Category Archives: Uncategorized

Hundaskítur: Innlegg í nýja hitamálið!

Í mínum Kardemommubæ hefur gosið upp mikið hitamál undanfarna daga. Bæjarstjórn hefur samþykkt að láta greiða atkvæði um hundahald hér í bænum í næstu kosningum. Hundaeigendur eru náttúrlega á háa c-inu yfir þessu og hafa stofnað fésbókarsíðu og hyggjast halda baráttufund og stofna hagsmunafélag og ég veit ekki hvað og hvað!

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti hundum. Er enda nýbúin að heimsækja einn slíkan, afar vel upp alinn. Stundum er hundurinn besti vinur mannsins, eins og t.d. hann Koni sem sést hér á lítilli mynd með eiganda sínum: Sé smellt á litlu myndina fæst stærri (sem aðdáendur Koni eða eigandans gætu prentað út og rammað inn).

Ég hef hins vegar ýmislegt á móti sóðalegum illa uppöldum hundaeigendum og ekki hvað síst þeim drullusóðum / drullusóða sem leyfa / leyfir sínum hundi eða lætur sinn hund nota bakgarðana okkar við Vallholtið fyrir kamar, jafnvel framgarða einnig.  Þessir hundaeigendur eru ekki bara sóðar heldur húðarletingjar að auki því þeir nenna ekki að hirða upp lortana eftir að hundurinn hefur gert þarfir sínar. Það gera hins vegar ábyrgir hundaeigendur.

Bærinn er fullur af hundaskít! Það þarf nú ekki nema skreppa í stuttan labbitúr til að fullvissa sig um það. Hundaeigendur eru eitthvað að mjálma (já, merkilegt að þeir skuli gera slíkt) um að ruslatunnur bæjarins séu of fáar. Er ekki hægt að fá svona skitupoka í mismunandi stærðum? Sé svo ekki þá trúi ég ekki öðru en venjulegur eldhúsruslapoki mundi duga milli ruslatunna, þótt hátt í 100 metrar væru milli þeirra, nema hundurinn sé með skitu.

Drellarnir í mínum bakgarði eru sko engin smásmíði, skal ég segja ykkur! Ég skrapp út og tók myndir af nokkrum þeirra (smellið á litlu myndirnar og sjáið stærri útgáfu ef ykkur lystir). Til að sýna stærðarhlutföll notaði ég rauðan risa-ópalpakka af því eldspýtustokkar liggja ekki lengur á lausu (hvað þá jarðfræðihamrar) og ég kunni ekki við að leggja fram langan Winston. Flestir, trúi ég, vita nokkurn veginn stærð risa-ópal-pakka og geta ályktað hundaskítinn af honum.

Ég hef rökstuddan grun um að þessi hundaskítur sé eftir svartan labradorhund en hef ekki hugmynd um hver gæti átt kvikindi sem gengur um með þessum hætti. Enginn í götunni held ég. Nei, ég held að eigandinn viðri dýrið, t.d. snemma á morgnana, og noti þá tækifærið og sleppi greyinu lausu til að skíta í annarri götu en heimagötu – e.t.v. er þetta einhver eldri borgari sem vill hafa sama skikk og í sveitinni forðum? Allt svo ósköp frjálst?  Óvart er Stór-Akranes-bærinn ekki sveit heldur 6000 – 6500 manna byggðarlag (ég hef ekki fylgst með nýjustu tölum). Óljósar fregnir herma að stundum komi unglingur með svona svart laust kvikindi í heimsókn í bílskúrinn á Hjarðarholtinu hér fyrir aftan mig. Ég hef einmitt séð svartan labrador ráfa þar um í reiðileysi. Garðurinn minn er ekki ríglokaður og t.d. tölta Hjarðarholtsbúandi fjölbrautaskólanemar hér oft í gegn. Það truflar mig ekki. Sömuleiðis er minn garður, eins og allir hinir garðarnir við Vallholtið, galopinn frá þeirri götu.

Þeir sem ekki vita hvernig svartur labrador lítur út geta bara skoðað hann / hana Koni sem myndskreytir færsluna hér að ofan.  

Þeir sem ekki eru klárir á hundaskít geta smellt á myndina hér til hliðar til að fá stærri útgáfu og glöggva sig á ódámnum.

Skítseiðið sem á hundinn ætti auðvitað að skammast sín og mæta hingað á Vallholt 19 með skóflu og poka! Ég myndaði nefnilega bara sýnishorn en þetta ógeð er út um allt; undir snúrunum, upp við girðingu o.s.fr. Mér skilst að á nr. 21 hafi verið vandræði með að leyfa krökkunum að leika sér í garðinum nema byrja á að gera mega-kamarhreingerningu eftir hundinn ókunna en grunaða! Ef einhver veit hver á sökudólginn þætti mér ágætt að fá upplýsingar um það svo ég geti haft samband við hundaeftirlitsmann bæjarins! (Er nýbúin að frétta að svoleiðis gaur er til.)

Ef þessu hundaskítsfári linnir ekki (og það er ólíklegt, því þetta hefur gengið svona í meir en ár) er augljóst hvernig ég greiði atkvæði þegar kosið verður um hvort leyfa eigi hundahald áfram á Akranesi! Fari svo að hundahald verði leyft áfram, vonandi með strangari skilyrðum, ætla ég að sækja um að fá að gaddavírsgirða allan garðinn hér á Vallholti 19. Plantar svo berberis-hekki þar innan við, allan hringinn!

P.s. Getur einhver útskýrt fyrir mér lógíkina í því að strætómiðar séu eingöngu seldir upp í sundlaug / á Jaðarsbökkum?  Mér skilst að þetta finnist stjórnendum litla kardimommu … o.s.fr. svo agalega augljóst eitthvað að þeir auglýsa það ekki einu sinni á bæjarsíðunni sinni (reyndar er hún svo illa ofin að e.t.v leynist þar auglýsing undir t.d. upplýsingum um æskulýðsmál … nenni ekki að gá að slíku). Ég á ekkert erindi á Jaðarsbakka og er örugglega ekki eini antisportistinn í bænum. Væri ekki vitlegra að selja þessa miða í nýju þjónustuveri bæjarins, í núverandi miðbæ?

Rægirófa? Og heilsufarsfarsinn og sumarið sem bíður

Í gær fór ég í heimsókn hvar býr undurfagur, afar loðinn, sérlega vingjarnlegur og gestrisinn hundur. Hann sannar að “Big” getur verið “beautiful”, sem ég hef einmitt verið að segja sjálfri mér, þá sjaldan ég stíg á vigt. (Í mínum kreðsum er reyndar oftar notað slagorðið “Betra að vera feitur en fullur!” en það á kannski ekki alveg við núna.)

Jólagjöfin mín, fr. Jósefína Dietrich, hefur aftur á móti ekki enn öðlast þessa lífsvisku. Enda snúast áhugamál hennar um annað, flesta daga. Svo hún velti ekki fyrir sér líkamsvexti og fegurð eða kynþætti heldur klagaði án afláts í aðra fjölskyldumeðlimi yfir hve mikil fýla væri af eigandanum! (Sjá fésbók téðrar Jósefínu. Kötturinn er pjúra rasisti, ekki spurning!) Ég skipti auðvitað um föt enda öll í hundshárum en það dugði ekki til … Jósefína beit mig í þrígang þegar ég reyndi að fara vel að henni með því að strjúka neðri vör litlu rófunnar, sem henni þykir einmitt allra best! 

Nú er ég búin að skúra mig og skrúbba svo kattarrófan hefur tekið mig í sátt. En mér brá þegar ég heyrði hvað stýrið litla var duglegt að klaga; gekk hér um grenjandi meira og minna allan seinnipartinn og kvöldið!

Annað af dýrinu er þetta að frétta:

Í hvert sinn sem Jósefína kemur inn er hún málóði um stund yfir öllum þeim lystisemdum og lífshættum sem hverfið býður uppá!  Þá er ekki um annað ræða en róa frökenina, með neðrivararstrokum. Ég er svo sem ekki hissa því hér eru kettir í öðru hvoru húsi og hundar í hinu hverju húsinu. Tveir flagarar ganga stöðugt um og merkja sín óðul, sennilega svona 5 km radíus. Satt best að segja held ég að þeir telji sig eiga sama óðalið báðir og því er nánast fullt starf allan sólarhringinn að míga yfir merki hins flagarans. Eitt sinn sá ég annan þeirra hlaupa á eftir litlu kisu í næsta húsi, hefur sjálfsagt ætlað að flaga hana (=fífla) en hún, lítil og nett, sveif inn um mjóa gluggagátt, sem flagarinn hafði ekkert í. (Síðarmeir sá ég klaufskan gulbröndóttan kött spóla sig inn um sömu gluggagátt, fékk staðfest að þetta væri sennilega fr. Dietrich, sem líkast til stelur kattamatnum litlu kisu á hverjum degi.) Já, dramatíkin í kattalífinu hér utanhúss lætur ekki að sér hæða!

Fräulein Dietrich tók svo eftir því núna í vikunni að fólk sefur almennt í rúmum. (Athygli hennar og heilafrumur höfðu verið bundnar við annað og hún hafði ekki tekið eftir þessu áður.) Að sjálfsögðu finnst henni helv… ósanngjarnt, núna þegar hún hefur fattað venjulega svefnsiði, að hún ein skuli eiga að sofa á teppi á stól eða teppi á sófa! (Dýrið hefur harðneitað að sofa í körfu, sennilega út af því tráma sem hlýst af því að búa í pínulitlu búri í Kattholti mánuðum saman.) Þau unglingurinn hafa þegar tekist á um rúm unglingsins; “hún hélt sér með öllum klónum” sagði unglingurinn, sem tvangs-færði Jósefínu greyið úr sínu rúmi yfir á teppi + stól í næsta herbergi. Í dag, meðan ég var að reyna að leggja mig, klagaði hún hástöfum yfir óréttlætinu og reyndi að skríða upp í hjónarúmið og trampa sér þar slétt bæli (siður af sléttunni í árdaga sem hefur stimplast inn í mænukylfu hunda og katta) en ég harðneitaði enda hefði hún örugglega bitið mig (ég var nefnilega ekki búin að fara í sturtubaðið þá).  Svo ef einhver hefur hug á að gefa Jósefínu afmælis- eða jólagjöf í desember þá er rétt að fara að handsmíða lítið  en fullorðinslegt huggulegt rúm eða vera á höttunum eftir dúkkuvöggum, sem einu sinni fengust svo ljómandi fallega fléttaðar af blindum.

Af mér er það að frétta að mér líður heldur skár en undanfarna daga. Helv… pillurnar eða ekki-pillurnar eru ekki eins mikið að hrella kropp og höfuð. Samt er ég alltaf að fá “yfir höfuðið” eða “í hnén” og þar sem ég er ekki nýlega ástfangin er þetta sjálfsagt út af Lyricunni.  Verður voða gaman þegar ég verð orðin clean and sober af því lyfi!

Góðu fréttirnar eru þær að hinn gáfaði heimspekingur heimilisins (núverandi ferðamálafrömuður) hefur fundið litla kríska þorpið sem þau John Lennon og Janis Joplin dvöldu forðum í (sennilega þó ekki samtímis). Þetta er eitt af þessum huggulegu litlu pínuþorpum, í slælegu vegasambandi, og einkennist af fjölda hella, rétt við ströndina. Kannski hafa þau John og Janis skroppið öðru hvoru inn í helli og medíterað, e.t.v. með einhverri efnahjálp? Ég gæti, eftir að hafa skoðað myndir, mjög vel hugsað mér að liggja á tiltölega fámennri og eyðilegri strönd og droppa inn í einn og einn helli inn á milli og gjörhygla, án annarra efna en þess slæma tóbaks …

Maðurinn er búinn að kaupa flug, gegnum Köben, og gistingu fyrstu og síðustu dagana á Krít. Svo er hann búinn að áætla annan kostnað við gistingu (Köben meðtalin) og þegar upp er staðið erum við að fara í 30 daga ferð þar sem flug og gisting kostar u.þ.b. það sama og Heimsferðir bjóða í 10 daga ferðum til Bodrum (hér er líka miðað við flug og gistingu en ekki fæði). Við vorum svo sem búin að fatta að bæði er miklu erfiðara að skipta við ísl. ferðaskrifstofur og meira maus að komast út úr pakkaferðinni en skipuleggja bara sjálf. Samt erum við að kaupa farið með Icelandair til Köben og það félag hefur nú hingað til ekki þótt nein lágvöruverslun. Hefðum við keypt bara far fram og til baka til Bodrum, með Heimsferðum eða Vita hefði það orðið miklu dýrarara heldur en flugið sem við höfum nú keypt af því þeir refsa fólki fyrir að vilja ekki vera í pakkaferð með því að selja strípað flugfar (með leiguvélinni) enn dýrara.  Svo harðneituðu bæði félög að selja annað en 10 daga klippt og skorið. Að vísu missum við þá af Leros og Patmos í ár (Tylftareyjunum) en ég er ágætlega sátt við Krít; Chania (mikið af búðum og fólki), Sougia (gamall hippastaður en fær 0 fyrir skemmtanalíf og verslun) og þetta hellavæna þorp sem virðist af sama tagi og Sougia. Ef ég verð orðin vel sjóuð í kenningum um karlmennsku þori ég e.t.v. til Agia Suaki (?) þar sem enn tíðkast blóðhefndir; karlar hefna sín með því að fífla heimasætur og bræður stúlknanna fara svo og murka lífið úr fíflaranum eða einhverjum af hans ætt með byssum eða lagvopnum. Svo er kvittað fyrir það! Sumsé samfélag sem líkist þjóðveldisöld og gæti verið áhugavert að skoða, ef kona þorir …

Þetta er orðið gott – ég þakka þeim sem hafa sig í gegnum svo langa færslu sem flakkar út og suður!

Þetta lagast ábyggilega …

Dagurinn í gær var ömurlegur. Ég reyndi að lesa en efnið hvarf jafnharðan úr hausnum; svo á ég í mesta baksi við að enda setningar. (Byrja á spurningu: “Ætlar þú að … að … að … á morgun, skilurðu?” og álíka þrugl, þegar ég ætla t.d. að spyrja manninn hvort og hvenær hann færi til þurrabúðarinnar á morgun. Þríspurði síðan Vífil um eitthvað og gleymdi jafnharðan. Það er helst að kötturinn láti sig þetta málstol litlu varða enda skilur hún eftir tóntegund en ekki orðum, litla skinnið.) Þetta er algengt þunglyndiseinkenni svo ég er ekki hrædd um að vera komin með Alzheimer: Þetta gengur til baka einhvern tíma (hefur a.m.k. alltaf gert það).

Lyricu hefur að hálfu verið hent út í hafsauga. Við það hvarf kökkurinn í hálsinum nánast (ég var farin að gæla við æxli) og hóstinn minnkaði. Sömuleiðis hafa sjóveikieinkenni tónast niður í eftirköst-af-suðvestan-golu-með-Akraborg. Ég þori ekki að slaufa allri Lyricunni í einu, best að taka a.m.k. viku í þetta, enda hætti ég á síðasta þunglyndislyfinu í gær (sem var nú ekki brýn nauðsyn en úr því það lyf hafði ekki haft nein áhrif fannst mér alveg eins gott að sleppa því líka). Það er ekki gott að vera að hætta á mörgum lyfjum í einu, hver hætting fyrir sig er nógu erfið!

Kannski er þetta skýringin á því að ég vaknaði með hausverk dauðans klukkan 6 í morgun en náði honum úr mér með tveimur rótsterkum kaffibollum. Kötturinn gleðst yfir því hve bloggynja og eigandi hans er árrisul (og árvökul, þannig séð).

Þegar ég verð orðin “hrein” af aðalþunglyndislyfinu (þ.e. lyfjalaus í þrjár vikur) má fara að skoða tilraunir með ósérhæfða MAO-blokkarann, sem er kominn til landsins. Þá verð ég lögð inn á deild, til öryggis og mér til hægðarauka.

Þ.a.l. hef ég reiknað út að ég þyrfti að klára miðannarverkefni í Karlmenn í blíðu og stríðu svona viku á undan hinum því ég er ekki viss í hvaða standi ég verð þegar svokölluð verkefnavika verður í HÍ (það er svoleiðis mulið undir nemendur að menn fá frí til að vinna verkefni! Þetta er greinilega staðurinn þegar ég verð orðinn öryrki!). Svo veit ég ekki hvernig mundi ganga að vinna verkefni inni á geðdeild, þar er svoddan erill og ég þyrfti að fara upp á Þjóðarbókhlöðu til að prenta út, lesa yfir o.þ.h. Á þessari stundu hvarflar auðvitað að mér að hætta bara í kúrsinum því ég er svo mikill aumingi. Á hinn bóginn togar að mig langar að standa mig vel og ætti að hafa alla burði til þess, væri ég með fúlle femm og fulla starfsorku. Sem ég er auðvitað ekki, annars væri ég ekki í veikindafríi … 

Mér hefur dottið verkefni í hug en er svo hugfötluð í augnablikinu að mér gengur dj…lega að koma einhverju vitrænu skipulagi niður á blað. Nokkrir göngutúrar á sólbjörtum Sandinum myndu kippa þessu að einhverju leyti í liðinn en nú er skýjað dag eftir dag …

Það eina sem telja má mér til tekna er að ákveðinni föttun laust í niður í huga mér í gær og ég sendi manninn út á bókasafn til að sækja ævisögu Steingríms Hermannssonar, til tékkunar. Kom mér á óvart hvað fyrsta bindið er skemmtilegt – aftur á móti voru hin tvö mestöll um pólitík og því hraðflettanleg. Ég tel að tilgáta mín hafi verið staðfest en get ekki farið meira út í þá sálma hér á blogginu. Var soldið ánægð með mig yfir að hafa þó fattað eitthvað miðað við hversu sljó ég er þessa dagana.

En nú er ég farin að lesa gegnum 4 eddukvæði – blessunarlega hef ég sennilega lesið obbann af þeim áður, sem hjálpar þokukenndum huga!

Lyrica =>Sloppadagur. En ekki hvað?

Núna er mér hrikalega flökurt, ég stíg ölduna og er reikul í spori, eitthvert ógeð stíflar á mér hálsinn svo það er erfitt að kingja (og er alltaf að reyna að hósta þessum viðbjóði upp, án árangurs), hausinn er að springa og þegar ég leggst undir sæng er eins og ég sé öll sólbrunnin!  Ég skrifa þetta allt á reikning lyfsins Lyrica! Einhverra hluta vegna er ég útsett fyrir öllum hugsanlegum aukaverkunum allra lyfja, líka þeirra örsjaldgæfustu. Lyf eru bara ekki mín deild fremur en brennivín! Samt verð ég alltaf að taka slatta af þessum rudda, við mínum krankleika, en öfugt við það sem geðfrískur almenningur heldur stundum er ég ekki að taka þessi lyf að gamni mínu! 

Ég hef reynt við sunnudagskrossgátu, bókina Böðvars G. og Illan mjöð (um miðaldabókmenntir) – allt án árangurs. Sennilega er eina ráðið að liggja, a.m.k. var það eina ráðið við sjóveiki í suðvestan garra, djúpleiðina frá Skaga og yfir Hvalfjarðarröstina, til þurrabúðarinnar-handan-Flóans … í denn. Kemur sér náttúrleg vel að vera verseruð í sjóveiki og sjógangi á svona degi. Aftur á móti sólbrenn ég yfirleitt ekki og hef því litla reynslu af þessum ónáttúrulega húðbruna sem kviknar í öllum útlimum þegar ég leggst niður.

Nú ætla ég að lesa í Sérlyfjaskrá hvussu slæm fráhvarfseinkennin eru og meta síðan hvort ég á áfram að reyna að “hrista af mér” þessa líðan eða taka bara út fráhvarfseinkenni, sem e.t.v. eru ekki verri en slæmir timburmenn (og lukkulega hef ég einmitt líka mikla reynslu af þeim og hvurnig skal höndla þá, til skástar líðanar 😉

Taktísk sem ég er hef ég náttúrlega skrifað mínum góða lækni og spurt hvort ég MEGI minnka skammtinn! Eftir að það bréf var sent hefur mér bara versnað – er að hugsa um að reyna að gubba (sem ég þoli ekki!) – borða svo hefðbundinn íslenskan sunnudagsmat, sem maðurinn er að elda (læri – vonandi tekst honum sæmilega til með skorpuna núna) og hugsa svo lyfjaframleiðendum þegjandi þörfina fyrir að framleiða ógislegt lyf og láta það heita svo fögru nafni! Auðvitað vara sjúklingar sig ekki á svona ódýru auglýsingatrikki … hefði lyfið heitið “Diabolica” eða eitthvað svoleiðis væri ég sáttari við það núna …

Fokkings fokk eða þannig!

Gæfuleysið féll að síðum

Löng færsla sem skrúfast út og suður! Gersovel:

Ég valdi fyrirsögnina í og með til að sjá hvernig Google Translate myndi þýða hana á ensku. Óforvarendis birtist nefnilega Google Toolbar efst á öllum mínum síðum og býðst til að þýða á önnur tungumál. Prófun á síðustu færslu leiddi m.a. til þessara gullmola:

“Although it is replaced by nothing the matter with’re my man by the name of this scholar so nice that he wants to name after him a little kisu: Josephine Dietrich Meulengracht! With special emphasis on gracht man … I suspect that it features an elegant call cat kvikindið into high Romina full name … ”

Sem er þýðing á:

“Þótt það komi málinu ekkert við þykir mínum manni eftirnafn þessa fræðimanns svo flott að hann vill heita kisu litlu eftir honum: Jósefína Dietrich Meulengracht! Með sérstakri áherslu á gracht … hef manninn grunaðan um að honum þætti flott að kalla kattarkvikindið inn háum rómi með fullu nafni … ”

Og “Vendi ég mínu kvæði í kross” kemur dásamlega úr þýðingarvélinni: “Vent I so my poems in a cross …” 

En annars hef ég verið að hugsa um þann vísupart um Sölva Helgason sem fyrirsögnin er sótt í; Auðvitað hef ég ekki munað því ég man aldrei kvæði en fletti upp í manninum (sem er fljótlegra en fletta í vísnabanka Héraðsskjalsafns Skagfirðinga á Vefnum) nú áðan og fór hann umsvifalaust með vísuna fyrir mig. (Vísupartinn má nú sjá í kommenti.)

Ég hef nefnilega fattað að þunglyndi er að mörgu leyti líkt þófastakki sem fellur með síðum og gott betur: Virkar eins og spennitreyja á sjúklinginn og engin efnavopn ná til hans!

Núna er aðeins að brá af mér og ég hef t.d. getað farið svolítið í labbitúra án þess að hrynja grenjandi ofan í rúm á eftir. Í dag fór ég vitandi vits út að labba kl. 13 og trítlaði yfir Nesið, hvar blasti við óendanlega langur og breiður og ósnertur og glampandi Langisandur. Það var dýrlegt að labba sandinn!; Glampandi sól og tugir metra af útfiri sem fraus jafnóðum og speglaði sólarbirtuna enn meir en sjórinn …  Reyndar varð ég vör við 5 manns á Sandinum öllum, á mínum labbitúr, en það voru allt saman gamlir menn með hunda eða smákrakkar. Allt alminlegt fólk var náttúrlega inni að horfa á leikinn!

Nema hvað að í svona skjannabirtu, trítlandi á gullnum sandi í nýju hvítu strigaskónum, komst ég aðeins í samband við allífið og datt annars vegar í hug þessi ágæta skilgreining á þunglyndissjúklingi, hafandi í huga svellþæfða þjóðlega voð og örlög íslenskra heimspekinga áður fyrr sem og þunglynds skagfirsks skálds: “Þunglyndið féll að síðum”.  Hins vegar fann ég svo fast fyrir gjörhygli (mindfullness) að ég sá að árvekni er algerlega vonlaust orð yfir fyrirbærið. Árvekni þýðir nefnilega bókstaflega að vakna eldsnemma (sem skv. Hávamálum var afar mikilvægt ætlaði maður sér í dráp eða rán) en í yfirfærðri merkingu þýðir orðið að hafa varann á sér, vera á tánum o.s.fr. Strákarnir Okkar hefðu betur verið aðeins árvökulli í dag! Í þessum afleiddu zen-búddísku fræðum á maður einmitt að vera soldið í sambandi við allífið, tæma hugann, anda jafnvel niður og uppúr í mjaðmagrind og leyfa svo hugsunum að flæða  …  Svoleiðis líðan fæst sumsé á fólkstómum sólríkum dögum á Langasandi. Og af hugsunum sem flæða áreynslulaust í birtunni er jafnvel ein og ein gáfuleg. Eins og þessi þófastakks-Sölva-Helgasonar-þunglyndis- hugsun.

Ég náði að sofna aðeins í eftirmiddag (sem hefur gengið verr eftir því sem pillum fækkar) og líður afskaplega vel núna. Hef verið dugleg að æxla mér bækur eftir að ég gat farið að lesa – á föstudaginn var ég svo þreytt að þegar ég uppgötvaði að bókin með greininni sem á að lesa fyrir næsta tíma, var sjaldgæf og auk þess í útláni fram í febrúar, þá fríkaði ég út og fór heim af Þjóðarbókhlöðu með Føroysk Bindingarmynstur, Embroidery in Britain from 1200 – 1750 og þykkan hlunk: The Victorian Underworld, sem fjallar um fátækt og fátækrahverfi á þeim tímum.

Hér heima er ég að lesa fantagóðan reyfara eftir Jón Hall Stefánsson (sem ég hef kannski lesið áður en kannast ekki við neitt svo það er í góðu lagi) og bókina hans Böðvars Guðmundssonar, sem Helga Kress samsamaði sig við. Byrjunin lofar góðu.

Það er náttúrlega svo dýrlegt að geta lesið að allar hannyrðir liggja á hillunni (í bókstaflegri merkingu). Ég stíg varlega til jarðar og er ekkert að gera ráð fyrir að þessi líðan endist … yfirleitt hefur hún staðið í svona 3 daga í viku en hinir 4 farið í að stara út í loftið eða liggja í rúminu. Mér kæmi samt ekki á óvart ef nú yrði 4:3 á hinn veginn. En til öryggis tek ég einn dag í einu.

Samt bíður sólgyllt framtíðin: Maðurinn pantaði flug til Krítar í vor og ég sé fram á mánuð á þeirri heitu og sólríku eyju, með fjölda langasanda! Við vorum samt dálítið búin að spá í Leros, á Tylftareyjunum, en íslenskar ferðaskrifstofur sem bjóða far til Bodrum vilja að fólk sé í fæði og klæði í Bodrum (Tyrklandi) og það viljum við ekki. Aðrir möguleikar fólu í sér margar millilendingar, langar ferjusiglingar o.þ.h. og því nenntum við ekki. Svo við ætlum bara að pakka í bakpoka, festa gistingu fyrstu og síðustu nætur í Chania en þvælast annars um eyjuna og að sjálfsögðu eyðum við helftinni í Sougia, þeim indæla túristasnauða bæ, eða öðrum túristasnauðum bæjum sem við eigum eftir að uppgötva.

Á meðan passar Vífill fr. Dietrich – vonandi fitar hann hana ekki of mikið á mjólk til að hún komist ekki lengur út um gluggann sinn. (“Það er ekki hægt að segja nei við hana”, hefur Vífill afsakað sig og er nokkuð til í því!)  

Um bókvit og annað vit í mínum Kardimommubæ

Ég fór áðan og hvessti mig við bókasafnsverði bæjarbókasafnsins. Hefði hvesst mig við yfirmann safnsins hefði hún verið við. Ástæðan er annars vegar geðvonska sem fylgir niðurtröppun þunglyndislyfja, hins vegar “algert rip-off” í verðlagningu ljósritunar á þessu safni.

Upphaf þessa máls er að mér datt í hug að ljósrita pínulítið af fræðum Prebens Meulengracht- Sørensen, sem ég hafði í láni en var ljóst að ég yrði persona non grata meðal samnemenda minna ef ég lúrði á fræðunum vikum saman. Oft er ég líka það  tímabundin á Þjóðarbókhlöðu á föstudögum að mér þótti einmitt gráupplagt að ljósrita bara í heimabæ.

(Þótt það komi málinu ekkert við þykir mínum manni eftirnafn þessa fræðimanns svo flott að hann vill heita kisu litlu eftir honum: Jósefína Dietrich Meulengracht! Með sérstakri áherslu á gracht … hef manninn grunaðan um að honum þætti flott að kalla kattarkvikindið inn háum rómi með fullu nafni …  En þetta er útúrdúr og eins og allir vita er þriðja nafn kattar leyndó sem einungis kötturinn sjálfur veit!)

Sumsé tölti ég yfir á nýja bókasafnið, sem er æðislega tómlegt og einkennist af hroðalega ljótu gólfefni (svörtu steinateppi) og hurð sem auðveldlega gæti hitt mann beint í andlitið ef maður er óvanur. Spurði þar hvort ekki væri hægt að kaupa ljósritunarkort og ljósrita. Nei, ekki er hægt að kaupa kort og blaðið í ljósritun kostar 35 krónur! Ég varð náttúrlega paff, hafandi keypt kort á því stóra almenningssafni Þjóðarbókhlöðu: 100 blaða kort fyrir 1200 kr. Bókavörður sem var þarna upplýsti mig um að pappír væri svo dýr. Ég hætti við að ljósrita en gat ekki stillt mig um að kíkja í Eymundsson við hlið bókasafnsins og sá að þar kostar venjulegur ljósritunarpappír í smásölu rétt tæpan þúsundkall, 500 blöðin.

Venti ég svo mínu kvæði í kross og fór á Bókasafn FVA, keypti 100 blaða kort fyrir þúsundkall og fyllti svo á það aftur fyrir 800 kr. (því kortið sjálft er 200 króna virði, enda miklu flottara en Þjóðarbókhlöðukortið). Ef maður kaupir ekki kort kostar ljósritun á blað 25 kr. á Bókasafni FVA (en augljóslega margborgar sig að kaupa kort þótt ég kunni ekki gjaldskrá færri blaða en 100). Ég get skipt við bókasafn FVA því ég er kennari við skólann (í veikindaleyfi). Almenningur getur náttúrlega ekki notfært sér þessi kostakjör.

Svoleiðis að blaðið á Bókasafni Akraness kostar ljósritað (við erum að tala um A-4 snepil, öðrum megin) 35 kr., sem er þrisvar sinnum hærra en á almenningsbókasafninu Þjóðarbókhlöðu og um fjórum sinnum hærra en á pínulitla Bókasafni FVA (lagt huggulegum linoelumdúki).

Mér væri sosum slétt sama þótt Bæjarbókasafnið okri í ljósritun ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þar á einmitt að ýta undir námsaðstöðu bæjarbúa. Kannski telja vísir menn að námsmenn ljósriti almennt ekki. Kannski heldur einhver að þeir skrifi niður textana … með fjaðurpenna?

Inn af bóksafninu er svonefndur Svövusalur en um hann segir á síðu safnsins:

” Svövusalur

Í námsverinu Svöfusalur er aðstaða til náms og lesturs, þegar salurinn er ekki í notkun vegna fjarkennslu eða funda.

Nemendur í háskólanámi geta fengið aðgangskort að salnum, til að nýta sér aðstöðuna, fyrir utan hefðbundinn afgreiðslutíma.

Yfir vetrartímann, frá 1. september til 31. maí. er vinnuaðstaðan opin frá kl. 8:00  til  17:45 alla virka daga.
Í júní, júlí og ágúst er aðstaðan opin á afgreiðslutíma safnsins.” (Sjá http://bokasafn.akranes.is, undir liðnum Þjónusta.)

Ég nenni ekki einu sinni að finna að því að umsjónarmenn vefjar bókasafnsins kunni ekki að fallbeygja Svövusal en bendi á að námsverið er einmitt opið á nokkurn veginn sama tíma og bókasafnið og má því ætla að bókasafnið eigi að nýtast námsmönnum. Þeir geta svo bara andskotast til að borga 35 kall fyrir ljósritað blað ef þeir þurfa ljósritun. (Í dag sagði annar bókavörður mér þau tíðindi að lítið væri beðið um ljósritun. Ég er ekki hissa á því.)

Í mínum góða Kardimommubæ er hugsað vel um fólk og þess þarfir … svo lengi sem við erum að tala um sprikl af ýmsu tagi. Nú nenni ég ekki að nefna einu sinni enn hve duglega er mulið undir léleg fótboltalið bæjarins en vísa í gott framtak míns rúmlega 6000 manna bæjarfélags sem er að leyfa fólki að djöflast í tækjasal og láta líða úr sér í sundlauginni fyrir tiltölulega hóflegt gjald.  Ekki hvað síst er gjaldið hóflegt ef viðkomandi bæjarbúi er atvinnulaus, öryrki eða aldraður. Sjá http://akranes.is/Files/Skra_0039165.pdf

Sennilega hefur bæjarstjórninni, íþrótta og tómstundastjórnendum og formanni skólaskrifstofu ekki dottið í hug að sumir öryrkjar, atvinnulausir og aldraðir vilja heldur læra en synda 200 m á dag. (Svo ekki sé nú minnst á útlendinga, hvað þá “flóttakonurnar okkar”!) Og ef maður ætlar að læra þarf maður oft að ljósrita. Þetta veit ég af því ég hef verið ýmist kennari eða nemandi, jafnvel hvort tveggja í senn, mestalla ævina.

Það er auðvelt að segja sem svo að eftirspurnin eftir ljósritun á bæjarsafninu sé lítil og þess vegna sé í lagi að hafa ljósritun svona dýra. Ef miðinn í sund kostaði 1000 kall, kannski 750 fyrir öryrkja, atvinnulausa og aldraða, myndi aðsókn að lauginni líklega minnka mjög. Þá væri hægt að segja að allt í lagi væri að hafa sundmiða svo dýran því það færu hvort sem er svo fáir í sund. (Ég treysti mér þó ekki að fullyrða þessar staðhæfingar um sundið, hafandi haft andúð á sundi frá því ég var send 8 ára gömul á sundnámskeið að Laugum, S-Þing. Svo ekki sé minnst á kennsluæfingar stelpnanna í ÍKÍ síðar meir, hvar ég var æfinganemi, m.ö.o. fórnarlamb!)

Mér þætti ógurlega gaman ef einhver forsvarsmanna þessara menntunar- eða tómstundanefnda bæjarins myndi kommentera á þessa færslu, eða skýra málin. Svo ekki sé minnst á forstöðumann bókasafnsins.  Annars er öllum sem hafa komist í gegnum svo langa færslu boðið að segja sitt álit 😉

Af því ég var einu sinni, fyrir langalöngu, formaður bókasafnsstjórnar þessa bóksafns og af því ég veit að pappír í ljósritunarvél er skítódýr (tónerinn aftur á móti dýr) og af því mér blöskraði verðlagningin og léleg þjónustan (maður má ekki ljósrita sjálfur heldur þarf að biðja bókavörð um að ljósrita fyrir sig – er ég sex ára?) þá skrifa ég þessa færslu. Enda er ég harðákveðin í að skrifa hvorki um handbolta né æsseif!

 

 

 

Búin með Auði!

Ég tók mér tak og kláraði bókina Auði enda má ég ekki hafa hana mikið lengur í láni. Við Jósefína hringuðum okkur á stofusófann nú í eftirmiddag og reyndar sýndi kötturinn bókinni mikla blíðu, neri sér utan í öll bókarhorn. Við skulum vona að næsti lánþegi eigi ekki kött!

Bókin er auðvitað frábær – en ekki hvað?! Ég var samt ótrúlega lengi að lesa hana af því það eru svo margir fróðleiksmolar í henni, sem fengu mig til að staldra við, kannski af því ég hef alltaf haft áhuga á þessu efni og meira að segja vappað um skóga Írlands og skoðað frægar rústir, með mínum manni. (Hluta af the Wicklow Way, kannski misminnir mig nafnið, í BB gistingu góðra kvenna milli göngudaga, þær þurrkuðu meira að segja skóna fyrir mann!  Í ógislega frægum klausturrústum skammt frá Dublin var einmitt turn, eins og minnst er á í Auði, þar sem inngöngudyrnar virtust á ca 7. hæð og maður sá fyrir sér krúnurakaða munkana draga upp kaðalstigann og ulla svo á víkingana fyrir neðan 😉

Pælingar um stöðu kvenna komu skýrt fram (t.d. sú hugsun sem hvarflar að Auði þegar hún skoðar innilokaða fluguna í gylltu rafinu). Mér fannst Auður vera feikilega mikill karakter en það er reyndar sú mynd sem ég hef alltaf gert mér af henni, hafandi kennt Laxdælu oftar en elstu menn muna!

Svo eyddi ég dágóðum tíma í að fletta upp lýsingum í bókinni til að finna út mikilvægi fæðingarblettsins á Þorsteini rauð en fann ekki … eins gott að ég er ekki að kenna þessa bók …

Ég held reyndar að bókin henti ekki sem kennslubók nema þá fyrir elstu nemendur. Þetta er fullorðinsbók, miklu þyngri en t.d. Laxdæla, og ég held að fullorðnir njóti hennar best. Enda löngu kominn tími á að færa Vilborgu Davíðsdóttur úr barnabókahillum bókasafna! Allar hennar bækur henta fullorðnum mjög vel og það er rétt svo að fyrstu bækurnar, saman í Korku sögu, séu nógu auðveldar til að unglingar njóti þeirra. (Vel á minnst er Við Urðarbrunn mjög vinsæl bók í byrjunaráföngum íslensku í framhaldsskólum. Virkar vonandi hvetjandi á einhverja til að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.)

Nú er ég ekki í standi til að skrifa neinn alvöru ritdóm (þótt ég hafi gráðuna 😉 ) en bendi á styrka persónusköpun og góðar umhverfislýsingar sem gera bókina bíó fyrir heilann: Á stundum jafnspennandi og Hringadróttinssögu-kvikmyndir! (Mætti nefna sem dæmi för Auðar til klaustursins til að skila The Book of Kells eða álíka dýrgrip.) Á hinn bóginn þvælast sagnfræði / þjóðfræðimolar óþarflega fyrir bókmenntafræðingi með athyglisbrest, auk allra írsku tilvitnananna. Þær virkuðu alltaf sem stoppmerki fyrir mig. (Aftur á móti gleðja þær eflaust Gísla Sigurðsson 😉

Sem sagt: Flott saga en ég held samt ennþá meira upp á Hrafninn …  Eiginlega ætti ég að lesa Hrafninn á hverju ári en ekki bara eftir raflostmeðferð. Í mínum athyglisbrostna heila er Hrafninn merkilega ósnertur núna, gott ef ég man ekki bara alla bókina! Og það er ekki hægt að segja um margar bækur núna. Só sorrí Vilborg … þú samdir bara því miður bók sem fáar toppa (þ.e. Hrafninn).

Ég hef bara alltaf verið svo heit fyrir Norðurslóðum … hvað kallaði Vilhjálmur Stefánsson nú aftur hinar hvítu auðnir?  Man það ekki … sem er í lagi því eftir að hafa lesið ævisögu Vilhjálms og tvær bækur um Karluk hef ég ekkert álit á þessum manni – hann var ekkert annað en aumur útrásarvíkingur síns tíma!

Mæli með Auði!

Sloppadagur I (vegna kattarins?)

Um fjögurleytið í nótt vakti skelfingu lostin Jósefína mig með ýlfri og góli og látum; komin upp í rúm og sleikti blíðlega á mér tær og kálfa og allt sem stóð út úr sænginni og beit líka blíðlega! Á endanum fór ég á fætur með henni og huggaði og róaði o.s.fr.  Minnti mig á þá tíma þegar maður var með smábarn – oj!

Altént róaðist stýrið litla við að vera fylgt um íbúðina og út að reykja með mömmu – það var nú ekkert svo vont veður hérna megin á nesinu en ansi mikill veðurgnýr.

Jósefína hefur sennilega lent í hremmingum í vondu í veðri einhvern tíma, kannski í fyrra lífi. Svo þetta er skiljanlegt og afsakanlegt.

Aftur á móti ruglaðist svefntími minn algerlega og ég hef verið lítið mönnum sinnandi í dag (en þó reynt að sinna kettinum). Mestan part hef ég legið í rúminu. Það er svo sem ekkert nýtt. Inn á milli rúmlega hef ég rennt yfir Lokasennu, Þrymskviðu og næstum öll Hárbarðsljóð. Alltaf gaman að sjá hvernig Ólafur Briem (fyrrum kennari minn) sleppir því að skýra það sem er klúrt og ef hann neyðist til skýringa eru þær á mjög fáguðu og tiltölulega óljósu máli.

Auður enn hálflesin … í dag var ekki rétti dagurinn til að lesa skemmtilegt!

Vonandi sefur kötturinn á sitt græna í nótt svo eigandinn geti fylgt fötum á morgun.

Breytist fólk í sjúkdóm?

Þetta er löng færsla, ætluð vellæsum: 

Áður en ég hef  mál mitt skv. fyrirsögn vil ég taka fram, fyrir áhugasama dygga lesendur, að fr. Dietrich hefur það fínt! Hún hefur með látbragði sýnt mér fram á að peysan sem ég keypti í Gyllta kettinum er með ekta dýri hangandi á sér (vonandi samt ekki lituðu kattaskinni) því hún réðst umsvifalaust á loppuna sem hangir framan á peysunni. Peysan er í augnablikinu örugg inni í skáp.

Auk þessa hefur litla dýrið þróað skemmtilegan leik, alveg alein og sjálf!  Leikurinn er þannig að þegar eigandinn / móðirin / þessi bloggynja er að fara að leggja sig og sest á rúmið þá er Jósefína búin að koma sér fyrir undir hjónarúmi og stekkur svo og “veiðir” annan hvorn fótlegg bloggynju. Hún vill alls ekki láta af þessum skemmtilega leik, ekki einu sinni þótt hún hafi verið skömmuð svo blóðugum skömmum að dýrið litla var farið í agnarsmáan hnút lengst undir hjónarúmi … nei, henni finnst leikurinn meira virði en skammirnar. Verandi þroskaðri (lesist: Komin lengra en á hlutbundið aðgerðarstig) hefur eigandinn / mamman / bloggynjan séð við kattarskömminni með því að fara upp í rúm frá fótalagi, en þar er tréplata ofan á gólf. Stýrið litla sat á meðan ógurlega spennt undir rúmi … en varð af vinningnum. (Hah!!!  Og hvur er svo klárari??? Addna ???)

Nú vindum við okkar kvæði í kross og tölum um fyrirsagnarefnið!

Ég hef doldið verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort staðhæfing Héðins Unnsteinssonar um að geðsjúkdómsgreining loði við mann það sem eftir er, jafnvel þótt manni batni, sé rétt.  Mig minnir að hann hafi talað um að geðsjúkir yrðu sjúkdómurinn, í augum hins heilbrigða almennings. Þetta sagði Héðinn í aðsendri grein til Mbl. fyrir stuttu – ég ætlaði að klippa greinina út því hún var svo ansi góð en gleymdi því auðvitað eins og svo mörgu öðru. Myndin til vinstri á alls ekki að sýna Héðin 🙂 Hún passar bara svo vel við staðhæfinguna hans.

(Í dag, á kaffihúsi með vinkonu minni, var ég búin að gleyma hvað samkennari minn hét fullu nafni. Í íslenskudeildinni eru að jafnaði 4 – 5 kennarar svo þetta er nokkuð mikil gleymska! En ég skrifa hana á vaxandi þunglyndi þessa dagana. Kannski stafaði hún að einhverju leyti af 4000 kaloríu kökusneiðinni – marengstertu, með auka rjóma –  … en missum okkur ekki út í málæði og greinaskilalausa þvælna umfjöllun þótt á bloggi sé …)

Kannski spilar einnig inní að ég er nýbúin að lesa yfir fyrirlestur heimspekingsins um hvernig sjálf virkar, hvað fyrirbærið sé (“gæti verið” – heimspekingar slá alltaf varnagla!) og hvurju geði hver sem vitandi er vits stýrir (þ.e. er “inn við beinið” eða jafnvel innrættur).

Í fyrradag varð mér ljóst að einhverjir fleiri en ég á þunglyndistímum telja að ég eigi ekki afturkvæmt til kennslu. Mér brá svolítið við þetta því þrátt fyrir að heilsulínuritið mitt vísi hroðalega mikið niður á við held ég nú alltaf í obbolitla von (missti hana reyndar milli jóla og nýárs og það var skelfilegur tími!) og er ekki enn farin að skilgreina mig sem “geðveika kennarann á Skaganum”.  Mér er líka ljóst að sú ákvörðun að taka einn kúrs í HÍ er rétt því þannig kemst ég hjá því að enda í vitsmunastiginu “ein slétt – ein brugðin” eða smækka mig ofan í geðsjúkling í fullu lífi. Það tekur mig næstum alla vikuna og mest af skásta tímanum mínum að læra fyrir þennan eina kúrs. Á föstudögum hryn ég inn um dyrnar rúmlega þrjú á daginn og er gersamlega úrvinda, eftir að hafa mætt í tíma og farið upp á Þjóðarbókhlöðu þar á eftir. Samt er kúrsinn þess virði; að hitta fólk og tala um annað en hvernig mér líður og hvað ég sé að éta mikið af pillum og hvernig horfurnar séu í þeim málum o.s.fr. – að setja sig inn í erfiðleika karlmanna við að skilgreina karlmennsku þegar yfirstéttin fór að ganga í kjólum (kirkjubransinn upp úr 1000 / 1100) o.s.fr. er ágætlega gefandi þegar maður er alla hina dagana að feisa þá hugsun að komast úr rúminu og jafnvel klæða sig í föt!

Meðan ég enn hef hugann stundum / takmarkað við kenningar um karlmennsku á miðöldum er ég hugsandi manneskja (homo sapiens sapiens) en ekki þunglyndis- og kvíðasjúklingur að fullu. Ég get, tímabundið, íklæðst námsmannsfötum (og er reyndar góður námsmaður ef allt er í lagi – tíminn verður að leiða í ljós hvernig ég tækla þetta núna).

Ég las áðan dóminn um hjúkrunarfræðinginn sem lenti í miklum hremmingum á geðsviði Lsp. og var sjálf mjög veik á meðan. Sjá  Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar í máli nr. E-4538 / 2009. Mér fannst yfirmenn konunnar vera ótrúlega hrokafullir og málið í sjálfu sér fáránlegt. Í hnotskurn er það þannig að starfsfólk fer í partí utan spítalans og einhver kk. hjúkka tilkynnir daginn eftir að hann geti ekki unnið með ákveðinni kvk. hjúkku af því hún hafi áreitt hann kynferðislega! Var þetta fyrsta partíið á ævinni sem karlhjúkkan mætti í? Partí fram á nótt snúast einmitt mjög oft upp í kjötmarkað og kynferðislega áreitni (been there seen that!).

Ef ég hefði farið og klagað í skólameistara eftir hvert kennarapartí sem ég sótti áður en ég komst á snúruna hefðu nú nokkrir verið fluttir til í starfi!  Svo ekki sé talað um að mér, bloggynjunni, hefði fyrir löngu verið komið fyrir á Raufarhöfn! (Ég nefni Raufarhöfn af því að á náms- og svallárum mínum í Reykjavík gekk sú saga meðal guðfræðinema á Garði að á Raufarhöfn væri presturinn stundum vakinn upp á nóttunni til að gifta fólk “til bráðabirgða”. Mér þótti þetta alltaf jafnskondið. Miðað við tilflutning í starfi hefði Raufarhöfn sennilega verið heppilegust fyrir mig in the eighties.)

Ég ætla sosum ekki að fara að leggjast í einhverja fjórða spors vinnu á þessu bloggi!

En miðað við lýsinguna á aðstæðum kvenkyns hjúkkunnar datt mér í hug að sjúkdómshugtakið hefði kannski festst (gamla skikkið í stafsetningu?)  óþarflega við hana og hinn hugumstóri karlkyns hjúkrunarfræðingur hefði verið svo miklu meira normal og betur samþykktur á sínum vinnustað (33 C). Gæti það verið?

Sennilega er niðurstaðan af þessu hálf-sundurlausa bloggi sú að ég viðurkenni að ég sé geðveik og að mér er um megn að stjórna eigin lífi. Þannig er staðan núna og verður eitthvað frameftir – hve lengi er ómögulegt að vita. Ég ER hins vegar Harpa en ekki “geðveiki kennarinn” eða “geðveiki starfsmaðurinn” eða eitthvað álíka. Þótt mér þyki í sjálfu sér vænt um þegar sagt er að ég sé “ge-eikur kennari”! Enda vel meint.

Þyrfti að ræða þetta við Héðin einhvern tíma. Bendi svo hugsanlegum kommenterum á það að ég er að verða afar vel að mér í hvernig níða skal karlmenn (ólöglega, skv. Gulaþingslögum).  Þetta er reyndar frekar einfalt eins og oft á við um karlkynið (án þess að bloggynja hafi í sjálfu sér neina fordóma): Nóg er að kunna þrjú orð / orðasambönd og þar af þýða tvö það sama!

 

Á röngunni?

Í gær kynntist ég kenningum manns sem heldur því fram að einungis sé til eitt kyn, sem ýmist sé á réttunni eða röngunni. Konur eru á röngunni (inside out!). Gæti þetta verið orsök þunglyndis og kvíða (með stuðnings-tilvitnunum í Freud)?

Seinna í dag ætla ég að blogga um skólann og námið. Ef mér tekst að hanga í heimi lifenda. Þetta niðurtrapp lyfja er farið að hafa veruleg áhrif! Það hlýjaði að hitta vaktmann af 32 A uppi á Þjóðabókhlöðu í gær 🙂 Kannski maður ætti að flytja suður um stund?

Er farin í bælið.