Category Archives: Uncategorized

Jósefína horfir á heiminn

Fyrst vill bloggynja taka fram að Möbíusinn úr færeyska ullargarninu smellpassar eftir að hafa farið á 60° straufrítt í vélinni og látið pressa sig. Sjá litlu montmyndirnar sem linka í stærri montmyndir.

Ég innvígði tvær konur í merkisheim Möbíusarprjóns í dag og gekk það ótrúlega vel, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að sjálf þarf ég að hugsa mig um til að vita hvor höndin (á mér) er sú hægri (veit að hin höndin er þá vinstri hönd) og á þess vegna erfitt með að leiðbeina öðrum nema máta allt við mig jafnóðum.

Þótt bloggynja hefði það huggulegt í dag verður ekki það sama sagt um aumingja kattarrófuna! Laust eftir hádegi heyrðist kall mikillar kveinunnar, óps og ýlfrunar; Hafði þá litla ljósið lent í slagsmálum við ótótlegt ógelt fresskvikindi hér úti! Þessi flagari rispaði aumingja Jósefínu í eyrað og stóð kló upp úr hausnum á henni þegar hún kom inn (delinn missti klóslíður!) sem og var feldurinn hennar fagri tættur á einstaka stað. Eftir að hafa gráið hást yfir óréttlætinu og jafnað sig svolítið á teppinu sínu dreif Jósefína sig í vakt-stöðu og hefur af og til kíkt út í rigninguna og slabbið. Heimilisfólk hér telur að litla stýrið hafi hugsað sér að rífa eyrun af helv. fressinu, við fyrsta tækifæri. Bloggynju finnst að mætti rífa af því fleira …

Myndin sýnir Jósefínu horfa á sinn heim og sína baklóð.

Eins og þetta sér ekki nóg upplifelsi fyrir heilan dag í kattarævi … þá vildi svo ömurlega til að eigandi Jósefínu kom heim áðan, útbíuð í hundahárum og lyktandi eins og smalahundur! Auðvitað þarf þessi eigandi að koma sér í sturtu hið bráðasta en sá þó sóma sinn í því að þvo sér umsvifalaust um hendur og skipta út nokkrum fatalufsum; annars væri ólíft í húsinu.

Sem betur fer veit Jósefína ekki ennþá að snoðklippti hundurinn Kubbur er á leiðinni í heimsókn á næstunni. Dýrið er svo mjúkt og snyrtilegt núna að má nota hann sem parkettmoppu. Líklega verður að loka Jósefínu inni í svefnherbergi meðan Kubbur er í heimsókn (svo hún fái ekki taugaáfall) … en svo er auðvitað hætta á að hér verði óíbúðarhæft fyrir eina silkimjúka ráma kisu, heitandi keisaraynjunafni m.m.  …

Myndin sýnir, svo ekki verður um villst, hve kötturinn tónar vel við eldhúsinnréttinguna og einnig hvussu erfitt er fyrir einn kött að nálgast flugurnar skríðandi á eldhúsloftinu!

Draumalandið er Karlalandið!

Ég fatta alls ekki hvað á að virka svona vel í þessari mynd, þ.e.a.s. af hverju fólk á að hrífast af henni; Ömurleg jarðarfarartónlist, tölvubreyttar umhverfismyndir og megnið af viðmælendum karlar – sem vældu nokkurn veginn sama sönginn og tónlistin þannig vel við hæfi. Hvert er pojntið? Á Ísland að verða land stóreygra karla, gjarna eins og barnsrass í framan …  jafnvel um allt höfuðið? Grimmhildurin í myndinni var kvenkyns (iðnaðarráðherra) en “góða” konan var Erla Stefánsdóttir (!!!). Alcoa er væntanlega Ókindin.

Guði sé lof að ég hef ekki lesið bókina. Af hverju kokgleypir fólk þetta?

Sara Lund bjargaði kvöldinu 😉

Scheving og Möbíus

Hannyrðalistirnar í þurrabúðinni virkuðu eins og vítamínsprauta á bloggynju og hefur hún nú druslast til að finna fullt af hálfkláraðri handavinnu og hyggst ljúka henni á árinu! Reyndar tefur Möbíus-prjón svolítið því það er svo ansi þægilegt við sjónvarpið og auk þess gengur bölvanlega að finna hinar réttu stærðir, svo sem sést á meðfylgjandi mynd. Þessi tveir Möbíusar eru á leiðinni í þvottavél, á 60°, og viskum sjá hvort þeir láta sér ekki segjast við þá meðferð. (Þeir eru greinilega of stórir fyrir háls og of litlir fyrir herðar … hvað á maður að gera við svona millistykki? Sennilega var líka heldur ósmart að pressa stykkin …)

Montmyndirnar litlu vísa á stærri útgáfur af sömu myndum.

Eitt af því sem ég dró fram var listaverkið Kýrin Meskalína, byggt á mynd Gunnlaugs Schevings. Ég á ekki von á að verða kærð fyrir höfundarréttarbrot en hannyrðin er samt tvímælalaust svoleiðis brot.  Við alþýðan verðum að brúka svona aðferðir til að eignast okkar Scheving – við vorum aldrei í útrásinni eins og Landsbankinn, sem ég reikna með að eigi upprunalega verkið. Sem sjá má eru ský og landslag dálítið færð í stílinn, sem varð til þess að fræðimaður heimilisins gaf útsaumsmyndinni þetta nafn.

Annað óklárað er t.d. ansi fín hörpudiskapeysa sem má klæðast á sumrin, svört peysufatapeysa (eða byggð á slíkri) sem á að vera grunnur undir tilraun til svindl-baldýringa-æfinga, einn einn áttblaðarósarpúðinn í groddalegan risafléttusaum (í smyrna-stramma) o.s.fr.  Svo sé ég í hendi mér að það megi bjarga hinum fínu en draslkenndu eldhússtólum mannsins með útsaumuðum sessum – t.d. með miðaldamyndum af köttum – og gefst þá frábært tækifæri til að prófa refilsaum.

Staðföst sem ég er mun ég ekki blogga um Ice-eitthvað (stefni á að verða eini bloggari landsins sem ekki hefur tekið þetta mál upp á bloggi). Ég læt duga að vitna í feminu docta þessa heimilis, sem segir í enn óútgefinni stjórnmálasögu sinni, De Historia Politica Islandorum, IV. bindi: “Á þessu stigi málsins kemur vel til greina að éta erlendar samninganefndir og verða þær þar með úr sögunni.” (Dietrich, Jósefína. 2010, s. 897. Bloggynja snaraði úr latínu.) 

Dolfallin yfir fegurð í þurrabúðinni

Í gær skrapp ég til þurrabúðarinnar-handan-Flóans. Segir ekki mikið af þeirri ferð nema ég var svo heppin að fá að koma í heimsókn til Guðrúnar Guðmundsdóttur, höfundar Ævispora (sýningar í Þjóðminjasafni sem ég hvet fólk enn og aftur til að láta ekki fram hjá sér fara!).  Ég er eiginlega ennþá agndofa yfir öllum þessum fallegu listaverkum sem ég skoðaði þar. Meira að segja unglingurinn hreifst með og skoðaði myndir af verkunum yfir reglubundnu pizzuátinu í gærkvöldi. (Á miðvikudagskvöldum er maðurinn af bæ og við hin neyðumst því til að panta skyndibita …) Það þarf talsvert til að hrífa unglinginn svo ég hlýt að hafa afar sannfærandi.

Í strætó á leiðinni heim komu hugmyndir fljúgandi til mín. Ég er enn að vinna úr þeim. Mér datt svo í hug áðan að kannski væri enn sniðugra að ljúka við þau mörgu hálfkláruðu stykki sem ég á, sum byrjuð í næst-næst-síðasta þunglyndiskasti en önnur yngri. Gæti tekið mér elju listakonunnar til fyrirmyndar.

Kærar þakkir fyrir mig!

P.S. til hannyrðakvenna á Skaganum: Ég er búin að skila Íslensku teiknibókinni (bók Björns Th. Björnssonar), bókinni um handritið Stjórn (e. Selmu Jónsdóttur) og bókinni um handrit (e. Jónas Kristjánsson) á Bókasafn Akraness 🙂

P.p.s. Tek fram að ég hélt mig aðallega í 101 Reykjavík og var ánægð með það sem svæðið hafði upp á bjóða.

Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

Ég hvet þá sem skiluðu MA ritgerð til HÍ vorið 2007 að athuga hvort ritgerðin þeirra hefur skilað sér upp á Lbs. Háskólabókasafn og / eða hvort hún er skráð í Gegni! 

Vorönn 2007 notaði ég allar starfandi heilafrumur til að skrifa 15 eininga (30 ECTS) MA ritgerð. Ritgerðin var um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar og var skilað í apríl 2007, í tveimur bindum auk geisladisks með mynd af handritinu sem ég skrifaði upp úr. Sjá má bindi I og bindi II hér.Fyrir þessa ritgerð fékk ég 8,5 sem ég veit ekki hvort þykir hátt eða lágt gefið … gæti jafnvel verið algengasta einkunn fyrir MA ritgerð. Að eigin áliti er þetta kannski fullhá einkunn því grunnvinnan er mjög góð en skortir nokkuð á úrvinnslu enda var ég ekki í neinu standi til slíks og var í rauninni sama hvernig veröldin veltist eða fórst, á ritunartíma. Á dögunum uppgötvaði ég fyrir tilviljun að ritgerðin mín var ekki skráð í Gegni. (Ég var að fletta upp námsritgerðum og datt í hug að gá hvort eitthvert stafrænt efni væri tengt minni eigin ritgerð – en komst sem sagt að því að hún var ekki til! Ég kalla eintök sem læst eru inni á skrifstofu kennara eða eintak geymt í kassa á læstri Bókmenntafræðistofnun Hugvísindadeildar ekki vera sérlega mikið til í þeim heimi sem venjulegt fólk þekkir.)

Þann 22. febrúar sendi ég bréf um þetta til skrifstofu Hugvísindasviðs, deildarforseta Íslensku-og menningardeildar (sem var, að mig minnir, skorarformaður íslenskuskorar þegar ég skilaði ritgerðinni) og sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þótt í svarbréfum vísi hver á annan og enginn axli ábyrgð (álíka og í sögunni, þið munið; Kötturinn sagði: Ekki ég. Hundurinn sagði: Ekki ég …o.s.fr.) mega menn eiga að þeir brugðust skjótt við. Annar leiðbeinandinn minn dreif í að grafa upp eintakið í kassanum á Bókmenntafræðistofnun – hans vegna vona ég að það hafi ekki verið margir kassar sem í þurfti að leita – og afhenti á skrifstofu Hugvísindadeildar með hraði. Hugvísindadeild sendi eintakið upp á Þjóðarbókhlöðu, einnig með hraði, og þar er verið að vinna í að skrá hana inn, eins og skjámyndin úr Gegni, sem ég tók núna áðan, ber með sér. Af því ég reikna ekki með brjálæðislegri eftirspurn eftir þessari ritgerð, sem auk þess hefur ekki exísterað í 3 ár nema í lokuðum fámennum kreðs, get ég svo sem við vel viðbrögðin unað og tel reyndar að tveggja daga afgreiðsla málsins, innan íslensku- og menningardeildar og skrifstofu Hugvísindasviðs, hljóti að vera hraðamet.

Aftur á móti veit ég ekki um hina, hversu happí þeir eru! Skv. upplýsingum í tölvupósti frá sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns virðast, að athuguðu máli, MA ritgerðir þeirra sem útskrifuðust vorið 2007 almennt ekki hafa skilað sér til safnsins. ??? Var þetta að fattast núna? Hvar týndust þessar ritgerðir? Og hvað ætli þær séu margar?

Nú gæti ég auðvitað snúið upp á mig og sagt að mér sé sosum slétt sama hvort þessi ritgerð er skráð eða ekki skráð, aðgengileg sem námsritgerð eða ekki o.s.fr. En mér er reyndar alls ekki sama. Mér finnst það helv. hart að hafa eytt eins misseris fullri vinnu í pródúkt sem er svo bara glutrað niður, einhvers staðar á stuttri gönguleið úr 101 í 107. Mér líður eins og lýst er í þessu ljóði!

Ég veit að ýmis vandkvæði voru á að brúka póst úr HÍ vorið 2007 því þegar ég var orðin mjög langeyg eftir útskriftarskírteini hringdi ég á skrifstofu Nemendaskrár? Heimspekideildar? Og var tjáð að ekki væri hægt að senda slíkt í pósti heldur yrði ég að sækja það sjálf eða fá einhvern í Reykjavík til að sækja fyrir mig skírteinið (guði sé lof að ég bý ekki á Raufarhöfn!). Skýringin var að það væri svo dýrt fyrir HÍ að senda ábyrgðarpóst. Ég reikna því fastlega með að MA ritgerðir hafi verið sendar (eða ekki sendar?) upp á Þjóðarbókhlöðu með öðrum hætti en Íslandspósti. Sem móðir pizzasendils til nokkurra ára hef ég svo sem ekkert á móti því. En öfugt við oss pizzapantendur höfum við MA-ritgerðarhöfundar 2007 ekkert fylgst með pródúktinu enda gert ráð fyrir að slíkt væri í öruggum höndum annarra.

Sem betur fer tók ég aukaeintak til að senda þeirri manneskju sem mér þótti líklegast að myndi lesa þessa ritgerð, hefði a.m.k. mikinn áhuga á honum Bjarna blessuðum. Sú manneskja hefur ekki verið innan vébanda HÍ. Svoleiðis að skrifin í kapp við myrkrið, vorið 2007, voru ekki algerlega út í bláinn og marklaus. Ég gleðst núna yfir þessu. Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma. Þótt hver og ein sé a.m.k. eins misseris vinna.

Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar. Það hlýtur að stafa af því að hver og einn álítur sig einmitt ekki bera sök á þessari handvömm heldur einhvern annan. Væri áhugavert að sjá úttekt á sjálfsmatsskýrslum þessara þeirra aðila sem heyra undir HÍ … það hlýtur að vera gott að hafa svona yfirdrifið sjálfsöryggi, hvort sem um ræðir deild eða svið eða skrifstofu.

Ég ráðlegg eindregið þeim nemendum sem eru að skrifa MA ritgerðir við Hugvísindasvið að fylgjast með því hvort þær rata rétta leið og séu skráðar eða hvort þær lokist eingöngu inni á skrifstofum, jafnvel ofaní kassa!

Jósefína les í fornum ritum

að köttur heiti á latínu Musio en einnegin megi kalla köttinn Cattus, Muricepts, Murilegus og Muscio. Köttur er dýr sem er óvinur músa og hefur sjón svo skarpa að hún klýfur náttmyrkrið. Enn fremur hefur Jósefína lesið að:

“Kötturinn (musio) hlýtur nafn sitt af því að hann ræðst á mús (mus). Sumir segja að kötturinn heiti cattus, dregið af föngun (capture); aðrir að hann heiti cattat (sér) vegna þess að sjón hans er svo skörp (acute) að hún yfirvinnur myrkur.” Jósefína snaraði úr fræðum Ísidórs af Sevilla, sjá tilvísun neðst í þessari færslu. Jósefína ákvað að láta Bartolomaeus Anglicus, svigakarl á sömu síðu, lönd og leið því upptalning hans á eiginleikum kattar endaði svo ansi ógislega. 

(Sjá Miðalda-ókindafræði sem Jósefína fann á Vefnum. Sjá má formóður Jósefínu á myndinni úr Ókindafræðum Harley, frá sirka 1230-1240, þar sem hún hefur einmitt handsamað músina illu. Í Teiknibók Villard de Honnecourt, frá sirka 1230, eru myndir af köttum sem hafa komið sér vel í miðaldaútsaumi eða málun. Sjá nánar um Jósefínu á hennar eigin fésbókarsíðu; Jósefína Dietrich af facebook.com.)

Sést af þessari færslu hve bloggynja, eigandi Jósefínu, er hugmyndasnauð á þessum þriðjudagsmorgni, enda fór dagurinn í gær í að skoða fagrar handritamyndir – íslensk handrit sem leitað var að eru að sjálfsögðu ekki aðgengileg á Vefnum en fullt af útlendum mátti þar finna – og lesa reyfara.

Til hamingju Óli!

Eins og aðrir í mínum litla góða bæ gladdist ég óumræðanlega yfir þeim fréttum að Wernersbræður ættu nú að borga myndarlega sekt fyrir að hafa beitt verulega ósvífnum brögðum svo við lasnir bæjarbúar yrðum tilneyddir til að skipta við þá og einungis þá. Ég er náttúrlega ekkert viss um að téðir Wernersbræður eigi fyrir þessari sekt. Þeir ætla  ekki að greiða hana heldur rekja málið fyrir dómstólum, að sögn. Sennilega ekki ódýrara fyrir þá.

Ég var svo vitlaus (má rökstyðja að það hafi ég verið bókstaflega) að skipta við Lyf og heilsu hér áður fyrr enda nánast  í næsta húsi. En þegar Ólafur Adolfsson óskaði W.bræðrum til hamingju með opnun lágvöruapóteksins síns, í heilsíðuauglýsingu (um áramótin síðustu?), hætti ég umsvifalaust að skipta við það apótek nema rétt kaupa eyrnatappa í neyð eða fótleggjavax þegar bráð nauðsyn bar til. Eftir að hafa skoðað úrskurð Samkeppniseftirlitsins hef ég ákveðið að kaupa ekki einu sinni eyrnatappa framar af Apótekaranum heldur versla eingöngu við Apótek Vesturlands. (Verst að ég skuli orðin þó þetta frísk og pillunum hafi fækkað svo mjög … en maður veit aldrei hvað verður. Það er náttúrlega fúlt að hitta ekki meir þær góðu afgreiðslukonur í Apótekaranum … Á hinn bóginn mun labbitúr upp í sveit gera mér gott og vonandi gefast sem flestar ferðirnar uppeftir.)

Í tilefni þessa paufaðist ég í morgun, í ófærðinni, upp í mýri þar sem Apótek Vesturlands er staðsett og kunni ekki við að kaupa dót undir fimmþúsundkallinum, þess vegna eignaðist Jósefína þennan fína bursta og ég krem o.s.fl., þótt mig vantaði bara eitt snitti af öðru. Ég horfði vorkunnaraugum á vesalings fólkið sem verður að versla í Bónus (í sama húsi) – sem betur fer þarf ég ekki að skipta við þá Bónusfeðga og hef reyndar ekki gert frá því þeir byggðu sér huggulegt útibú í útjaðri míns góða bæjar. Nei, þá er nú betra að halda sig við Einarsbúð, eins og almennilegur Skagamaður!

Mér vitanlega er Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, úr Ólafsvík. En hann er óneitanlega Skagamaður núna, Vestlendingur ársins 2009, og fyrrum ÍA fótboltastjarna! Þarf að segja meira? Árás á þennan lyfsala er í rauninni árás á fótboltamann í okkar liði … og hér í mínum litla góða bæ hafa menn fótbolta fyrir guðið sitt, hvað sem þeir nú kunna að gera á Snæfellsnesi. Þetta hefðu þeir Steingrímur og Karl átt að fatta.

Annað er sosum ekki títt. Við maðurinn fórum á tónleika í gærkvöldi … mjög huggulegir og reyndar einnig bráðfyndnir tónleikar Kammerkórs Akraness ásamt hliðargrúppum sem “írska” hljómsveitin (The Beginners?  Held hún heiti það.) endaði.

Krakkarnir í götunni eru hamingjusamir í snjónum en kettirnir í götunni eru ekki sama sinnis. Vesalings Jósefínu blöskrar þetta blauta kalda ódó og verður að halda sig meira og minna inni. Annað en hundar sem láta siga sér nánast út í hvaða veður sem er! Maðurinn horfði á Gunnhildi litlu af Hjarðarholtinu steypa sér út um gluggann sinn í morgun … og beint ofan í skafl! Aumingja Gunnhildur.

Ég er búin að lesa Stóru kattabókina og sé nú betur hvernig kötturinn fer að því að temja fólkið sitt. Svo kláraði ég líka Svörtuloft, svona la-la bók en mér finnst Sigurður Óli algerlega óþolandi karakter, minnir mig á Jardine heitinn (í Taggart) sem mér fannst einmitt einnig verulega óþolandi. Sennilega er Sigurður Óli reistur á Jardine, líkindin eru það mikil. Heftir kallar gætu kannski lært eitthvað af því að samsama sig löggunni Sigurði Óla ef glæpasagnir hafa þá yfirleitt freudískt lækningargildi.

Bless og takk fyrir fiskinn!

Fyrirsögnin er stolin frá (eða tilvísun til?) Douglas Adams, eins og einhverjir dyggu lesendanna átta sig eflaust á. Mér fannst hún við hæfi í ljósi þess að ég hætti að borða fisk á þrítugsafmæli mínu fyrir óralöngu og hef einungis étið svoleiðis fæðu í neyð (svo sem eins og í huggulegri 7 rétta fiskmáltíð einhvers staðar á Amalfi ströndinni fyrir mörgum árum, að viðstöddum mörgum vitnum sem tjáðu aðdáun sína á athæfinu  – hvað gerir maður ekki fyrir evrópskt samstarf?). Ég fullvissa lesendur um að ég hef löngu gleymt bókunum hans Douglasar nema broti hér og broti þar … og ég tel mig hvorki skáldsagnapersónu né höfrung.

En pirringurinn útí hin “akademísku” fræði, sem iðkuð eru á Melunum óx og óx. Mér varð ljóst að það væri ekki hollt fyrir mig að vera svona pirruð og tímdi ekki að splæsa takmarkaðri orku í að ná mér niður af þessu, henni er betur varið í annað. Sem ég var að íhuga þetta í gær birtist hönd guðs, í líki tölvupósts, og skaffaði mér miklu áhugaverðara verkefni sem ég mun hafa miklu meir gaman af. Svo ég sagði mig umsvifalaust úr kúrsinum sem ég var í og leið um leið miklu miklu betur. Seinna blogga ég sennilega nánar um reynsluna af hinu fræðilega, þegar ég verð komin með jafnt skap og mér verður orðið algerlega nett sama um þetta allt saman. 

Ég þakka Erlu, sem gerði athugasemdir við færsluna á undan, kærlega fyrir þær og ekki hvað síst fyrir að benda mér á Íslenskan Orðasjóð. Ég mun örugglega nýta mér hann í verkefninu sem ég fer næst í og lofa að hampa sem víðast enda bendir lausleg prufa til þess að verulegur fengur sé í þessu efni.  Það gefur þessu verkefni einnig huggulegan langsóttan fræðilegan Melastimpil að Árnastofnun linkar í stofnunina sjálfa (en ekki Íslenskan Orðasjóð) af vefsíðunni http://www.arnastofnun.is, undir Tenglar, undir Orðabækur og íðorð, undir Aðrir tenglar.

Sumsé er kominn tími til að snúa sér að öðru. Ég hef t.d. vanrækt óstafrænar hannyrðir alveg óskaplega upp á síðkastið; valið frekar að lesa grein hér og grein þar. En í fyrrakvöld fékk ég kostaboð, tengt hannyrðum og listum, í símtali og hlakka mjög til að taka því boði! Það mun örugglega kveikja undir hannyrðaáhuganum aftur. Ef færð gefur þegar fer að vora eða litlibróðir sækir mig á skektunni yfir Flóann …

Sem minnir mig á hversu arfavitlaust mér finnst að leggja af stað í gær með hátt í hundrað skólakrakka í skíðaferð norður! Að vísu gleðst ég yfir því að Gylfi frændi fær nógan bissniss í Borgarnesi núna … en fyrr má nú fyrrvera af þessum hafnfirsku grunnskóla-“ofurhugum”!  Færðin er þannig á því veðursæla Akranesi að sjálfstæður heimspekingur tók strætó í skólann sinn í morgun (ég kenndi honum á strætó í gærkvöld, lét hann fá útprentaðar áætlanir og strætómiða og hann horfinn núna svo þetta hlýtur að hafa gengið allt saman).  Meira að segja Fr. Dietrich hefur orðið að nota sitt inniklósett, hafandi þó lesið í týndum heimspekiritum að köttur pissar ekki tvisvar í sama sandinn … 

Nú er ég farin í hlutverk hinnar góðu húsmóður og hyggst ræsta þetta hús! Það verður í þriðja sinn (fjórða?) sem ég fæst við þessa iðju frá því í október á síðasta ári og augljóst að mér fer fram.

  

Ævispor enn á ný!

Ég brá mér með vinkonu minni til þurrabúðarinnar í dag enda veðurútlit hérna megin Flóans gott. Í þurrabúðinn reyndist hins vegar þetta venjulega þurrabúðarrok og skítakuldi!  Þrátt fyrir slakar umhverfisaðstæður má samt þorpið handan við eiga að ýmislegt má skoða innanhúss.

Þar á meðal er auðvitað sýningin Ævispor í Þjóðminjasafninu, sem ég skoðaði aftur af stakri ánægju en varð enn og aftur nánast klökk við – þetta er svo fallegt alltsaman! Ég fell gjörsamlega í stafi yfir litunum og vinnunni að baki verkunum. Svo skemmtilega vildi til að listakonan sjálf birtist þarna og við vinkona mín tróðum okkur að henni til að segja hvursu fögur verkin væru. Sömuleiðis gat ég náttúrlega ekki stillt mig um að tengja okkur saman gegnum skyldfólk og tengdir. Maður má monta sig þegar svo glæsileg er listin.

Næst lá leiðin á bókamarkað hvar ég var staðráðin í að kaupa ekki snitti enda bókaeign fjölskyldunnar orðin meiri en Lestrarfélags N-Þingeyinga, sem ég las í bernsku. Það gefur ótrúlega góðan grunn að lesa heilt bókasafn en vera ekki að spá í þessa nýmóðins skiptingu hvað teljist fyrir börn og hvað fullorðna. Það eina sem mér var beinlínis bannað að lesa voru Gleðisögur Balzacs sem varð auðvitað til þess að ég paufaðist vandlega í gegnum þá bók og geymdi hana undir rúmi ef einhver sá til mín. Þarf varla að taka fram hvílíkt uppistand varð þegar móðir mín hugðist skúra undir þessu sama rúmi … enda var það einmitt hún sem taldi þetta klámsögu og  ekki fyrir börn! (Myndin sýnir Honore de Balzac, f. 1799, d. 1850.) Mig minnir að bókin hafi verið hrútleiðinleg …

Því miður var ég ekki nógu staðföst á bókamarkaðnum og keypti smáræði, þar merkilegast náttúrlega Stóra kattabókin og Blái Engillinn, úr lífssögu Marlene Dietrich. Þetta flokkast þægilega undir nauðsynleg uppsláttarrit vegna Fr. Jósefínu.  Þegar ég skoðaði myndir af Marlene D. á Vefnum rann upp fyrir mér hvers vegna Fr. Jósefína Dietrich er svona svakalega meðvirk reykingamönnum … hún rífur sig meira að segja á allar fjórar lappirnar til að fara út á stétt með reykjandi eigandanum.

Ég er reyndar doldið spennt að lesa ævisöguna Goodbye to Bacchus, útgefna 1953, en er annars að drukkna í allrahanda ólesnum bókum og var að sækja Svörtuloft Arnalds af bókasafni míns góða o.s.fr. þannig að kvöldinu er bjargað.

Þriðja seværdigheden var svo sokkabuxnabúð í Kringlunni, hvar ég leitaði að alminlegum gammosíum og náði að kaupa eitthvað sem líktist því. Nú má fara að ganga í kvenlegra dressi en gallabuxum þrátt fyrir helv. kuldann! A.m.k. hér á mínum góða Skaga.

Á morgun er ég að hugsa um að verða samferða mínum manni til sömu þurrabúðar á ný en nota tímann til að sörfa á Þjóðarbókhlöðu og ljósrita einhverjar greinar ef í þeim finnst bitastætt efni fyrir mig.

Klikk á móðurmorðinu: Sálgreining og kvennabókmenntafræði

Geðvond sem ég var í gær fannst mér upplagt að æxla mér bækur sem myndu væntanlega fara í taugarnar á mér. Þetta er svipuð hugsun og liggur að baki hómópatíu, þ.e.a.s. stundum virkar að lækna pirringinn með örskammti af pirringi. Alveg eins og ég hressist aðeins í djúpu þunglyndi við að hlusta á jarðarfararsálma sungna af Ellen Kristjánsdóttur.

Ég tók sumsé Óþarfar unnustur o.s.fr. eftir Helgu Kress og Svarta sól eftir Juliu Kristevu á bókasafni míns góða Kardimommubæjar. Komst svo að því að ég hafði akkúrat lesið greinarnar Helgu sem ég á að lesa fyrir kúrsinn sem ég er í en það breytti ekki því að kona gat enn og aftur skemmt sér yfir frösum á borð við “Hárskerðing er auk þess viðurkennd táknmynd geldingar, og Hallgerður sem hefur bæði vald á spuna og hári, neitar að gelda sjálfa sig.” (s. 26) Marga fleiri gullmola má finna í Óþörfum unnustum en ég ætla ekki að láta hanka mig á ritstuldi og vitna því ekki meir í þá bók.

Svört sól kom mér dulítið á óvart fyrst og fremst vegna þess hve lítið óskiljanleg hún er. Þýðandinn hlýtur að hafa unnið kraftaverk! (Formáli Dagnýjar Kristjánsdóttur var einnig skiljanlegur, sem kom mér líka þægilega á óvart.) Undirtitill Svartrar sólar er Geðdeyfð og þunglyndi (já, ég veit ég sagði í bloggfærslu um daginn að ég ætlaði ekki að lesa hana en af því blogg er æðislega óáreiðanlegur og ófræðilegur vettvangur geta lesendur aldrei treyst neinu í þeim efnum, ekki einu sinni bloggynju sjálfri!). Julia Kristeva lærði sálgreiningu og prufaði á eigin kroppi og sál, einnig virðist hún eitthvað hafa unnið við fagið, þ.m.t. inni á geðspítölum. Þess vegna eru lýsingar hennar á þunglyndiseinkennum og þunglyndissjúklingum fremur raunsæjar. Svört sól er mjög flott myndhverfing fyrir líf í þunglyndi, finnst mér, mun flottari en svartur hundur. 

Það er hins vegar túlkunin sem var bloggynju kærkomið pirringsefni, í gærkvöldi, og sló á pirringinn sem fylgir lyfjaniðurtröppuninni. Hafi ég ekki misskilið Fr. Kristevu þess meir er þunglyndi mitt sprottið af því að inni í mér er svartamyrkur (en þó ekki) hvar í dylst (jafnvel vex) Hluturinn, sem ég næ ekki að díla við af því ég klikkaði í bernsku á því að framkvæma móðurmorðið nauðsynlega nógu vel. Auk þess afneita ég afneituninni um að tungumálið geti komið í stað móðurinnar (?).

Þægilegra er fyrir dyggu blogglesendurna mína að fá endursögn Dagnýjar á fyrirbærinu: “Innsta eðli sjálfsverunnar er þá ekki það tóm sem þunglyndissjúklingurinn segir að kvelji sig. Það er eitthvað inni í myrkrinu, eitthvað sem ekki er hægt að lýsa eða tákna með orðum, en það er þarna samt. Kristeva kallar það “hlutinn.” “Hluturinn” er fyrstu áhrifin sem umheimurinn hefur á ungbarnið. Þetta eru áhrif sem verða stofninn í þeim tilfinningum sem síðar munu tengjast ákveðinni persónu, fyrsta viðfangi barnsins. Þessi áhrif eru frumstæð skynjun, sem ekki er hægt að lýsa “eins og þau eru” vegna þess að barnið er ómálga og “hugsar” ekki á þessu stigi. …

Skilgreining Kristevu á “hlutnum” í kenningum hennar um þunglyndi er … “Hinn þunglyndi narsisti syrgir ekki Viðfang heldur Hlutinn. Ég vil lýsa “Hlutnum” sem því raunverulega sem lætur ekki tákna sig, miðpunkti aðlöðunar og viðbjóðs, aðsetri þeirrar kynverundar sem hið þráða viðfang mun skilja sig frá.” (s. 37 – 38) “Hluturinn er bundinn móðurinni eða fyrstu skynjunum okkar og ímyndunum um móðurlíkamann. … “Hluturinn verður að “hverfa” eins og hann leggur sig … Þetta “móðurmorð” er forsenda þess að verða mennskur, verða talandi og táknandi vera..” (s. 39) O.s.fr.  [Ég reikna með að stúlkubarnið á myndinni hafi eitthvað klikkað á sínu móðurmorði.]

Geðveik bloggynjan er náttúrlega doldið paff yfir þessum upplýsingum og veltir því fyrir sér hvort borgi sig að bera þetta á borð fyrir sinn góða lækni í næsta viðtalstíma. En sama bloggynja sér í hendi sér að það mætti sviga alveg helling úr þessum kenningum til að gefa hugsanlegri umfjöllun um eitthvað faglegt og fræðilegt yfirbragð. Þannig nýtist þessi texti bæði brjáluðum og óbrjáluðum bókmenntafræðingum framtíðarinnar.

Þótt ég vilji ekki ganga fram af lesendum má ég til með að birta aðra tilvitnun, í þetta sinn úr texta Kristevu sjálfrar. Kann að vera að einhverjum þyki smásmygli en af því ég er að koma mér upp áhugamálinu “Hvernig vitnar maður í Aristóteles?” gladdi þessi klausa mig, einkum eftir að hafa spurt Heimspekinginn í hinum ytra heimi, þ.e. í hinni tölvunni. Á s. 54-55 stendur: “Sá sem er þunglyndur er heimspekingur þegar efinn sækir á hann. Heraklítus, Sókrates og nær okkur í tíma, Kierkegaard, hafa ritað mögnuðustu verkin um merkingu og merkingarleysi Verunnar. Þó þarf að leita aftur til Aristótelesar til að finna heildstæða hugleiðingu um vensl heimspekinga við þunglyndið. …” [Sleppi aumingja Aristótelesi í þetta sinn. Myndin er af Júlíu Kristevu.]

Heimspekingurinn staðfesti að talið væri að Heraklítus hefði skrifað bók en hún væri aftur á móti löngu glötuð og einungis varðveittar fáeinar [sláandi? hundrað?] staðhæfingar Heraklítusar, á borð við að allt hreyfist (panta hrei) og að maður geti ekki stigið í sama vatnið tvisvar og að vegurinn upp sé einnig vegurinn niður o.s.fr. Sjá t.d. skemmtilegt svar á Vísindavef. Heimspekingurinn minn heldur því einnig fram að Sókrates hafi ekki skrifað bók svo vitað sér (en sló varnagla með að handrit væru náttúrlega alltaf að finnast … held að varnaglinn sé byggður á hugmyndum Dan Brown og fylgismanna hans, svo framarlega sem nagli geti verið byggður).

Það er náttúrlega við hæfi að heimspekileg undirstaða fræðanna (Kristevu) sé einmitt ekki undirstaða, þ.e.a.s. að hin “mögnuðustu verkin” skuli einmitt aldrei hafa verið til. Mér finnst það mjög í anda kenninganna. Aftur á móti hefði verið huggulegt að þessa væri getið í innganginum, svona til að skemmta alþýðunni. (Mér er ljóst að Kirkgaard var til en skil ekki alveg af hverju hann er grúppaður með þeim gömlu grísku, í þessari staðhæfingu.)

Þannig að nú ólga í sálarlífinu allskonar spennandi hugmyndir um vatn, geldingu, móðurmorð, löngu dauða heimspekinga sem skrifuðu bækur sem má byggja á þrátt fyrir að slíkar bækur hafi aldrei fundist, afneitun gegn nauðsynlegu afneituninni og jafnvel að þunglyndissjúklingur fái kikk út úr að vera þunglyndur (þetta orðar Fr. Kristeva í löngu máli og flóknu og kann að vera að bloggynja hafi hreinlega misskilið hana öfugt) og að þunglyndum finnist gaman að því að blaðra en allt sé það án tilfinninga og innihaldslaust þannig séð. [Þegar Fr. Kristeva samdi Svarta sól var ekki búið að finna upp bloggið en það ætti einmitt að vera kjörið fyrir okkur narsísku lítt-móður-myrðandi þunglyndissjúklingana.]

Miðað við forsendur sálgreiningar og niðurstöður Fr. Kristevu er DAM mjög lokkandi og auðskilinn kostur, verð ég að segja. Enda byggt á zen-búddisma en ekki gömlu grísku meintu rithöfundunum.

 P.s. Einhverra hluta vegna dreymir mig aldrei mannát. Er hugsanlegt að ég sé alls ekki þunglynd og með kvíðaröskun, úr því ég passa að þessu leyti ekki við hugmyndir Freuds gamla?