Færeyska umræðan á Facebook

Eiginlega ætlaði ég að blogga um færeysk nöfn. Mér finnst nefnilega svo skemmtilegt að það skuli vera hægt að kenna sig við stað, auk þess að eiga möguleikana á föðurnafni (eða kenna sig móður) og ættarnafni. Færeysk nafnalög eru að þessu leytinu miklu frjálslyndari en okkar nafnalög. (Sjá Løgtingslóg nr. 31 frá 26.03.2002, með áorðnum breytingum, reyndar kemur fram á hagstofusíðu Færeyja að menn fara ekkert sérlega mikið að lögum í nafngiftum því mörg nöfn eru víst ekki á “listanum yfir góðkend nøvn”.)

Ég sé fyrir mér hversu miklu flottara það hljómaði að heita “Harpa af Vallholti” í staðinn fyrir Harpa Hreinsdóttir. Eða “Harpa af Skaganum” og þá mundu allir halda að ég væri skyldi Oddi … sem ég er ekki.

Þegar ég fór að skoða fésbókarumræðuna á síðu Árna Zachariassen sá ég mökk af undurfögrum nöfnum en reyndar einnig ansi hvunndagsleg nöfn. (Hér er rétt að taka fram að það að hafa Facebook-síðuna sína galopna öllum jafngildir opinberri birtingu og ekkert sem kemur í veg fyrir að vísa í eða vitna til slíkrar síðu. Enda segir í notkunarskilmálum Facebook: “When you publish content or information using the “everyone” setting, it means that you are allowing everyone, including people off of Facebook, to access and use that information, and to associate it with you (i.e., your name and profile picture).” , nr. 4, undir Privacy.) Ég er samt ekki viss um að það sé kórrétt að vitna í nöfnin í umræðunni, áhugasamir geta bara loggað sig inn á fésbókina og skoðað þau sjálfir. Ástæða þess að ég datt inn í þessa umræðu var auðvitað sá frægi færeyski stjórnmálamaður, Jenis Kristjan Av Rana. Mér finnst reyndar staðurinn sem hann kennir sig við ansi hallærislegur en það gerir væntanlega óheppileg líking við íslenska tungu, maður sér nánast fyrir sér fílsrana. Eða afar ræfilslegt nes.

Síða Jenis Kristjans Av Rana er ekki síður áhugaverð. Ég fékk að vísu nett sjokk við að sjá afkomanda minn listaðan sem einn af nýjustu vinunum hans Jenis en hugga mig við það að drengurinn hyggst áreiðanlega ekki gerast bókstafstrúarmaður, sennilega ekki heldur færeyskur ríkisborgari. Nei, honum gengur sjálfsagt eitthvað annað til með nýstofnuðum fésbókarvinskap við þennan mann, ekki síður en Tungnamanninum sem ég sá einnig í ný-vinahópi Jenis(ar?).

Því miður reikna ég með að eitthvað af hinum fáu Íslendingum sem hafa nýlega vingast við Jenis af Rana séu skoðanabræður hans. Tel mig meira að segja þekkja líklega ritendur svokallaðra “stuðningsbréfa” til hans, sem nýlega birtust í einhverjum fjölmiðli íslenskum. Þið þurfið samt ekki að gá: Árni Johnsen er ekki FB vinur hans Jens okkar.

Jenis tilkynnir keikur að hann ætli að taka þátt í mánaðarlangri bænastund á fésbókinni þar sem beðið er fyrir 72.000 börnum sem eru í lífshættu í Pakistan. Það er fallega hugsað af honum. Enda skrifar systir hans, Varna Av Rana: “Og so leika fólk í, tí tú ikki etur døgurða saman við 2 íslendskum konum….. Tey skuldu heldur gjørt sum tú.” Neðar á síðunni er lýsingu Vörnu á atgervi bróður hennar í æsku og minnir á lýsingu Magnúsar Stephensen í æsku, eins og hann lýsti sér sjálfur.

Annars fær venjuleg bloggynja hér uppi á Íslandi nettan hroll við lestur síðu Jens hins færeyska. Má þó hugga sig við að þeir atkvæðamestu í orði eru danskir prestar. Þó er vísað í síðu einhvers fríkirkjufélagsskapar hérlendis, sem er sprottinn upp úr Ungt fólk með hlutverk, en á síðunni segist presturinn (nafnlaus en með mynd … kannski er þetta frægur maður þótt ég kannist ekki við andlitið) muni fjalla um afþökkun Jenis Av Rana á að sitja til borðs með samkynhneigðu pari … en sú umfjöllun er framtíðarinnar.

Sá eini færeyski prestur sem ég kannast soldið við hefur ekki einu sinni fésbókarsíðu. Það er skynsamlegt af honum, finnst mér.

En, sem sagt: Maður getur haft gaman af nafngiftunum hugnist manni ekki skoðanirnar.

Einelti

er tískuorð í dag. Séu menn ósammála er handhægt að brigsla andstæðingnum um að vera geðveikur (svo sem ég hef bloggað um áður) en næsta skref að ásaka hann um að leggja sig í einelti. Nýjasta dæmið er sr. Örn Bárður Jónsson sem sakar fjölmiðla um að leggja kirkjuna (væntanlega þjóðkirkjuna) í einelti. Þetta hefur sjálfsagt verið bragð hjá sr. Erni til að koma lunganum af prédikun sinni í fjölmiðla og tókst með ágætum. En er hægt að leggja stofnun í einelti? Væru ekki, með sömu rökum, allir stjórnmálaflokkar landsins lagðir í einelti oft á ári … af fjölmiðlum? Svo ekki sé nú minnst á aumingja Actavis, Bónus, Arionbanka o.fl. svo maður velji nú dæmin af handahófi.

Einelti er útskýrt í orðabók sem stöðugar ofsóknir gegn einhverjum. Það er spánný túlkun að svoleiðis geti beinst gegn öðrum en einstaklingi / einstaklingum. Oft tekur samfélag viðkomandi þátt í eineltinu, t.d. er augljóst að konurnar sem ásökuðu fyrrum biskup á sínum tíma urðu fyrir skefjalausu einelti náungans.

Í þessu sambandi má benda á að kirkjan stóð löngum fyrir áhrifaríku einelti, kallað bannfæring eða bann, sem hún beitti allt fram á 18. öld. Kannski sr. Örn gæti brúkað þetta góða eineltistrix á fjölmiðla? Eða hefur hin lúterska evangelíska kirkja glutrað banninu formlega úr sinni verkfærakistu?

Einelti er grafalvarlegt mál. Ég hef heyrt hræðilegar sögur af slíku, einkum úr öðrum grunnskólanum hér í bæ. Þetta eru gamlar sögur og ég vona að tekið hafi verið til í svoleiðis málum núna. Svo hef ég bæði heyrt um og orðið vitni að einelti á mínum vinnustað (einnig er hér nokkuð um liðið). Satt best að segja held ég að einelti á vinnustöðum fullorðinna sé óhugnalega algengt. Minnipokamenn ýmiss konar nota tækifærið til að upphefja sjálfa sig með því að gogga í þann sem á undir högg að sækja eða bara einhvern sem er líklegur til að bera ekki svo mjög hönd yfir höfuð sér. Það að líkja opinni fjölmiðlaumræðu um stofnun á borð við þjóðkirkjuna við svoleiðis sálarmisþyrmingu er næsta ósmekklegt.

Merkilegt nokk hefur enginn lagt mig í einelti fyrir geðrænu sjúkdómana. Ekki ennþá a.m.k. Ég hugsa að meginástæðan sé sú að ég hef þá ekki leyndarmál og stend mig yfirleitt þokkalega vel í starfi þrátt fyrir þetta handikapp … eða jafnvel vegna þess. En ef goggað yrði í mig þegar ég er sem veikust gætu afleiðingarnar orðið hræðilegar. Frísk er ég ekki í vandræðum með að svara fyrir mig.

Reyna geðsjúklingar of mikið?

Yfirdrifin samúð“Þunglyndi er ekki merki um veikleika, það er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við þunglyndi. Ég þori – þorir þú?”

Þetta er fésbókarstatus sem sást hjá mörgum á dögunum. Ég veit ekki af hverju fólk át þetta upp hvert eftir öðru, líklega af samúð með okkur geðveika fólkinu. Það er ansi misskilin samúð og sjálf vildi ég gjarna vera laus við samúð af þessu tagi. 

Þunglyndi er alls ekki “merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi”. Þunglyndi er eins og hver annar sjúkdómur sem stafar af efnafræðilegu rugli í líkamanum. Eins og gildir um marga aðra sjúkdóma getur þunglyndi blossað upp við áreynslu en það er ekki hægt að alhæfa um að áreynsla valdi þunglyndi.  Auðvitað getur svo þunglyndið birst án þess að menn “reyni að vera sterkir”, alveg eins og hvaða efnaskiptasjúkdómar sem er.

Ég reyndi að setja í FB-statusinn minn: “Gyllinæð er ekki merki um veikleika, hún er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við gyllinæð. Ég þori – þorir þú?” Það er álíka mikið vit í þessu og frumútgáfunni. Og sennilega eru færri slæmir af gyllinæð en af þunglyndi.

Mér hefur fundist vænlegast að kannast hreinskilnislega við sjúkdóminn. Sama aðferð og kennd er í AA nýtist prýðilega á þunglyndi (reyndar líklega á marga aðra sjúkdóma einnig). Maður viðurkennir vanmátt sinn og þiggur hjálp. Hjálpin er einkum fólgin í efnafræðilegum lausnum, lyfjum, en sjálfshjálpin felst í að viðurkenna geðveikina og leitast við að lifa lífinu skynsamlega til að halda sjúkdómnum niðri, t.d. passa upp á svefn, hreyfingu og ýmislegt annað.

En öll heimsins skynsemi kemur að litlu haldi í slæmu þunglyndiskasti. Þá snýst allt um að lifa kastið af, hanga í voninni að í einhverri fjarlægri framtíð taki eitthvað betra við og hanga í voninni um að einhvern tíma finnist lyf sem virkar. Þetta eru hræðilegir tímar.

Ég var fyrst lögð inn á geðdeild vorið 1998, í slæmu þunglyndiskasti. Síðan hef ég hlotið mikla æfingu í að kljást við þennan sjúkdóm og sætta mig við að stundum er ég algerlega fötluð vegna hans. Líkamleg einkenni eru mjög sterk, t.d. jafnvægisskortur, alls konar verkir, stífir vöðvar, kölduköst, svitaköst o.fl. Mér finnst einbeitingarskorturinn, minnisleysið, nístandi tómleikinn og margt fleira líka ansi líkamlegt enda álít ég að heilinn í mér sé partur af líkamanum.

Undanfarin ár hef ég þurft að haga lífi mínu eins og nunna í klaustri; Reglusemin keyrir um þverbak! Það hefur samt alls ekki dugað til en gerir kannski tímann milli kastanna ofurlítið léttbærari. Erfiðast er kannski að þurfa að hanga á því að manni hafi verið gefin þessi spil, í lífinu, og verði að spila úr þeim eftir bestu getu.

Aukaverkanir lyfjaEn núna loksins er kraftaverkið að gerast! Mér sýnist af lauslegri athugun að nú sé ég að prófa 25. lyfið. Hin 24 eru ekki öll geðlyf heldur allskonar samansafn af lyfjum sem öll áttu að gera mér þunglyndi eða kvíða eða aukaafurðir þessa léttbærari. Í stöku tilvikum er um að ræða lyf við allt öðru sem voru samt prófuð í von um að aukaverkanirnar slægju á geðveikieinkennin. Svo hef ég tvisvar reynt raflækningar, legið inni á geðdeild nokkrum sinnum, aðeins prufað sálfræðiaðstoð og er á því að slík nýtist talsvert við kvíða en hef ekki fengið bót á þunglyndi þannig … og reynt allskonar húmbúkk sem velmeinandi fólk hefur haldið að mér. Geðveikt fólk verður flinkt í reynsluvísindum.

Í vetur sá ég fram á að einungis gamall MAO-blokki væri óprófaður, lyf sem er löngu búið að taka af markaði hér á landi. Þá prófaði ég að vera algerlega lyfjalaus, í þeirri von að ég kæmist af án lyfja, enda hef ég yfirleitt orðið meira eða minna veik af aukaverkunum og þegar svoleiðis bætist ofan á veikindi er ekki gaman að vera til.

Svo tók við frjálsa fallið ofan í myrkrið og kuldann nú í vor; ég veikist skelfilega hratt og hef innan við sólarhring til umráða áður en frostið tekur við og ég verð að uppvakningi. Skelfingin sem grípur mig verður alltaf meiri og meiri af því ég veit hvað er í vændum. Þá datt lækninum mínum í hug að prófa glænýtt lyf. Ég hafði svo sem ekki nokkra trú á því, hafandi almennt heldur slæma reynslu af lyfjum, en féllst á þetta, ekki hvað síst vegna þess að lyfinu áttu að fylgja fáar og sjaldgæfar aukaverkanir, sem ég sá óneitanlega sem plús. Auk þess verður fólk í minni stöðu að gera eitthvað, það er beinlínis lífsspursmál í endurteknum þunglyndisköstum.

Þetta lyf reyndist kraftaverkalyf. Strax í maí byrjaði mér að batna og batinn hefur haldist. Fjölskyldumeðlimir telja að ég hafi ekki verið svona frísk síðan fyrir 1998. En af því ég hef áður náð nokkrum bata af öðrum lyfjum, sá bati hefur svo reynst tálsýn og lyfin ekki virkað nema örstuttan tíma, og af því ég er ekki viss um að ég lifi það af að þurfa enn einu sinni að hætta vinnu á miðri önn og hverfa til heljar, og af því ég hef lært að helv. biðlundin er það sem gefst skást í baráttu við þunglyndi og kvíða … þá hangi ég fullfrísk (í augnablikinu) heima og gef þessu lyfi séns á að virka til langframa. Eins og ég sakna þess að vera að kenna!

Viðbrigðin eru óskapleg.  Allt í einu get ég gert allt mögulegt án vandkvæða. Mesti munurinn er kannski sá að fúnkera vel í hvunndeginum og að geta lesið bækur án þess að gleyma jafnóðum. 

Svo er ég jafnheppin áfram að vera bent á ólíklegustu ráð; Sóknarpresturinn í Árbæjarkirkju, sr. Þór Hauksson, skrifar í kommenti við næstsíðustu færslu: “Bara í síðustu viku fékk ég tvo skjólstæðinga senda frá geðlækni þannig að veröldin er ekki eins svört hvít og þú heldur. Hún er full að þenkjandi fagfólki sem þekkir sín mörg og það á við um flesta presta.” Ég hef ekkert á móti því að spjalla við þann ágæta prest sem þjónar á Skaganum en er hrædd um að mér féllust hendur ef minn ágæti læknir vísaði mér á hann, mér til lækninga. Eiginlega er ég dálítið hissa á þessum ónefnda geðlækni og í rauninni afskaplega fegin að ég er ekki viðskiptavinur hans.

Þannig að ef kraftaverkalyfið skyldi nú hætta að virka á ég bæði Marplan og presta eftir … til prófunar. 

P.s. Nú beinist kirkjuumræðan nokkuð að þeirri afgreiðslu sem konurnar hlutu á sínum tíma víða í þjóðfélaginu, nefnilega að þær væru geðveikar og því ekki mark takandi á þeim. Ég hef ekki hugmynd um hvað stendur í sjúkraskýrslum þessara kvenna og þær gætu þess vegna allar hafa leitað til geðlæknis og fengið lyf. En mér finnst þetta koma málinu álíka lítið við og hugsanlegar heimsóknir til kvensjúkdómalækna eða möguleg taka “pillunnar”. Vitfirring fylgir einungis litlum hópi geðsjúkdóma. Ef fórnarlamb er jafnframt veikt á geði, á þá ekki að taka mark á því? Gildir þetta ekki líka um fatlaða? Er þá í fínu lagi að hunsa allar ásakanir um brot ef fórnarlambið hefur leitað til geðlæknis?

Þeir sem halda í alvörunni að viðtal við geðlækni og geðlyf skipti máli í ásökunum á borð við Sigrúnar Pálínu o.fl. ættu kannski sjálfir að láta tékka á sínu eigin geði. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um þá sem brugðust svona við á þeim upplýstu tímum 1996!

Hjálmar, Karl, hinir karlarnir og kirkjan; Ég gefst upp!

Ég var að hugsa um að blogga um Hjálmar Jónsson, sem hvíþvær sig í viðtali í mogganum í gær, og Karl biskup sem hvítþvær sig í mogganum í dag … ekki í venjulegu viðtali heldur einhverju sem mogginn kallar “burðarvital”. Það er vissulega þung byrði að lesa það viðtal svo nafngiftin er ekki alveg út í hött, í þessum snepli sem berst hér á heimilið í vanþökk mína.

En svo sé ég að mér núna. Einkum eftir að hafa lesið frásagnir kvenna í DV núna áðan. Mér er um megn að hugsa meir um þessi mál. Þótt ég hafi a.m.k. tvisvar á ævinni kynnst mönnum sem voru að ná sér niður eftir að hafa haldið sig vera Guð í mestu maníunni hef ég aldrei kynnst þeirri ofurtrú á sjálfum sér sem finna má í þessum viðtölum; þessir menn hafa m.a. vald yfir sannleikanum. Það að halda áfram að sveigja sannleikann til löngu eftir að menn eru komnir út í horn, upp að vegg … að bakka eitt hænufet í einu en neita samt að viðurkenna snitti fyrr en menn eru beinlínis neyddir til þess er ekki í samræmi við minn skilning á iðrun, hvað þá yfirbót. Þessir menn næðu ekki langt í sporavinnu því þeim er um megn að viðurkenna vanmátt sinn.

Það sem er skelfilegast er að nú staðhæfa þeir báðir að þeir hafi allan tímann trúað Sigrúnu Pálínu og fleiri konum. Hvernig geta þeir sagt þetta og fundist ekkert að því að hafa bara staðið hjá vegna þess að yfirmaður þjóðkirkjunnar, sem var sakaður um þessi hryllilegu brot, var frekja eða nýkominn af fundi þar sem var klappað fyrir honum? Sá sem velur að þegja yfir glæpsamlegum verkum vegna meðvirkni er samsekur.

Hvernig getur fólk í þjóðkirkjunni setið messu hjá sr. Hjálmari eða sr. Pálma eða sætt sig við Karl Sigurbjörnsson sem æðsta mann þjóðkirkjunnar?  Hvernig getur fólk leitað til sálusorgara innan kirkjunnar nútildags hafandi þessa menn sem fyrirmynd, ekki árið 1996 heldur í viðtölum 2010?  Hvernig er það hægt?

Ég segi ekki að ég verði beinlínis þunglynd á að hugsa um þetta. En kvíðinn blossar upp og kemur m.a. fram í mikilli reiði og hringspólandi hugsunum, sem er afskaplega óhollt fyrir mig. Samt stend ég algerlega utan við þetta mál. Það gleðilega er að ég get dáðst að þeim konum sem aldrei hafa hvarflað og að þeim konum sem nýverið hafa komið fram og sagt sögu sína. Þær eru hetjur! Án þess að kasta rýrð á aðrar dáist ég mest að Sigrúnu Pálínu, Guðrúnu Ebbu og Stefaníu Þorgrímsdóttur.

Mín eigin sáluhjálp á undir því að ég hætti að velta þessu fyrir mér. Best að snúa sér að meinlausum morðsögum, hannyrðum, píanóspili eða öðrum jákvæðari umhugsunarefnum en málefnum þjóðkirkjunnar.

Þrá presta eftir sálgæslu og þögn

Í umræðunni um málefni þjóðkirkjunnar undanfarið eru tveir meginþræðir: Annars vegar upprifjun á kynferðisbrotum Ólafs sáluga Skúlasonar biskups og hins vegar upphrópanir um þagnarskyldu presta. Í rauninni fléttast þessir þræðir ansi mikið saman.

PresturÖllum sem horfðu á Kastljós núna áðan, þ.e. viðtalið við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, hlýtur að vera ljóst að það er fjarri því að núverandi biskup Íslands geti sagt satt um hennar mál. Karl biskup er í nákvæmlega sömu hjólförunum og meirihluti presta var 1996 (sjá færsluna hér á undan). Í rauninni verður að teljast líklegt að Sigrúnu hafi almennt verið trúað 1996. En einhverra hluta vegna völdu langflestir prestar að þegja um málið og sumir völdu að reyna að þagga niður í henni og þeim öðrum konum sem vildu koma í veg fyrir að kynferðisafbrotamaður sæti á biskupsstóli. Miklar og harðvítugar deilur grasseruðu innan þjóðkirkjunnar á þessum tíma og kann að vera að prestar hafi aðhyllst þögn og þöggun þessara mála af því allt var fyrir í báli og brandi. E.t.v. hefur þeim sumum verið fyrirmunað að skilja að gróf kynferðisleg áreitni væri eitthvað til að gera veður út af?  (Minnir mig á karlmenn sem ég hef heyrt segja: “Ég lenti í nauðgun” – þar sem þeir voru gerendur og konurnar svo tíkarlegar að kæra þá.)

Prestarnir völdu að þegja 1996. Þeir einu sem opinberlega gerðu eitthvað voru: Sr. Kristján Björnsson, sem  sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Prestarnir samþykktu dagskrártillögu um að vísa tillögu sr. Halldórs frá. Og sr. Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, lagði fram ályktun fyrir PÍ þar sem sagði:  “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” Enda samþykktu prestarnir ályktunina ekki og enginn þeirra efaðist opinberlega um heilindi biskups síns og hæfi til að gegna embætti, þrátt fyrir vægast sagt vafasamar aðferðir við sálgæslu árið 1979.

Núverandi kattarþvottur þeirra sem drápu málinu á dreif 1996 og sópuðu því undir teppið er álíka pínlegur og þegar vitnað er í hermenn sem fremja ofbeldisverk og segjast eftir á einungis hafa verið að framfylgja skipunum foringjans. Þeir sem gegndu prestsembættum 1996 og jafnvel sérstökum trúnaðarstöðum að auki ættu að átta sig á því að þá, eins og nú, jafngilti þögnin samþykki. Skoði maður mál Sigrúnar Pálínu frá 1996 er ljóst að prestar litu á þagmælsku sem gulls ígildi og héngu á henni einsog hundar á roði.

En núna hefur þetta allt í einu snúist við. Svo hallærislegt sem það nú er þá beinast ásakanir yngri presta einmitt að einum þeirra þriggja sem ekki þagði 1996, sumsé sr. Geir Waage. Hann má þó eiga það að hann hefur hingað til verið samkvæmur sjálfum sér, ólíkt sumum þeim sem kusu á dögunum að fórna honum á altari umræðunnar, kannski til að draga athyglina frá algerum vanmætti þjóðkirkjunnar til að fást við óþægileg mál á borð við mál Sigrúnar Pálínu, enn þann dag í dag.

Í Kastljósi í gær ræddu þeir sr. Þórhallur Heimisson og Illugi Jökulsson um hlutverk íslensku þjóðkirkjunnar og var helst á sr. Þórhalli að skilja að meginhlutverk kirkjunnar væri ýmiss konar sálgæsla eða félagsþjónustustarf. Þetta virðist einnig vera uppáhaldshlutverk eða draumahlutverk í málflutningi yngri presta. (Hér á ég við presta sem eru innan við fimmtugt.)

sálgæslaAf því umræðan undanfarið hefur sveigst að merkilegu hlutverki sem prestar ku gegna í barnaverndarmálum og nauðsyn þess að þeir upplýsi rétt yfirvöld þegar perrarnir leita til þeirra er athyglisvert að innan við 1 prómill af tilkynningum til Barnaverndarnefndar í Reykjavík í fyrra var frá prestum; nánar tiltekið 3 af rúmlega 4.300 tilkynningum. Árið þar áður er hlutur presta í tilkynningum til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur rúmlega hálft prómill (2 af 3.814 tilkynningum). (RÚV 26. 8. 2010.) Í þessu sambandi er vert að taka fram að sr. Geir Waage er prestur í Reykholti í Borgarfirði svo meint skoðun hans á þagnarskyldu presta skekkir ekki þessar tölur 😉 Annað hvort steinhalda prestar sér almennt saman eða þeir frétta sjaldan af ofbeldi gegn börnum. Mér finnst síðarnefnda skýringin mun líklegri. Ég held nefnilega að fólk ræði svoleiðis vandamál sín við aðra en presta; raunar held ég að þeir sem frétta langoftast af ofbeldisverkum hvers konar frá ofbeldismönnunum sjálfum eða þolendum séu áfengisráðgjafar en ekki prestar.

Nám í guðfræði er gamaldags meistaranám (þ.e. 5 ára háskólanám). Einhver hluti þess er í sálfræði, félagsfræði og tengdum greinum en ég held að sá hluti sé ekki mjög veigamikill. (Væri gaman ef einhver gæti upplýst það, t.d. hve margar einingar slík fög vega miðað við heildareiningafjölda.) Til samanburðar má nefna að nú er gerð sú krafa til framhaldsskólakennara að þeir hafi meistarapróf í sinni kennslugrein (5 ára háskólanám) auk eins árs í uppeldis-og kennslusfræðum. Þetta er grunnkrafan en náttúrlega afla margir framhaldsskólakennarar sér frekari menntunar, ekkert síður en prestar. Grunnskólakennurum og leikskólakennurum er nú gert einnig að ljúka 5 ára háskólanámi.

Nú dettur okkur framhaldsskólakennurum ekki í hug að við séum þess umkomnir að veita meiriháttar sálgæslu né langar okkur sérlega til þess að gegna slíku hlutverki (þótt við höfum slatta af einingum í uppeldisfræði, sálfræði og félagsfræði). En prestar, sem hafa styttra grunnnám að baki, eru alls óhræddir við að stinga sér í sálgæslulaugina – sumir virðast meira að segja þrá sem dýpsta og myrkasta laug. Þó ættu þeir að hafa nóg verkefni fyrir við hæfi, þ.e.a.s. að reyna að efla trú fólks, ekki hvað síst trú fólks á prestum.

Ég efast ekki um að prestar séu upp til hópa hið vænsta fólk, af þeirri einföldu ástæðu að flest fólk er hið vænsta, einkum ef á reynir. En ég held jafnframt að þeir ættu að halda að sér höndum áður en þeir geisast inn á annarra svið. Mér finnst miklu heppilegra að fólk í kreppu leiti til sálfræðinga, geðlækna, áfengisráðgjafa eða einhvers sérmenntaðs fólks í staðinn fyrir að bögga prestinn sinn, sama hversu velviljaður hann er. Og ég tek undir með Illuga Jökulssyni í því að líklega væri heppilegra að ráða þorpssálfræðing en stóla á prestinn, í smærri byggðarlögum.  Satt best að segja hefur maður heyrt minna af blammeringum og bömmer sálfræðinga undanfarið en presta, svo ekki sé nú minnst á biskupa.

PresturPrestar eru prýðilega launaðir. Eftir sitt grunnnám hafa þeir 473.551 kr. í grunnlaun (sjá Yfirlit yfir laun skv. ákvörðun Kjaradóms). Ofan á þau laun bætast greiðslur fyrir embættisverk hvers konar, t.d. fermingar, skírnir, giftingar og jarðarfarir, en slíkt getur gefið ágætlega í aðra hönd í fjölmennum sóknum eða hjá vinsælum prestum. Byrjunarlaun framhaldsskólakennara í flestum framhaldsskólum (með eins ár lengra grunnnám en prestar) eru um 300.000 kr. Líkast til er erfiðara að halda safnaðarsauðunum innan þjóðkirkjunnar þessa dagana en troða í unglinga ýmiss konar fróðleik svo ég sé ekkert ofsjónum yfir ágætum launum prestanna.

Aftur á móti er ég ekkert gasalega hress með að þurfa að borga svoleiðis fólki, sem skattgreiðandi. Það er nefnilega ríkið sem greiðir þeim laun. Ómerkileg sóknargjöld, 850 – 900 kr. á mánuði á kjaft, sem við fólkið utan trúfélaga greiðum í staðinn til ríkisins, hrökkva auðvitað ekki langt til að greiða prestum landsins laun.

Eftir að hafa undanfarna daga reynt að setja mig aðeins inn í þjóðkirkjusirkúsinn er ég fegin að nú skuli eiga fljótlega að leggja fram á Alþingi tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég geri mér þó engar vonir um að hún verði samþykkt, það að losna við hina lútersku evangelísku kirkju sem þjóðkirkju útheimtir stjórnarskrárbreytingu. En þetta er þó altént byrjunin.

Biskupar, prestar, kirkjan og fólkið landinu

Þessi færsla gæti náttúrlega alveg eins heitið “Frekir karlar, gauð og sterkar konur”. Og í rauninni stend ég afskaplega mikið fyrir utan málið þar sem ég þekki engan málsaðila (kannast lauslega við suma) og sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir tvítugt … síðan eru meir en þrjátíu ár. En mér ofbýður nú samt.

Ég skrunaði gegnum timarit.is í dag og varð margs vísari. Þessi færsla er tilraun til að rekja söguna frá 1996, með tilvísun lengra til fortíðar og líka fram í tímann, og að skoða hvort nokkuð í viðbrögðum kirkjunnar manna hefur breyst síðan þá.

1996 loguðu ýmsar deilur innan þjóðkirkjunnar. Má nefna deilu sr. Flóka við sóknarnefnd og organista í Langholtskirkju, langvinnar deilur sr. Torfa á Möðruvöllum við sín sóknarbörn og aðra presta sem vildu fá að nota kirkjuna hans, deilur sr. Gunnars í Holti við sín sóknarbörn, deilur vegna ráðningar prests í Hveragerði o.s.fr. Prestar skipuðu sér í flokka og fylkingar og mest áberandi í kirkjuumræðu í fjölmiðlum þetta ár eru annars vegar prestar hallir undir pópúlisma (sem Ólafur Skúlason biskup þótti einnig vera) og hins vegar svokallaðir svartstakkar, þ.e. einhvers konar hákirkjumenn. Ef ég man rétt var vígslubiskupinn, Sigurður Sigurðsson í Skálholti, forkólfur svartstakka og hann atti svo seinna kappi við sr. Karl Sigurbjörnsson um biskupsembætti. Karl var í pópulismanum … fylgjandi poppmessum og þvíumlíku. Þessi klofning innan kirkjunnar er rakin í Alþýðublaðinu 16. janúar 1996, s. 4-5. Þar er minnst á sr. Vigfús Þór Árnason og sr. Baldur Kristjánsson sem sérstaka stuðningsmenn Ólafs Skúlasonar biskups en sr. Geir Waage sem sérstaklega óþægan ljá í þúfu biskups.

Snemma árs 1996 koma í fjölmiðlum ásakanir þriggja kvenna á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðislega misnotkun og tilraun til nauðgunar. Sú sem kom fyrst fram undir nafni var Sigrún Pálína Ingvarsdóttir. Í viðtali í Vikunni 2. júlí 2009 rekur hún þessa sögu.

Þótt málið kæmi upp á yfirborðið 1996 var það hreint ekki nýtt. 1979 [ártal leiðrétt 26. ágúst 2010]  leitaði hún til Ólafs, sem þá var prestur í Bústaðakirkju, vegna hjónabandserfiðleika. Kvöldið eftir kom hún aftur á fund sr. Ólafs og hann lokkaði hana inn í “gluggalaust lokað herbergi með bedda og skrifborði og áður en ég vissi af hafði hann skellt í lás og lá ofan á mér, honum hafði risið hold, hann var með tunguna uppi í mér og hendurnar inni á brjóstunum á mér.” Sem betur fer komst Sigrún Pálína undan. Þegar Ólafur gaf kost á sér í biskupskjöri 1989 [ártal leiðrétt] fannst henni óhugsandi að hafa kynferðisafbrotamann sem biskup. Svo hún hafði samband við Sigurbjörn Einarsson biskup (föður Karls, núverandi biskups, Sigurbjörn var fyrrverandi biskup 1989). Sigurbjörn hlustaði á hana en sendi hana svo á fund Ólafs, sem brást hinn versti við og gaf í skyn að hún væri geðveik. Sigurbjörn biskup bauðst svo til að biðja fyrir Sigrúnu Pálínu, það væri það eina sem hann gæti gert fyrir hana.

“Vitað er að Sigrún Pálína leitaði til séra Pálma Matthíassonar vegna sama máls árið 1994 en hann lét hjá líða að koma málinu áfram.  Árið 1995 leitaði Sigrún því til séra Vigfúsar Þórs Árnasonar sem sinnti málinu ekki heldur. Það var ekki fyrr en hún kærði Vigfús Þór til siðanefndar fyrir að aðhafast ekkert að hjólin fóru að snúast. Siðanefnd náði sáttum milli Vigfúsar og Sigrúnar vegna þessa, en vísaði kæru hennar á hendur biskupi hins vegar til stjórnar Prestafélagsins, sem ákvað að siðanefnd skyldi fjalla um kæruna. Í síðustu viku var haldinn árangurslaus sáttafundur með Sigrúnu Pálínu og Ólafi Skúlasyni biskupi í þessu máli.” (Fleiri konur með sakir á biskupinn, Helgarpósturinn 22. febrúar 1996. Þetta er ágæt yfirlitsgrein. Í þessari klausu sést vel hvernig hver vísar á annan. Annað gott yfirlit er í DV 2. mars 1996.)

Á fundi Sigrúnar Pálínu, sr. Vigfúsar Þórs, Ólafs biskups o.fl. skrifaði Sigrún Pálína fundargerð sem hún sendi síðar til siðanefndar kirkjunnar. Á fundinum viðurkenndi Ólafur ekki neitt en “Því næst sagði hann okkur að hann hefði ofan í skúffu hjá sér mál fimm presta sem væru ásakaðir um kynferðislega áreitni og hann hygðist ekki gera neitt við þær ásakanir.” (Vikan, 2. júlí 2009, s. 29).

En hvað aðhöfðust kirkjunnar þjónar meðan þessu vatt fram? “Tveir prestar báðu biskup að leita sátta” (DV, 5. mars 1996), líklega þeir Hjálmar Jónsson og Karl Sigurbjörnsson, “að eigin frumkvæði”, segir í fréttinni. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og á síðustu dögum hefur komið skýrt fram að báðir létu biskup svínbeygja sig og a.m.k. Karl snérist á sveif með Ólafi biskupi því hann reyndi að falsa yfirlýsingu Sigrúnar Pálínu eftir fund með þeim og biskupi. (Sjá t.d. fyrrnefnt viðtal í Vikunni.)  Þetta eru sömu tveir prestarnir og reyndu að fá konurnar til að láta málflutning sinn niður falla (sbr. Klofningur yfirvofandi? DV, 9. mars 1996).

Í fyrrnefndri frétt DV 5. mars 1996 segir líka að sr. Geir Waage hafi lagt fram ályktun á fundi Prestafélags Íslands (sem hann var formaður fyrir) – sú ályktun fékkst ekki samþykkt. Í ályktuninni sem Geir samdi sagði: “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” (Mbl. 5. mars 1996.)

Þannig að Geir Waage vildi strax að biskup segði af sér. Prestarnir í Prestafélaginu neituðu að samþykkja ályktunina. (Á næsta stjórnarfundi PÍ létu tveir stjórnarmenn bóka mótmæli við málsmeðferð séra Geirs Waage, þ.e. þessa ályktun sem hann lagði fram. Sjá Mbl. 2. apríl 1996.) Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Ólafs biskups, sagði að þessi ályktun Geirs hefði þann eina tilgang að vega að biskupnum. Hún væri liður í valdabaráttu innan kirkjunnar. (Sjá Mbl. 6. mars 1996.) Þessari túlkun andmælti Sr. Geir í Mbl. daginn eftir.

Í DV-fréttinni Klofningur yfirvofandi? 9. mars 1996, er sagt um formann Prestafélags Íslands (sr. Geir Waage): “Hann hefur sagt opinberlega að lögmaðurinn [Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Ólafs Skúlasonar biskups] hafi komið á fund Prestafélagsins til að hræða stjórnina frá því að láta nokkuð frá sér fara í málinu. Stjórn félagsins hafi heyrt “harðan, markvissan áróður” og hótanir frá lögmanninum. Lögmaðurinn ætli að reka málið á sviði pólitískra átaka. Biskupi beri hins vegar að varðveita kirkjuna fyrir flokkadráttum og sundrungu”.

Sr. Ragnar Fjalar Lárusson lýsti opinberum stuðningi við Ólaf biskup. “”Ályktun okkar prófastanna var harðorð og ég staðfesti í þætti að ég áliti að yfirlýsing biskups um sakleysi sitt væri sönn. … en það þýðir ekki endilega að konurnar ljúgi. Það gætu verið einhverjar aðrar ástæður sem valda því að þær bera þetta fram þó þær séu ekki beinlínis að ljúga,” segir Ragnar Fjalar.” (DV 11. mars 1996.) Aðalfundur Prófastafélags Íslands ályktaði að lýsa fullum stuðningi við Ólaf biskup og harma og fordæma ósannaðar aðdróttanir í hans garð, gáleysi fjölmiðla o.s.fr. 

Sr. Kristján Björnsson sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Gert var fundarhlé og síðan strax borin fram dagskrártillaga um frávísun; dagskrártillagan var samþykkt. Sr. Sigurður vígslubiskup lagði fram tillögu um að “beina þeim tilmælum til biskups að hann kalli saman nefnd … [sem] ætti að endurskoða …” frumvarp um embætti biskups Íslands. Það tók PÍ sjö klukkutíma umræður áður en þessi varlega tillaga sr. Sigurðar var samþykkt. (Sjá Pattstaða áfram, DV 16. apríl 1996.)

Fréttin “Handafli” beitt í biskupsmáli – tveir prestar ganga erinda biskups (DV 6. mars 1996) hefur notið athygli síðustu dagana. Í henni segir að “Tveir prestar, séra Hjálmar Jónsson, alþingismaður og séra Karl Sigurbjörnsson, hafa síðustu daga beitt áhrifum sínum til að fá konurnar sem ásaka Ólaf Skúlason biskup um kynferðislega áreitni til að falla frá málum sínum … í kjölfar þeirra [funda] dró ein kvennanna mál sitt til baka.”

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta lengra í smáatriðum. Séra Ólafur kærði Sigrúnu Pálínu, Stefaníu Þorgrímssdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur (starfskonu Stígamóta) til Rannsóknarlögreglu ríkisins en niðurstaða hennar var að ekki væru tilefni til málsóknar. Siðaráð fann út að Ólafur væri sjálfur sekur um að hafa reynt að njósna um samskipti sr. Flóka og Sigrúnar Pálínu. Kirkjunnar menn héldu áfram að stinga skottunum milli lappanna.

Sr. Ólafur tilkynnti afsögn sína um mitt ár 1996, í opnunarræðu á prestastefnu.  Hann hugðist reyndar starfa áfram í eitt og hálft ár en úr því varð ekki. Orð hans í þessari ræðu eru athyglisverð, t.d. þetta:

“Annað atriði sem einnig gjörbreytir stöðu prestsins er aukin umfjöllun um kynferðislega áreitni og skýrari meðvitund um það í hverju hún felst. … Það fer ekki milli mála að kynferðisleg valdbeiting eða áreitni er eitthvað það ógeðfelldasta og ógeðslegasta sem þjakar mannlegt samfélag. Kynferðisleg misnotkun barna veldur líka öllu heilbrigðu fólki miklum áhyggjum enda vitum við það að misnotkun barns, sérstaklega af nánum ættingja eða þeim sem það hefur borið traust til, hefur áhrif allt lífið. … Kirkjunni ber að koma slíku fólki til aðstoðar. Kirkjunni ber að sinna því ekki síður en þeim öðrum sem eiga við vandamál að stríða.” (Alþýðublaðið 26. 6. 1996.)

Nú nýverið hefur komið á daginn að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, stingur enn höfðinu í sandinn og virðist fullkomlega loka augunum fyrir hvers lags mann Ólafur biskup hafði að geyma. Karl situr í Kirkjuráði og greip til þess að lúra á bréfi fyrrum organista Bústaðarkirkju sem Kirkjuráði barst árið 2009. Í því er brengluðu háttalagi Ólafs mætavel lýst. Guðrún Ebba Ólafsdóttir (biskups) var búin að bíða í heilt ár eftir áheyrn á Kirkjuráði og fékk hana ekki fyrr en málið komst í fjölmiðla nú um daginn. Hún sagði svo Kirkjuráði frá kynferðislegu ofbeldi sem hún sætti af hendi föður síns frá barnæsku.

Í Kastljósi í gærkvöldi engdist biskupinn eins og ormur á öngli undir spurningum þáttarstjórnanda. Hann gat hvorki staðfest né neitað að hann tryði Sigrúnu Pálínu. Hann gat ekki sagt einfalt já við að hann tryði Guðrúnu Ebbu … einungis muldrað “ég rengi hana ekki” og haldið svo áfram að drepa málinu á dreif.

Aumingja fólkið í þjóðkirkjunni að hafa þetta gauð fyrir sinn æðstaprest!

Eftir höfðinu dansa limirnir og það er satt best að segja pínlegt að lesa blogg presta þessa dagana. Ýmist eru þeir að hvítþvo sjálfa sig, t.d. biskupsritarinn í tíð Ólafs biskups, Baldur Kristjánsson (sjá http://baldurkr.blog.is/blog/baldurkr/ og http://bloggheimar.is/baldur/) eða þeir reyna að hengja sr. Geir Waage fyrir sjálfa sig, t.d. Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju (sjá http://blog.eyjan.is/bjarnikarlsson/2010/08/21/nu-tharf-geir-waage-ad-haetta/).  

Í hita leiksins 1996 voru það prestarnir sem brugðust. Þeir kusu biskupinn; þeir skipuðu Prestafélagið og siðaráð presta og öll þessi batterí sem hunsuðu konurnar. Flestir þeirra völdu að steinþegja. Undantekning frá þeirri reglu var sr. Geir Waage sem virðist eiga að verða næsta fórnarlamb þjóðkirkjunnar og “hinna rétt-pólitískt-þenkjandi alþýðu”. Það er í sjálfu sér pínleg uppákoma, miðað við það sem ég hef rakið að ofan og miðað við bréf hans sem lak í fjölmiðla í dag en gleður væntanlega biskupinn og hina prestana. Á Karl biskup hinn blauði að áminna þennan klerk?

  

Viðbót 25. ágúst 2010: Guðbjörg Jóhannesdóttir, formaður Prestafélags Íslands, styður hugmyndir um að komið verði á fót sérstakri sannleiksnefnd til að fjalla um meint kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups (RÚV 24.08, kl. 19.35.) Viðbrögð presta eru sem sagt nákvæmlega þau sömu og 1996, þ.e. að skipuð  verði nefnd til að skoða þessi mál í stað þess að kirkjan taki á þeim sjálf. Álíka lítill dugur er í þjóðkirkjunni og var. Kannski er helsti munurinn nú að prestar kusu yfir sig gauð í biskupsstað eftir að hafa haft reynsluna af valdasjúkum siðblindum ofbeldismanni. Útkoman er í rauninni sú sama: Aðalmálið er að þegja yfir óþægilegum staðreyndum.

Karl biskup lýsir því loks yfir í dag að hann trúi konunum sem báru sakir á Ólaf biskup 1996 og bætir við að “Það sem þær lýsa sé hörmulegt.” Hann er að hysja upp um sig brækurnar og ætlar að tala við forseta Kirkjuþings í dag. (RÚV 25.08, kl. 13.21.) Ef einhver var í aðstöðu til að meta sannleiksgildi þessara ásakana 1996 var það einmitt Karl Sigurbjörnsson, þá prestur í Hallgrímskirkju. Hann útskýrir ekki í þessari frétt af hverju hann faldi bréf organistans fyrir ári síðan eða af hverju hann sá ekki um að Kirkjuráð  veitti Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur strax áheyrn heldur lét hana bíða í rúmt ár, vitandi að hún ætlaði að fjalla um kynferðisafbrotamál sem tengdust kirkjunnar mönnum.

Miðað við yfirlýsingar presta í fjölmiðlum undanfarið virðast þeir hafa trúað konunum sem báru fram þessar ásakanir. E.t.v. eru orð sr. Ragnars Fjalars Lárussonar, sem vitnað er í ofar í þessari færslu, lýsandi fyrir tíðarandann: Konunum var trúað en af því þetta var óheppilegt innlegg í valdabaráttu (karlanna) innan kirkjunnar á þessum tíma var kosið að hunsa þær og standa með sínum biskupi. E.t.v. litu kirkjunnar menn (karlarnir) ekki á kynferðislegt ofbeldi og nauðgunartilraun sem neitt sérstakt til að gera veður út af? Einhvern veginn virðist framganga núverandi biskups til þessa ekki gefa tilefni til þess að halda að sá hugsunarháttur hafi breyst.

Í rauninni finnst mér helv. hart að þetta batterí, þjóðkirkjan, skuli vera ríkisrekið og þ.a.l. rekið fyrir skattfé almennings, þótt þeir sem standa utan hennar borgi ekki sóknargjöld. Algert máttleysi presta og yfirgengileg þjónkun við þögn um óþægilega hluti hlýtur á endanum að leiða til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Kannski verður sá aðskilnaður ekki fyrr en bróðurpartur þjóðarinnar er genginn úr þjóðkirkjunni.

Ég þakka guði fyrir að ég er ekki þátttakandi í þessari vitleysu: Ég er ekki í þjóðkirkjunni!

Strákar og stelpur í skólanum

Nú hefur “Menntaráð Reykjavíkur hefur skipað starfshóp sem á að leita leiða til að efla námsáhuga drengja í grunnskólum borgarinnar” (úr frétt á RÚV 21. ágúst 2010) enda hefur komið í ljós að einungis 2/3 af strákum finnst skemmtilegt í skólanum, strax í fyrsta bekk! Miklu fleiri stelpum í sex ára bekk finnst gaman í skólanum.  

Langt er síðan öllum var ljóst að námsárangur stelpna í bóklegu námi er miklu betri. Í þessari frétt er vísað í PISA-kannanir og niðurstöður samræmdra prófa. En líklega hefur þessi mismunur verið til staðar alla tíð, sérstaklega í efri bekkjum grunnskóla því stelpur þroskast fyrr en strákar. Í rauninni væri sniðugt að leyfa fljótandi skil milli grunn- og framhaldsskóla, þannig að nemendur lykju ýmist grunnskólaprófi úr 9. eða 10. bekk. Ég hugsa að meirihluti þeirra sem lyki námi eftir 9 ár yrðu stelpur og meirihluti eftir 10 ár strákar. Í framhaldsskóla lentu svo strákarnir með árs yngri stelpum, sem væri ágætt fyrir bæði kyn, að mínu viti. Svona tillaga fellur ekki í kramið hjá grunnskólaforkólfum, ég veit það.

Fyrir nokkrum árum fór ég á ráðstefnu um drengjamenningu í grunnskólum. Líklega hefur það verið ráðstefnan sem hér er sagt frá, haldin 2005. Það sló mig mest að þar var einungis einn grunnskólakennari af Akranesi, a.m.k. sem ég þekkti. Áhugi hér í bæ á svona málum virtist ákaflega lítill. Þetta var alls ekki fyrsta ráðstefnan sem haldin var um málefni stráka í grunnskóla, t.d. fann ég fyrirlestra af Málþingi Karlanefndar Jafnréttisráðs og Menntamálaráðuneytisins sem haldið var 1997, á rápinu um Vefinn núna. En þótt ráðstefnur séu haldnar og kannanir gerðar virðist fjarska fátt þokast áfram, nú er stofnaður starfshópur sem á að leggja eitthvað til … og væntanlega gerist fátt.

Það virðist vera tabú að benda á að strákum líður kannski ekkert alltof vel í eilífum kvennafansi: Langstærstur hluti grunnskólakennara eru konur. Þessar konur hafa svo lært í Kennó sem er aðallega skipaður konum. Þær koma úr afskaplega fábreyttu kvenvinsamlegu umhverfi og hafa náttúrlega litast af því.

Strákarnir mínir stunduðu nám hvor í sínum grunnskólanum hér á Skaganum. Reyndar var sá eldri svo heppinn að komast í samkennslu á Laugarvatni í tvö ár, sjálfsagt hefur það bjargað miklu því þar var ekki þessi eilífa krafa um að halda öllum á sama stað í námi … stað sem miðaðist við meðalstelpu. Þessum strák gekk vel í skóla en frá sex ára bekk var allt kapp lagt á að halda honum niðri í námi. Hann var líka svo heppinn að fá góða karlkyns kennara í efstu bekkjum grunnskólans hér á Skaganum. Mér sýnist að karlkennarar kenni einkum á unglingastiginu. Yngri sonurinn fór í gegnum nánast allan sinn grunnskóla hér. Vandamálin hrönnuðust upp með árunum, aðallega vegna þess að honum var um megn að tileinka sér ýmis meðvirknieinkenni sem kennarinn hans gerði kröfu um og að “halda kjafti og vera sæt”, eins og stelpurnar. T.a.m. lenti hann upp á kant við sína kennslukonu af því hann svaraði ekki í “réttum tóni”.  Þeir sem björguðu því sem bjargað varð voru karlarnir sem kenndu honum í efstu bekkjunum.

Á hverju hausti þangað til núna hef ég kennt nýnemahópum, allt frá því ég hóf kennslu fyrir tæpum aldarfjórðungi síðan. Mér hefur fundist æ meira áberandi hvað margar nýnemastelpur eru ísmeygilega frekar undir sléttu og últra-kvenlegu yfirborðinu. Þær halda sumar að ég sé “vinkona” sín en ekki kennari. Þetta kemur m.a. fram í því að reglur, t.d. um ritgerðaskrif eða hegðun í kennslustundum, telja þær að eigi ekki um sig. Það tekur venjulega u.þ.b. mánuð að kenna svoleiðis stelpum að kennsla og námsmat sé óháð kyni, hársídd, fegurð og fatahönnun. Ég verð æ hlynntari því að skipta í hópa eftir kyni en það er náttúrlega borin von að sú framkvæmd komist á. Reyndar skiptist þetta svolítið sjálfkrafa því í fjölbrautaskóla er sorterað eftir námsárangri, í venjulegan áfanga, hægferðaráfanga og svo fornám. Í fornámsáfanga í íslensku eru yfirleitt sárafáar stelpur.

Nú er rétt að taka fram að nánast allar hinar sextán ára fögru, kvenlegu “meintu vinkonur kennarans” átta sig fljótt og semja sig að nýjum siðum í framhaldsskóla. Svo þetta er ekki vandamál fyrir okkur þar. En ég spyr mig stundum hvernig standi á því að þær komi með þetta viðhorf upp úr grunnskólanum, þ.e. að þær séu svo miklu fremri öðrum og um þær gildi því ekki sömu reglur og aðra. Er hugsanlegt að einhver öfugsnúinn gamaldags rauðsokkufemínismi með ívafi af fræðum Britney Spears sé ríkjandi meðal grunnskólakennslukvenna? Er hugsanlegt að of mikið sé lagt upp úr að hampa stelpum á kostnað stráka? Nei, ég hlýt að hafa rangt fyrir mér í þessu hugsanlega.

Sjálf hef ég mestalla tíð verið í minnihluta; Í Menntó voru miklu fleiri strákar, í HÍ voru miklu fleiri karlar (en það hefur aldeilis snúist við sá ég í vetur sem leið!) og á mínum vinnustað voru karlar í meirihluta til skamms tíma, af því skólinn er að hluta iðnskóli. Núna er hlutfall kynja í kennarahópi FVA nokkuð jafnt. En öll önnur vinna sem ég hef unnið um ævina hefur verið kvennastörf. Sömuleiðis hef ég stundum flækst inn í kvennahópa ýmiss konar en ævinlega gefist upp á þeim af því mér finnst mórallinn verða frekar leiðinlegur. Mér finnst oft mun þægilegra að hafa samskipti við karla.

Fyrir óralöngu síðan, 1942, lagði rektor Hins almenna Menntaskóla í Reykjavík (sem skömmu síðar varð að MR) fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að skólanum yrði breytt í heimavistarskóla eingöngu fyrir stráka: “Hafinn verði skipulegur undirbúningur að endurreisn Skálholtsskóla, þar sem piltar stundi menntaskólanám, og athugaðir möguleikar á því, að gera Kvennaskólann í Reykjavík svo úr garði, að hann geti orðið menntaskóli og vönduð uppeldisstofnun fyrir stúlkur.” Þessu mótmæltu auðvitað Kvenréttindafélag Íslands og Kvenstúdentafélag Íslands og sjálfsagt fleiri. Í umræðunni var bent á að ein skýringin á þessum vilja væri að eftir að inntökupróf með numeris clausus voru tekin upp í Hinn almenna Menntaskóla í Reykjavík skoruðu stelpur hærra.  Mig minnir að einungis 24 hafi verið teknir inn í 1. bekk ár hvert. “Nú eru telpur á fermingaraldri venjulega meira báðþroska heldur en drengir á sama aldri. Þess vegna hafa hlutfallslega fleiri stúlkur úr hópi umsækjenda náð inntöku í skólann, og það er það sem svo mjög er litið hornauga til.” segir í frétt Nýs kvennablaðs af málinu, í maí 1942.

Vissulega var rétt að mótmæla þessum hugmyndum á sínum tíma. Annars hefði kannski orðið til tvenns konar stúdentspróf þar sem annað væri óæðra hinu. Á hinn bóginn hafa tímarnir breyst verulega frá 1942 og alger óþarfi að halda uppi kvennabaráttu í stíl þeirra lönguliðinna tíma. Samt er stundum eins og kvenfólk telji sig vera uppi á einhverjum svoleiðis tímum þegar bryddað er upp á tiltölulega sjálfsögðum hlutum. Mér finnst t.a.m. fáránlegt að andæfa þeirri hugmynd að reyna með ráðum og dáð að fá fleiri karlkyns kennara inn í grunnskólana. Eitthvað verður að gera til að strákum gangi betur í skóla. Kannski myndu allir græða á því að skipta nemendum eftir kyni í bekki og námshópa.

Íslenska lopapeysan

Mér var bent á Nýtt kvennablað í kommenti við síðustu færslu. Hef eytt lunga dagsins í að lesa þetta blað, í sólbaðinu á því veðursæla Akranesi, og orðið margs vísari um allan andsk… Myndir af hannyrðum í þessu ágæta blaði skreyta færsluna.

Spurningin er: Hvaðan kemur íslenska lopapeysan? Fyrsti kafli ritgerðarinnar Ull er gull : lopapeysan við upphaf 21. aldar, eftir Soffíu Valdimarsdóttur, fjallar um ítarlega um akkúrat þetta. Ég bendi áhugasömum á að skoða endilega þessa ritgerð. Niðurstaðan virðist sú að ekki sé um einn hönnuð að ræða heldur hafi lopapeysan orðið til í samfélagi kvenna og þ.a.l. eigni engin sér hönnun eða verklag.

Í rauninni eru þetta tvær spurningar, annars vegar “Hvenær var byrjað að prjóna úr lopa?” og hins vegar “Hvenær var hönnuð peysa með hringúrtöku?”.

Á vef Handprjónasambandsins er tekinn upp fróðleikur úr Ístex prjónabók nr. 12 og sagt:

Grænlensk peysa“Hin eina sanna lopapeysa, með tvíbönduðu munstri á hringlaga herðastykki, er búin að vinna sér íslenskan þegnrétt, þó ekki sé saga hennar ýkja löng. Hún kom ekki fram fyrr en á 6.áratugnum, en óvíst er hvar og hvernig. Sumir telja að fyrirmyndin sé grænlenskir kvenbúningar, ef til vill vegna þess að stundum var talað um lopapeysur með grænlenska munstrinu. Öðrum finnst líklegt að fyrirmyndina sé að finna í peysum sem byrjað var að framleiða í Bohusléni í Suður-Svíþjóð í byrjun 5.áratugarins. Þessar upprunakenningar eru býsna langsóttar. Það eina sem íslenskar lopapeysur eiga sameiginlegt með grænlenskum perlusaumi er hringlaga herðastykki, munstur og litir eru gjörólík. Svipað má segja um sænsku peysurnar, þær voru að vísu nær hugmyndinni þar sem þær voru prjónaðar með hringlaga herðastykki, en úr mjög fínu garni og með allt öðruvísi munstrum. Hafi íslenskar lopapeysur orðið til fyrir áhrif frá þeim hefur þurft mikla hugkvæmni til að aðlaga snið, úrtökur og munstur að mjög ólíku efni. Telja verður því íslensku lopapeysuna frumhönnun. Ekki er óhugsandi að enn eigi eftir að koma á daginn hver hinn raunverulegi höfundur hennar var.”

Myndin er úr Nýju kvennablaði nóv. 1956. Litla myndin krækir í stærri mynd.

  
Svo vikið sé að fyrri spurningunni, hvenær menn byrjuðu að prjóna úr lopa (óspunninni kembdri ull), þá er yfirleitt vitnað í dæmi af Elínu Guðmundsdóttur Snæhólm, sem bjó á Sneis í Laxárdal í Austur-Húnvatnssýslu. Elín gerði tilraun til að prjóna beint úr lopaplötu á prjónavél árið 1920 og sagði frá tilrauninni í grein í Hlín 1922, seinna í Húsfreyjunni. Aðrar heimildir nefna að fyrsta tilraun til að prjóna í höndunum úr plötulopa hafi verið gerð í Mýrasýslu á árunum 1916 – 1918. Elsa E. Guðjónsson telur að “það sé ekki fyrr en á þriðja áratugnum sem handprjón úr lopa fer að verða algengt og um og upp úr seinni heimstyrjöld verða handprjónaðar lopapeysur mjög vinsælar.” (Sjá “Íslenska lopapeysan – prjónalist – listiðnaður” í Hugur og hönd 1999, eftir Kristínu Schmidhauser Jónsdóttur.) 

Í ívitnuðu greininni er haft eftir prjónakonunni Jóhönnu Hjaltadóttur að á stríðsárunum hafi hún byrjað að prjóna úr lopa því ekkert annað garn var að hafa. Um 1950 prjónar Jóhanna barnapeysu með rúnnuðu berustykki en ekki úr lopa heldur erlendu garni, eftir uppskrift úr dönsku blaði. Í greininni er því gert skóna að svoleiðis peysur hafi verið vinsælar á Norðurlöndunum upp úr 1950 og “munstrin hafi borist hingað bæði með peysum og prjónablöðum en vegna skorts á prjónagarni hafa konur aðlagað munstrin að lopanum.”

Harpa HreinsdóttirÖnnur prjónakona, Aðalbjörg Guðmundsdóttir, segir í viðtali í Vísi 9. ágúst 1968: “”-Ég byrjaði að prjóna úr lopa og selja svolítið strax árið 1942, segir Aðalbjörg. – Á þeim árum fékkst ekkert garn og eingöngu prjónað úr lopa. … Þá voru peysurnar allt öðruvísi en nú. Þær voru prjónaðar sléttar og saumað í þær eftir á. Munstrin voru allavega, skíðamunstur var t.d. vinsælt. Sauðalitirnir þekktust heldur ekki þá. Allar peysurnar voru úr lituðum lopa eða hvítum. Það þótti ekki fínt að vera með sauðalitina, sú tízka kom ekki fyrr en útlendingar komu auga á lopapeysurnar og fóru að kaupa þær. … Þegar ég kom hér að Mosfelli fyrir 15 árum var hringmunstrið komið, svipað og í þeim peysum sem eru svo vinsælar núna.” 

Myndin til hægri sýnir bloggynju og litlu systur í glæsilegum ullarpeysum, líklega 1964 eða 1965. Satt best að segja man ég alls ekki eftir að hafa átt lopapeysu fyrr en ég var komin á fullorðinsár.

Gr�sk lopapeysaÞegar Aðalheiður Guðmundsdóttir er spurð, í fyrrnefndu viðtali,  hvort hún telji að til sé eitthvert sérstakt íslenskt munstur svarar hún: “Það eina sem mér finnst vera hægt að segja að sé íslenskt munstur, er áttblaðarósin. Í Þjóðminjasafninu er hægt að sjá það munstur í altarisklæðum, í leppum og sessuborðum t.d. – en það er í afar mismunandi gerðum.”

Nú á ég eftir að kynna mér áttblaðarósina betur, t.d. hvað Elsa E. Guðjónsson segir um það munstur, en ég held að það sé fjarri lagi að vera neitt séríslenskt, ekki einu sinni sérskandinavískt. Aftur á móti heldur fjöldi fólks að svo sé enda má finna munstrið í gamalli íslenskri handavinnu og sjónabókum. Í þessu sambandi má líka nefna að þau “séríslensku lopapeysumunstur” sem byggð eru á teikningum Sigurðar málara eru grísk – a.m.k. tveir borðar eru grískrar ættar og ganga aftur bæði á skautbúningi og, síðar, lopapeysu (neðst á báðum flíkum).

Myndin sýnir bloggynju halda hróðuga á grískri lopapeysu. Myndin var tekin á Krít nú í sumar.

Elsa E. Guðjónsen segir um lopapeysumunstur: “Seint á sjötta áratugnum voru hin vinsælu erlendu peysumunstur með hringlaga axlabekkjum – upprunnin í Svíþjóð laust fyrir 1950 – tekin upp og aðlöguð lopaprjóni. Hefur þessi síðarnefnda munsturgerð orðið og er enn höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa.” Einnig: “Munstur lopapeysanna eiga sér margvíslegan uppruna. Sum eru hefðbundnir íslenskir munsturbekkir, fengnir úr gömlum sjónabókum eða af eldra prjóni, vefnaði eða útsaumi. Sum hafa verið aðlöguð eftir íslenskum eða erlendum munsturbekkjum eða öðrum reitamunstrum ætluðum til ýmsiss konar textíliðju. Trúlega eru þó flest munstrin sem notuð hafa verið á síðustu árum unnin sérstaklega fyrir lopapeysur, sumpart af textílhönnuðum, sumpart af prjónakonunum sjálfum.” (“Um prjón á Íslandi” í Hugur og hönd 1985.)

Ég held að það sé misskilningur að grænlenski þjóðbúningurinn hafi haft bein áhrif á gerð íslensku lopapeysunnar. Misskilningurinn er líklega vegna þess að Nýtt kvennablað birti uppskriftir; fyrst af barnapeysu undir fyrirsögninni “Peysa með grænlensku munstri” (nóv. 1956) og seinna af fullorðinspeysu undir fyrirsögninni “Falleg grænlensk peysa” (okt. 1958). Líklega eru þetta þýddar uppskriftir og peysurnar hafa heitið þetta í einhverjum skandinavískum blöðum. Á sama tíma var vinsælt að birta myndir af dönsku prinsessunum, Margréti, Benediktu og Önnu Maríu, í grænlenskum þjóðbúningum. Svoleiðis myndir hafa væntanlega haft áhrif á heiti prjónauppskrifta, annað hvort í Danmörku eða á Íslandi.

Litla myndin af “Fallegu grænlenzku peysunni” krækir í aðra stærri.

  

  

Friðarey

Friðarey, Fjárey eða Frjóey (Fair Isle á ensku, Fara á gelísku) er lítil eyja milli Orkneyja og Hjaltlands. Þar búa sennilega núna um 70 manns. Upplýsingar um Friðarey má finna á íslensku Wikipediu, ensku Wikipediu og upplýsingasíðu Friðareyjar.

Minnst er á Friðarey í nokkrum Íslendingasögum. Er væntanlega frægast dæma þegar Kári Sölmundarson dvaldi þar einn vetur hjá Dagviði hvíta og hafði fréttir úr Hrossey (Mainland á Orkneyjum) um veturinn. Kári skrapp svo til Orkneyja á jóladag “og hjó á hálsinn Gunnari Lambasyni og svo snart að höfuðið fauk upp á borðið fyrir konunginn og jarlana.” Gunnar Lambason ýkti nefnilega og skrumskældi lýsingu sína á Njálsbrennu svo Kára sárnaði. (Sjá 154. – 155. kafla Brennu-Njáls sögu.)

Núna er algengast að sigla til Friðareyjar frá Leirvík á Hjaltlandi. Það væri óneitanlega gaman að koma þangað einhvern tíma. Ég hef bara komið til Orkneyja og sú ferð er meira og minna útþurrkuð úr minni en sem betur fer er til myndasíða úr ferðinni.

Ástæða þess að ég fór að pæla í Friðarey er að ég er nýbúin að lesa reyfara sem gerist akkúrat þar. Þetta er fínn reyfari, heitir Blue Lightning og er eftir Ann Cleeves. Ég varð dálítið hissa á hve mér líkaði bókin því einhvern tíma á útmánuðum gafst ég upp í öðrum reyfara eftir sama höfund, sem gerist á svipuðum slóðum og fjallar um sömu lögguhetjuna. Ætli ég gefi þá ekki Red Bones annan séns? (Báðar þessar bækur eru til á okkar ágæta bókasafni.) Blue Lightning gerist í fuglaskoðunarmiðstöðinni á Friðarey og í textann er lítilsháttar stungið mállýsku, t.d. orðinu “bairns”, sem þýðir börn. Reyndar held ég að þetta orð sé notað víðar, allt suður til Jórvíkurskíris, og byggi ýmist á reyfaraþekkingu eða samskiptum við jórvískan stjórnanda í The Viking Network, sællar minningar. En ég ætla ekki að blogga um mállýskur núna … 

Fyrir utan það að kannast mætavel við kaflann úr Njálu hef ég haft Friðarey “i baghovedet” í nokkurn tíma út af peysunum sem kenndar eru við eyna. Hef lengi ætlað að kynna mér þau prjónafræði og nú gafst upplagt tækifæri til þess.

Myndin til hægri sýnir klassíska símunstraða peysu, svokallaða Friðareyjarpeysu. Til er sérstök síða á ensku wikkunni,  Fair Isle (technique), sem fjallar um þennan prjónaskap.

Á Friðarey þróuðust tvíbanda peysur líkt og í Færeyjum og í Skandinavíu. Elsta dæmi á safni þar er peysa sem var prjónuð um 1850. Svona peysur urðu vinsælar þegar Prinsinn af Wales skartaði opinberlega Friðareyjar-peysu árið 1921. Til eru þjóðsögur sem tengja Friðareyjarprjón við strand spænskrar freigátu við eyjuna 1588 og er talið að spænsku skipverjarnir hafi kennt eyjarskeggjum að prjóna.

Friðareyjarpeysa

Hefðbundin prjónaplögg á Friðarey einkennast af hringprjóni og munstri í tveimur litum. Þannig verða flíkurnar, t.d. peysur,  þykkari og hlýrri. Í grúski á Vefnum kemur fram að þótt notast sé við hringprjón var allt eins algengt að klippa fyrir ermum og setja þær beinar í. Þá voru bolurinn og ermarnar fyrst prjónaðar alveg upp. Þannig virðist símunstraða peysan hægra megin í þessari færslu vera prjónuð.

Aðrar heimildir gera mikið úr sérstöku berustykki sem kennt er við eyjuna, svokallað Fair Isle Yoke. Ég sé ekki betur en þarna sé átt við hefðbundna íslenska hringúrtöku, sbr. peysuna hér til vinstri. Sú aðferð er þó væntanlega miklu yngri á Íslandi en á Friðarey, miðað við að “íslenska lopapeysan” er talin um 50 – 60 ára gömul hönnun.

Í hefðbundnum Friðaeyjarpeysum má svo að sjálfsögðu finna þá frægu áttblaðarós en ég hallast nú helst að því að áttblaðarósin sé samevrópskt munstur …

  

Áhugasömum prjónakonum í hópi dyggu lesendanna er bent á síðurnar: Fair Isle Crafts LdtThe History of Fair Isle Knitting, Part 1 (annar hlutinn birtist aldrei), What is traditional Fair Isle knitting?,  Fair Isle Knitting List – Wee Fair Isle Sweater Project (uppskrift með krækjum í munstursíður), About Fair Isle Sweater (fínt sögulegt yfirlit, hvaðan ég stal myndunum af peysunum) og  Lopi Fair Isle Yoke Pullover Kit (auglýsingasíða sem auglýsir íslenskan lopa til að prjóna Friðareyjarpeysu – sé ekki betur en úr verði lopapeysa).

  

 

Skemmdarverk á Laugarvatni, seinni hluti

Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”. (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettu)

        
Fagurt upplag 

Í upphafi voru Hollvinasamtök Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni hópur hugsjónamanna sem vildu endurbæta menningarverðmæti:

“Eins og fram hefur komið, er um mjög merkar menningartengdar byggingar að ræða. Smíðahúsið var listaskáli Danakonungs á Alþingishátíðinni 1930. Liggur það undir skemmdum. Þak er farið að síga og og ytri járnklæðning ryðguð og illa farin. Gufubaðið sem á sér enga hliðstæðu í heiminum hefur verið haldið gangandi, en þarf algerrar endurnýjunar við.”  … “hugmyndin er ekki eingöngu að gera við húsin heldur allt umhverfið, það er að útbúa ylströnd með tilheyrandi þjónustu og leiktækjum, sem sagt frábæra fjölskylduparadís.”  Þetta sagði Hafþór B. Guðmundsson, kennari við Íþróttakennaraskólann, í viðtali árið 2003. (Nú verður eitthvað að gerast, Mbl. 22. mars 2003. )

Sami Hafþór er nú kominn óravegu frá hugsjónum sínum, ásamt fleiri stofnendum Hollvinasamtakanna. Hann er nú annar af tveimur Laugvetningum í stjórn Gufu ehf, hinn er Halldór Páll Halldórsson,  skólameistari ML. Báðir eru varamenn. Báðir voru í fyrstu stjórn Hollvinafélags Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugarvatni.

Upphaflega hugmyndin með stofnun Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni var að hlynna að þessum húsum. Fólki gafst kostur á að ganga í samtökin og greiða smáupphæð með gíróseðli. Eflaust hafa margir raunverulegir hollvinir húsanna, dyggir gufubaðsgestir, gert það. Hvað gerðist eiginlega?

  

Hlæjandi glæpa hljóp ég stig …

Í fyrri færslu voru þeir sem skipuðu fyrstu stjórn Hollvinasamtakanna taldir upp. Mig langar að staldra við tvo þeirra; Friðrik Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóra Húsbyggingafélags námsmanna, og  Þorstein Kragh. Báðir tóku þátt í að stofna Gufu ehf sem gekk til samstarfs við Bláa Lónið árið 2006, hafandi í fórum sínum risastóra landspildu sem Hollvinasamtökin höfðu einhvern veginn haft út úr ríkinu.

Munnleg heimild hermir að Friðrik hafi séð mikla peningavon í Gufu ehf. Hann átti hlut í fyrirtækinu og fékk vini sína til að kaupa hluti. Þegar halla tók undan fæti í efnahagi landsmanna fékk hann Byggingafélag námsmanna (BN) til að kaupa hluti vina sinna svo þeir töpuðu ekki fé á ævintýrinu. Enda kemur fram í frétt Fréttablaðsins 9. júlí 2008 að Byggingafélag námsmanna eigi stóran hlut í Gufu ehf.

Friðriki Guðmundssyni var sagt upp störfum hjá BN vegna fjármálaóreiðu (sjá Opinber rannsókn á byggingafélagi, Fréttablaðið 24. apríl 2008, og Vilja ekki tjá sig um málið- Formaður og fjármálastjóri Byggingafélags námsmanna kærðir til lögreglu, Viðskiptablaðið 21. maí 2008). En Friðrik þessi virðist slyngur fjármálamaður; hann snérist til varnar og fékk BN dæmt til að greiða sér talsvert yfir 3 milljónir í ógoldin laun. Hann tapaði þó málinu í Hæstarétti nú í vor. [Leiðr. 14. ágúst.] 

Byggingafélag námsmanna sat sumsé uppi með stóran hlut í verðandi stóriðjutúristafyrirtæki því Friðrik átti marga vini og einn þeirra var Grímur Sæmundsen, þá framkvæmdarstjóri og nú forstjóri Bláa lónsins. Í desember 2006 var Gufa ehf komin í samstarf Bláa lónið og er enn.

Byggingafélag námsmanna virðist þó einkum hafa þetta hlutverk, skv. þess eigin heimasíðu: “Byggingafélag námsmanna ses, sjálfseignarstofnun með sjálfstæðan fjárhag. Annast kaup og uppbyggingu húsnæðis til rekstrar stúdentagarða í þágu námsmanna. Hlutverk þeirra [svo!] er að bjóða námsmönnum í nemendafélögum innan BN til leigu hentugt og vel staðsett húsnæði.”  Á annarri undirsíðu segir: “Stúdenta/nemandafélög innan aðildarskóla BN eru nú: Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Fjöltækniskóli Íslands auk séraðildar félagsmanna innan Iðnnemasambands Íslands.”   Og Byggingafélag námsmanna leigir einmitt úr íbúðir handa íþróttakennaranemum á Laugarvatni.  Mér finnst í rauninni afskaplega hæpið að eigendur BN (nemendafélög ofangreindra skóla) séu sammála kaupunum í Gufu ehf og efast jafnvel um að þau hafi verið löglegur gjörningur.

Formaður stjórnar BN, Sigurður Grétar Ólafsson, situr í núverandi stjórn Gufu ehf svo ætla má að enn eigi BN þennan stóra hluta sinn.

Friðrik Guðmundsson var duglegur að afla fjár og koma Hollvinasamtökunum í Gufu ehf og í eina sæng með Bláa lóninu, með peningum Byggingafélags námsmanna. Ekki var Þorsteinn Kragh síðri agent því  hann gumaði af því við fjölmiðla að nú skyldu reist “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar”. (Tilvitnun í samtal við Fréttablaðið 8. apríl 2006, í frétt sama blaðs 9. júlí, 2008.) En ævintýrið tók skjótan enda því 19. mars 2009 var Þorsteinn Kragh dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir aðild sína að “stærsta fíkniefnasmygli Íslandssögunnar”.   Svona getur farið fyrir gufubaðsrekendum sem hugsa of stórt.

Hugsanlega var enn einn stjórnarmaður Gufu ehf eitthvað tæpur á löglegu línunni, sbr. “Fyrrverandi framkvæmdastjóri þess [BN], Benedikt Magnússon, sat í stjórn þess [Gufu ehf]. Hann sætir nú rannsókn efnhagsbrotadeildar lögreglu.” (Fréttablaðið 9. júlí 2008.)

  

Settu kíkinn fyrir blinda augað

Þáttur sveitarstjórnarmanna í gufuævintýrinu mikla er óljós. Ragnar Sær Ragnarsson, þáverandi sveitarstjóri Bláskógabyggðar, tók þátt í að stofna Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, 2003 og var talsvert innviklaður í Gufu ehf fyrstu árin. Hann virðist enn stefna að nánum tengslum við félagið.

Ótrúlega fátt er um þetta ritað í fundargerðum Bláskógabyggðar. 16. desember 2004 er sagt í fundargerð skipulagsnefndar uppsveita:

“Lögð fram tillaga frá Landformi ehf að deiliskipulagi gufubaðs á miðsvæði í þéttbýlinu á Laugarvatni og er tillagan unnin fyrir Bláskógabyggð. Tillagan var lögð fram á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þann 7.desember og þar var samykkt [svo!] að heimila auglýsingu tillögunnar auk þess sem henni var vísað til skipulagsnefndar uppsveita til fullnaðarafgreiðslu.
Deiliskipulagssvæðið sem er 4,8 ha nær yfir lóð hollvinasamtaka gufubaðsins, opin svæði meðfram vatnsbakka, suður fyrir íþróttahúsið, að Laugarbraut og Lindarbraut í vestri , norður fyrir veitingastaðinn Lindina og norður fyrir Vígðulaug.
Greinargerð deiliskipulagsins er ítarleg og vel unnin. Skilmálar gera ráð fyrir allt að 1600 m² gufubaðsbyggingu innan byggingarreits sem má vera tvær hæðir en mælst er til þess að hún verði lágreist.
Bílastæðum er komið fyrir á 4 stæðum, alls um 170 stæði.  Skilgreindar eru lóðir Lindar, Heimakletts, Lindargarðs og íþróttahúss auk lóðar hollvinasamtakanna.
Skipulagsnefnd tekur undir með sveitarstjórn að heimila auglýsingu deiliskipulagsins og beinir því til sveitarstjórnar að unnið verði rammaskipulag fyrir byggðina á Laugarvatni með sérstakri áherslu á aðkomu að gufubaðinu og tengingu innan byggðar.”

Seinna lagði skipulagsnefnd til veigalitlar breytingar á þessu, eftir að einungis 2 athugasemdir Laugvetninga höfðu borist, og sveitastjórn samþykkir allt fyrir sitt leyti (segir í fundargerð sem Ragnar Sær sveitarstjóri ritar 10. maí 2005).

Í sömu fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar segir:

“Hlutafjárkaup vegna nýsköpunar og atvinnuþróunar á Laugarvatni. 
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að leggja til kr. 500 þús. sem hlutafé til nýsköpunar við atvinnuþróun á Laugarvatni í Eignarhaldsfélagið Gufu ehf.  húsbyggingar á nýju gufubaði og heilsulind. 
Auk þess samþykkir sveitarstjórnin að leggja á næstu árum hlutafé til viðbótar til að tryggja framgang verkefnisins og verður sú upphæð kr.  4.500.000. Hlutafé þetta greiðist í samræmi við álögð
fasteignagjöld þar til heildarkrónutölu hefur verið náð.
Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmd þessa verkefnis geti orðið allt að kr. 350 milljónir sem koma til nýsköpunar í atvinnumálum í Bláskógabyggð.”

Einu og hálfu ári síðar hefur hlutur Bláskógabyggðar í Gufu ehf snaraukist, upp í 8.936.600 kr. Áætlað heildarhlutafé Gufu ehf þá eru 92 milljónir svo Bláskógabyggð á tæplega 10% í eignarhaldsfélaginu og hefur gerst dyggur áskrifandi að væntanlegum gróða. (Sjá Bláskógafréttir 6. árg. 2 tbl. febrúar 2007)

Eitthvað virðist boðleiðir innan sveitarinnar vera tregar því í  fundargerð umhverfisnefndar Bláskógabyggðar 2. maí 2007 Fundur 28. mars 2007 segir: ” Fegrun umhverfis
Laugarvatn – vatnið, ströndin og umgengni …  
7.Gamla smíðahúsið sem upplýsinga- og ferðamannamiðstöð í námunda við Náttúrustofuna á Laugarvatni …” 

Á þeim tíma var löngu búið að ákveða að rífa smíðahúsið og sennilega hafði þegar verið drifið í því þótt umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefði ekki haft spurnir af.

  

Skítugt?

Bláa lónið og Gufa ehf hafa eitthvað rifað seglin í byggingaráformum þótt byggingin verði síst ódýrari eftir því sem hún bíður þess lengur að rísa. Nú er ekki lengur verið að spá í 1600 fermetra gufubaðsbyggingu heldur datt áætlaða framkvæmdin niður í 750 fermetra strax síðla sumars 2007 og er þar enn.

Heildarkostnaður núna er áætlaður um 400 milljónir en var 100 milljónir árið 2004 þegar ævintýrið var að byrja. Kannski verður eitthvað slakað á kröfunum um “japönsk böð og tyrknesk, eimböð og alls konar laugar.”

Hlutafé Gufu ehf hefur aukist og er nú 170 milljónir.

49 manns hafa sótt um stöðu framkvæmdarstjóra nýja spasins, sem á að verða tilbúið næsta vor. Verður spennandi að sjá hvort einhver úr hópi frumkvöðlanna, Hollvina Gufubaðsins og Smíðahússins á Laugavatni, dúkkar upp í slíkri stöðu.

Í stjórn Gufu ehf eru [feitletraðir þeir sem voru í fyrstu stjórn Hollvinasamtaka gufubaðsins og smíðahússins á Laugarvatni]:

  • Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, Kópavogi, stjórnarformaður
    Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
    Sigurður Grétar ólafsson, Reykjavík, meðstjórnandi,
    Eðvard Júlíusson, Grindavík, meðstjórnandi,
    Böðvar Jónsson, Reykjanesbæ, meðstjórnandi.
  • Halldór Páll Halldórsson og Hafþór Guðmundsson, Laugarvatni, varamenn. 
  • Prókúruumboð fyrir félagið hafa Tryggvi Guðmundsson, Reykjavík og Kristján Einarsson, Reykjavík.

   

“Og það verð ég að segja að eigi Bláa lónið að vera fyrirmyndin eru það slæm skipti. Þar mun aldrei nást að myndast nein saga, aldrei nein stemmning. Þar er bara hugsað um að reka túrista hratt í gegn og rýja þá eins og hverja aðra sauði. Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei “skítugt”.” (Páll Helgi Hannesson: Gufubaðinu breytt í peningauppsprettur, bloggfærsla frá 8.7. 2007.)