Tæpast hefur farið fram hjá dyggum lesendum mínum að ég erfði þjóðbúninga á afmælinu mínu og hef verið afskaplega upptekin af því að skoða, lesa mér til o.s.fr. og yfir mig glöð og hreykin yfir að hafa eignast þessar gersemar!
Í ljós hefur komið að mig vantar blússu, öllu heldur skyrtu, við upphlutinn. Ég hélt að það væri nú ekki mikið mál, þetta er óskaplega einföld flík (skv. sniðum og myndum í bók Fríðar Ólafsdóttur, Íslenskur búningur. Upphlutur á 20. öld, sem kom út 1994). Svo ég hringdi í Heimilisiðnaðarfélag Íslands sem gaf mér samband við Þjóðbúningastofu. Þar sagðist ung kona geta selt mér gamla upphlutsskyrtu úr bómull, eilítið farna að gulna, á 10.000 kr. Ég spurði hvað ný skyrta myndi þá kosta. Hana þarf að sérsauma, sagði stúlkan, og kostar það 28.000 kr. fyrir utan efni. Ég fór að flissa og spurði hvort þær væru virkilega að handsauma þessar einföldu skyrtur – já, sagði stúlkan, hluti er handsaumaður. Ég sagðist ekki sjá að það væri mikið verk að rigga upp einni svona skyrtu. Jú, það er heilmikið verk, sagði Þjóðbúningastofustúlkan; sjálf sauma ég nokkrar á dag. (!!) Breytti svo “á viku” þegar ég hló illkvittnislega.
Svo hringdi ég í annað “Þjóðbúninga”eitthvað í símaskránni og komst að því að Þjóðbúningastofan Nálaraugað selur skyrtusaum á 30.000, fyrir utan efni og Þjóðbúningafatagerð Sólveigar selur sama á 21.000 + skattur + efni.
Þetta er náttúrlega hreinasta brjálæði og helvítis okur! Þetta félag, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, “… fær styrki til rekstrar skólans frá ríki og Reykjavíkurborg en að öðru leyti er starfsemi félagsins fjármögnuð með framlögum og sjálfboðaliðsvinnu félagsmanna.”
Félagið rekur verslun og þjónustudeild: “Þjónustudeildin er eini aðilinn sem selur allt til þjóðbúningagerðar og veitir ítarlegar upplýsingar um búninga.” “Félagið rekur Heimilisiðnaðarskólann sem skipuleggur markvisst nám í mörgum greinum heimilisiðnaðar, handmennta og lista.”
Sem sagt: Nokkrar kerlingar hafa ákveðið hvernig íslenskur þjóðbúningur á að vera (sbr. Þjóðbúningaráð, sem er einhvern veginn tengt Heimilisiðnaðarfélaginu). Þær einoka efnissölu, ef einhver vildi nú gera eitthvað á eigin spýtur, þær gæta þess að ekki sé hægt að labba út í búð og kaupa sér peysuföt heldur verður að sauma sjálf á þeirra námskeiðum eða láta sauma á sig á svipuðu verði og skaðabætur þær sem Hafliði nokkur Másson hlaut um árið!
Sem dæmi um námskeið má taka þetta:
Þjóðbúningur kvenna – upphlutur eða peysuföt
Saumaður er upphlutur eða peysuföt.
Kennari: Jófríður Benediktsdóttir
Fjöldi kennslustunda: 50 (11 skipti)
Tími: Miðvikud. kl. 19-22, 16. sep.- 2. des. Fyrsti tími verður máltaka og mátun. Annar tími 30. sep. og síðan vikulega.
Námskeiðsgjald kr. 79.500. Efni ekki innifalið. Nemendur mæta með saumavél og áhöld.”
Til samanburðar má taka námskeið sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands auglýsir í nýjasta bæklingi sínum, s. 7:
Þjóðbúningagerð
Á námskeiðinu munu þátttakendur sauma þjóðbúning.
Grundaskóli Akranesi Mán. 28. sept – 7. des. kl. 18:30 – 21.30 Leiðbeinandi Una Løvdal klæðskeri.Verð: 39.900.
Einokunarfélagið / Heimilisiðnaðarfélag Íslands, kennir 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á samskonar námskeið, 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Munurinn er sá að lærði klæðskerinn á Skaganum tekur um helmingi minna fyrir kennsluna en Jófríður sú sem kennir fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands (og vill auk þess svo skemmtilega til að sama Jófríður á einmitt Saumastofuna Nálaraugað, sem metur skyrtusaum á sama prís og Heimilisiðnaðarfélagið …) Gæti munurinn legið í útlendu eftirnafni? Eða í því að Una Løvdal virðist ekkert tengd einokunarkerlingunum í Heimilisiðnaðarfélaginu og ekki einokunarsaumastofunum sem virðast einhvern veginn vera á hægra brjósti sama Heimilisiðnaðarfélags?
Markmið einokunarkvennanna er þetta: “Félagið vinnur að því að viðhalda þjóðlegum íslenskum heimilisiðnaði, auka hann og efla og stuðla að vöndun hans og fegurð. Einnig að vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfa kröfum nýs tíma en hafa rót sína í hinum gamla og þjóðlega menningararfi.”
Þetta með “stuðla að vöndun og fegurð” er út í hött meðan félagið hefur einungis nokkra samþykkta, staðlaða búninga á sinni stefnuskrá (miðað við lestur bloggynju á Hugi og hönd, tímariti þeirra, frá upphafi) meðan hreinasta anarkí ríkti í íslenskum þjóðbúningum áður fyrr. Það er ekki fyrr en með Sigurði málara, homma sem dó úr vesöld, sem einhver samræming kemst á, a.m.k. í skatteruðum hrútaberjamunstrum og skautbúningi, fyrir um einni og hálfri öld. Ég reikna fastlega með að vönduð og fögur upphlutsskyrta eigi að vera hvít eða ljós og í stíl við svuntu, þótt svoleiðis skyrtur hafi verið alla vega á litinn úr alla vega efni uns stílistinn Sigurður og seinna Heimilisiðnarafélagið fann upp sitt samræmda göngulag fornt í þeim efnum! (Um þetta dugir að skoða Til gagns og fegurðar eftir Æsu Sigurjónsdóttur og fyrrnefnda bók Fríðar Ólafsdóttur um íslenska upphlutinn.)
Einokunin og stjórnsemin beinist einungis að konum því engum heilvita manni dettur í hug að klæðast samþykktum íslenskum þjóðbúningi, sem sést á þessu frímerki hér til hliðar. En einhverja karl-kúnna fá þær Heimilisiðnaðarkonur e.t.v. inn á milli.
Hvað er svo til ráða? Ég myndi fagna því ef þeir góðu Bónusfeðgar létu sauma peysuföt, upphluti og gamla faldbúninginn í útlöndum, baldýra og skattera í tölvustýrðum saumavélum og sauma úr efnum sem þvola þvott í vél! Silfurvíravirki fékkst í Búlgaríu fyrir áratugum fyrir algert slikk og er væntanlega hobbí eða ferðamannaiðnaður þeirra þar austur frá. Svoleiðis að milludótið og víravirkið ætti ekki að vera vandamál. Og mundi stokkabelti úr gylltu áli ekki gera sig vel? Það væri a.m.k. heldur léttara að bera og félli tæpast á það! Ef einhver tæki sig til og léti framleiða litskrúðugri og miklu ódýrari dress væri kannski séns á að þau yrðu þjóðbúningur en ekki rándýrir safngripir eins og núna.
Fljótlega ætla ég í HM og kaupa mér ljómandi fallega mussu, sem virðist vera orkeruð að ofan, hafa hana hvíta eða ljósa og vonast til að hægt sé að punta hana með ermahnöppum (ekki að það sé sáluhjálparatriði). Gangi hún ekki tékka ég á Hagkaup. Í ítrustu neyð væri hægt að kaupa eitthvert lekkert gardínuefni eða sængurverasett í Rúmfatalagernum, með huggulegri brókaði eða damaskáferð og sauma helv. skyrtuna sjálf; því þótt ég kunni á þessari stundu ekki að þræða saumavél get ég ekki séð annað en verkið sé álíka erfitt og að sauma öskupoka, miðað við upplýsingar frá öðrum en Heimilisiðnaðarfélaginu!
E.S. Voru það ekki kerlingarnar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands sem supu hveljur og vígbjuggust þegar Stuðmenn létu prenta hvíta boli með upphlutsmynd framan á? Gott ef sú framleiðsla var ekki bara stöðvuð! – annars man ég þetta ekki svo naujið.
Og voru það ekki einmitt þær líka sem urðu hysterískar þegar Reykjavik Grapevine birti mynd af blökkukonu í skautbúningi Kvenfélags Laugdæla, árið 2004? (Litla myndin krækir í stærri og fegurri útgáfu.)