Ekki er nóg með að Jósefína fari ferlega vel við nýjar innréttingar og eldri hillur heldur tók ég eftir kattarseglinum á ísskápnum í gær: Örugglega postulínsmynd af Jósefínu! Fyrir mörgum / nokkrum árum (man þetta ekki svo gjörla) vorum við ég o.fl. í samstarfi við duglegar kennslukonur í Napólí, sem kenndu verðandi glæpaunglingum í slömm-hverfi þar í borg og unnu kraftaverk á hverjum degi! Þær Luisa og Catarina voru líka alltaf að sinna sinni samstarfskonu með litlum gjöfum, m.a. um jól. Þannig eignaðist ég t.d. viskastykki með uppskrift af þeim fræga drykk Limoncella, sem ég get því miður ekki drukkið en manninum þótti góður (þær gáfu líka litla flösku). Í önnur skipti fékk ég ísskápsskraut; Miðjarðarhafsbláan krossfisk og bröndóttan kött og eitthvert annað sjávarstykki sem brotnaði. (Þessi samvinna leiddi líka til þess að ég hef tvisvar dvalið í þeirri skítugu borg Napólí, horft áhyggjufull á Vesúvíus gnæfa þar yfir, og tvisvar komið til undurfögru eyjarinnar Caprí!)
Nema hvað: Þær stöllur voru óskeikular í vali á minjagripum sem tengdust Napólí, nema þegar þær gáfu köttinn. Ég man ekki sérstaklega eftir köttum í Napólíborg – aftur á móti man ég eftir “íslenskum hænum” að sporta sig í litlu porti eða bakgarði og dópistum að búa um sig í pappakössum fyrir utan hótelið í miðbænum og sprauta sig fyrir nóttina.
Kötturinn hefði verið frábær minjagripur frá Grikklandi, aftur á móti. En þaðan fékk ég enga minjagripi þrátt fyrir að hafa sótt námskeið í Nafplion, sem mun þýða Napólí og vann sér til frægðar að vera höfuðborg Grikklands í einn dag. Í ferðum okkar mannsins til grískra eyja höfum við heillast af litlu fíngerðu kisunum sem gera út á túrista á matsölustað. Jósefína mín er einmitt svona smábeinótt læða með augu í stærri kantinum og mundi gera það gott á grískum matsölusta, næði hún þokkalega mjóróma “mjá-i” (en enn tjáir kötturinn sig líkt og klón af Marge Simpson og Louis Armstrong! Vonandi að þetta hormónarugl í henni lagist fljótlega.)
Af ofansögðu má ljóst vera að í áraraðir hafa það verið mín örlög að eignast Jósefínu! Ég hefði gefið henni grískt nafn (hafandi átt þær Helenu og Penelópu fyrir næstum tveimur áratugum) ef hún hefði ekki verið svo snjöll að vitja nafns hjá ólíklegasta draumþega, s.s. heimspekingi heimilisins!
Jósefína er búin að venja mig á að gefa sér mjólk þegar ísskápurinn er opnaður. Frá fyrsta degi hef ég tilkynnt ströng að kötturinn fái bara þurrfóður og vatn og vítamín til að minnka hárlosið. Jósefína var ekki búin að dvelja fimm mínútur á sínu nýja heimili þegar maðurinn dró fram steinbítsroð með fisktutlum og gaf henni – maðurinn fékk þarna tímabundinn forgang á vinsældarlista læðunnar. Til mótvægis dróst ég út í búð, keypti kattanammi (sem kötturinn lítur ekki við) og vestfirskan bitafisk. Ég er núna vinsælust! 😉
Jósefína er líka búin að venja mig á að klóra sér og klappa, á mjúku teppi inni í stofu. Við stundum stöðvaflangs og aðrar lystisemdir í sófanum á kvöldin.
Bloggynja unir annars við prjónadútl en verður yfirleitt að rekja upp það sem er prjónað að kvöldi því þá fokkast meira að segja prjónainstinktið upp! Ég læt mig ekki dreyma um að lesa bækur því athyglisbresturinn er alger. Nóg að lesa mogga mannsins og gleyma honum strax aftur. Við prófuðum Ritalín til að slá á athyglisbrestinn sem fylgir þunglyndiskasti af verra tæinu, meðan ég lá inni á geðdeild, en það hafði engin áhrif, nema kannski að gera mig grátgjarnari? Ég fann heldur engin fíknaráhrif af Ritalíninu og snögghætti á því á einum degi án fráhvarfa. Samt reikna ég með að hjúkkur læri í skólanum að Ritalín skuli ekki gefið fyrrum fíklum / ölkum …
Sem sagt: Get ekki lesið, man ekki neitt, ruglast í töluðum orðum og (það versta!) ruglast í hannyrðum. Svo líður mér hryllilega illa þegar líður á daginn – eiginlega óútskýranlega illa. Tek daginn í bútum. Og fögur fyrirheit í gær, um að klæða sig og fara á fætur og niðrí hannyrðabúð urðu að engu; skjálfandi á Joe Boxer tældi ég manninn til að fara í búðina fyrir mig, með skýr fyrirmæli í farteskinu.
Ég þarf þá ekkert að fatta upp á neinu nýju í dag, hef bara sama markmið, þ.e. klæða sig og fara út í búðina sem er svona 50 m í burtu frá heimili mínu.
Svo hugsa ég hlýlega til minna góðu fyrrum nemenda sem eiga að þreyta ÍSL 103 prófið í núna á eftir, án mín …