Vitið þið hvað er verst við að skjálfa eins og espilauf (minnir mig á að ég hef alltaf ætlað að tékka á hvort þetta sé sama og asparlauf…)? Það er að reyna að fá sér vatnssopa úr glasi fyrir framan nemendur! Eftir hádegi í dag var ég alveg búin að klára batteríin og skalf frá hnakka og niðurúr. Svo var ég að reyna þetta með báðum höndum á plastglasi (passa að kremja ekki glasið) og hitta á munninn og ná að súpa á þrátt fyrir munnherkjur. Ég sagði svo vandræðalega við blessuð börnin að ég væri ekki í þynnku og blessuð börnin voru svo kurteis að hlægja með mér nett að þeim obskúra möguleika. Best ég venji mig á að snúa baki við nemendum þegar svona stendur á.
– Þetta gengur yfir (vonandi) og er annað hvort aukaverkun af lyfi eða aukverkun af því að trappa niður lyf.
Ég er búin að lesa Vetrarsól, eftir Auði Jónsdóttur, og er yfir mig hrifin! Það er eitthvað við bækurnar hennar sem snertir taug … reyndar er ég oft pirruð út í aðalpersónu og finnst hún að sumu leyti óttalegur ræfill / full meðvirkni. Þetta á við Fólkið í kjallaranum og Vetrarsól. Skrítið að vera svona hrifin af bók en langa samt til að hrista sögumanninn duglega! – Skv. þeir edrú-fræðum sem sumir hafa gagnrýnt þá er skýringin á því að manni mislíkar einhver oft sú að maður er nauðalíkur í fasi og hugsun þeim leiðinlega: Menn einblína á þá þætti sem þeir eiga sameiginlega og hatast við þá. Ég er alveg til í að kaupa þá skýringu því undanfarin misseri hef ég verið óttalegur aumingi og ég sem þoli ekki aumingjahátt! Það sýnir hvað bókin er góð að hún skuli snerta mig / pirra mig.
Ég tók könnun inni á Facebook í gærkvöldi, eggjuð til þess af frumburðinum. Könnunin var til að sýna hvaða kennari maður væri við FVA ef maður væri kennari. Ég svaraði samviskusamlega öllum spurningum út frá sjálfri mér og ýtti svo á “see results” takkann. Birtist þá ekki: “Til hamingju! Þú ert Leó, einn besti kennari skólans … bla bla”. Ég er á bömmer yfir þessari niðurstöðu. Svo reyndi ég að sannfæra Njáluhópinn minn um að Facebook væri verkfæri djöfulsins (við erum nýbúin að skauta yfir kristnitökukaflana og enn soldið lituð af þeim). Njáluhópurinn hló og ég sá að þau voru öll ánetjuð. Kenninguna um verkfæri djöfulsins prófaði ég svo á yngri syninum en hann lét mig vita af því að sjálfur hefði hann “addað” biskupnum sem sínum vini, inni á Facebook! Það endar með því að ég verð alein utan Fésbókar. Þetta er eins og að hafa aldrei farið í Smáralind. Hvort tveggja á við um mig. Og er náttúrlega tær geðveiki.