Lááángur föstudagur

Eins og mig grunaði gat ég ekki farið af bæ þrjá daga í röð og sit því heima, með sofandi unglingi og ketti, meðan maðurinn og frumburðurinn frílysta sig í Tungunum (annar hleypur píslarhlaup og hinn sér um myndatöku og heitt te) og svo í Hveragerði. Mér leist engan veginn á að fara með, í morgun.

Laugarvatnsferð (stórfamilíuhittingur) í gær var fín og lukkaðist ljómandi vel. Eins og mig grunaði var ég ekki tæk í spurningakeppnislið en hjálpaði hinum þess meir … við misjafnar undirtektir. Liðið sem ég hjálpaði minnst vann keppnina. Undarlegt!

Á Lv. fletti ég aðeins hamingjubókinni þeirri sem Karl Ágúst og Ásdís Olsen þýddu. Hún virtist ekki nærri eins vitlaus og ég hélt (ákveðin neikvæðni er fylgifiskur kvíða og þunglyndis). Kannski les ég hana einhvern tíma. Akkúrat núna er ég í miðri Hafmeyjunni sem svíkur engan! Kannski er betra að halda sig við morðin og láta hamingjuna eiga sig, svona í miðri dýfu.

Mér líður ósköp svipað og undanfarið. Ógleði og skjálfti er orðinn daglegur fylgifiskur. Sem og hjartsláttur í takt við kattarhjartað, á stundum. Fjölskyldan er sammála um að það sé ótvírætt sjúkdómseinkenni að geta bara borðað fimm konfektmola í röð og svo ekki meir! Enda hrynja af mér kílóin … kvíði er afar grennandi.

Einn dagur í einu er góð lífspeki. Það er aftur á móti hroðalega leiðinlegt að lifa slíku lífi. Ég myndi gjarna vilja skipta yfir í eitthvað annað, væri það í boði. Mér finnst ömurleg tilhugsun að vera kúplað út af vinnumarkaði og úr venjulegu daglegu lífi út þetta árið. Auðvitað veit ég að það er út í hött að spegla sig í vinnu og afköstum; að fólk á að meta líf sitt út frá öðru. Hins vegar er miklu einfaldara að segja þetta heldur en prófa á eigin skrokki og sál. Það tekur mig ábyggilega einhverja mánuði í viðbót að sættast við að lifa einn dag í einu með fáeinum saumsporum, prjóni eða lestri. Ég stend mig ekki á neinu sviði, ekki einu sinni í húsverkum því þau eru mér oft um megn. Það að kúvenda lífskoðun og samþykkja að lífshamingjan er ekki fólgin í að standa sig er helvíti töff! (Þeir dyggu lesendanna sem hafa þurft að gjörbreyta skoðun sinni á lífinu kannast eflaust við þetta en aðrir sennilega ekki.) Það að þurfa að lifa endurskoðuðu lífi vegna sjúkdóms sem ekki sést og er helv. óskiljanlegur er líka ansi töff. Sjálfsagt næ ég þessu á endanum en ferlið er langt.

Ein breyting á lífspeki sem ég þurfti að gera fyrir löngu var að varpa “ekki bera sorgir sínar á torg” fyrir róða. Nú er svo komið að ég ber þær ekki á torg heldur á blogg. Sjálfsagt þykir einhverjum þessi bloggburður ekki við hæfi. Það verður að hafa það.

Planið í dag? Ja, mér líður væntanlega skár eftir þessa bloggfærslu. Hafmeyjan bíður og svo setti ég heimsókn á seinniparts-planið. Um að gera að skríða ekki upp í rúm af því ég sef djöfull illa á nóttunni og uppgjöf á daginn gerir næturnar verri.

Kvíði

Þeir dyggu lesendanna sem ekki hafa áhuga á geðrænum kvillum sleppi því bara að lesa þessa færslu … mér dettur því miður ekki í hug neitt umfjöllunarefni annað og hef ekki orku í að bögga neinn einstakan (þótt maðurinn hafi bent á að blogg er bögg, í gærkvöldi).

Í lægðinni undanfarið hefur kvíði verið svakalega áberandi. Þetta ástand á lítið skylt við það sem almenningur kallar kvíða, sem er oft nettur neikvæður spenningur fyrir einhverju, fólk kvíðir fyrir, sem kallað er. Nei, kvíðaröskun og ofsakvíði er miklu líkamlegri kvilli og andstyggilegri en “kvíða fyrir”-dæmið. Má t.d. nefna að ég hef verið undarlega dofin vinstra megin, frá höfði og einhvern veginn niðureftir skrokki, í nokkrar vikur. Dofinn er að gefa sig, a.m.k. hef ég öðlast nokkurn veginn tilfinningu í húð. Sé maður koldofinn öðrum megin í andlitinu, finni t.d. illa klip, er það ávísun á hugleiðingar um heilaæxli eða heilablóðfall. Þá verður maður enn kvíðnari og einkennið eykst. Stundum hugsa ég reyndar til þess að ég gæti svo sem vel fengið einhvern alvarlegan sjúkdóm án þess að fatta það því það er tiltölulega einfalt að skrifa allt á helv. kvíðareikninginn ;(   Úr því að dofa-einkenni er að ganga til baka er ábyggilega rétt mat geðsjúklings að þetta var kvíði.

Á föstudagskvöldið síðasta fékk ég svo myndarlegt kvíðakast af nánast fullum styrkleika. Ég náði ekki að sofna heldur birtist sería af æ ógeðslegri myndum fyrir lokuðum sjónunum, hjartslátturinn jókst og herpingur utan um brjóstkassann, með sannfærandi hjartaáfallsverk, og svita sló um mig alla. Ég var skelfing hrædd við allt, frá draugum úr þjóðsögum uppí að nú væri ég að fá hjartaáfall. (Þeir sem reynt hafa skilja þessa klausu mætavel, ég er ekki viss um að aðrir geri það.) Á endanum fór ég á fætur og tók pillu, með miklum semingi því ég er mjög hreykin af því að vera lyfjalaus. Má samt spyrja sig hvort það sé eitthvað til að vera hreykin af? Þegar pillan (tiltölulega saklaus sort, tek ég fram) fór að virka og járnbeislin um brjóstkassann að gefa eftir var það dásamlegur léttir! En ég náði samt ekki að sofna fyrr en um miðja nótt.

Dagarnir síðan hafa verið brogaðir; Annað hvort algert framtaksleysi, sem ég skrifa á þunglyndisreikninginn eða skjálfti, sviti, ógleði og yfirliðakennd, sem passar undurvel við kvíða. Af því ég hef slegist við þessa sjúkdóma, þunglyndi og kvíðaröskun, í meir en áratug afþakka ég pent ódýrar skýringar á borð við gang himintungla eða hugsanlegt breytingarskeið. Sömuleiðis afþakka ég ráð á borð við Bowen meðferð, TFT-meðferð eða lestur bóka sem eiga að gera mig enn hamingjusamari. (Var að skanna nokkrar síður um þessi efni … að mínu viti er þarna verið að auglýsa peningaplokkun sem gefur dítox ekkert eftir.)

Hvað gerir svo geðveik bloggynjan í þessu? Ja, ég gæti náttúrlega skipt út hveiti í spelt; hakkað í mig garðabrúðu, drukkið grænt te, látið fitla smávegis við mig utanklæða, farið með nokkur geðorð eða 100 x æðruleysisbæn o.s.fr.  Í besta falli mundi það draga athyglina frá sjúkdómnum og þar með sjálfkrafa gera hann bærilegri. Svo gæti ég líka prófað sosum eins og eitt nýtt geðlyf … sem myndi væntanlega fara hroðalega í mig út af neikvæðum placebó-áhrifum (nocebo-áhrifum) og ég gæti þá skellt allri skuldinni á lyfjatökuna. Ekki að það myndi samt breyta neinu um líðan, gæti jafnvel gert hana verri.

Sennilega er skást að gera ekki neitt annað en bíða eftir að þetta helvíti líði frá. Ég nota náttúrlega nokkur trix sem ég hef tínt upp á lífsleiðinni, eins og að gera mér vel grein fyrir hvað þetta er og reyna að ná stjórn á öndun eða slaka á með hverjum þeim hugrænum ráðum sem gefast. Ég veit að fólk deyr ekki úr kvíðakasti, sem er auðvitað nokkur huggun. (Á hinn bóginn gætu menn lent í þeirri stöðu að sjá enga færa leið út úr líðaninni svo auðvitað eru þunglyndi og kvíðaröskun lífshættulegir sjúkdómar – ég er ekki að gera lítið úr því þótt ég telji sjálfa mig ekki í mikilli hættu í augnablikinu enda hef ég gott stuðningsnet.) Það er náttúrlega andstyggilegt hve þessi sjúkdómur breiðist yfir sístækkandi hluta ársins en á hinn bóginn hafa alltaf komið góðir tímar á milli. Má hafa í bakhöndinni að byrja einhvern tíma aftur á lyfjum og ég hef þá trú að sé ég lyfjalaus um tíma muni gömul lyf reynast mér vel þegar á þarf að halda.

Það sem virkar sérdeilis illa er heilbrigð skynsemi; Það er ekki nokkur skynsemi fólgin í því að boðefnarugl fokki upp líkamanum svo manni finnist maður vera að deyja! Viljastyrkur virkar jafnilla á kvíðakast og á niðurgang. (Hvet efasemdarmenn til að prófa næst þegar þeir fá magakveisu.) Uppgjöf virkar heldur skár. Sennilega virkar pillubox í skúffu einna best eða pillur í buxnavasa; manni léttir ofurlítið við þá tilhugsun að geta stoppað kastið ef í harðbakkann slær. Sá tilbúni léttir dregur oft það langt að ekki þarf að taka þessi lyf.

Eins og lesendur vita er ég fyrir löngu búin að fá mig fullsadda af (ó)dýrum allsherjarráðum og kvakksalverí. Sömuleiðis fæ ég upp í kok þegar velmeinandi viðmælendur fabúlera um að guð hafi falið mér sérstakt verkefni af því ég sé einmitt manneskjan sem er fær um að höndla það eða að ég eigi ógreidda skuld úr fyrra lífi (það er nú sjaldan sem menn þora að skella þessu síðarnefnda framan í mig en þess fleiri eru á línunni “guð splæsir verkefnum eins og neikvæðu sælgæti”). Svo ekki sé talað um þá staðhæfingu að þessa líðan hafi ég valið sjálf og sé þar með ábyrg fyrir henni. (Yfirleitt eru rökin á þá leið að sérhver geti valið að “lifa í kærleika eða ótta” og ég hafi þá sumsé valið óttann!  Hvílíkt bull – en fólk sem er veikt á geði er skiljanlega útsett fyrir slíkan neikvæðan kærleiksboðskap og ekki ólíklegt að svona áróður ýti verulega veiku fólki fram á ystu brún því fólki er talin trú um að það sjálft hafi valið rangt og nánast útskúfað sjálfu sér, kannski af því það er svo illa innrætt?)

Nei, ég álít að ég hafi erft þetta boðefnarugl í heila alveg eins og ég erfði útstæð eyru og vísitær sem eru lengri en stórutær. (Er doldið ósátt við hvort tveggja 😉 )  Við erfðum er ekkert að gera. Aftur á móti get ég reynt að beita skynsemi í því hvernig ég tekst á við þunglyndi og kvíða eða þeirri erfiðu ákvörðun að stundum sé best að gefast upp fyrir þessu og reyna einna helst að sýna langlundargeð.

P.s. Mér til upplyftingar segir yngri sonurinn reglulega, þegar ég er veik: “Hefurðu prófað að fara út að labba?” Þessu fylgir glott. Drengurinn veit vel að labbitúrar gera stundum illt verra, a.m.k. þegar maður er í alvöru veikur (prófið einnig labbitúr gegn niðurgangi!) og æfir því móðurina í pirrandi misskildum ráðum 😉

Tekist á við dagamuninn

Mér líður ekkert skár. En ég hef ákveðið að sætta mig ekki við það … held ég sé nógu frísk núna til að grípa til aðgerða (Vá! þetta hljómar eins og ég sé í ríkisstjórn en ekki sjúklingur 😉 

Ég var í borg óttans fram eftir degi í gær. Meira hvað er kalt og klakafullt þarna handan Flóans! Aukaafurð af ferðinni eru nokkrar mjög álitlega hannyrðabækur og einn reyfari úr Norræna húsinu. Reyndar held ég að ég hafi lesið reyfarann áður, a.m.k. kannast ég ansi mikið við hann. En af því ég man ekki hver morðinginn er held ég ótrauð áfram. Hef þessa morðsögu svona til hliðar við Kirkju hafsins sem ég er að treina mér.

Minnisgloppur undanfarið fara ofboðslega í taugarnar á mér. Má nefna þegar ég eyddi klukkutímum í að reyna að muna hvað yllirinn úti í garði héti; Nafnið var gersamlega dottið úr mér! Á sama tíma koma minningar fljúgandi þegar minnst varir en það eru allt saman slæmar minningar. Nú vinn ég í að fyrirgefa sjálfri mér hitt og annað úr fortíðinni. Það er ekki létt verk en verður að vinnast.

Það er erfitt að lýsa þokukenndum hugsunum á bloggi. En þegar þokan leggst yfir og ég stend mig aftur og aftur að því að muna ekki hitt eða muna ekki þetta … svo fullkomin sem ég nú annars tel mig vera … er lífið erfitt og læðast að hugsanir um Alzheimer eða heilaæxli eða einhvern hrylling – svoleiðis hugsunarháttur er bein líffræðileg afleiðing af boðskiptarugli í heilanum en ansi líflegur og raunsæislegur meðan á hugsanaflæðinu stendur. Ég hugga mig við að þetta er eflaust tímabundin líðan.

Fokking dagamunur

heldur áfram. Þetta er einhver dýfa sem hefur nú staðið í tæpa viku. Mér finnast kvíðaeinkennin verst; líður eins og ég sé með slæma timburmenn, öll í ójafnvægi. En ég nenni ekki að lista líkamleg einkenni kvíðaröskunar akkúrat núna.

Ráðið er að setja upp nákvæma stundatöflu dagsins í dag. Spurning hvort blundur um eftirmiddaginn sé til bóta; Það er dýrlegt að sleppa klukkutíma úr þessari líðan en e.t.v. gerir það kvöldið verra? (Annars mundi ég nefnilega geta farið fyrr að sofa.)

Hirði heldur ekki um að lista aktívitet dagsins í dag en fullvissa dyggu lesendurna um að mestallt er voðalega hollt!

Hafi ég verið farin að halda að ég gæti sinnt vinnu eða einhverju svoleiðis eru slíkir draumórar fyrir bí núna, altént í dag …

Blogg versus feisbúkk

Tek fram að ég hef ekki verið í stuði til að blogga alveg upp á síðkastið … þessu veldur hið velþekkt sjúkdómseinkenni “dagamunur”. Vonandi rís nýr og bjartur dagur sem fyrst.

En ég er þess duglegri að hanga í tölvunni við fánýta iðju. Eitt þessarar fánýtu iðju er að tékka á aðskiljanlegu fólki á feisbúkk. Hef nefnilega uppgötvað það að alþýðan er hætt að blogga á bloggum (undanskil hér handavinnublogg sem ég er húkkt á þessa dagana … aðallega útlensk slík) en rekur þess í örblogg undir nafninu Facebook-færslur. Það hentar greinilega miklu betur þeim sem vilja blogga stutt en nokkrum sinnum á dag. Kerfið býður líka upp á komment og jafnvel bara brosmerki ef menn nenna ekki einu sinni að skrifa fáein orð. Tek fram að ég sakna möguleikans “Dislike”, sennilega af því ég er svo neikvæð … ;(  Í mottuslag sonarins væri ágætt að hafa þennan möguleika.

Sjálf á ég fáa en góða fésbókarvini enda hef ég kerfisbundið gengið í að losa mig við sem flesta. Þessir fáu duga mér ágætlega því ég nota fésbókina bara til að kommenta hjá öðrum og get þarna fylgst með sonunum og kettinum, jafnvel manninum. Það hlýtur að taka tímann sinn að skruna niður skjáinn eigi maður mörg hundruð vini!

Langflestir hafa fésbókina sína galopna; Hver sem er getur skoðað vegginn þeirra og myndirnar þeirra sem samsvarar því alveg að reka tiltölulega persónulegt blogg. Svoleiðis að maður þarf ekkert endilega að binda trúss sitt við þá sem rita fésbók af alúð. Dugir að leita uppi viðkomandi einu sinni á dag og þá gjarna freistast í að skoða einhverjar álitlegar vinasíður í forbífarten. Ég er ekki viss um að fésbókarnotendur geri sér almennt grein fyrir þessu. Ég er heldur ekki viss nema þeir vilji opinn aðgang … til að komast nær því að reka persónulegt blogg.

Hafi dyggir lesendur mínir áhuga á vitsmunalegri fésbók mæli ég með fésbók Jósefínu Dietrich. Hún er sá eini fésbókarhöfundur sem ég hef rekist á sem ritar jafnt í bundnu máli sem lausu. (Vá – 3 sem í einni málsgrein hlýtur að vera met!) Reyndar telur sama Jósefína að kerfið allt heiti Jósefínubók …

Dútl um dagana

Vinnufélagi minn spurði mig, áhyggjufullur á svip, hvort ég fyndi mér eitthvað til að gera hér heima. (Kannski er þetta oftúlkun á svip og orðum vinnufélagans … en ég skildi þetta svona.)  Ég skil reyndar manna best að fólk telji vinnu æðsta og hafi áhyggjur af fólki sem ekki stundar slíka og eyðir í hana sinni mestu orku. Enda hefur stór hluti veikindaleyfis farið í að sætta sig við líf án þátttöku á vinnumarkaði (vonandi tímabundna fjarveru).

Málið er samt að mér leiðist alls ekki. Blessunarlega á ég mörg áhugamál og tekst ótrúlega vel að fylla dagana með iðkun þeirra … stundum duga dagarnir ekki í allt það sem mig langar að gera. Hér skal tekið fram að það er einungis rúmur mánuður liðinn frá því mig byrjaði beinlínis að langa eitthvað.

Á hverjum degi þarf ég helst að spila soldið á mitt pjanóforte; sauma í Scheving og hlusta á rás 1; hlusta á tónlist (er núna heit fyrir Vreeswijk-lögum, t.d. þessu); gramsa á Vefnum; lesa (er núna með Þegar kóngur kom í takinu og finnst hún meiriháttar frábær!); prjóna Möbíus (að endanlegri atrennu að herðaslái lokinni taka við tvær peysur sem á að klára) o.fl.. Auk þess þarf ég að fara út að labba einu sinni á dag og hitta eitthvert annað fólk en Atla og köttinn (álitamál hvort þau eru bæði fólk en bæði eru ákaflega skáldmælt).

Þetta vefst svo allt saman svoleiðis að ég hangi á Vefnum finnandi efni sem tengist hinu dótinu. Má nefna að ég fann Sonju-nótur í austurrískri fornbókaverslun og pantaði um helgina, ég datt svo í að skanna allt efnið í Sæmundi fróða Jóns Hjaltalín, til að gá hvort vitnað sé í kanadískan tannlækni um að fótaböð komi í veg fyrir tannpínu. Í Sæmundi fróða er áhugavert efni um Húsapótek og saga hörmunga í tíðarfari, sem ég á eftir að lesa en líst vel á. [Ég fékk svo líka nótur af Sonju sendar frá einum dyggum lesanda og þakka kærlega fyrir þær! Segið svo að borgi sig ekki að blogga! Nú vantar mig varíasjónir Merikantos um Mustalainen, þ.e. Til eru fræ …]

Áhugi á hjálækningum fyrri alda er mikill og má því til sönnunar sýna þetta brot þar sem útlistað er hvernig megi bæta minni. Veit ekki hvort ég prófa uppskriftina einhvern tíma. Líklega er betra að bera þetta undir sinn góða lækni fyrst …

Við minne, Tak salltpetur og mil vel, og meinga við vyn, og dreck þar af, það það mún gióra gott minne.

(Sjá JS 227 8vo, s. 67v á handrit.is.)

Þáskildagatíð

Tilefni færslunnar er feikigott viðtal við Erling Sigurðarson og Sigríði Stefánsdóttur í mogganum (mannsins) í dag (s. 14 – 17 í sunnudagskálfinum). Þar segir Sigríður: “Maður getur ekki lifað í þáskildagatíð; það þýðir ekki að hugsa um í hvaða sporum við værum ef þetta hefði ekki gerst.” Frasinn / spakmælið hringlaði í kúpunni og ég held ég hafi heyrt það áður. Þetta er afskaplega vel heppnaður frasi, sem ég er alveg sammála. Hvað þýðir að ergja sig yfir orðnum hlut eða sökkva sér í vangaveltur um hvernig lífið hefði getað orðið ef eitthvað hefði ekki orðið? Nei, þá er nú betra að halda sig í deginum í dag! Mér finnst ég hafa fengið nokkuð góða æfingu í þeirri lífspeki og mæli með henni. En ég þekki alveg fólk sem lifir í þáskildagatíð.

Stundum vilja þáskildagatíðarsinnar mjög beita sinni speki á aðra. Dugir hér að vísa til einkenna hemúla, skv. Muminpappans Bravader skrivna av Honom Själv þar sem segir:

“En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … “(Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)

Ég reikna með að flestir þekki einmitt hemúla sem vita óspart hvernig aðrir hefðu átt að haga sér. Svoleiðis skyldurækin þáskildagatíð er kannski enn verri lífspeki en sú sem sumir lifa sjálfir í … eða hvað? (Ég er ekki frá því stundum detti bloggynja sjálf í hemúlafarið.)

Af daufu bergmáli þáskildagatíðarfrasans kviknuðu minningar um aðra frasa, flesta ættaða úr AA eða meðvirknifræðum. Í viðtalinu sem ég nefndi í upphafi kemur einmitt fyrir uppáhaldsfrasi Al-anon nú um stundir, að ég held: “Eymd er valkostur”.  Ég hef reyndar ýmislegt við þennan að athuga en hugga mig við það að hann er sennilega ekki hugsaður út frá eigin þunglyndi. Skárri er þessi: Maður velur “að hanga í harminum”. Þennan má líka brúka á þunglyndi því hann gerir ráð fyrir að harmurinn sé kannski ekki óumflýjanlegur, hins vegar sé hægt að kjósa leið fram hjá honum eða a.m.k. að sleppa því að velta sér beinlínis upp úr honum.

Stundum hefur mér flogið í hug að meðvirknifrasar ýmsir séu dulinn mega-áhrifavaldur á íslenskt mál. Ef gengið er út frá tölulegum upplýsingum SÁÁ, þar sem beinlínis virðist mælast að 25% karlmanna í árgangi leiti í meðferð fyrir fimmtugt og ef gert er ráð fyrir að einhverjir aðstandendur hvers þeirra leiti sér aðstoðar – þá er ótrúlega stór hluti þjóðarinnar innanborðs í fíknar- eða meðvirknisamtökum. Svo ekki sé talað um alla þá allskonar meðvirkni sem rúmast innan CODA.  Vegna nafnleyndar fer þetta hins vegar ekki hátt. Mér vitanlega hefur enginn skoðað áhrif beinna þýðinga úr amrískum meðvirkni-bókum á málfar en ég held að þau gætu verið töluverð.

Má taka sem dæmi “Góðir hlutir gerast hægt”. Þessi frasi fór óendanlega í taugarnar á mér fyrir meir en áratug. En málvöndunarsinnar innan AA hafa lagt sig í líma við að brúka heldur “Með hægðinni hefst það” sem hugnast mér miklu betur. Væri spennandi að vita hvort fyrrnefndi frasinn höfði einkum til aðstandenda og hinn síðarnefndi til óvirkra alkóhólista … ég hef á tilfinningunni að svo sé en hef svo sem ekkert annað fyrir mér.

Áhrif páskaeggjamálshátta minnka ár frá ári!

P.S. Kann að gleðja einhverja dygga lesendur að bloggynja er í miklum heilastarfsemibata: Ég rúllaði upp sunnudagskrossgátunni á engri stund!

Samtíningur

érna áðan (málsgreinin byrjar svona svo ég geti notað upphafsstafinn!) settist bloggynja við tölvu sína og gramsaði hér og þar. Afraksturinn var annars vegar sá að ég fann Stjórn á stafrænu formi; reyndar er upplausnin á myndunum alveg hroðalega lág og kostar mikla vinnu að sansa þær svo hægt sé að lesa eða sjá lýsingu (skreytingu) almennilega. Hannyrðakonur og aðrir áhugamenn geta sumsé farið á Stafrænt handritasafn Árnastofnunar, fundið þar AM 227 fol og smellt á Skoða. Leit á handrit.is og Sagnaneti skilaði aftur á móti engum niðurstöðum. Þrátt fyrir þessa annmarka gleðst ég yfir þó þessum möguleika.

Öllu merkilegra þótti mér að hafa upp á laginu um hana Sonju! Ég hef bara heyrt það með norskum / dönskum texta; “Sonja, Sonja / Stjerneøjne har du / som i mørket brenner i mit sind / alle mine drømmes dronning var du / ? ” … síðar í kvæðinu, eftir að mælandi hefur rekið vin sinn í gegn, endar viðlagið á “Sonja, Sonja, jeg forbanner dig”. Þetta er eldgamalt dægurlag sem amma spilaði flott á sitt Hornung & Møller pjanóforte og söng með. Fyrir mörgum árum komst ég að því að Ólafur frá Mosfelli hafði sungið þennan sniftara, í íslenskri þýðingu, inn á plötu. E.t.v. er það platan sem talað er um hér. Ég þarf að skoða þetta betur.

En sem sagt fann ég lagið um hinu svikulu Sonju, á serbó-króatísku (!). Reikna þar með að þetta blessaða lag sé austur-evrópskt þjóðlag sem á tímabili hafi verið álíka mikill slagari og “Eitt sinn einn ég gekk / yfir Rauða torg” eða “Svörtu augun” eða einhver rússnesk / austur-evrópsk þjóðlög önnur. Soldið undarlegt að læra textann á norsku (dönsku). Héðan má hlaða þessum sorgarsöng niður. Hér má hlusta á útgáfu á You Tube. (Afskaplega róandi að hlusta á þetta meðan maður bloggar.)  Hér er textinn á serbó-króatísku.

Þetta hefur náttúrlega tekið tímann sinn … en guði sé lof fyrir Vefinn!

Annað er svo sem ekki títt nema í áætlun er að kaupa næturljós fyrir köttinn. Já, ég veit að í fornum ritum segir að köttur hafi sjón svo skarpa að hún kljúfi myrkur … þetta hefur Jósefína sagt mér … en þótt Fr. Dietrich kljúfi myrkur með augnaráðinu breytir það ekki því að hún er skíthrædd við sama myrkur. Þess vegna sefur hún jafnan í gluggakistunni í svefnherberginu því handan götunnar skína bæði götuljós og öryggisljós á FVA og er þetta líklega bjartasti gluggi hússins að næturlagi. Maðurinn og ég teljum að annað hvort sé Jósefína myrkfælin að eðlisfari eða hér í íbúðinni sé slæðingur sem aðeins hún verði vör við – af því hún er svo næm, þessi elska. Til að losna við að kötturinn vekji okkur á nóttunni, skelfingu lostinn, er líklegast rétt að nota sama ráð og á myrkfælna krakka.

Ég veit að Jósefínu dreymir um að líta út eins og kattarrófan á myndinni til hægri.

Jósefína horfir á heiminn

Fyrst vill bloggynja taka fram að Möbíusinn úr færeyska ullargarninu smellpassar eftir að hafa farið á 60° straufrítt í vélinni og látið pressa sig. Sjá litlu montmyndirnar sem linka í stærri montmyndir.

Ég innvígði tvær konur í merkisheim Möbíusarprjóns í dag og gekk það ótrúlega vel, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að sjálf þarf ég að hugsa mig um til að vita hvor höndin (á mér) er sú hægri (veit að hin höndin er þá vinstri hönd) og á þess vegna erfitt með að leiðbeina öðrum nema máta allt við mig jafnóðum.

Þótt bloggynja hefði það huggulegt í dag verður ekki það sama sagt um aumingja kattarrófuna! Laust eftir hádegi heyrðist kall mikillar kveinunnar, óps og ýlfrunar; Hafði þá litla ljósið lent í slagsmálum við ótótlegt ógelt fresskvikindi hér úti! Þessi flagari rispaði aumingja Jósefínu í eyrað og stóð kló upp úr hausnum á henni þegar hún kom inn (delinn missti klóslíður!) sem og var feldurinn hennar fagri tættur á einstaka stað. Eftir að hafa gráið hást yfir óréttlætinu og jafnað sig svolítið á teppinu sínu dreif Jósefína sig í vakt-stöðu og hefur af og til kíkt út í rigninguna og slabbið. Heimilisfólk hér telur að litla stýrið hafi hugsað sér að rífa eyrun af helv. fressinu, við fyrsta tækifæri. Bloggynju finnst að mætti rífa af því fleira …

Myndin sýnir Jósefínu horfa á sinn heim og sína baklóð.

Eins og þetta sér ekki nóg upplifelsi fyrir heilan dag í kattarævi … þá vildi svo ömurlega til að eigandi Jósefínu kom heim áðan, útbíuð í hundahárum og lyktandi eins og smalahundur! Auðvitað þarf þessi eigandi að koma sér í sturtu hið bráðasta en sá þó sóma sinn í því að þvo sér umsvifalaust um hendur og skipta út nokkrum fatalufsum; annars væri ólíft í húsinu.

Sem betur fer veit Jósefína ekki ennþá að snoðklippti hundurinn Kubbur er á leiðinni í heimsókn á næstunni. Dýrið er svo mjúkt og snyrtilegt núna að má nota hann sem parkettmoppu. Líklega verður að loka Jósefínu inni í svefnherbergi meðan Kubbur er í heimsókn (svo hún fái ekki taugaáfall) … en svo er auðvitað hætta á að hér verði óíbúðarhæft fyrir eina silkimjúka ráma kisu, heitandi keisaraynjunafni m.m.  …

Myndin sýnir, svo ekki verður um villst, hve kötturinn tónar vel við eldhúsinnréttinguna og einnig hvussu erfitt er fyrir einn kött að nálgast flugurnar skríðandi á eldhúsloftinu!

Draumalandið er Karlalandið!

Ég fatta alls ekki hvað á að virka svona vel í þessari mynd, þ.e.a.s. af hverju fólk á að hrífast af henni; Ömurleg jarðarfarartónlist, tölvubreyttar umhverfismyndir og megnið af viðmælendum karlar – sem vældu nokkurn veginn sama sönginn og tónlistin þannig vel við hæfi. Hvert er pojntið? Á Ísland að verða land stóreygra karla, gjarna eins og barnsrass í framan …  jafnvel um allt höfuðið? Grimmhildurin í myndinni var kvenkyns (iðnaðarráðherra) en “góða” konan var Erla Stefánsdóttir (!!!). Alcoa er væntanlega Ókindin.

Guði sé lof að ég hef ekki lesið bókina. Af hverju kokgleypir fólk þetta?

Sara Lund bjargaði kvöldinu 😉