Geðvond sem ég var í gær fannst mér upplagt að æxla mér bækur sem myndu væntanlega fara í taugarnar á mér. Þetta er svipuð hugsun og liggur að baki hómópatíu, þ.e.a.s. stundum virkar að lækna pirringinn með örskammti af pirringi. Alveg eins og ég hressist aðeins í djúpu þunglyndi við að hlusta á jarðarfararsálma sungna af Ellen Kristjánsdóttur.
Ég tók sumsé Óþarfar unnustur o.s.fr. eftir Helgu Kress og Svarta sól eftir Juliu Kristevu á bókasafni míns góða Kardimommubæjar. Komst svo að því að ég hafði akkúrat lesið greinarnar Helgu sem ég á að lesa fyrir kúrsinn sem ég er í en það breytti ekki því að kona gat enn og aftur skemmt sér yfir frösum á borð við “Hárskerðing er auk þess viðurkennd táknmynd geldingar, og Hallgerður sem hefur bæði vald á spuna og hári, neitar að gelda sjálfa sig.” (s. 26) Marga fleiri gullmola má finna í Óþörfum unnustum en ég ætla ekki að láta hanka mig á ritstuldi og vitna því ekki meir í þá bók.
Svört sól kom mér dulítið á óvart fyrst og fremst vegna þess hve lítið óskiljanleg hún er. Þýðandinn hlýtur að hafa unnið kraftaverk! (Formáli Dagnýjar Kristjánsdóttur var einnig skiljanlegur, sem kom mér líka þægilega á óvart.) Undirtitill Svartrar sólar er Geðdeyfð og þunglyndi (já, ég veit ég sagði í bloggfærslu um daginn að ég ætlaði ekki að lesa hana en af því blogg er æðislega óáreiðanlegur og ófræðilegur vettvangur geta lesendur aldrei treyst neinu í þeim efnum, ekki einu sinni bloggynju sjálfri!). Julia Kristeva lærði sálgreiningu og prufaði á eigin kroppi og sál, einnig virðist hún eitthvað hafa unnið við fagið, þ.m.t. inni á geðspítölum. Þess vegna eru lýsingar hennar á þunglyndiseinkennum og þunglyndissjúklingum fremur raunsæjar. Svört sól er mjög flott myndhverfing fyrir líf í þunglyndi, finnst mér, mun flottari en svartur hundur.
Það er hins vegar túlkunin sem var bloggynju kærkomið pirringsefni, í gærkvöldi, og sló á pirringinn sem fylgir lyfjaniðurtröppuninni. Hafi ég ekki misskilið Fr. Kristevu þess meir er þunglyndi mitt sprottið af því að inni í mér er svartamyrkur (en þó ekki) hvar í dylst (jafnvel vex) Hluturinn, sem ég næ ekki að díla við af því ég klikkaði í bernsku á því að framkvæma móðurmorðið nauðsynlega nógu vel. Auk þess afneita ég afneituninni um að tungumálið geti komið í stað móðurinnar (?).
Þægilegra er fyrir dyggu blogglesendurna mína að fá endursögn Dagnýjar á fyrirbærinu: “Innsta eðli sjálfsverunnar er þá ekki það tóm sem þunglyndissjúklingurinn segir að kvelji sig. Það er eitthvað inni í myrkrinu, eitthvað sem ekki er hægt að lýsa eða tákna með orðum, en það er þarna samt. Kristeva kallar það “hlutinn.” “Hluturinn” er fyrstu áhrifin sem umheimurinn hefur á ungbarnið. Þetta eru áhrif sem verða stofninn í þeim tilfinningum sem síðar munu tengjast ákveðinni persónu, fyrsta viðfangi barnsins. Þessi áhrif eru frumstæð skynjun, sem ekki er hægt að lýsa “eins og þau eru” vegna þess að barnið er ómálga og “hugsar” ekki á þessu stigi. …
Skilgreining Kristevu á “hlutnum” í kenningum hennar um þunglyndi er … “Hinn þunglyndi narsisti syrgir ekki Viðfang heldur Hlutinn. Ég vil lýsa “Hlutnum” sem því raunverulega sem lætur ekki tákna sig, miðpunkti aðlöðunar og viðbjóðs, aðsetri þeirrar kynverundar sem hið þráða viðfang mun skilja sig frá.” (s. 37 – 38) “Hluturinn er bundinn móðurinni eða fyrstu skynjunum okkar og ímyndunum um móðurlíkamann. … “Hluturinn verður að “hverfa” eins og hann leggur sig … Þetta “móðurmorð” er forsenda þess að verða mennskur, verða talandi og táknandi vera..” (s. 39) O.s.fr. [Ég reikna með að stúlkubarnið á myndinni hafi eitthvað klikkað á sínu móðurmorði.]
Geðveik bloggynjan er náttúrlega doldið paff yfir þessum upplýsingum og veltir því fyrir sér hvort borgi sig að bera þetta á borð fyrir sinn góða lækni í næsta viðtalstíma. En sama bloggynja sér í hendi sér að það mætti sviga alveg helling úr þessum kenningum til að gefa hugsanlegri umfjöllun um eitthvað faglegt og fræðilegt yfirbragð. Þannig nýtist þessi texti bæði brjáluðum og óbrjáluðum bókmenntafræðingum framtíðarinnar.
Þótt ég vilji ekki ganga fram af lesendum má ég til með að birta aðra tilvitnun, í þetta sinn úr texta Kristevu sjálfrar. Kann að vera að einhverjum þyki smásmygli en af því ég er að koma mér upp áhugamálinu “Hvernig vitnar maður í Aristóteles?” gladdi þessi klausa mig, einkum eftir að hafa spurt Heimspekinginn í hinum ytra heimi, þ.e. í hinni tölvunni. Á s. 54-55 stendur: “Sá sem er þunglyndur er heimspekingur þegar efinn sækir á hann. Heraklítus, Sókrates og nær okkur í tíma, Kierkegaard, hafa ritað mögnuðustu verkin um merkingu og merkingarleysi Verunnar. Þó þarf að leita aftur til Aristótelesar til að finna heildstæða hugleiðingu um vensl heimspekinga við þunglyndið. …” [Sleppi aumingja Aristótelesi í þetta sinn. Myndin er af Júlíu Kristevu.]
Heimspekingurinn staðfesti að talið væri að Heraklítus hefði skrifað bók en hún væri aftur á móti löngu glötuð og einungis varðveittar fáeinar [sláandi? hundrað?] staðhæfingar Heraklítusar, á borð við að allt hreyfist (panta hrei) og að maður geti ekki stigið í sama vatnið tvisvar og að vegurinn upp sé einnig vegurinn niður o.s.fr. Sjá t.d. skemmtilegt svar á Vísindavef. Heimspekingurinn minn heldur því einnig fram að Sókrates hafi ekki skrifað bók svo vitað sér (en sló varnagla með að handrit væru náttúrlega alltaf að finnast … held að varnaglinn sé byggður á hugmyndum Dan Brown og fylgismanna hans, svo framarlega sem nagli geti verið byggður).
Það er náttúrlega við hæfi að heimspekileg undirstaða fræðanna (Kristevu) sé einmitt ekki undirstaða, þ.e.a.s. að hin “mögnuðustu verkin” skuli einmitt aldrei hafa verið til. Mér finnst það mjög í anda kenninganna. Aftur á móti hefði verið huggulegt að þessa væri getið í innganginum, svona til að skemmta alþýðunni. (Mér er ljóst að Kirkgaard var til en skil ekki alveg af hverju hann er grúppaður með þeim gömlu grísku, í þessari staðhæfingu.)
—
Þannig að nú ólga í sálarlífinu allskonar spennandi hugmyndir um vatn, geldingu, móðurmorð, löngu dauða heimspekinga sem skrifuðu bækur sem má byggja á þrátt fyrir að slíkar bækur hafi aldrei fundist, afneitun gegn nauðsynlegu afneituninni og jafnvel að þunglyndissjúklingur fái kikk út úr að vera þunglyndur (þetta orðar Fr. Kristeva í löngu máli og flóknu og kann að vera að bloggynja hafi hreinlega misskilið hana öfugt) og að þunglyndum finnist gaman að því að blaðra en allt sé það án tilfinninga og innihaldslaust þannig séð. [Þegar Fr. Kristeva samdi Svarta sól var ekki búið að finna upp bloggið en það ætti einmitt að vera kjörið fyrir okkur narsísku lítt-móður-myrðandi þunglyndissjúklingana.]
Miðað við forsendur sálgreiningar og niðurstöður Fr. Kristevu er DAM mjög lokkandi og auðskilinn kostur, verð ég að segja. Enda byggt á zen-búddisma en ekki gömlu grísku meintu rithöfundunum.
P.s. Einhverra hluta vegna dreymir mig aldrei mannát. Er hugsanlegt að ég sé alls ekki þunglynd og með kvíðaröskun, úr því ég passa að þessu leyti ekki við hugmyndir Freuds gamla?