Í mínum Kardemommubæ hefur gosið upp mikið hitamál undanfarna daga. Bæjarstjórn hefur samþykkt að láta greiða atkvæði um hundahald hér í bænum í næstu kosningum. Hundaeigendur eru náttúrlega á háa c-inu yfir þessu og hafa stofnað fésbókarsíðu og hyggjast halda baráttufund og stofna hagsmunafélag og ég veit ekki hvað og hvað!
Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti hundum. Er enda nýbúin að heimsækja einn slíkan, afar vel upp alinn. Stundum er hundurinn besti vinur mannsins, eins og t.d. hann Koni sem sést hér á lítilli mynd með eiganda sínum: Sé smellt á litlu myndina fæst stærri (sem aðdáendur Koni eða eigandans gætu prentað út og rammað inn).
Ég hef hins vegar ýmislegt á móti sóðalegum illa uppöldum hundaeigendum og ekki hvað síst þeim drullusóðum / drullusóða sem leyfa / leyfir sínum hundi eða lætur sinn hund nota bakgarðana okkar við Vallholtið fyrir kamar, jafnvel framgarða einnig. Þessir hundaeigendur eru ekki bara sóðar heldur húðarletingjar að auki því þeir nenna ekki að hirða upp lortana eftir að hundurinn hefur gert þarfir sínar. Það gera hins vegar ábyrgir hundaeigendur.
Bærinn er fullur af hundaskít! Það þarf nú ekki nema skreppa í stuttan labbitúr til að fullvissa sig um það. Hundaeigendur eru eitthvað að mjálma (já, merkilegt að þeir skuli gera slíkt) um að ruslatunnur bæjarins séu of fáar. Er ekki hægt að fá svona skitupoka í mismunandi stærðum? Sé svo ekki þá trúi ég ekki öðru en venjulegur eldhúsruslapoki mundi duga milli ruslatunna, þótt hátt í 100 metrar væru milli þeirra, nema hundurinn sé með skitu.
Drellarnir í mínum bakgarði eru sko engin smásmíði, skal ég segja ykkur! Ég skrapp út og tók myndir af nokkrum þeirra (smellið á litlu myndirnar og sjáið stærri útgáfu ef ykkur lystir). Til að sýna stærðarhlutföll notaði ég rauðan risa-ópalpakka af því eldspýtustokkar liggja ekki lengur á lausu (hvað þá jarðfræðihamrar) og ég kunni ekki við að leggja fram langan Winston. Flestir, trúi ég, vita nokkurn veginn stærð risa-ópal-pakka og geta ályktað hundaskítinn af honum.
Ég hef rökstuddan grun um að þessi hundaskítur sé eftir svartan labradorhund en hef ekki hugmynd um hver gæti átt kvikindi sem gengur um með þessum hætti. Enginn í götunni held ég. Nei, ég held að eigandinn viðri dýrið, t.d. snemma á morgnana, og noti þá tækifærið og sleppi greyinu lausu til að skíta í annarri götu en heimagötu – e.t.v. er þetta einhver eldri borgari sem vill hafa sama skikk og í sveitinni forðum? Allt svo ósköp frjálst? Óvart er Stór-Akranes-bærinn ekki sveit heldur 6000 – 6500 manna byggðarlag (ég hef ekki fylgst með nýjustu tölum). Óljósar fregnir herma að stundum komi unglingur með svona svart laust kvikindi í heimsókn í bílskúrinn á Hjarðarholtinu hér fyrir aftan mig. Ég hef einmitt séð svartan labrador ráfa þar um í reiðileysi. Garðurinn minn er ekki ríglokaður og t.d. tölta Hjarðarholtsbúandi fjölbrautaskólanemar hér oft í gegn. Það truflar mig ekki. Sömuleiðis er minn garður, eins og allir hinir garðarnir við Vallholtið, galopinn frá þeirri götu.
Þeir sem ekki vita hvernig svartur labrador lítur út geta bara skoðað hann / hana Koni sem myndskreytir færsluna hér að ofan.
Þeir sem ekki eru klárir á hundaskít geta smellt á myndina hér til hliðar til að fá stærri útgáfu og glöggva sig á ódámnum.
Skítseiðið sem á hundinn ætti auðvitað að skammast sín og mæta hingað á Vallholt 19 með skóflu og poka! Ég myndaði nefnilega bara sýnishorn en þetta ógeð er út um allt; undir snúrunum, upp við girðingu o.s.fr. Mér skilst að á nr. 21 hafi verið vandræði með að leyfa krökkunum að leika sér í garðinum nema byrja á að gera mega-kamarhreingerningu eftir hundinn ókunna en grunaða! Ef einhver veit hver á sökudólginn þætti mér ágætt að fá upplýsingar um það svo ég geti haft samband við hundaeftirlitsmann bæjarins! (Er nýbúin að frétta að svoleiðis gaur er til.)
Ef þessu hundaskítsfári linnir ekki (og það er ólíklegt, því þetta hefur gengið svona í meir en ár) er augljóst hvernig ég greiði atkvæði þegar kosið verður um hvort leyfa eigi hundahald áfram á Akranesi! Fari svo að hundahald verði leyft áfram, vonandi með strangari skilyrðum, ætla ég að sækja um að fá að gaddavírsgirða allan garðinn hér á Vallholti 19. Plantar svo berberis-hekki þar innan við, allan hringinn!
P.s. Getur einhver útskýrt fyrir mér lógíkina í því að strætómiðar séu eingöngu seldir upp í sundlaug / á Jaðarsbökkum? Mér skilst að þetta finnist stjórnendum litla kardimommu … o.s.fr. svo agalega augljóst eitthvað að þeir auglýsa það ekki einu sinni á bæjarsíðunni sinni (reyndar er hún svo illa ofin að e.t.v leynist þar auglýsing undir t.d. upplýsingum um æskulýðsmál … nenni ekki að gá að slíku). Ég á ekkert erindi á Jaðarsbakka og er örugglega ekki eini antisportistinn í bænum. Væri ekki vitlegra að selja þessa miða í nýju þjónustuveri bæjarins, í núverandi miðbæ?