Ég var svo lúsheppin að rekast á Rit Nemendasambands Laugarvatnsskóla 1933 í Búkollu (Kolaporti okkar Skagamanna) á laugardaginn og keypi náttúrlega dýrindið. Þar kennir ýmissa grasa, þ.á.m. er greinin “Draumar og veruleiki” eftir Jónas Jónsson frá Hriflu (sem laugvetnska styttan “Jónas frá vinum” sýnir). Í greininni stendur m.a.:
“Snemma vetrar 1931 – 32 kom mér í hug að landið átti sýningarskála mikinn frá þjóðhátíðinni. Stóð hann til hliðar við þinghúsgarðinn. Þar höfðu verið sýnd listaverk sumarið 1930. Skála þennan varð að rífa um það leyti. Mér datt í hug, að gera mætti úr honum leikfimissal [hér sést að Jónas beygir orðið leikfimi á þjóðlegan hátt en því miður hafa íslenskukennarar og íþróttakennarar lagst á eitt áratugum saman í að útrýma þessari eðlilegu beygingu] á Laugarvatni, og talaði um þetta við skólastjóra. Hann sá einhverja útvegi og skálinn var keyptur. Tólf piltar frá Laugarvatni komu suður og rifu skálann … Þetta var sjálfboðavinna, unnin fyrir þá hugsjón að skapa skilyrðin fyrir íþróttalíf og uppeldisframfarir. Síðan var efnið flutt austur. Tveir smiðir fengnir til að standa fyrir verkinu, en nemendur unnu annars að því að koma upp húsinu, og tókst það í hjáverkavinnu á 2 mánuðum, að mig minnir. … Seint um veturinn stóð fullger stærsti leikfimissalur á landinu. Það var þrekvirki, sem æskumenn skólans leystu af hendi með hjáverkavinnunni þennan vetur. … Ég vona að þetta átak nemenda á Laugarvatni verði lengi til fyrirmyndar.” (s. 84)
Þegar ég flutti á Laugarvatn árið 1970 var þessi stærsti leikfimissalur á landinu löngu orðinn að Smíðahúsinu. Systur mínar (yngri – á mínum tíma tíðkaðist ekki að stelpur böðluðust í smíðum!) lærðu þarna smíði og smíðuðu sér báðar skrifborð, auk fleiri muna.
Smíðahúsið stóð á vatnsbakkanum, við hliðina á gömlu Gufunni; tveimur gufubaðsklefum sem reistir voru yfir hver. Ég vann eitthvað svolítið í Gufunni, líkast til hefur það verið fyrir Lions-félagið, og fór náttúrlega öðru hvoru í gufu eins og aðrir Laugvetningar þótt ég væri aldrei hrifin af fyrirbærinu. Man eftir því að væri gufan léleg var kveikt á eldpýtu og hún látin detta ofan í hverinn, það þótti auka gufuna og hitann. (Svona eftirá þá finnst mér ólíklegt að þetta húsráð hafi virkað.) Ég man líka að stundum þurfti að kalka veggina í gufubaðsklefunum upp á nýtt og skipta um gólf. Þá var veitt köldu vatni í hverinn á meðan.
Á vatnsbakkanum stóðu líka gróðurhús, í hverjum ég vann eitt sumar og sumargestir keyptu sér tómata og gúrkur beint af garðyrkjumanninum. Gróðurhúsin stóðu rétt hjá Vígðulaug og Líkasteinum. Sagt var að dr. Haraldur Matthíasson baðaði sig í Vígðulaug en aldrei sá ég hann þar. Aftur á móti las ég fyrir skömmu að hann hefði upp á eigið eindæmi hlaðið Vígðulaug upp – á þeim tímum var ekki allt jafn andsk. friðað og nútildags. (Hefði dr. Haraldur ekki farið að dæmi Arthurs Evans væri ábyggilega búið að slétta yfir Vígðulaug núna, svo grasflöt vatnsbakkans mætti vera sem “náttúrulegust”.)
Fyrir meir en áratug (byggt á stopulu minni) byrjaði eitthvert lið (sem ég er ekki klár á hvert var) með einhverjar tiktúrur í þá átt að gera Laugarvatn sem “náttúrulegast”. Það er víðar en í AA sem “back to the basics”-hugmyndin ríður röftum. Partur af þessari “náttúrulegu rétthugsun” var að flæma garðyrkjumenn burt frá Laugarvatni með því að láta rífa gróðurhúsin, svo vatnsbakkinn yrði á ný “náttúrulegur”. Ruglið í þessu fólki var náttúrulega algjört því garðyrkjan og gróðurhúsin voru órjúfanlegur hluti af hugmyndinni um Laugarvatn sem skólastað!
Næsta skref virðist svo hafa verið að stofna félagsskapinn “Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugavatni”, vorið 2003. Í þessu kompaníi voru: Hafþór B. Guðmundsson, lektor við Íþróttafræðasetur KHÍ, Ragnar Sær Ragnarsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsbyggingafélags námsmanna, Kristján Einarsson, forstjóri í Rekstrarvörum, Tryggvi Guðmundsson, framkvæmdastj. Flugleiðahótela, Ólafur Örn Haraldsson, alþingismaður, og Bjarni Finnsson, fyrrv. framkvæmdastj. Blómavals. Varamenn eru Þorsteinn Kraag, umboðsmaður, og Halldór Páll Halldórsson, skólameistari ML. Ólafur Örn Haraldsson virðist prímus mótor í þessum samtökum, hann var þingmaður á þessum tíma og notaði tækifærið til að skora “á núverandi og næstkomandi ráðherra menntamála og menntamálaráðuneytið að vinna duglega og af myndarskap með Hollvinasamtökunum að þeirri uppbyggingu sem nú væri farin af stað.” Ég reikna með að Ólafur Örn hafi stundað gufubaðið meðan hann ólst upp á Laugarvatni og hafi lært að smíða í Smíðahúsinu … jafnvel baðað sig í Vígðulaug eins og faðir hans. Hinir eru ýmist aðfluttir eða hafa aldrei búið á Laugarvatni. Við skulum vona að þeir hafi samt einhvern tíma farið í Gufuna, greyin.
Það varð strax mikil drift í Hollvinasamtökunum því árið eftir hafa þau náð tangarhaldi á þeim húsum sem hollusta þeirra hneig í áttina til: “Gengið hefur verið frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið um yfirtöku Hollvinasamtakanna á 8.798 fermetra lóð, þar af 3.436 fermetra í vatninu framan við gufubaðið. Helsta markmið félagsins er að bjarga menningarverðmætum sem liggja í sögu húsanna við vatnið og að bæta aðstöðu fólks til að njóta baða og slökunar í heilsusamlegu umhverfi og hreinni náttúru staðarins.” (“Endurbygging gufubaðs á Laugarvatni“, Mbl. 25. mars 2004.) Síðla árs 2004 er ljóst að hollvinirnir plana “Tólf hundruð fermetra heilsulind … við Laugarvatn” og þykir Þorgerði Katrínu, þáverandi menntamálaráðherra þetta “”stórhuga menn með alvöruhugmyndir sem styrkja myndu ferðaþjónustuna á svæðinu í heild”. Hún sagði mikilvægt að ýta undir framtakssemi sem þessa og ekki mætti láta gamla og úrelta eignaskiptingu hamla vexti staðarins. Í því sambandi nefndi hún hitaréttindi sveitarfélagsins og landskiptingu á Laugarvatni.” (Mbl. 26. 10 2004.) Væntanlega hefur ráðherra, sem allir vita hve stórhuga var sjálf í fjármálum, og meintum hollvinum húsanna gengið vel að semja við pöpulinn á Laugarvatni.
Svo byrjar peningaplokkið: Hollvinasamtökin frá strax vilyrði fyrir styrk frá Bláskógabyggð og styrk úr Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, síðan mokar Húsafriðunarnefnd ríkisins í þau 9 milljónum fram í janúar 2009. Þá loksins dettur sömu Húsafriðunarnefnd í hug að athuga hvað hafi orðið af peningunum: ” … óskaði Húsafriðunarnefnd eftir upplýsingum um það hvernig styrkjum var varið sem veittir voru úr Húsafriðunarsjóði skv. ákvörðun fjárlaganefndar, til endurbóta á smíðahúsi og gufubaðinu á Laugarvatni á árunum 2003, 2004 og 2005, samtals kr. 9.000.000″ og komst að því að húsin sem átti að varðveita höfðu verið rifin, á þessu tímabili! Þó kemur fram að Hollvinasamtökin lofa að endurgera gufubaðið í sinni upprunalegu mynd, þegar þau eru tekin á teppi Húsafriðunarnefndar. Svo öllu sé til haga haldið þá virðast hollvinirnir einungis hafa nýtt 7 milljónir til að ekki-varðveita húsin og Húsafriðunarnefnd taldi sig geta náð hinum tveimur milljónunum aftur. (Sjá Fundargerð Húsafriðunarnefndar ríkisins þann 13. febrúar 2009.)
Árið 2006 stofnuðu Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni hlutafélagið Gufu ehf. Má segja að nafnið sé mjög lýsandi fyrir starfsemi þessara samtaka.
Gufa sat ekki auðum höndum heldur gekk til samstarfs við fjárplógsfyrirtækið Bláa lónið í desember 2006. Hefði öllum, þ.m.t. Húsafriðunarnefnd ríkisins, þá mátt vera ljóst að gamla huggulega gufubaðið á Laugarvatni yrði slegið af við fyrsta tækifæri. Strax í maí árið áður var varað við eyðileggingarnáttúru Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, sjá hér. Enda var drifið í að rífa búningsklefana og loka gufunni árið 2007 og er saga þessi rakin í fréttinni “Ekkert gufubað við Laugarvatn næstu ár“, í Fréttablaðinu 9. júlí 2008. Í mogganum segja menn kokhraustir að framkvæmdum verði lokið sumarið 2008 enda kosti “Fyrirtækið Gufa ehf. uppbyggingu á staðnum og er fjármagn fyrir framkvæmdunum alveg í höfn …”
Eitthvað hafa menn þó verið gufulegir í Gufu ehf. því allir sem hafa komið á Laugarvatn undanfarin ár vita að vatnsbakkinn er meira og minna í messi, sundurgrafinn, girtur og tættur. Þar er sumsé ekkert gufubað hvað þá tólfhundruðfermetra heilsulind! En þrátt fyrir hrunið mikla eru hollvinirnir eða gufurnar ekki af baki dottnar enn: Í vor birtist frétt í þeim væna mogga, “Gufubaðið á Laugarvatni opnað næsta sumar?” og formaður Gufu ehf segir að “menn hafi fullan hug á að opna gufubaðið fyrir næsta sumar. Hann segir fjármögnun verksins að mestu vera lokið og að það verði fjármagnað til helminga með innlendu hlutafé og lánsfé úr íslenskum bönkum.”
Eftir stendur að þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu taldi að “stigin hefðu verið merkileg spor í baðmenningu Íslendinga” hefur svonefndum hollvinum tekist að rústa merkilegum minjum og stefna rakleiðis að massatúrisma með okurverðlagningu. Mér finnst út í hött að halda að fólk streymi í eitthvert Bláa-lóns spa í flugnageri, þó ekki sé nema verðlagning Bláa lónsins höfð í huga. Sjarmi gömlu Gufunnar var einmitt hversu frumstæð hún var og hve ódýrt var að stunda hana.
Hvernig í ósköpunum hópi einhverra karla tókst að sölsa undir sig merkilegar byggingar og stóra lóð á Laugarvatni, blóðmjólka ríkið á þeim forsendum að þeir ætluðu að hlynna að þessum byggingum á meðan þeir stóðu fyrir að rífa þær og tala sveitarfélagið inn á að afhenda sér tögl og hagldir á þessum stað … allt saman til þess að geta byggt upp túristastóriðju á bakka hins grunna og saurgerlamengaða Laugarvatns – er ofar mínum skilningi! Þetta sem þeir “afrekuðu” eru ekki bara skemmdarverk heldur bæði rán og skemmdarverk! Það er næsta augljóst að þessir karlar ættu að skammast sín fyrir eyðilegginguna og bera hauspoka sem oftast, a.m.k. á Laugarvatni.
Þeim sem vilja lesa meira og sjá myndir af eyðileggingunni er bent á bloggfærslu Sigurðar Hreins Sigurðssonar, Niðurgreidd skemmdarverk.
Myndir af gömlu Gufunni má sjá á þessari Fésbókarsíðu.