Undanfarið hefur færst í vöxt að þeir sem haga sér ósæmilega séu sjúkdómsgreindir af hinum fordómalausu og heilbrigðu sem geðveikir. Ný dæmi um slíkt eru t.d. óprúttnir og árásagjarnir íbúar í Garðabæ en um þá er m.a. bloggað:
X “(heimilisfaðirinn) Af greinahöfundi talinn vera þekktur ofbeldismaður, þjófur og geðsjúklingur. …”
X “(dóttirin) Sögð vera lygasjúk, geðsjúk og mjög ofbeldissinnuð. …”
(Þessu bloggi sem nafngreinir einstaklingana hefur verið lokað en færslan dúkkar samt upp í óteljandi kommentum við önnur blogg. Ég vitna ekki í lokað blogg og sleppi því tilvísun í heimild.)
og yfirlýsing á costablanca.is, um konu sem síðuhöfundur telur hrella sig og fleiri á Spánarströndu. Hann hefur “orðið fyrir gífurlegum mannorðsmeiðingu [svo!] og viðurstyggilegu skítkasti og áreitni af hálfu geðsjúks einstaklings á netinu.” Síðuhöfundur ítrekar svo að þessi einstaklingur sé geðsjúkur og klikkir út með að erfitt sé að eiga við manneskjuna meðan hún er “laus og ekki undir læknishöndum [svo!] …”
(Ég vona að minn góði læknir stingi mér ekki í handarkrika sér í viðtalstímanum í næstu viku!)
Verandi geðsjúk / geðveik / veik á geði / veik á sinni o.s.fr., svo mjög að ég er ekki vinnufær og stundum ekki hvunndagsfær, finnst mér þessi fjölgun í mínum sjúkdómaflokki heldur hvimleið. Mig finnst ólíklegt að þeir sem skrifa svona hafi sjúkraskýrslur viðkomandi undir höndum (þetta orðalag er faktískt í lagi 😉 ) og geti því tæplega sjúkdómsgreint einstaklingana sem þeim er í nöp við.
En þeir sem þjást af málfátækt og eiga einungis orðaforða smábarns eru alltof fljótir að stimpla fólk geðveikt. Í íslensku eru til mörg ágætis orð sem mætti brúka í staðinn, s.s. bavíani eða apaköttur (sem fer þó e.t.v. fyrir brjóstið á dýraverndarsinnum); hornkerling; púta (sem kann að stuða aðdáendur íslensku landnámshænunnar); gerpi; skíthæll; drullusokkur; eða lýsingarorð á borð við yxna (sem gæti gert aðdáendur íslensku landnámskýrinnar soldið leiða); brjálaður; trylltur; ruglaður; vitfirrtur; geggjaður … o.s.fr. Menn geta sumsé auðveldlega komist hjá því að nota sjúkdómsgreininguna “geðveikur” eða “geðsjúkur” yfir þá sem þeir eiga hönk upp í bakið á.
Til að gera málið flóknara er sama sjúkdómsgreining einnig brúkuð á afar jákvæðan hátt. Ég mynda-gúgglaði orðið geðveikur og fékk upp fjölda mynda af einhverju geðveiku, t.d. “Geðveikt matarborð”; “geðveikur sófi!”; “GEÐVEIKT Á AKUREYRI!” “Stebbi geðveikur að dansa” … töluvert marga geðveika bíla og geðveika boli o.s.fr.
Mér þætti afskaplega vænt um ef fólk gerði nú okkur geðsjúklingunum til geðs og hætti að blanda okkar sjúkdómi inn í allan andskotann annan! Sé það ekki hægt óska ég eftir meiri fjölbreytni í meintum sjúkdómsgreiningum (sem gætu einnig peppað upp stíl ritenda) s.s. “Af greinahöfundi talinn vera þekktur ofbeldismaður, þjófur og með slæma æðahnúta. …”, eða “orðið fyrir gífurlegum mannorðsmeiðingu [svo!] og viðurstyggilegu skítkasti og áreitni af hálfu nýrnaveiks einstaklings á netinu.” Og matarborðið gæti orðið yxna, sófinn vitfirrtur, á Akureyri væri tryllt og Stebbi örvita að dansa.