Brain is pain

Lærði þennan frasa á kvíðanámskeiðinu áðan – helv. fínn frasi! Skýrir margt 😉  Ég verð æ ánægðari með þetta námskeið og eygi loksins von um að geta gert eitthvað sjálf til að mér batni eitthvað. Það er náttúrlega undir því komið hversu dugleg ég verð að nýta ýmis ráð og æfingar, sem er vel að merkja meir en að segja það en sennilega ekkert verra en halda út líkamsræktarnámskeið (sem mér hefur reyndar gengið bölvanlega að tolla á, til þessa). Meðan meinta kraftarverkalyfið virkar álíka og Vígðalaug við nærsýni er eins gott að grípa hvaða góð ráð sem gefast.

Ég var sama sem hætt við að fara til þurrabúðarinnar í dag, leið ömurlega, en ákvað að taka mig til, fara út á strætóstöð og hætta við þar, ef ég væri enn á valdi hörmunganna. Þetta trikk dugði og ég er æðislega fegin enda líður mér margfalt betur eftir námskeiðstímana í dag. Af hverju eru ekki höfð svona námskeið inni á geðdeild? (Eða bara einhver námskeið?)

Hef ákveðið að horfa á Poirot í kvöld og lesa Örvæntingarfull í Odessa, sem lofar ljómandi góðu, þrátt fyrir að vera flokkuð sem chick-bókmenntir (sá þá flokkun í einhverri dagblaðsumsögn … er komin með “stelpu-bækur” upp í kok eftir ofskömmtun af Sophie Kinsella … en úkraínska umhverfið er mun skemmtilegra só-far).

Geðdeildir og fordómar í tilefni glæsilegs viðtals

Aldrei þessu vant horfði ég á Ísland í dag (hef annars fyrir reglu að forðast umgengni við fyrirtæki sem Jón Ásgeir og familía eiga) – tilefnið var viðtal við Láru K Brynjólfsdóttur, sem ég frétti af af einskærri tilviljun. Í stuttu máli sagt fannst mér Láru (sem ég þekki ekki neitt) mælast einstaklega vel en það setti að mér hroll við sumar lýsingarnar, eins og að sjálfsvígskandidötum sé fleygt í fangaklefa hafi þeir ekki tímasett sjálfsvígið á skrifstofutíma! Á hvaða öld lifum við?

Ég hef enga reynslu af B-gangi 33 C en rengi hennar frásagnir alls ekki – kannast auk þess við sumt annað sem hún lýsti eins og t.d. afskiptaleysi hjúkrunarfólks og áhugaleysi þótt ég hafi einstaka sinnum dvalið á annarri deild. Auðvitað á þetta alls ekki við um alla en því miður suma. Mín reynsla er líka hreint ekki eins krassandi og reynsla Láru … var meira sem áhorfandi að gutli í vinnunni, sem á þeim tíma snerti mig ekki sérlega mikið. Eftir á séð er samt undarlegt að aðalsamskiptin og aðalþerapían á geðdeild skuli hafa verið sjúklinganna á milli og jafnvel sjúklinganna sjálfra að leiðrétta ranghugmyndir starfsfólks.  Mætti bera þetta saman við kennslu:  Einstaka kennara er skítsama um nemendur en langflestir reyna sitt besta til að skila hverjum og einum nemanda aðeins áleiðis, sumir kennarar leggja á sig ómælda vinnu til þess. Sama finnst mér að ætti að gilda um hjúkkur á geðdeild, jafnvel aðra starfsmenn einnig. Í kennslu er návígið það mikið að þeir kennarar sem nenna ekki vinnunni sinni hrökklast nú oftast úr starfi. Veit ekki með geðdeild.

Mjög lýsandi dæmi, að mínu mati, er þetta sem Lára skrifar á bloggið sitt:

Hérna er ein gullinn settning sem starfsmaður spítalans sagði við mig daginn eftir sjálfsvígtilraun mína   : þegar fávitum fer að fjölga í kringum þig er þá ekki komin tími til að líta í eigin barm:  Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst að fagaðilar eigi að vinna á spítala, þessi einstaklingur sem lét þessi orð frá sér hefur ekkert lært um geðræn vandamál en vinnur samt hvað nánast með okkur sjúklingunum….. þarna er hann að gera lítið úr mér og mínum sjúkdóm.” (Sjá “Það sem betur má fara”, 09. maí 2010 klukkan 14:17, http://girlinterrupted.bloggar.is/gagnasafn/2010/05/)

Frasinn “Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann er kominn tími til að líta í eigin barm” er einmitt einn af þeim vinsælli í nafnleyndu alka-samtökunum. Einhvern tíma heyrði ég (kann að vera rangt) að starfsmenn á geðdeild mættu ekki hafa legið á geðdeild áður. En það er kannski kominn tími til að setja einnig þau skilyrði að starfsmenn hafi ekki farið í áfengismeðferð til að tryggja að ófaglærðir (og faglærðir) séu ekki að sinna geðsjúku fólki út frá eigin talibanatrúboðshugsjón eða þeirri einu lífsleikniaðferð sem þeir hafa lært (góð aðferð við alkóhólisma, meðvirkni meðtalin, en gagnast náttúrlega ekki á alla aðra sjúkdóma!). Ég hef það nefnilega á tilfinningunni (er kannski svona paranojuð og þá búin að vera lengi) að sumt staffið á geðdeild sé óhóflega hallt undir alkafrasa og að AA-hugmyndafræðin leysi allan vanda.

Til samanburðar: Finnst einhverjum eðlilegt að starfsmaður kvensjúkdómadeildar segði eitthvað álíka við konu sem hefur misst fóstur, er vart mönnum sinnandi og segir ýmislegt vanhugsað í þeirri hugaræsingu? Af samanburði (enda hef ég talsverða reynslu af hvoru tveggja) er líðanin enn verri í þunglyndi og kvíða og auðvitað ætti maður að gera ráð fyrir að starfsmaður á geðdeild stæði sig eins og manneskja en ekki eins og frík, undir slíkum kringumstæðum. 

[Sem minnir mig á að mig hefur undanfarið blóðlangað að segja við næsta AA mann sem kvartar undan kvefpest: Ja, þú hefur bara ekki unnið sporin nógu vel!  En þetta er náttúrlega útúrdúr og sýnir eingöngu tíkarlegt innræti bloggynju 😉 ]

Það sem ég man skást af síðustu geðdeildarvist var að eftir hræðilega helgi, þar sem mér leið ólýsanlega illa en hélt fésinu því mér er illa við að gráta fyrir framan aðra og fékk margar heimsóknir þessa helgi, var það samdóma álit staffsins, aðallega hjúkrunarkvenna ef ég man rétt  (á einhverjum mínímalískum fundi) að mér hefði bara hreint liðið prýðilega og verið kát og hress þessa helgi. Só möts fyrir innsæið í sjúkdóminn eða bara þekkingu byggða á reynslu. Ég man að mér þótti ég algerlega svikin og efaðist náttúrlega um eigin geðheilsu (kannski rétti staðurinn til þess, ég viðurkenni það); Af hverju leið mér eins og mig langaði að deyja þegar sérmenntaða fólkið taldi mig káta og hressa? Vantaði bara að það segði að það væri ekkert að mér! Þegar ég andmælti þessu samdóma áliti var eins og málið væri að láta mig éta andmælin ofan í mig … í minningunni er þetta eins og ég væri orðin króuð af úti í horni, gott ef ekki upp við þvottavél, og læknirinn spurði hvort ég teldi mig betur geta metið eigið hugarástand en sérmenntað starfsfólk! Ég fór auðvitað að hágráta þegar ekki einu sinni hann trúði mér! Núna, þegar ég skrifa þetta, finn ég hvað ég er ennþá ofboðslega reið en á þessum tíma gat ég auðvitað ekki borið hönd yfir höfuð mér, nema kannski með tíkarlegu sparki undir beltisstað, sem ég iðraðist síðar mjög.

Svoleiðis að nú vil ég allt til vinna til að lenda ekki inn á geðdeild. Það er brjálæðislegur hávaði í sjónvarpi þar alla daga, bækurnar eru í alvöru við það að grotna í sundur og það er alveg satt sem Lára segir að læknir eða sálfræðingur sinnir manni svona 5 mínútur á dag en annars geta sjúklingarnir bara átt sig og reynt að hafa hver ofan af fyrir öðrum. Margar konur eru betur settar því þær geta þó prjónað en karlarnir verða bara að ráfa stefnulaust um. Fönduraðstaðan á minni deild fólst einkum í því að mála á gifs-styttur og var opin eitthvað um 2 tíma á dag nema þegar föndurkonan var veik. Þarna er engin sérstök batadagskrá í gangi, fræðsla um geðsjúkdóma eða uppbyggingarstarf  nema örsjaldan (prestur einu sinni í viku, tónlistarþerapía í mýflugumynd o.s.fr.) Sem betur fer reyki ég og það bjargaði dögunum að fara út til að reykja. Geðdeild er í rauninni afar reykingahvetjandi. Hápunktar dagsins voru matartímar (það er a.m.k. eitthvað um að vera) en því miður er spítalamatur nánast óætur.

Ég lagðist fyrst inn á geðdeild 1998, á A-ganginn á deildinni sem Lára lýsir, og þar var akkúrat sama sagan þá. Þannig að ég held að afskiptaleysi gagnvart sjúklingum, jafnvel hunsun, hafi ekkert með fjárveitingar að gera. Í lok síðasta árs sýndist mér að geðdeildin hin væri það vel mönnuð að starfsfólk væri álíka margt, jafnvel fleira, en sjúklingarnir.

Það sem kannski gæti lagað geðdeildir einna mest er að starfsfólkið lærði (t.d. á námskeiðum) að bera virðingu fyrir sjúklingunum, byggða á þekkingu á geðsjúkdómum. Sjúklingarnir völdu nefnilega ekki að vera svona veikir eða geta ekki hagað sér eins og Dorrit í teboði alla daga. Alveg eins og kennarar eiga að sýna nemendum virðingu byggða á skilningi þótt þeir séu á einhvern hátt fatlaðir eða ekki námsmenn par excellance. Ég vorkenni hjúkkum ekki neitt að sýna sjúklingum umhyggju og alúð, frekar en kennurum að vera almennilegir við nemendur sína. Báðar stéttir eru menntafólk en það að hafa klárað nokkur ár í háskóla gefur fólki ekki leyfi til að niðurlægja skjólstæðinga sína, hvorki á spítölum eða í skóla.

Af mér er annars það að frétta að mér batnar ekki hætis hót af hinu nýja kraftaverkalyfi … en úr því það á að vera svona mikið kraftaverkalyf er best að fullreyna áður en því er hent. Marga daga líður mér djöfullega. Ég er t.d. örugglega alltof veik til að höndla geðdeildarvist í augnablikinu. Aftur á móti er talsverður ávinningur af kvíðanámskeiðinu sem ég sæki einu sinni í viku, þar læri ég margt nytsamlegt en er ekki nærri nógu dugleg að æfa mig milli tíma. Leiðbeinendur á því námskeiði eru yndislegir og klárir og skipulagðir og tala aldrei niður til nokkurs þátttakanda.

Og svo er ég byrjuð að skoða grískar eyjar og strendur og ferjusiglingar milli staða og svoleiðis … Það er ljúft!

Kaupþing líka næst og menningarlegt

Á þessum síðustu og verstu tímum er huggulegt að lesa hrós um Kaupþing, sjá upplýsingasíðu Heimis Pálssonar, lektors í norrænum málum í Uppsölum:

“Som lektor i nordiska språk, särskilt isländska, här i Uppsala betraktar jag mig som ettslags kulturambassadör. Därför tar jag gärna del i evenement där det är fråga om isländsk kultur. Det har gjort mitt jobb här mycket lättare (och roligare) att Kaupthing Bank donerade ungf. 100.000 SEK till lärosätet, och därför har jag kunnat aktivt bidra till isländska kulturprogram i Uppsala (och Stockholm).”

Þessi klausa er ekki yngri en frá 2008 (skv. uppfærsludags. á síðunni)  og minnir óneitanlega doldið á klappstýrutakta sem þá tíðkuðust. Spurning hins vegar hversu smekklegt það var að þiggja svona styrk?

En eitthvað þurfti jú að spreða fénu sem hrúgaðist upp með mismunandi ólöglegum hætti … og kannski ágætt að nota smáaurana  gera starf háskólakennara léttara og skemmtilegra.  

Tek skýrt fram í þessu sambandi að ég kann ágætlega við Heimi Pálsson og tel hann fullfæran um að halda á lofti íslenskri menningu, styrkjalausan. 

this.is/harpa

Ég var orðin svo leið á andlausu kennsluefnispúli og langaði í eitthvað skapandi … svo ég eyddi hellings tíma í að hanna skel fyrir persónulega heimasíðu mína. Sjá má afraksturinn á this.is/harpa og ég tek fram að ég reyndi að vera eins feminín í hönnuninni og ég gat. Byrjaði með grunnsíðu, sótta af netinu, en endaði á að skrifa megnið í Notepad og hefði sennilega verið fljótari að nota bara Netscape og Notepad eins og venjulega.

En þetta verður sumsé staðurinn fyrir áhugamál, s.s. hannyrðir (stafrænar og unnar á höndum), myndir og alls kyns persónulegt stöff í framtíðinni – skil einungis kennsluefnið eftir á fva-servernum. Að greiða úr og uppfæra fjölda vefja er hellings vinna og ég reikna ekki með að því verki ljúki fyrr en einhvern tíma seint í haust.

Vinnan (verkefnið styrkta)

Ég var að klára að endurvefa Njálu-síðu úr “bits & pieces”, sjá http://www.fva.is/harpa/njala/njalmenu.htm.  Hefur tekið viku! Sama má segja um uppfærslu á Agli í Sýberíu en Laxdæla var minna mál.

Svo er Laxness-stöffið meira og minna endurskipulagt og jafnvel endursamið … Þeir sem ætla að sjá Íslandsklukkuna ættu að renna yfir þann vef, sér til upprifjunar. Má meira að segja taka próf 😉

 Annað er sosum ekki títt – lífið lufsast áfram í hægagangi og svona frekar kalt og dimmt umhverfis mig. Rakst þó á þann óvænta plús við tóbaksneyslu að Stanley karlinn (sjá upptalningu á ferðasögum í síðustu færslu) telur að holdsveiki í Færeyjum hafi stórminnkað með aukinni tóbaksnotkun! Er hugsanlegt að yfirfæra þetta á “ástandið í þjóðfélaginu í dag”, þ.e.a.s. að brúkun tóbaks og sjaldgæfi holdsveiki hangi enn saman?

Pökkuð í bómull

Ef ég passa mig undurvel verður þessi dagur ekki svo slæmur. Ég splæsti á mig heilli svefntöflu í gærkvöldi og náði því að sofna og sofa í átta tíma. Auk þess náði ég klukkutíma blundi núna áðan með velheppnaðri hugartæmingu og hjartsláttarhægingu. Í hvert sinn sem ég næ að sofna aðeins bráir svolítið af mér og ég er nokk normal fyrst á eftir. Þetta er lang áhrifamesta endurræsing miðtaugakerfis sem ég veit um. Svo held ég að ég sé hvort sem er flesta daga örmagna því stöðugur kvíði er afar orkufrekur … líkast til er hjarta og allskonar líkamsstarfsemi í álíka aksjón og í tækjasal, þótt setið sé kjur.

Í gær tókst mér að komast gegnum daginn með því ómerkilega trixi að splæsa saman glærusjó. Ég var of lasin til að sauma (þá hugsar maður á meðan), lestur var algerlega út úr myndinnni, hvað þá “hreyfing úti í góða veðrinu”,  en klastur við glærur fól í sér að samræma leturgerðir, klippa og líma, sem var hæfilega andlaus handavinna, þó með lágmarks eftirtekt, sem reddaði lunganum af deginum.

Í dag er svipað í gangi, þ.e. að snara krossaprófum yfir í gagnvirkt form. Álíka andlaust og lágmarks eftirtekt. Og ég þarf hvort sem er að vinna þessa vinnu í uppfærslu og tiltekt kennsluvefja.

Mér fannst ég dugleg að fara á fund í morgun, í nafnleysingjafélaginu, en hef fallið frá þeirri hugmynd að æfa mig í bíó í kvöld; hef ekki nokkurn áhuga á amrísku unglingamyndinni sem verður sýnd en datt í hug – snemma í vikunni – að ég þyrfti að æfa mig í ofsakvíðakastshöndlun, áður en ég fer í leikhús fljótlega. Núna er ég á því að ég sé of lasin í ekta general-ofsakvíðaprufu. Verð að höndla sýningu á Íslandsklukkunni einhvern veginn öðru vísi. (Kannski gerir hönd guðs mig ofsakvíðalausa það kvöld? Maður veit sosum aldrei 😉

Það litla sem ég les þessa dagana (ef lestur skyldi kalla) eru ferðabækur ríkra Englendinga, sem flöndruðu um hið afskekkta Ísland á síðustu öldum. Kláraði Dagbók í Íslandsferð 1810 (e. Holland) nýverið, í gærkvöldi skoðaði ég bara myndir úr Íslandsferð Mayers 1836 en byrjaði svo á Íslandsleiðangri Stanleys 1789 núna áðan. Fordómarnir sem birtast í þessum bókum eru afar heillandi ósvífnir og hæfilega fjarlægir í tíma og rúmi. Auk þess gerir ekkert til að gleyma á milli lestra; það er hvort sem er enginn söguþráður í svona bókum og vandséð að ég þurfi nokkru sinni að kunna nein skil á þessum “fræðum”.

Blús að morgni

Tveir ólíkir menn drepa óendanlegan tímann með því að blúsa saman á gítara. Ógleymanlegt. Nú er annar fallinn í valinn; þjáningin getur orðið óbærileg, sársaukinn of sár og hvergi hvíld að fá. Ég hef grátið í allan morgun.

Úr leik

Eftir ótrúlega geðvonsku og pirring undanfarna daga hófst hrapið í gær, með tilheyrandi átökum. Nú er ég í frjálsu falli ofan í Helvítisgjána. Reikna með að verða helfrosin í dag eða á morgun. Verði kastið mjög djúpt eru áhöld um bloggvirkni á næstunni.

Hannyrðir, garður, íslenskukennsla o.s.fr.

Fyrst: Dagurinn í gær var verulega ömurlegur!

En í dag ákvað ég að láta umhverfið ekki trufla mig og halda mínu striki sem best ég gæti og sófar hefur það tekist prýðilega. Náði að vinna þónokkuð í vefnum um Egil Skallagrímsson í allsherjar friði og ró í morgun og hef að mestu lokið við að hreinsa garðinn. (Karlfólk sýndi loksins af sér smá dug og fjarlægði ruslið sem ég var búin að safna saman núna áðan.) Ég tíndi meira að segja upp hundaskítshrúgurnar í kringum snúrurnar mínar! Sjái ég hund gera þarfir sínar í garðinum mínum er ég ákveðin í að hella óblönduðu Þrifi yfir eigandann, jafnvel þótt hann kunni að vera ellilífeyrisþegi.

Jósefína snöflaði um garðinn meðan á lokaræstingum stóð – mér sýndist hún nú aðallega einbeita sér að því að stara Míu greyið (nágrannakisu) niður. Mía hefur brugðið á það ráð að leita skjóls undir pallinum en Fr. Dietrich er of dönnuð til að skríða undir palla. Sama Fr. Dietrich hefur ort talsvert upp á síðkastið, þ.á.m. ansi fína vísu um klappstýruna á Bessastöðum, sem sjá má á fésbókarsíðu dýrsins.

Varðandi vefnaðinn þá er ég að vinna upp allar mínar vefsíður; mun skipta Vefnum í tvo parta, annars vegar kennsluefni og hins vegar persónulega síðu, sem verður hýst annars staðar o.s.fr. Kennsluefnið þarf að setja miklu skipulegar upp og hanna auðratanlega skel yfir, með leitarmöguleika. Sömuleiðis þarf loksins skel / heimasíðu á this.is svæðið mitt, sem hingað til hefur einungis aktað sem geymsla. Þetta er ofboðsleg vinna en ég hef hálft ár til að ljúka henni. Það borgar sig ekki að una við þessa stafrænu handavinnu lengi í einu, þá fer maður að gera mistök. Sumar síðurnar eru tíu ára gamlar eða eldri og verður að beita smekkvísi til að ákveða hversu mikið skuli uppfæra. Svo eru það nemendavefirnir sem ég á ekki höfundarétt að nema í félagi við aðra … helstu breytingar þar eru að taka út persónulegar upplýsingar um krakkana sem nú eru löngu orðnir fullorðið fólk og kæra sig sennilega lítið um að unglingahúmor í eigin lýsingum standi á Vefnum.

Óstafrænu hannyrðirnar ganga líka vel, sérstaklega eftir að ég henti peysunni sem ég var næstum búin með. Ég sá fyrir mér að ég mundi aldrei ganga í þessari peysu og hönnunin hefði verið mistök. Svo hún fór í ruslið. Aftur á móti gengur prýðilega að sauma Kúna Meskalínu og í baghóveðet mallar góð hugmynd að stólsessum, sem krefst reyndar talsverðs stafræns undirbúnings. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að sauma út með gamla krosssauminum heldur gera tilraunir með varplegg, blómstursaum og jafnvel refilsaum. Sennilega hefst þessi vinna ekki fyrr en í sumar því kýrin Meskalína er ákaflega digur og seinsaumuð.

Eins og komið hefur fram held ég friðinn á heimilinu með því að lesa moggann mannsins (við Jósefína látum þetta pappírsdrasl ganga yfir okkur ganga). Í dag var annars vegar skemmtilegt viðtal við Sölva Sveinsson, einstaklega jákvæðan og hugmyndaríkan. Hins vegar var málfarshorn (sem ég man ekki hvað heitir) hvar Baldur Hafstað lýsti því í upphafi yfir að hann ætlaði ekki að nöldra yfir einstöku orðalagi en notaði svo allan pistilinn til að nöldra akkúrat yfir einstöku orðalagi. T.d. notkun þolfalls (“að vinna með heilsuna”, “að vinna með börn” o.þ.h.) – hann virtist alls ekki gera sér grein fyrir mismunandi merkingu þolfalls og þágufalls eftir “með”; “að vera ekki að sjá Snæfellsjökul”, sem er tímabundið orðalag eins og svo margt slangur og auk þess aðalbrandarinn í sjónvarpsauglýsingu o.fl. umkvörtunarefni. Í þessum lélega snepli mannsins mátti sumsé sjá báðar hliðar íslenskukennslu; (e.t.v. bláeyga) bjartsýni og síðan kverúlantaútgáfuna. Sem óvirkur íslenskukennari hafði ég gaman af hvoru tveggja. Finnst bláeyga bjartsýnin þó skemmtilegri og sennilega árangursríkari. [Myndin er hvorki af Sölva né Baldri.]

Í kvöld taka við dýrðir sjónvarpsins: Lokaþáttur Forbrydelsen og danska eftirlíkingin af “De fortvivlede husmødre”, nefnilega Livet på Lærkevej, sem er sýnt í sænska sjónvarpinu. Mér finnst einmitt mjög þægilegt að horfa á danska þætti í sænska sjónvarpinu og sænska (t.d. Wallander) í danska sjónvarpinu. Textinn dugir akkúrat til að ég skilji talið.

Sumsé: Þetta verður góður dagur en það er líka ferlega mikið mér sjálfri að þakka!

Jarðlífið og lyfjafóbían mikla

Síðasta vetrardag hringdi hingað afar skemmtilegur maður sem ég hef ekki séð í áratugi en fylgst með í fjarlægð. Hann sagði margt athyglisvert og skemmtilegt og spurði talsvert út í líðan mína. Áhugaverðum uppástungum eins og ég væri of gáfuð eða kannski skáld, sem gæti valdið djúpu þunglyndi, andmælti ég auðvitað staðfastlega enda hefur mér ekki sýnst að það fari neitt sérstaklega saman. Mýtan um geðveika listamanninn er bara mýta. (Þótt auðvitað hafi sumir listamenn verið geðveikir alveg eins og sumt fólk, almennt, er geðveikt.)

Áhugaverðastar þóttu mér samt ábendingar um stöðu mannsins í alheiminum – í kosmosinu. Viðmælandi minn tók mér vara fyrir að kála mér (vitandi eflaust að slíkt kemur fyrir margan þunglyndissjúkling heimsins) því svoleiðis viðskilnaður við jarðlífið væri afar slæmur og gæti valdið því að sálin / vitundin endurfæddist mjög neðarlega í allífinu næst. Hann taldi að sjálfsvíg leiddi jafnvel til þess að maður endurfæddist sem gras! Eftir að hafa hamrað nokkuð oft á því að ég væri nú ekki að plana sjálfsvíg … því ekki vildi ég verða gras næst … varð viðmælandinn enn svartsýnni og gerði því jafnvel skóna að gras væri of gott – kannski endurfæddist maður sem grjót! Við þessu var ekkert að segja nema “kannski bara aska?”

Þetta eru nú heldur skemmtilegri hugmyndir en talibanasporatrúboðið, verð ég að segja. Veit ekki hversu mikið vægi þær hafa sem fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum þunglyndra en mætti kannski prófa að hafa þær í huga?

Sem stendur fæ ég ekki oft sjálfsvígshugsanir – er á meðan er – en þær poppa náttúrlega alltaf upp þegar hallar undir fæti. Skást finnst mér að líta á þær eins og aðrar vitlausar hugmyndir sem poppa upp við sömu aðstæður, frá því að heimurinn farist til þess að flest mitt fólk sé í yfirvofandi hættu að deyja í bílslysi. Svo ekki sé minnst á vissuna um að ég sjálf sé síkretlí  dauðvona, úr einhverjum hryllilegum sjúkdómi. Þessi þankagangur er bara hluti af sjúkdómnum (skrifast jafnt á þunglyndi og kvíða) og best að gútera hann bara sem sjúkdómseinkenni … en alls ekki skynsamlega hugsun sem leiðir til aðgerða. Best að reyna að láta hugsanirnar fljúga í gegnum hugann, sem áreynslulausast, og alls ekki berjast gegn þeim því það gerir þær bara öflugri. Nýjasta hugsunin er, þökk sé klappstýrunni á Bessastöðum, að Katla muni gjósa og eyða landinu – til vara koma í veg fyrir að ég komist til Krítar eða frá, í sumar.

Mér finnst ástæða til að taka enn einu sinni upp lyfjafóbíu þá sem fólk hefur í garð geðlyfja, svefnlyfja og róandi lyfja. Af hverju ætli menn haldi að þessi lyf hafi verið fundin upp og séu notuð?  Til að eitra fyrir fólki og koma því svo inn á Vog? Lyfin eru náttúrlega notuð af því þau virka, að vísu ekki nærri alltaf en oft.

Af hverju finnst fólki að það gildi annað um svona lyf en önnur, t.d. sýklalyf eða krabbameinslyf? Nú eru krabbameinslyf baneitruð, drepa frumur í massavís og hafa ógeðslegar aukaverkanir. Er þá ekki brjálæðislega óhollt að taka þau? Ef við snúum okkur að nauðsyn og segjum sem svo að krabbameinslyf séu nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóms – eru þá geðlyf ekki nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóm? Eru hjályf á borð við róandi lyf og svefnlyf allt í lagi til að slá á ömurlega líðan krabbameinssjúklinga (m.a. vegna lyfjagjafar) en ekki geðsjúklinga?

Er einhver vitglóra í því að hakka í sig fæðubótarefnum, vítamínum o.þ.h. og drekka valeríana-te eða grænt te eða róandi bangsakarlrembute (sem á að virka á miðtaugakerfið) en vera á móti því að fólk noti sér heilabótarefni (sem eiga að virka á miðtaugakerfið) af því þau eru lyfseðilsskyld?

Einu sinni var sagt að fyllibyttur kæmu óorði á brennivín. Pilludópistar koma óorði á bensó-lyf, en hversu stór hluti þeirra sem taka slík lyf að læknisráði missa tökin og verða fíklar? Mér þætti gaman að sjá svoleiðis tölur, bornar saman við prósentutölur alkóhólista í hópi þeirra sem neyta áfengis. Mér þætti líka gaman að vita hversu stór hópur miðaldra kvenna kemur inn á Vog eingöngu vegna lyfseðilsskyldra lyfja miðað við stærð hóps miðaldra kvenna sem hefur legið í sjerríi og púrtvíni og öðrum eðlum sortum, heima hjá sér með gardínurnar dregnar fyrir, í áravís.

Áróðurinn gegn bensó-lyfjum við kvíða er sambærilegur við áróður um að enginn skyldi setjast undir stýri því alltaf er eitthvað um að fólk keyri á! Eða jafnvel út af …