Category Archives: Uncategorized

Hannyrðir, garður, íslenskukennsla o.s.fr.

Fyrst: Dagurinn í gær var verulega ömurlegur!

En í dag ákvað ég að láta umhverfið ekki trufla mig og halda mínu striki sem best ég gæti og sófar hefur það tekist prýðilega. Náði að vinna þónokkuð í vefnum um Egil Skallagrímsson í allsherjar friði og ró í morgun og hef að mestu lokið við að hreinsa garðinn. (Karlfólk sýndi loksins af sér smá dug og fjarlægði ruslið sem ég var búin að safna saman núna áðan.) Ég tíndi meira að segja upp hundaskítshrúgurnar í kringum snúrurnar mínar! Sjái ég hund gera þarfir sínar í garðinum mínum er ég ákveðin í að hella óblönduðu Þrifi yfir eigandann, jafnvel þótt hann kunni að vera ellilífeyrisþegi.

Jósefína snöflaði um garðinn meðan á lokaræstingum stóð – mér sýndist hún nú aðallega einbeita sér að því að stara Míu greyið (nágrannakisu) niður. Mía hefur brugðið á það ráð að leita skjóls undir pallinum en Fr. Dietrich er of dönnuð til að skríða undir palla. Sama Fr. Dietrich hefur ort talsvert upp á síðkastið, þ.á.m. ansi fína vísu um klappstýruna á Bessastöðum, sem sjá má á fésbókarsíðu dýrsins.

Varðandi vefnaðinn þá er ég að vinna upp allar mínar vefsíður; mun skipta Vefnum í tvo parta, annars vegar kennsluefni og hins vegar persónulega síðu, sem verður hýst annars staðar o.s.fr. Kennsluefnið þarf að setja miklu skipulegar upp og hanna auðratanlega skel yfir, með leitarmöguleika. Sömuleiðis þarf loksins skel / heimasíðu á this.is svæðið mitt, sem hingað til hefur einungis aktað sem geymsla. Þetta er ofboðsleg vinna en ég hef hálft ár til að ljúka henni. Það borgar sig ekki að una við þessa stafrænu handavinnu lengi í einu, þá fer maður að gera mistök. Sumar síðurnar eru tíu ára gamlar eða eldri og verður að beita smekkvísi til að ákveða hversu mikið skuli uppfæra. Svo eru það nemendavefirnir sem ég á ekki höfundarétt að nema í félagi við aðra … helstu breytingar þar eru að taka út persónulegar upplýsingar um krakkana sem nú eru löngu orðnir fullorðið fólk og kæra sig sennilega lítið um að unglingahúmor í eigin lýsingum standi á Vefnum.

Óstafrænu hannyrðirnar ganga líka vel, sérstaklega eftir að ég henti peysunni sem ég var næstum búin með. Ég sá fyrir mér að ég mundi aldrei ganga í þessari peysu og hönnunin hefði verið mistök. Svo hún fór í ruslið. Aftur á móti gengur prýðilega að sauma Kúna Meskalínu og í baghóveðet mallar góð hugmynd að stólsessum, sem krefst reyndar talsverðs stafræns undirbúnings. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að sauma út með gamla krosssauminum heldur gera tilraunir með varplegg, blómstursaum og jafnvel refilsaum. Sennilega hefst þessi vinna ekki fyrr en í sumar því kýrin Meskalína er ákaflega digur og seinsaumuð.

Eins og komið hefur fram held ég friðinn á heimilinu með því að lesa moggann mannsins (við Jósefína látum þetta pappírsdrasl ganga yfir okkur ganga). Í dag var annars vegar skemmtilegt viðtal við Sölva Sveinsson, einstaklega jákvæðan og hugmyndaríkan. Hins vegar var málfarshorn (sem ég man ekki hvað heitir) hvar Baldur Hafstað lýsti því í upphafi yfir að hann ætlaði ekki að nöldra yfir einstöku orðalagi en notaði svo allan pistilinn til að nöldra akkúrat yfir einstöku orðalagi. T.d. notkun þolfalls (“að vinna með heilsuna”, “að vinna með börn” o.þ.h.) – hann virtist alls ekki gera sér grein fyrir mismunandi merkingu þolfalls og þágufalls eftir “með”; “að vera ekki að sjá Snæfellsjökul”, sem er tímabundið orðalag eins og svo margt slangur og auk þess aðalbrandarinn í sjónvarpsauglýsingu o.fl. umkvörtunarefni. Í þessum lélega snepli mannsins mátti sumsé sjá báðar hliðar íslenskukennslu; (e.t.v. bláeyga) bjartsýni og síðan kverúlantaútgáfuna. Sem óvirkur íslenskukennari hafði ég gaman af hvoru tveggja. Finnst bláeyga bjartsýnin þó skemmtilegri og sennilega árangursríkari. [Myndin er hvorki af Sölva né Baldri.]

Í kvöld taka við dýrðir sjónvarpsins: Lokaþáttur Forbrydelsen og danska eftirlíkingin af “De fortvivlede husmødre”, nefnilega Livet på Lærkevej, sem er sýnt í sænska sjónvarpinu. Mér finnst einmitt mjög þægilegt að horfa á danska þætti í sænska sjónvarpinu og sænska (t.d. Wallander) í danska sjónvarpinu. Textinn dugir akkúrat til að ég skilji talið.

Sumsé: Þetta verður góður dagur en það er líka ferlega mikið mér sjálfri að þakka!

Jarðlífið og lyfjafóbían mikla

Síðasta vetrardag hringdi hingað afar skemmtilegur maður sem ég hef ekki séð í áratugi en fylgst með í fjarlægð. Hann sagði margt athyglisvert og skemmtilegt og spurði talsvert út í líðan mína. Áhugaverðum uppástungum eins og ég væri of gáfuð eða kannski skáld, sem gæti valdið djúpu þunglyndi, andmælti ég auðvitað staðfastlega enda hefur mér ekki sýnst að það fari neitt sérstaklega saman. Mýtan um geðveika listamanninn er bara mýta. (Þótt auðvitað hafi sumir listamenn verið geðveikir alveg eins og sumt fólk, almennt, er geðveikt.)

Áhugaverðastar þóttu mér samt ábendingar um stöðu mannsins í alheiminum – í kosmosinu. Viðmælandi minn tók mér vara fyrir að kála mér (vitandi eflaust að slíkt kemur fyrir margan þunglyndissjúkling heimsins) því svoleiðis viðskilnaður við jarðlífið væri afar slæmur og gæti valdið því að sálin / vitundin endurfæddist mjög neðarlega í allífinu næst. Hann taldi að sjálfsvíg leiddi jafnvel til þess að maður endurfæddist sem gras! Eftir að hafa hamrað nokkuð oft á því að ég væri nú ekki að plana sjálfsvíg … því ekki vildi ég verða gras næst … varð viðmælandinn enn svartsýnni og gerði því jafnvel skóna að gras væri of gott – kannski endurfæddist maður sem grjót! Við þessu var ekkert að segja nema “kannski bara aska?”

Þetta eru nú heldur skemmtilegri hugmyndir en talibanasporatrúboðið, verð ég að segja. Veit ekki hversu mikið vægi þær hafa sem fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum þunglyndra en mætti kannski prófa að hafa þær í huga?

Sem stendur fæ ég ekki oft sjálfsvígshugsanir – er á meðan er – en þær poppa náttúrlega alltaf upp þegar hallar undir fæti. Skást finnst mér að líta á þær eins og aðrar vitlausar hugmyndir sem poppa upp við sömu aðstæður, frá því að heimurinn farist til þess að flest mitt fólk sé í yfirvofandi hættu að deyja í bílslysi. Svo ekki sé minnst á vissuna um að ég sjálf sé síkretlí  dauðvona, úr einhverjum hryllilegum sjúkdómi. Þessi þankagangur er bara hluti af sjúkdómnum (skrifast jafnt á þunglyndi og kvíða) og best að gútera hann bara sem sjúkdómseinkenni … en alls ekki skynsamlega hugsun sem leiðir til aðgerða. Best að reyna að láta hugsanirnar fljúga í gegnum hugann, sem áreynslulausast, og alls ekki berjast gegn þeim því það gerir þær bara öflugri. Nýjasta hugsunin er, þökk sé klappstýrunni á Bessastöðum, að Katla muni gjósa og eyða landinu – til vara koma í veg fyrir að ég komist til Krítar eða frá, í sumar.

Mér finnst ástæða til að taka enn einu sinni upp lyfjafóbíu þá sem fólk hefur í garð geðlyfja, svefnlyfja og róandi lyfja. Af hverju ætli menn haldi að þessi lyf hafi verið fundin upp og séu notuð?  Til að eitra fyrir fólki og koma því svo inn á Vog? Lyfin eru náttúrlega notuð af því þau virka, að vísu ekki nærri alltaf en oft.

Af hverju finnst fólki að það gildi annað um svona lyf en önnur, t.d. sýklalyf eða krabbameinslyf? Nú eru krabbameinslyf baneitruð, drepa frumur í massavís og hafa ógeðslegar aukaverkanir. Er þá ekki brjálæðislega óhollt að taka þau? Ef við snúum okkur að nauðsyn og segjum sem svo að krabbameinslyf séu nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóms – eru þá geðlyf ekki nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóm? Eru hjályf á borð við róandi lyf og svefnlyf allt í lagi til að slá á ömurlega líðan krabbameinssjúklinga (m.a. vegna lyfjagjafar) en ekki geðsjúklinga?

Er einhver vitglóra í því að hakka í sig fæðubótarefnum, vítamínum o.þ.h. og drekka valeríana-te eða grænt te eða róandi bangsakarlrembute (sem á að virka á miðtaugakerfið) en vera á móti því að fólk noti sér heilabótarefni (sem eiga að virka á miðtaugakerfið) af því þau eru lyfseðilsskyld?

Einu sinni var sagt að fyllibyttur kæmu óorði á brennivín. Pilludópistar koma óorði á bensó-lyf, en hversu stór hluti þeirra sem taka slík lyf að læknisráði missa tökin og verða fíklar? Mér þætti gaman að sjá svoleiðis tölur, bornar saman við prósentutölur alkóhólista í hópi þeirra sem neyta áfengis. Mér þætti líka gaman að vita hversu stór hópur miðaldra kvenna kemur inn á Vog eingöngu vegna lyfseðilsskyldra lyfja miðað við stærð hóps miðaldra kvenna sem hefur legið í sjerríi og púrtvíni og öðrum eðlum sortum, heima hjá sér með gardínurnar dregnar fyrir, í áravís.

Áróðurinn gegn bensó-lyfjum við kvíða er sambærilegur við áróður um að enginn skyldi setjast undir stýri því alltaf er eitthvað um að fólk keyri á! Eða jafnvel út af …

Gleðilegt sumar!

Það ku boða gott sumar að frjósi milli sumars og vetrar! Viskum vona að það gangi eftir.

Ég er enn örmagna eftir að hafa farið til borgar óttans tvo daga í röð og sitja 2 tíma kvíðanámskeið í gær. Vissi megnið af fræðslunni en þótti gott að hitta hóp fólks sem dregur sama djöfulinn og ég, þótt birtingarmyndir hans séu kannski ekki alltaf þær sömu.

Dagurinn verður tekinn rólega … en það gleður mig að Harpa er byrjuð enda heiti ég eftir mánuðnum, er mér sagt.

Vefnaður og tónlist ok

Ég er loksins að hjarna við – þökk sé hinum dásamlega óhollu bensó-lyfjum sem talibanar allra landa telja afurð djöfulsins! Auðvitað gerði sérrí-glas tvisvar á dag sennilega sama gagn en ég er því miður ein af þessu fólki sem þykir svoleiðis glas of mikið og flaskan of lítið … þannig að það er ekki boðleg lækning. Held mig því við óholla læknadópið sem ég virðist ekki verða sérlega fíkin í (þrátt fyrir illspár talibana). Meðan lækningin er skárri en sjúkdómurinn hallast ég að lyfjunum.

Nema mér hefur þess vegna tekist að fara á eina tónleika án þess að fá þessi lífshættulegu blöff-einkenni (þrefaldan hjartslátt, andnauð, dofa og botnlausa skelfingu). Requiem Mozarts var æði!  (Ég er samt soldið sár yfir stafsetningarvillunni í Lacrimosa … er sama um hinar stafsetningarvillurnar og jafnvel ranga beygingu á orðstír … en Lacrimosa dies illa er uppáhaldið mitt!) Hljómlistin var samt frábær svo skítt með prógrammið 😉  Hefði náttúrlega verið meira gaman að sitja nær miðju, altént nær bössunum en ég gerði varúðarráðstafanir til að geta skotist út án þess að allir horfðu á mig. (Var Hildigunnur með tagl? Alltaf gaman að sjá bloggkunningja.)

Einnegin hefur mér tekist að sansa slatta í garðinum, sauma út helling og taka á móti gestum um helgina.

Í gærmorgun kviknaði allt í einu löngun til að vefa; hef verið að sinna slíku verkefni með hangandi hendi, ekki munað eina einustu HTML-skipun og frestað vinnu í það óendanlega, af því ég hef verið svo djöfull veik. En nú lauk ég loks kennsluefnishluta í Sjálfstæðu fólki (nema ég á eftir að gá hvort það geti virkilega verið rétt að kollegi minn í öðrum skóla hafi afritað allar glærurnar mínar og eignað sér sisona! Það getur nú eiginlega ekki verið en ég ætla samt að tékka á málsgreinum sem mér fannst ég kannast rosalega mikið við …). Sömuleiðis sansaði ég efni um Íslandsklukkuna og kræki í það hér með … ef einhver vill rifja upp söguna í snarhasti og prófa kunnáttuna, fyrir leiksýningu 😉

Áðan prófaði ég að spila á mitt pjanóforte. Það hef ég ekki reynt síðan löngu fyrir páska. Auðvitað er ég eins og belja á svelli eftir hið langa hlé. Mér þótti þó óþarfi af kettinum að byrja að veina eftir tvo takta af fyrsta laginu og þagnaði dýrið ekki fyrr en því var hleypt út í kuldann! Hinn meðvirki húsfaðir reyndi svo að spila Kattadúettinn (af diski) fyrir Jósefínu en hún vældi líka yfir honum og reyndi að sleppa. Mér létti þó töluvert við að uppgötva að kötturinn hefur bara hreint ekki tóneyra og það er ekki bara og ég + píanóið sem veldur þessu tráma dýrsins! Jósefína hefði gott af því að kynna sér önnur dýr, t.d. hundinn sem hlustar á rödd húsbónda síns, hissa og glaður!

P.S. Við unglingurinn höfum uppgötvað að OK (lesist ókey) er í rauninni íslenskusletta sem hefur ratað inn í flest tungumál heimsins og hefur hingað til verið talin órekjanleg og meira að segja útskúfað úr íslensku. Í samræmdri stafsetningu fornri er þetta skýrt og greinilegt; lesist í þreytulegum eða töffarlegum tóni. Fyrri útgefendur hafa ekki haft fyrir að afmarka ókeyin með kommu eða semíkommu en úr því má bæta. Það er að vísu ruglandi að sum ok-in merkja “og” (gæti verið óvönduð samræming á ferðinni) en dæmi hér á eftir sýnir glöggt hvað við er að etja. (Hvar útgáfa Guðna Jónssonar á 75. kafla Njálu er umrituð.)

“Honum varð litið upp til hlíðarinnar, ókey [ok] bæjarins að Hlíðarenda, og [ok] mælti: “Fögur er hlíðin, svo að mér hefir hún aldrei jafnfögr sýnst, bleikir akrar, en slegin tún; Ókey [ok] mun ég ríða heim aftur, Ókey [ok] fara hvergi.” (Hér ætti að ljúka með upphrópunarmerki til að sýna karlmennskuna.) 

Auðvitað er textinn saminn fyrir gos og auðvitað gerir þessi áhersla á ókey málsgreinarnar enn snubbóttari og sem er jú aðall hins eina sanna íslenska stíls.

Annað dæmi, úr 77.kafla: “Gunnar mælti: “Ör liggur þar úti á vegginum; Ókey, er sú ein af þeirra örum; Ókey, skal ég þeirri skjóta til þeirra; Ókey, er þeim það skömm, ef þeir fá geig af vopnum sínum.” Gunnar verður miklu meiri töffari við þessa umritun!

Dæmin eru valin af algeru handahófi …

Konur í sviðsljósinu

Inn á milli öskufallsfrétta hafa konur komist aðeins í fréttir, aldreiþessuvant. Þær Margrét Þórhildur og Vigdís áttu afmæli og var mikið gert úr því. Það er ansi ótrúlegt hve Vigdís virðist 20 árum yngri en Magga, er þó í rauninni 10 árum eldri, en má auðveldlega skýra með því að önnur er reyklaus en hin ekki … eða hvað?

Ég horfði ekki á afmælishúllumhæ Vigdísar en “smugkikkede” á eitthvað af afmælisveislum Margrétar Þórhildar, einkum til að horfa á kjólana. Svo hef ég náttúrlega flett myndasjóum Berlinske tidende samviskusamlega. Áðan fann ég loksins mynd af henni Dorrit okkar, aleinni, en klikkaði ekki í klæðaburði. Sjá mynd nr. 27 á http://www.berlingske.dk/billeder/billeder-festen-paa-fredensborg. Við myndirnar eru skýringar ef um er að ræða eitthvert þekkt fólk en engin skýring við Dorriti og virðist hún álíka hátt skrifuð og einhver semi-pöpull í veislunni. Kemur svo sem ekki á óvart.

Í sjónvarpinu sá ég Þorgerði Katrínu semí-segja-af-sér; hún hafði nú ekki döngun í sér til að segja af sér þingmennsku heldur fara í tímabundið frí, sennilega launað leyfi. Ekki að konan sé á flæðiskeri stödd því komið hefur fram að allar persónulega skuldir hennar og mannsins voru færðar í hlutafélagið þeirra sem nú er gjaldþrota. Og ekki þurfa þau að borga skuldirnar af því þetta er hlutafélag. En hugsanlega er þessi skrípaleikur að einhverju leyti fordæmisgefandi fyrir aðra í flokknum og þannig séð ekki bara skrípó.

Mér fannst miklu meira varið í ræðu Ingibjargar Sólrúnar sem axlaði siðferðilega ábyrgð á sínum hlut, óþvinguð og að því er virtist af einlægni.

Já, konur hafa komið nokkuð við sögu í fjölmiðlum undanfarið; Ýmist til að halda upp á að vera lifandi eða hverfa úr pólitík, hvor með sínum hætti.

Verður áhugavert að fylgjast með hvað karlarnir geta …

Aumingja Magga!

(Tvær bloggfærslur á dag eru auðvitað óhóf … en nauðsyn brýtur lög og ég er gáttuð á áhugaleysi ísl. fjölmiðla, svo ekki sé minnst á karlkyns androjalista heimilisins! Í rauninni erum við Jósefína D.M. von Steuffenberg þær einu sem skilja alvöru málsins …)

Margrét Þórhildur verður sjötug á morgun. Ammælið á að byrja í kvöld með pompi og prakt og glansnúmerum og allskyns kóngaslekti norrænt að hygge sig með þeim. En, eins og kemur fram í þeim virta miðli Berlinske Tidende (sem er reyndar líka stútfullt af gosfréttum) setur helv. gosið strik í reikninginn. Sjá Askesky påvirker Dronningens fødselsdag. Hvernig verður með Önnu Maríu og Konstantin? Eiga þau að taka Eurostar? Og eru til sérstakir kóngavagnar, með rauðu plussi, í nútímalestum? Og á evrópska kóngaliðið að þurfa að paufast þetta hirðarlaust / hirðulaust?

Vesalings norska og sænska konungsfjölskyldan (e.t.v. mínus Magdalenu litlu, hún er nefnilega í ástarsorg) ætla að þrælast þetta með lestum og hefur í því sambandi verið rifjað upp þegar Mette-Marit og Hákon þurftu óforvarendis að ferðast með lest “með pøbelen” til Kaupmannahafnar í síðustu skírn – var það ekki í fyrra? – og komust síðasta spottann í sporvagni. Hugsið ykkur! Sonja og Haraldur komast ekki í kvöldhúllumhæið, skv. nýjustu fréttum, en Mette-Marit sér ein um að glansa fyrir hönd norsku konungsfjölskyldunnar. (Hvar er Hákon?) Sömu fréttir herma að Anna María og Konstantín séu nú þegar í Köben, Benedikta líka. Aftur á móti verður kannski vesen fyrir annað kóngafólk úr Evrópu að komast í afmælið sjálft á morgun, t.d. spænsku konungshjónin. 

Skv. einhverri örfrétt íslenskri kemur í ljós að Ólafur Ragnar kemst ekki en Dorrit hafði vit á að drífa sig suður í morgun. Það eru vissulega góð býtti fyrir orðspor íslensku þjóðarinnar og hún verður væntanlega sæt og huggulega klædd og með perlurnar sínar, þessi elska. Karlinn getur súrmúlerað einn á Bessastöðum.

Við Jósefína höfum áhyggjur af þessu, við verðum að segja það!

Pólitík heimilisins

Á þessu heimili er nú dregin hræelduð pólitísk víglína, þar sem við kötturinn erum í algerum minnihluta. 2/3 karlfólks ásaka bloggynju um að vera votta Jehóva sem hvetur til kristalsnætur (sé reyndar ekki alveg samhengið, eru vottarnir eru tiltölulega friðsamt fólk?) og hvert hnjóðsyrði í garð ljósblárra pólitíkusa og bankamanna er tekið sem hvatning til byltingar. Af því ég hef samviskusamlega leitt hjá mér háværar stjórnmálaumræður sömu karla undanfarin ár get ég ekki vel varist þessu … finnst þó að ýmis óvirðuleg orð hafi fallið þar um alla þá sem ekki eru fylgjandi botnlausu frelsi og frjálsum vilja einstaklingsins, súludansstöðum þar meðtöldum. Ætli mansal teljist til holls einkaframtaks, svo framarlaga sem manið er þokkalega til friðs?

Mér er engin launung á því að ég held að undir 100 manns hafi spilað rassinn gersamlega úr buxunum og átt meginþátt í að setja þetta þjóðfélag á hausinn. Það virðast vera sömu leikendur í öllum aðalhlutverkum, hvort sem við erum að tala um banka, fyrirtæki, fjölmiðla eða eignarhald á stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum. Aukapersónur eru líka tiltölulega fáar. Svoleiðis að við ættum að losa okkur við þetta lið – úr því eignum aðalpersóna hefur verið dælt úr landi og illmögulegt að komast yfir þær, úr því lagagreinar ná ekki yfir þetta pakk (nema kannski skattalög … sem eru góð til síns brúks eins og sýndi sig þegar Al Capone var loksins tekinn úr umferð) og úr því forkólfarnir eru hvort sem er að flytja lögheimili sitt til útlanda … gæti þá ekki almenningur sýnt þann siðferðisþroska að koma genginu endanlega út í buskann? Þá á ég ekki við að það þurfi að brjóta allar rúður í heimili þeirra og bílum, bara einfaldar eineltisaðferðir eins og að standa upp og hunsa í hvert sinn sem einhver fyrrum bankaforkólfur þorir að sýna sig utan dyra. Nú eru uppi hugmyndir um að flytja ofbeldismenn af heimilum í stað þess að konan og krakkarnir verði að flýja. Er ekki upplagt að flytja hina 100 aðalgerendur kreppunnar til útlanda í stað þess að sveltandi almenningur sé að reyna að komast til Noregs? Það er ekki eins og við getum gert ráð fyrir að útrásarliðleskjurnar borgi eitthvað til baka … sennilega eiga þær, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki bót fyrir boruna á sér.

Hvern langar að afgreiða Jón Ásgeir eða Ingibjörgu í sjoppu? Eða sjást tala við Björgólf Thor? Talandi um hinn síðarnefnda bendi ég á ágætis úttekt á “afsökunarbeiðninni” hans og sumu því sem hann raunverulega gerði, sjá http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/idrun-og-ofurlan  Hvern langar að vinna við sumarhöllina í Borgarfirði, með vínkjallara og alles? Hver hefur yfirleitt geð í sér til að tala við þetta fólk?

Ef fólk hefur eitthvert vit milli eyrnanna ætti það að skoða hvernig bankaliðið (“útrásarvíkingarnir”) mokuðu fé í stjórnmálaflokka, fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkinn og einstaka þingmenn og ráðherra hans. Halda menn svo að þessir flokksmenn hafi lagt sig í líma við að stemma stigu við mattador fjárglæframannanna? Það fer aumingjahrollur um bloggynju þegar hún sér þessa pólitísku vesalinga (einkum Bjarna Ben. og framsóknarbarnið) reyna að klóra yfir og víkja sér undan spurningum fjölmiðla … einn lítill köttur væri duglegri að klóra yfir sinn skít en þessir karlar. Ef væri einhver döngun í þessum sjálfstæðisflokki sæju Bjarni Ben., Þorgerður Katrín o.fl. sóma sinn í að segja af sér öllum embættum strax í dag og koma aldrei aftur í pólitík. “Uppreist æru” sem forsetinn hefur veitt eftir að þjófur hefur tekið út sinn dóm er kannski ekki mjög aktúel í framtíðinni þegar þessi sami forseti hefur orðið uppvís að hreinum trúðslátum og flaðri upp um jakkafatastrákana með pappírspeningana. Hann segist ekki segja af sér … það er hans mál en ég reikna með að í staðinn verði hann meginumfjöllunarefni grínþátta það sem eftir lifir kjörtímabilsins; jafnvel uppspretta írónískra leikrita. Athyglisjúkt fólk þráir alveg eins neikvæða athygli svo kannski kemur þetta sér bara vel fyrir forsetann. Almúganum finnst kannski betra að leggja embættið hreinlega niður.

Ég var að hugsa um að myndskreyta færsluna en fannst flestar myndirnar sem ég fann of ógeðslegar.

Eiginlega var ég að hugsa um að blogga um krosssaum, einkum gamla íslenska krosssauminn. En hnýtingar blástakka heimilisins hafa verið þess eðlis að ég taldi gott fyrir þá að fá fleiri skotfæri gegn þeim sem ekki eru haldnir sömu karladýrkun og þeir og bláeygri trú á dásemdir frjálshyggjunnar. Þótt hér sé bara um vesæla kvenpersónu að ræða, sem ekki getur staðið í sögulegri stjórnmálaumræðu sem dekkar alla kalla frá miðri síðustu öld. Enda sé ég ekki að sagan skipti sérlega miklu máli í þessu sambandi – altént hafa menn ekki lært af henni nokkurn skapaðan hlut.

Svona hefur mér nú batnað mikið af blessuðu Rivotrilinu! Hafandi eytt dögunum í að reyna að hægja á hjarslætti og verið bókstaflega lömuð og orkulaus get ég nú haft skoðun. Það er guðsþakkarvert.  

Skýrslan og heilsan

Nú þverbrýt ég eigin bloggreglur og blogga um “ástandið í þjóðfélaginu”, þ.e. skýrsluna frægu. Ég las slatta í þessari skýrslu í gær, á Vefnum því ég held að það sé miklu þægilegra en lesa hana á pappír. Þetta er svoleiðis plagg.

Þótt blá-pólitískir karlmenn heimilisins hefðu fyrirfram tuðað gegn skýrslunni, annars vegar með þeim rökum að málfar og framsetning yrði örugglega hörmung, hins vegar voru rökin að þetta hefði hvort sem er allt komið fram áður, tók ég ekki mark á þeim og skoðaði sjálf. Mér finnst framsetning, mál og stíll alveg til fyrirmyndar! Því fer fjarri að reynt sé að kasta ryki í augu lesenda með moðreyk og fimbulfambi.  Og þótt jafnvel tiltölulega sljóu fólki eins og mér hafi verið fullljóst að ýmsir, aðallega belgdir karlar í jakkafötum, væru ódó kom það á óvart hversu ótrúlega ósvífnir og siðblindir þessir gaurar voru, þegar grannt var skoðað.

Auðvitað vona ég að sem flestum “útrásarvíkingum” (þetta eru náttúrlega frekar “útrásarliðleskjur” enda litlir karlar sem fannst gaman að berast sem mest á, sjálfsagt út af innbyggðri minnimáttarkennd, nokkurs konar Bör Börssonar – gott ef þeir klíndu ekki vellyktandi sápu í hárið á sér) fái kost og logí á ríkisins kostnað, sem lengst. Sennilega verður dýrt að passa þá, svona álíka dýrt og að gæta barnaperra í fangelsum landsins.

Svo finnst mér að froðusnakkurinn forsetinn ætti að sjá sóma sinn í að segja af sér. Þótt Vigdís hafi gefið tóninn með endalausri þjóðrembu og alls kyns misskildum málfarsáróðri þá gekk Ólafur Ragnar svo miklu miklu lengra. Mætti halda að Ísland hefði verið land hinna einu sönnu Aría, a.m.k. hinna genetískt fullkomnu víkinga [!]*,  á útrásartímunum. Vonandi verður helv. erfitt fyrir karlinn að sitja áfram á Bessastöðum, nema hann bregði yfir sig búrku og þegi á mannamótum. Nema vanti efni í fleiri grínleikrit …

Eftir að hafa lesið athugasemdir Davíðs, sem voru eitthvað hátt í  10 síður af skítkasti út í mann og annan og síðan 1-2 síður af máttlausum athugasemdum og eftir að hafa hlustað (með kettinum) á umfjöllun RÚV um skýrsluna í gær hef ég tilkynnt manninum að nú eigi hann að segja upp mogganum sínum. Þótt mér finnist sunnudagskrossgátan skemmtileg er hún ekki þess virði að bera inn á heimilið snepil sem Bör stjórnar. Þótt ég hafi samúð með fólki sem glímir við geðræn vandamál er ekki þar með sagt að ég vilji kóa með slíku liði, nema það leiti sér hjálpar. Og þótt ég elski auðvitað manninn eru takmörk fyrir hvers konar drasli honum leyfist að spreða út um mitt heimili!

Af heilsu er það að frétta að ég hef ákveðið að byrja að eta pillur við kvíða. Er fullkomlega sátt við það enda ástandið óbærilegt og eitthvað verður að gera. Í tannlæknaheimsókn kom í ljós að verkir og helaumt tannhold hefur ekkert að gera með ástand tanna og tannholds. (Mig grunaði það en vildi síður fá slæma tannrótarbólgu bara af því ég hefði skrifað allt á kvíðareikninginn.) Skv. blóðprufu er ég stálhraust. En rúm 10 kg hafa hrunið af mér síðan í janúar og kílóarýrnun er enn í fullum gangi … reikna með að ég brenni eins og maraþonhlaupari þótt ég sitji meira eða minn kjur. Kvíði er afar grennandi kvilli. Og ég vil gjarna vera doldið kynþokkafull fyrir manninn og ekki hafa það að hann stingi sig á beinum.

Kvíðanámskeiðið er bókað og fastsett, byrjar í næstu viku. Við skulum vona að það gagnist sem mest. (Ég veit að sumt af þessu verður helv. vont og erfitt en með illu skal illt úr reka.) Ómetanleg ofsakvíðaæfing verðar tónleikar sem ég ætla að sækja á föstudagskvöldið. Svo ekki sé minnst á hve sálumessa er einmitt holl fyrir mig núna … allar þessar bænir um eilífan frið hljóta að draga langt.

* Hér tók ég út tilvísun í nasista af því ég get fallist á það að of langt sé gengið með að tengja þjóðrembu Íslendinga við þá illu menn. Aftur á móti er hluti hugmyndafræðinnar alls ekki ólíkur, hafi menn áhuga á því má benda á bók Arthúrs Björgvins Bollasonar, Ljóshærða villidýrið. Má einnig benda á forsíðumynd sérrits Mbl. frá 2006 þar sem Björgólfur Thor sést með firmamerki sitt í baksýn, sem er einmitt stílfærður Þórshamar, sjá http://this.is/nei/?p=72  En þetta kann náttúrlega allt að vera tóm tilviljun …

Er gáttuð! Um Lausnina miklu og okkur hin

Þeir sem hafa ekki áhuga á alkafræðum eða geðsjúkdómum ættu ekkert að vera að lesa þessa færslu 🙂

Dagurinn hófst eins og aðrir dagar; mér leið meðal-hörmulega og ákvað að fara á fund í mínum góðu sjálfshjálparsamtökum. Þetta var góður fundur og ég fann fyrir mikilli samúð og samlíðan, bæði í orðum og orðlaust. Eftir fundinn fór ég að spjalla svolítið og lenti á hardcore-sporatalibana; Þótt ég hafi áður bloggað um stefnu slíkra hef ég aldrei upplifað svo umbúðalausan hroka, líklega af því ég hef forðast talibanafundi og látið þá að mestu afskiptalausa. Af því erfðavenjan dekkar ekki nema það sem fram fer á fundum og af því ég veit að sumir lesenda minna hafa sætt viðlíka árásum ætla ég að fjalla um þetta efni hér. Ég hef líka nokkuð hugsað um hve stórhættulegt svona fólk er geðsjúkum (og öðrum en þeim sem telja sig lifa fullkomnu lífi … eru þá væntanlega talibanar sjálfir). Í rauninni finnst mér full þörf á að heilbrigðiskerfið bregðist við heilaþvotti af þessu tæi enda getur hann verið beggja handa járn og í einhverjum tilvikum líklega nýst til að tippa sjúklingum fram af brúninni.

Nema … í dag var mér tjáð að ég þjáðist af þunglyndi og kvíða eingöngu af því að ég hefði ekki “unnið sporin”, sérstaklega af því ég hefði ekki “unnið” fjórða sporið. Fyrir óinnvígða: “Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.” Það að “vinna sporin” er að hafa sporasponsor (trúnaðarmann) sem maður hefur samband við einu sinni á dag (í það minnsta), hlusta á amríska röflara á geisladiski (var a.m.k. þannig fyrir nokkrum árum þegar ég gerði einmitt tilraun til slíkrar sporavinnu en gafst upp af því mér fannst þetta svo vitlaust fyrirbæri), lesa sporabókina og fylla út pappírsskýrslur. Í fjórða-spors-vinnu er gerður listi yfir allar yfirsjónir sem viðkomandi hefur á samviskunni og mætti mögulega tengja við áfengisneyslu, jafnvel illtengjanlegar við áfengisneyslu. Í einhverju seinna spori (man þau aldrei) á að gera lista yfir alla sem maður hefur mögulega böggað í áfengisneyslu og ganga svo í að biðjast fyrirgefningar.  

Jæja, úr því ég hafði klikkað á fjórðasporsvinnu hafði ég “valið óttann” í stað kærleikans (!). Ég hefði einangrast meir og meir og að lokum orðið sjúklega veik af þunglyndi og kvíða, fyrir vikið. Mjálm á móti, t.d. að ég ætti nú fjölskyldu, einhverja vini, hefði einmitt umgengist fjölda manns áður en ég varð óvinnufær o.s.fr. var afgreitt með því að ég héldi þetta bara en hefði í alvörunni verið ferlega einangruð af því mig skorti kærleika. Mjálmi í þá átt að ég hefði nú hangið í þessum samtökum í meir en tvo áratugi og sýndist að flestir harðkjarna-talibanar hefðu sprungið á limminu … var tekið sem hjómi; Sömuleiðis æmti um að “sporavinna” væri nú ekki það gömul og hvernig fólk hefði orðið edrú innan samtakanna áður en það fór að fylla út pappír …

Ég má nú eiga það að ég varð ekki einu sinni reið og reyndi að ræða þetta fullkomlega róleg (er hugsanlegt að ég sé of veik til að verða reið?). Ábendingar um að það sem virkaði vel fyrir alkóhólista (12 spora kerfið) væri ekki endilega hægt að yfirfæra á alla aðra sjúkdóma voru algerlega hunsaðar. Þegar ég benti viðkomandi á að mér fyndist það bera vott um hroka að skella því í andlitið á fárveikri manneskju að sjúkdómurinn væri henni sjálfri að kenna – spurði einmitt hvort viðkomandi talaði svona við krabbameinssjúklinga – fékk ég að heyra að ég væri sjálf hrokafull að vilja ekki “vinna sporin” og að ég vildi “hanga í sjúkdómnum”. Jafnframt sísuðaði viðmælandi minn að hann segði þetta einungis af kærleika (!).

Þarf varla að taka það fram að ég var upplýst um að súrefni og vatn myndu hreinsa líkama minn og mér óskað hjartanlega til hamingju með að vera hætt á lyfjum …

Hér að ofan eru ágæt dæmi um að 12 spora kerfið gagnast ekki við hverju sem er. Mætti þó rökstyðja að hver og einn væri þarna í pontu að vinna fjórðasporið sitt 😉  Ég dreg enga fjöður yfir að ég er óvirkur alkóhólisti – á bráðum 21 árs edrúafmæli og hef kynnst allskonar fólki á AA-fundum í öll þau ár. Mér sýnist að þeir sem beita hvað hvunndagslegastri aðferð, án ofsalegra sveifla eða endalausra drama, komist sem best af og lifi ríkasta lífinu edrú. Að lifa í núinu og hafa hóf í hverjum hlut (spora”vinna” þar ekki undanskilin) virðist skila árangri. Venjulega hef ég sloppið við fanatíkera en kannski er það enn eitt merki þess að verulega sé af mér dregið þegar einn slíkur finnur hjá sér þörf til að sparka í hræið?

—´

Einangruð og óttaelskandi sem ég er (NOT) sagði ég manninum undan og ofan af þessu þegar ég kom heim. Hann róaði mig, þessi elska, með því að benda á að allir ofsatrúarmenn vonuðu að guð mundi kála helvítis trúleysingjunum sem fyrst – kannski var þessi viðmælandi minn bara að hjálpa guði smávegis áleiðis?

Til öryggis kallaði ég út trúnaðarkonu á kaffihús til að ræða þetta enn frekar. Eftir það samtal var ég aftur komin á þá skoðun að ég væri að vinna rétt í  því takmarkaða svigrúmi sem mér er gefið, gæti rifjað betur upp þann hlýhug sem ég fann á fundinum í morgun og að spora”vinna” væri stórlega ofmetið tól.

Eftir stendur að það eru ekki allir jafn heppnir og ég að geta fengið lánaða dómgreind hjá óklikkuðu fólki. Eftir stendur að ábyrgð fólks sem hefur turnast í eigin sporavinnu er mikil og það ætti að hugsa sig um vel og vandlega áður en það dembir “Lausninni” yfir aðra sem axla aðra sjúkdóma. Eftir stendur að sú einföldun að alkóhólismi sé almenn undirrót alls ills, t.d. geðsjúkdóma, er geigvænleg og gæti reynst sjúklingum lífshættuleg. Eftir stendur að mér finnst að það ætti að sótthreinsa almennar geðdeildir Lans af slíkum hugmyndum þótt hjúkrunarfólki og læknum sé auðvitað algerlega velkomið að hafa “Lausnina” fyrir sig, eins og önnur prívatmál. (Ég áttaði mig ekki fyrr en í dag á því hvað þessi sporaáróður er hryllilega hættulegur þar sem hann á ekki við. Ég hef um langt skeið fengið sjálfsvígshugmyndir oft í viku, sem er partur af sjúkdómnum. Væri ég jafn einangruð og óttaslegin og viðmælandi minn vildi meina hefði leiðin yfir styst verulega.)

Og enn eitt: Vissulega hætti ég á lyfjum. En það kom nú ekki til af því að ég héldi að súrefni og vatn myndu gera mig heilbrigð. Nei, eftir að hafa prófað á þriðja tug lyfja var ég orðin úrkula vonar um að það fyndist lyf sem virkaði á mitt þunglyndi og kvíða. Hef í tímans rás séð mörg dæmi þess að lyf skiptu sköpum og er almennt fylgjandi lyflækningum, raflækningum líka. Kannski mun ég öðlast döngun til að halda áfram að prófa (verst hvað ég þoli helv. aukaverkanirnar illa). Næsta skref hjá mér er hvorki fjórða spors “vinna” né niðurdýfingarskírn heldur kvíðanámskeið; er að reyna að komast á svoleiðis, veit ekki hvort það virkar en það get ég náttúrlega ekki vitað nema prófa. Og ég er voðalega mikið til í að prófa ansi margt gegn þessu helvíti þótt ég sé ekki heit fyrir nýmóðins sporavinnu, a.m.k. ekki ef árangurinn af henni er í líkingu við það sem ég varð vitni af í dag.

Bækurnar

Guði sé lof fyrir bækur og bókasafn í hundrað metra fjarlægð! Ég get sem betur ferið lesið og hef sökkt mér niður í allrahanda – hver bók linkar í aðra. T.a.m. var ég (rétt eina ferðina) að skoða bækur Frank Ponzi og úr þeim lá leiðin náttúrlega í Sögu Íslendinga í Vesturheimi.

Þaðan kom áhugi á Laxdals-slektinu (Grími Jónssyni Laxdal og afkomendum) og á Vefnum fann ég ættartölu og upplýsingar um það fólk (ásamt tilvísunum í bækur – sjá sirka miðja síðuna http://genforum.genealogy.com/iceland/messages/1629.html). Ég sá að út af Grími eru komnir bæði stærðfræðingur og geðlæknir, sem gladdi mig ósegjanlega 🙂 Enn merkilegra þótti mér samt að sjá að inngift í ættina var “heimilishagfræðingur og húsfreyja”.

Mágur min bóksalinn datt hér inn í vikunni og sagði mér frá Minningum Guðrúnar Borgfjörð (útg. 1947 en lokið 1926) af því ég er svo hrifin af Þegar kóngur kom. Augljóslega hefur Helgi Ingólfsson byggt stóran hluta af sinni bók á Minningum Guðrúnar. Að auki standa hennar skrif hans engan veginn að baki og eru stórskemmtileg! Þetta hefur verið afar merkileg kona, vel að sér um flest og vel ritfær. Sé hún sett í samhengi við Þegar kóngur kom myndi hún vera dóttir lögreglumannsins.

Til hliðar sést mynd af Guðrúnu. Sjálf segir hún að sér hafi verið sagt strax í barnæsku hve ljót hún væri. Það sveið henni sárt. Auk þess var hún stór – stærri en presturinn sem fermdi hana. Mér finnst þessi svipsterka kona alls ekki ljót en hún hefur náttúrlega ekki fallið að skinkuútliti síns tíma … sennilega ekki heldur nútímans.

Ég hvet alla aðdáendur Þegar kóngur kom til að reyna að æxla sér Minningar Guðrúnar Borgfjörð. Ekki spillir að bókin er skreytt blómabekkjum Sigurðar málara.

Stór hluti af lesefninu mínu er sem fyrr reyfarar. Ennfremur horfum við kötturinn á svona 2 – 5 morð á kvöldi. Svoleiðis að ég get skipulagt hið fullkomna morð.

Dagurinn í dag og í gær virðast skárri en flestir dagar undanfarið. Ég geri mér samt ekki neinar sérstakar vonir strax en þetta bendir til að slæma kastinu undanfarnar vikur sé kannski aðeins að linna. Sem er eins gott því ég sá ekki betur en ég væri aftur orðin hæf í að stunda nám í Árnagarði, svo skoðanalaus og koldofin var ég orðin. Hefði ábyggilega látið mig hafa það að láta lesa fyrir mig í tímum …  og ekki hugsað heila hugsun sjálf.

Nei, nú er ég orðin nógu frísk til að ræsta húsið (hvað ég hef gert) og gæti hugsanlega spilað á mitt pjanóforte í dag (í fyrsta sinn í meir en viku). Hvort tveggja er frábært batamerki. Stefni að því að verða heimilishagfræðingur og húsfreyja!