og uppbyggingu húsnæðis til rekstrar stúdentagarða í þágu námsmanna. Hlutverk þeirra [svo!] er að bjóða námsmönnum í nemendafélögum innan BN til leigu hentugt og vel staðsett húsnæði.” Á annarri undirsíðu segir: “Stúdenta/nemandafélög innan aðildarskóla BN eru nú: Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Fjöltækniskóli Íslands auk séraðildar félagsmanna innan Iðnnemasambands Íslands.” Og Byggingafélag námsmanna leigir einmitt úr íbúðir handa íþróttakennaranemum á Laugarvatni. Mér finnst í rauninni afskaplega hæpið að eigendur BN (nemendafélög ofangreindra skóla) séu sammála kaupunum í Gufu ehf og efast jafnvel um að þau hafi verið löglegur gjörningur.
Formaður stjórnar BN, Sigurður Grétar Ólafsson, situr í núverandi stjórn Gufu ehf svo ætla má að enn eigi BN þennan stóra hluta sinn.
Friðrik Guðmundsson var duglegur að afla fjár og koma Hollvinasamtökunum í Gufu ehf og í eina sæng með Bláa lóninu, með peningum Byggingafélags námsmanna. Ekki var Þorsteinn Kragh síðri agent því hann gumaði af því við fjölmiðla að nú skyldu reist “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar”. (Tilvitnun í samtal við Fréttablaðið 8. apríl 2006, í frétt sama blaðs 9. júlí, 2008.) En ævintýrið tók skjótan enda því 19. mars 2009 var Þorsteinn Kragh dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir aðild sína að “stærsta fíkniefnasmygli Íslandssögunnar”. Svona getur farið fyrir gufubaðsrekendum sem hugsa of stórt.
Hugsanlega var enn einn stjórnarmaður Gufu ehf eitthvað tæpur á löglegu línunni, sbr. “Fyrrverandi framkvæmdastjóri þess [BN], Benedikt Magnússon, sat í stjórn þess [Gufu ehf]. Hann sætir nú rannsókn efnhagsbrotadeildar lögreglu.” (Fréttablaðið 9. júlí 2008.)
Settu kíkinn fyrir blinda augað
Þáttur sveitarstjórnarmanna í gufuævintýrinu mikla er óljós. Ragnar Sær Ragnarsson, þáverandi sveitarstjóri Bláskógabyggðar, tók þátt í að stofna Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, 2003 og var talsvert innviklaður í Gufu ehf fyrstu árin. Hann virðist enn stefna að nánum tengslum við félagið.
Ótrúlega fátt er um þetta ritað í fundargerðum Bláskógabyggðar. 16. desember 2004 er sagt í fundargerð skipulagsnefndar uppsveita:
“Lögð fram tillaga frá Landformi ehf að deiliskipulagi gufubaðs á miðsvæði í þéttbýlinu á Laugarvatni og er tillagan unnin fyrir Bláskógabyggð. Tillagan var lögð fram á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þann 7.desember og þar var samykkt [svo!] að heimila auglýsingu tillögunnar auk þess sem henni var vísað til skipulagsnefndar uppsveita til fullnaðarafgreiðslu.
Deiliskipulagssvæðið sem er 4,8 ha nær yfir lóð hollvinasamtaka gufubaðsins, opin svæði meðfram vatnsbakka, suður fyrir íþróttahúsið, að Laugarbraut og Lindarbraut í vestri , norður fyrir veitingastaðinn Lindina og norður fyrir Vígðulaug.
Greinargerð deiliskipulagsins er ítarleg og vel unnin. Skilmálar gera ráð fyrir allt að 1600 m² gufubaðsbyggingu innan byggingarreits sem má vera tvær hæðir en mælst er til þess að hún verði lágreist.
Bílastæðum er komið fyrir á 4 stæðum, alls um 170 stæði. Skilgreindar eru lóðir Lindar, Heimakletts, Lindargarðs og íþróttahúss auk lóðar hollvinasamtakanna.
Skipulagsnefnd tekur undir með sveitarstjórn að heimila auglýsingu deiliskipulagsins og beinir því til sveitarstjórnar að unnið verði rammaskipulag fyrir byggðina á Laugarvatni með sérstakri áherslu á aðkomu að gufubaðinu og tengingu innan byggðar.”
Seinna lagði skipulagsnefnd til veigalitlar breytingar á þessu, eftir að einungis 2 athugasemdir Laugvetninga höfðu borist, og sveitastjórn samþykkir allt fyrir sitt leyti (segir í fundargerð sem Ragnar Sær sveitarstjóri ritar 10. maí 2005).
Í sömu fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar segir:
“Hlutafjárkaup vegna nýsköpunar og atvinnuþróunar á Laugarvatni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að leggja til kr. 500 þús. sem hlutafé til nýsköpunar við atvinnuþróun á Laugarvatni í Eignarhaldsfélagið Gufu ehf. húsbyggingar á nýju gufubaði og heilsulind.
Auk þess samþykkir sveitarstjórnin að leggja á næstu árum hlutafé til viðbótar til að tryggja framgang verkefnisins og verður sú upphæð kr. 4.500.000. Hlutafé þetta greiðist í samræmi við álögð
fasteignagjöld þar til heildarkrónutölu hefur verið náð.
Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmd þessa verkefnis geti orðið allt að kr. 350 milljónir sem koma til nýsköpunar í atvinnumálum í Bláskógabyggð.”
Einu og hálfu ári síðar hefur hlutur Bláskógabyggðar í Gufu ehf snaraukist, upp í 8.936.600 kr. Áætlað heildarhlutafé Gufu ehf þá eru 92 milljónir svo Bláskógabyggð á tæplega 10% í eignarhaldsfélaginu og hefur gerst dyggur áskrifandi að væntanlegum gróða. (Sjá Bláskógafréttir 6. árg. 2 tbl. febrúar 2007)
Eitthvað virðist boðleiðir innan sveitarinnar vera tregar því í fundargerð umhverfisnefndar Bláskógabyggðar 2. maí 2007 Fundur 28. mars 2007 segir: ” Fegrun umhverfis
Laugarvatn – vatnið, ströndin og umgengni …
7.Gamla smíðahúsið sem upplýsinga- og ferðamannamiðstöð í námunda við Náttúrustofuna á Laugarvatni …”
Á þeim tíma var löngu búið að ákveða að rífa smíðahúsið og sennilega hafði þegar verið drifið í því þótt umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefði ekki haft spurnir af.
Skítugt?
Bláa lónið og Gufa ehf hafa eitthvað rifað seglin í byggingaráformum þótt byggingin verði síst ódýrari eftir því sem hún bíður þess lengur að rísa. Nú er ekki lengur verið að spá í 1600 fermetra gufubaðsbyggingu heldur datt áætlaða framkvæmdin niður í 750 fermetra strax síðla sumars 2007 og er þar enn.
Heildarkostnaður núna er áætlaður um 400 milljónir en var 100 milljónir árið 2004 þegar ævintýrið var að byrja. Kannski verður eitthvað slakað á kröfunum um “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar.”
Hlutafé Gufu ehf hefur aukist og er nú 170 milljónir.
49 manns hafa sótt um stöðu framkvæmdarstjóra nýja spasins, sem á að verða tilbúið næsta vor. Verður spennandi að sjá hvort einhver úr hópi frumkvöðlanna, Hollvina Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugavatni, dúkkar upp í slíkri stöðu.
Í stjórn Gufu ehf eru [feitletraðir þeir sem voru í fyrstu stjórn Hollvinasamtaka gufubaðsins og smíðahússins á Laugarvatni]:
- Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, Kópavogi, stjórnarformaður
Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
Sigurður Grétar ólafsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
Eðvard Júlíusson, Grindavík, meðstjórnandi,
Böðvar Jónsson, Reykjanesbæ, meðstjórnandi.
- Halldór Páll Halldórsson og Hafþór Guðmundsson, Laugarvatni, varamenn.
- Prókúruumboð fyrir félagið hafa Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík og Kristján Einarsson, Reykjavík.
“Og það verð ég að segja að eigi Bláa lónið að vera fyrirmyndin eru það slæm skipti. Þar mun aldrei nást að myndast nein saga, aldrei nein stemmning. Þar er bara hugsað um að reka túrista hratt í gegn og rýja þá eins og hverja aðra sauði. Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”.” (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettur, bloggfærsla frá 8.7. 2007.)