Ég er öll að koma til, þ.e.a.s. maran leggst ekki á mig daglega og andleg líðan er bara yfirleitt þokkaleg. Þetta er mikill léttir! Mínushliðar eru svefnleysi dauðans (sem lætur mér líða eins og ég sé vel timbruð, dag hvern) og athyglisbrestur (testaði lestur í gær og fyrradag með neikvæðum árangri; Les nokkrar síður og velti því svo fyrir mér hvað ég var að lesa …) og slappleiki (ef ég labba út í næstu búð titra lappirnar af áreynslu og mér finnst ég vera að leka niður).
Þess vegna lifi ég afar einföldu en jafnframt fátæklegu lífi. Helsta iðjan er að hanga á facebook, hlusta á útvarp og prjóna. (Hugsa að ég meiki ekki ennþá sjónvarp vegna athyglisbrestsins.) Þótt ég hlusti á alla fréttatíma dagsins á ýmsum stöðvum hef ég svo sem ekki náð mörgum fréttum, einna helst að ég hafi náð að fylgjast með fyrri tíðar gloríum Ólafs Johnsons og Þorgerðar Katrínar – veit að hún var flottasti ráðherrann á sínum tíma en aftur á móti virðist hún nú ekki hafa stigið í vitið sem ráðherra og ætti að snúa sér að öðrum störfum en sitja á Alþingi, finnst mér. Ólafur Johnson snýr sér sjálfkrafa að öðrum störfum en reka Hraðbraut, það er a.m.k. ljóst.
Mér tókst að taka strætó til borgarinnar handan Flóans í dag! Var samt soldið á mörkunum að ég höndlaði bakaleiðina, kannski vegna þess að ég var að leka niður af þreytu eftir enn eina svefnlitla nóttina. En ég komst báðar leiðir 😉
Hitti minn góða lækni sem ávísaði svefnlyfi. Vonandi virkar það. Ég hafði sjálf hent út hinu róandi-aukaverkunar-geðlyfi sem átti að fá mig til að sofa en gerði það ekki, af því mér fannst óþægilegt að vera andvaka og pínulítið hífuð, skárra að vera andvaka og edrú. Las einmitt í einhverjum netmiðlinum áðan að góður svefn gerði fólk fallegra – > lélegur svefn gerir fólk væntanlega ljótara og hvaða kona vill verða ljót og með bauga niður að hnjám? Ekki ég! Sömuleiðis er Marplan-skammturinn lækkaður og má ætla að ég endurheimti minn góða lága blóðþrýsting á ný, í stað þessa megalága þrýstings sem fær mig til að líða eins og máttlausri dulu. Allt á uppleið, lyfjalega séð, nema maðurinn var að hringja í þessu og hið góða apótek finnur ekki lyfseðilinn …
Það var gaman að hitta félaga af 32 A á reyksvæðinu og ég bað fyrir kveðjur til þeirra sem ég þekki og enn eru þarna inni. Það var líka soldið gaman að lesa Séð og heyrt á biðstofunni: Blöðin eru frá 1999 – 2006 og einkar spennandi að lesa um fallega fólkið 2006; hverjar voru óléttar, hverjir voru nýtt par og mega-ástfangin (öll skilin núna, held ég) og hverjir voru í bullandi útrás, keyptu hús, banka, snekkjur og tilbehör. Sama fólk er iðulega í fréttunum núna, með allt niður um sig. Loks var ég svo heppin að finna viðtal frá 2000 sem mér hafa leikið landmunir á að lesa upp á síðkastið: Athyglisvert og skýrði margt. Gleymdi strax öllu sem ég las í Séð og heyrt nema þessu viðtali …
Maðurinn sinnir öllum heimilisstörfum, kötturinn heldur mér selskap á daginn og ég hitti unglinginn minn á nóttunni, þegar ég fer á fætur og hann er að hugsa um að fara bráðum að tygja sig í bælið. Svoleiðis að aðstæður eru eins og best verður á kosið. Systkini mín hafa reddað ýmsum jólagjafakaupum (takk elskurnar!), maðurinn reddar sumum og nú er bara að taka sig saman í andlitinu, labba hundrað metra út í búð og kaupa rest. Því hef ég frestað í u.þ.b. viku en hlýt að ná því fyrir jól.
Sem betur fer höfum við alltaf jólað í lágmarki á þessu heimili. Hinn norðurþingeyski siður bernsku minnar, að skreyta ekki fyrr en á aðfangadag, er í heiðri hafður en ég fékk þó manninn til að setja eitthvert ljósadót í tvo glugga svo fólk héldi ekki að við værum múslimar. Við höfum aldrei bakað heldur purrkunarlaust keypt danskar smákökur í Einarsbúð – reyndar hefur frumburðurinn stundum bakað piparkökuhús einhverja nóttina en sleppir því væntanlega í ár. Jólin hjá okkur eru fyrst og fremst tækifæri til að slappa af og hafa það huggulegt. Maður slappar ekki af í bakstri, skreytingum og jólahreingerningu (fyrir svo utan það að ég hef löngu fundið út að það er heppilegast að gera svona stórhreingerningar á vorin, þegar fer að birta og skíturinn sést, og á haustin, til að losna við flugnaskít sumarsins). Þannig að ég hef nákvæmlega ekkert samviskubit yfir að gera nákvæmlega ekki neitt á þessu heimili, jólastúss meðtalið. Enda er öllum hinum hérna nákvæmlega sama.
Þetta er fátækleg færsla enda hef ég ekki almennilega komið mér upp skoðunum ennþá – þær koma með frekari bata.