dyggum lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar!
Ég þarf ekki að skammast mín
þótt ég verði að þiggja ölmusu hins illa stadda “ríkis” fram í ágúst á næsta ári! Nei, ég hef unnið mér inn þennan rétt og á stolt að nota hann … sem og sætta mig við geðveikina sem gerir mér ókleift að vinna eins og manneskja eða yfirleitt vera human being suma daga!
Aftur á móti hefur loksins komist í fjölmiðla hneyksli sem ég (útsvarsgreiðandi með meiru) hef margoft minnst á við kollega minn, sem vill svo til að hefur setið í svokallaðri “Ritnefnd um Sögu Akraness” frá snemma árs 2001. Nú hefur bærinn blætt 75 milljónum í söguritara nokkurn, sem upphaflega var ráðinn í verkið til plástrunar eftir að bærinn hafði neyðst til að segja honum upp öðru starfi … en við skulum ekki fara nánar út í það hér. Viskum heldur ekki nefna það að til er Saga Akraness, bindi I og II, ljómandi skemmtileg en kannski doldið höll undir sjávarútveg til að hugnast lærðum sagnfræðingum … kannski ætti líka ekkert að vera að nefna að Akranesbær borgaði Jóni Böðvarssyni fúlgur fyrir að skrifa Sögu Akraness; af henni kom út 1. bindi sem var aðallega endursögn Sturlungu og fleiri góðra rita sem samin hafa verið hér á Vesturlandi.
Í DV í dag ber söguritari því við að: ” Það var ókostur hversu óskýrt var byrjað á verkinu. Ég geri þetta eins vel og ég get. Það er síðan annarra að dæma um gæði verksins en ég er afskaplega sáttur að hafa fengið tækifærið. Mér er vel kunnugt um gagnrýnina en þeir sem tala hæst hafa aldrei komið nálægt ritstörfum. Ég leiði gagnrýnina alveg hjá mér og hún snertir mig ekki.“
Það er kannski voða óskýrt að til séu tvær atrennur fyrir – hvað veit ég sem hef bara unnið við að gera ómerkilegt kennsluefni, á kvöldin og um helgar? Ég hef reyndar lesið þessar útgáfur annarra sem eru til um sögu Akraness Ósagnfræðimenntuð þykist ég geta fullyrt að Saga Akraness I, eftir Jón Böðvarsson, er auðvitað ekki nokkurra milljóna virði – af því að hún er að svo miklu leyti eftir Snorra Sturluson, Sturlu Þórðarson, höfund Harðar sögu og fleiri, sem ekki er gerlegt að borga úr þessu. Ég man heldur ekki hvað bærinn borgaði Jóni Böðvarssyni í mörg ár við að skila engu. Mér er heldur ekki kunnugt um menntun Gunnlaugs Haraldssonar en ef honum líður eitthvað betur þá get ég alveg staðhæft að ég hafi óskup lítið komið nálægt ritstörfum – á pappír alla vega! Það er náttúrlega ótvíræður kostur að geta snúið upp á sig sagt að leiðinda tuð um skil “snerti sig ekki” enda aðallega eitthvert rugl úr ómerkilegum pöpli sem ekki veit hvað sönn sagnfræði er.
Sögum annarra bæjarfélaga hefur samt verið snarað fram á liðnum árum, stundum hefur það tekið tímann sinn en mitt bæjarfélag á ábyggilega metið í að láta draga sig á asnaeyrunum í svona söguritun: Ekki einu sinni heldur tvisvar! ! Meira segja stórvirkið seinunna Silfur hafsins- Gull Íslands og Síldarútvegsnefnd nær ekki með tærnar þar sem sagnaritari og Ritnefnd um Sögu Akraness hefur hælana!
Fyrir utan þessar 75 milljónir sem búið er að blæða í karlinn lærða en seinskrifandi eru ótaldar þær fúlgur sem fulltrúar í Ritnefndinni fá fyrir hvern setinn fund. Og þeir fundir eru eðli málsins samkvæmt ansi margir, sjá http://akranes.is/stjornsysla/nefndir-rad-og-fundargerdir/fundargerdir/ritnefnd-um-sogu-akraness/ þar sem lesa má um marga fundi um það sem á að gera en hefur sumsé ekki verið gert.. Í fyrstu ritnefnd sitja t.d. kollegi minn sem ég kýs að nefna ekki, hann er mágur fyrrum bæjarstjóra sem situr í fyrstu ritnefndinni og systkinabarn við núverandi skólastjóra sem sat einmitt í sömu ritnefnd en aðrar ættir kann ég ekki að rekja. Eitthvað hefur svo kvistast úr þessari ætt í ritnefndinni, í áranna rás, enda gæti ég trúað að það reyndi á þolinmæðina að sitja svona fundi, a.m.k. ef maður kann ekki að prjóna. Kollegi minn er þó nógu staðfastur til að mæta samviskusamlega á fundi, ár eftir ár. Sumum er gefið ótrúlegt langlundargeð.
—-
Mér finnst voða gott að geta fundist eitthvað – því miður finnst mér samt kannski of lítið um þetta mál, af því þetta er stórmál, sérstaklega ef haft er í huga hve bæjarfélagið er nískt þegar ekki er um að ræða íþróttir neðan klofs … en það aðeins hreyfir við mér. Og gott er að geta fundið eitthvað annað til bloggunar en sífellt væl og víl hinnar óritstarfandi þunglyndu kvenpíslar sem hér ræður ríkjum.
Á morgun hitti ég minn góða lækni. Maður skyldi ætla að á degi heilags Þolláks sé séns á kraftaverki. Ég hef þegar kveikt á kerti. Annars er ég búin að liggja í rúminu í allan dag.
Bara
engar fréttir. Dagurinn í gær var fínn enda lá ég í rúminu bróðurpart dagsins. Þannig tókst mér að lesa heila bók. En ég merki enga sérstaka breytingu á líðan og reikna með að hún verði slæm áfram og ég fötluð.
Jósefína virðist hafa stofnað síðu á Facebook í nótt – a.m.k. lá vinaboð frá Jósefínu Dietrich í pósthólfinu mínu. Ótrúlega gáfaður þessi köttur!
Erfiður dagur framundan
Ef þetta morgunsár hefur forspárgildi þá verður dagurinn langur, dimmur og kaldur. Fór á fætur rúmlega fimm og fékk ekki nema rétt hálftíma ógeðveik. Veit ekki á gott.
Það er slatti af smámunum sem ég á eftir að gera, t.d. pakka utan um jólagjafir og fara í sturtu. Allt þetta vex mér í augum og ég er mest að hugsa um að liggja í rúminu í dag, vandlega grafin undir sængur.
Jósefína á líka bágt því í gær var ákveðið að hætta að traktera köttinn á mjólk, vegna meltingartruflana. Hún situr því hissa / bálvond / sár / fortvivlet við ísskápinn þegar ég sæki mér mjólk í kaffið en læt svo fernuna festulega aftur inn í skáp og loka! Ég hef reynt að sleikja úr henni fýluna með því að vera óvenju örlát á kattafreistinguna lax-þurrbitar en mér er ekki vel fyrirgefið. Hin kattafreistingin sem ég keypti er litin sömu augum og ómerkilegt Bónus-þurrfóður. Annars fékk kisan loksins eitthvað almennilegt í gær; kjúklinga, vandlega brytjaða fyrir hana; ótrúlegt hvað svona lítill köttur getur troðið miklu í sig! Matarást hennar snérist umsvifalaust 180° að manninum, sem eldaði og brytjaði oní’ana.
Sá grein um meðvirkni í mogganum áðan. Eru menn ekki aðeins að einfalda hlutina með því að halda því fram að yfir helmingur þjóðarinnar “þjáist” af meðvirkni? Sjálf er ég meðvirk með kettinum og skil vel ásakandi og harmþrungið augnaráð hennar og þarf að beita mig hörku til að loka ísskáp án þess að skaffa mjólk. Og vel að merkja var kötturinn líka búinn að skilyrða mig til að horfa á sig drekka mjólkina – annars drakk hún hana ekki! Hef prófað að bjóða sódavatn í staðinn (úr ísskápnum) en það boð hefur verið hunsað.
Ég er annars of lasin til að skrifa um meðvirkni núna og Lausnina … bendi fólki á að lesa greinina í sneplinum ( ef það kemst einhvers staðar yfir snepilinn) og spurja sig svo hreinskilnislega hvort það trúi þessu eins og nýju neti. Vel að merkja er ég alls ekki að afneita meðvirkni. Mér finnst hins vegar einum of þegar hún er talin valda flestum geðrænum eða andlegum kvillum. Þessi andsk. alhæfingarárátta; að lausnin á t.d. mínum veikindum sé einfaldlega að svissa úr AA í CODA eða svissa yfir í grænmetisfæði eða svissa yfir í labbitúra fer óskaplega í taugarnar á mér!
E.t.v. hætt að versna?
Í gær fór ég í hálftíma upp á Byggðasafn, á handverkssýningu. Það var mér nánast um megn en ég kláraði dæmið án þess að hrynja skjálfandi og grenjandi upp í rúm, eftir að hafa séð allt þetta fólk og alla þessa handavinnu. Ég hrundi bara upp í rúm og lá þar í 2 -3 tíma, skjálftalaus. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég fer út úr húsi síðan 3. desember.
Núna fór ég að hugsa um að ég þyrfti að panta lyf, fara út í bókabúð (50 m í burtu?) og lesa þar marga titla af barnabókum. Byrjaði að skjálfa um leið. Svo ég samdi við mig um að fara núna í sturtu og leggja mig lengi og skoða svo hvort ég treysti mér út í bókabúð. Kannski líka bókasafn (í sama húsi) að fá lánaðar fleiri myndabækur. (Undanfarinn mánuð hefur “lestur” minn einskorðast við ljósmyndabækur, einkum til að skoða fötin sem fólk klæddist í denn, og moggann, sem er einkaeign mannsins en hefur þann undraverða hæfileika (altso mogginn) að skolast samstundis úr heilabúinu aftur! Þarf líka að hringja eitt símtal … því er einnig frestað um sinn.
Ég vaknaði kl. 4, náði að sofna aftur til rúmlega 5 en fór þá á fætur. Samt fór ég að sofa með seinna fallinu í gærkvöldi, klukkan orðin meir en ellefu og ég algerlega örmagna. Ætli kona hverfi þá ekki til fyrri hátta, sem er að sofa frá níu til níu og leggja sig um miðjan daginn. Guði sé lof fyrir svefninn! Á hinn bóginn hlýtur að vera ömurlegt að búa með svona konu.
Enn eitt: Vilborg, ef þú lest þetta þá þakka ég kærlega fyrir kveðjuna sem þú sendir með þínum gamla frönskukennara! Vonandi gengur vel að halda sjó í bókaflóðinu og öllum upplestrunum.
Dagurinn í gær
var skárri! Ekkert alvarlegt grátkast með skjálfta og svima og ógleði … sem er gott. Enn get ég lítið gert; t.d. hvorki lesið né fylgst að ráði með sjónvarpi. Ég prjóna og hlusta á rás 1 (jólagaggið á hinum stöðvunum er ábyggilega óhollt fyrir litla geðveika konu!).
Jósefínu er nú ljóst hver er eigandi hennar (og hver á harðfiskinn og mjólkina í ísskápnum). Hún má ekki af mér líta! Í rauninni er hún verri með þetta en Vífill var í bernsku en hann var einmitt sérstaklega fyrir það að “vera með mömmu”. Þau eru soldið lík.
Er farin að prjóna …
Ef
ég sæi minnsta möguleika á að fá almennilegt læknadóp inni á geðdeild færi ég umsvifalaust á bráðamóttökuna! Ég gæfi hvað sem er til að fá frí frá sjúkdómnum í nokkra klukkutíma á dag! Því miður er allt tálvonir og ég verð að lifa í þessu helvíti áfram, með minni eigin skömmtun lyfja. Þetta minnir mig á fæðingu frumburðarins, þegar kona hugsaði sem svo að ef hún fengi smá pásu frá hríðunum gæti hún alveg haldið þessu áfram … sjálfsagt kannast margar konur við þá hugsun. En við erum ekki að tala um sólarhrings píningu hér; ég reyni að komast gegnum vikulanga daga án þess að grenja alltof mikið eða skjálfa allt of mikið eða pæla alltof mikið í mismunandi sjálfsvígsaðferðum.
Það er ekkert hægt að gera! Hugsanlega má skoða tímafrekar hrossalækningar eftir hátíðar.
Fokið í flest skjól
(metaphorically speaking) – en mér hefur ekki tekist að klæða mig í dagföt, fara út í 50 m í burtu búðina, prjóna skammlaust (villurnar eru orðnar svo margar að ég mun halda því fram að þetta sé svokallað “anarkískt munstur”!) o.s.fr. Maðurinn fór í búðina og í hraðbanka fyrir mig en lá við að bankinn æti kortið enda PIN-númerið, sem ég skrifaði á miða fyrir hann, algerlega úr lausu lofti gripið! Mér tókst að hafa upp á rétta númerinu og það er ekki einu sinni líkt því sem ég lét manninn fá!
Nú er ég næstum alveg hætt að skæla undir sæng, sem þýðir að mér elnar sóttin. Á endanum verð ég eins og trédrumbur, tilfinningalega séð. Samt líður manni einmitt eins og holum trédrumbi, sem er verra en massívum drumbi! Heilastarfsemi minnkar með hverjum deginum (sem er bagalegt þegar prjónað er eftir uppskrift) og mér tekst æ sjaldnar að ljúka heilli setningu (en heimilisfólkið er orðið lagið við að giska á hvað ég er að reyna að segja).
Sem sagt: Mér líður djöfullega og vona að leið niður á botn verði fljótlega náð. Þetta má ekki versna mikið úr þessu.
Í nótt hrökk ég upp kl. 2.30 og gat ekki sofnað aftur. Fór á fætur, spjallaði við afar hamingjusama Jósefínu, hitti óvænt unglinginn þegar hann skilaði sér heim af næturrölti og náði svo að sofa milli kl. 6 og 8. Einnig hef ég náð svona sirka klukkutíma svefni í dag en eytt þrisvar sinnum lengri tíma undir sæng því mér var orðið um megn að feisa eigin líðan.
Engar töfralausnir eru til – ég er búin að prófa flest sem býðst og það virkar þvi miður ekki á mig. Eina færa leiðin er að sætta sig við að vera tímabundið fatlaður aumingi sem ekkert getur. Ef menn geta ekki sætt sig við það þá er bara ein leið úr vandanum og það er leið sem ég vil ekki og mun ekki fara. Alger uppgjöf fyrir sjúkdómnum er best! Að berjast gegn honum gerir hvort sem er ekkert gagn og getur gert ógagn.
Mér datt annars í hug í dag þegar ég las póst um að veikum starfsmanni hefði verið færð blóm og annar veikur starfsmaður hefði verið heimsóttur (báðir á spítala) að enginn á vegum starfsmannafélagsins hefur nokkru sinni heimsótt mig, í mínum spítalavistum, hvað þá fært mér blóm. (Aftur á móti fékk ég einu sinni risablómvönd frá norskum samstarfsaðilum mínum, sent gegnum Interflora …) Ég velti því fyrir mér hvort innst inni skipti máli hvaða sjúkdóm maður ber. Er hugsanlegt að hinir meðvituðu og upplýstu samstarfsmenn mínir séu kannski fordómafullir inn við beinið og ytra upplýsta byrðið einungis til skrauts? Telst geðdeild ekki spítaladeild? Telst þunglyndi ekki jafnhatta krabbameini? (Án reynslu þá mundi ég á dögum sem þessum frekar þiggja krabbameinið, takk!) Er ég kannski sjálf paranojuð? Er útskúfunin vegna þess að ég er með “óeðlilegan sjúkdóm”, sem í augum annarra hefur sama status og holdsveiki eða sullaveiki höfðu hér áður fyrr? Ef elskulegir vinnufélagar mínir lesa þetta þá er ég ekki að falast eftir blómum hingað heim og er slétt sama um mismunandi vinnubrögð KOSS! Mér finnst þetta bara doldið skrítið, eftir svo margar spítalavistir.
Jákvæðar fréttir eru þær helstar að mjálm kattarins er að færast í eðlilegra horf og við vonum að breima-stuðið fari nú að renna af henni á næstu dögum! Maðurinn er upplýstari um þennan gang en ég, bæði ólst hann upp með köttum og einnig á hann Britney sem sína bestu vinkonu á Facebook.
Fyrirboði á ísskáp
Ekki er nóg með að Jósefína fari ferlega vel við nýjar innréttingar og eldri hillur heldur tók ég eftir kattarseglinum á ísskápnum í gær: Örugglega postulínsmynd af Jósefínu! Fyrir mörgum / nokkrum árum (man þetta ekki svo gjörla) vorum við ég o.fl. í samstarfi við duglegar kennslukonur í Napólí, sem kenndu verðandi glæpaunglingum í slömm-hverfi þar í borg og unnu kraftaverk á hverjum degi! Þær Luisa og Catarina voru líka alltaf að sinna sinni samstarfskonu með litlum gjöfum, m.a. um jól. Þannig eignaðist ég t.d. viskastykki með uppskrift af þeim fræga drykk Limoncella, sem ég get því miður ekki drukkið en manninum þótti góður (þær gáfu líka litla flösku). Í önnur skipti fékk ég ísskápsskraut; Miðjarðarhafsbláan krossfisk og bröndóttan kött og eitthvert annað sjávarstykki sem brotnaði. (Þessi samvinna leiddi líka til þess að ég hef tvisvar dvalið í þeirri skítugu borg Napólí, horft áhyggjufull á Vesúvíus gnæfa þar yfir, og tvisvar komið til undurfögru eyjarinnar Caprí!)
Nema hvað: Þær stöllur voru óskeikular í vali á minjagripum sem tengdust Napólí, nema þegar þær gáfu köttinn. Ég man ekki sérstaklega eftir köttum í Napólíborg – aftur á móti man ég eftir “íslenskum hænum” að sporta sig í litlu porti eða bakgarði og dópistum að búa um sig í pappakössum fyrir utan hótelið í miðbænum og sprauta sig fyrir nóttina.
Kötturinn hefði verið frábær minjagripur frá Grikklandi, aftur á móti. En þaðan fékk ég enga minjagripi þrátt fyrir að hafa sótt námskeið í Nafplion, sem mun þýða Napólí og vann sér til frægðar að vera höfuðborg Grikklands í einn dag. Í ferðum okkar mannsins til grískra eyja höfum við heillast af litlu fíngerðu kisunum sem gera út á túrista á matsölustað. Jósefína mín er einmitt svona smábeinótt læða með augu í stærri kantinum og mundi gera það gott á grískum matsölusta, næði hún þokkalega mjóróma “mjá-i” (en enn tjáir kötturinn sig líkt og klón af Marge Simpson og Louis Armstrong! Vonandi að þetta hormónarugl í henni lagist fljótlega.)
Af ofansögðu má ljóst vera að í áraraðir hafa það verið mín örlög að eignast Jósefínu! Ég hefði gefið henni grískt nafn (hafandi átt þær Helenu og Penelópu fyrir næstum tveimur áratugum) ef hún hefði ekki verið svo snjöll að vitja nafns hjá ólíklegasta draumþega, s.s. heimspekingi heimilisins!
Jósefína er búin að venja mig á að gefa sér mjólk þegar ísskápurinn er opnaður. Frá fyrsta degi hef ég tilkynnt ströng að kötturinn fái bara þurrfóður og vatn og vítamín til að minnka hárlosið. Jósefína var ekki búin að dvelja fimm mínútur á sínu nýja heimili þegar maðurinn dró fram steinbítsroð með fisktutlum og gaf henni – maðurinn fékk þarna tímabundinn forgang á vinsældarlista læðunnar. Til mótvægis dróst ég út í búð, keypti kattanammi (sem kötturinn lítur ekki við) og vestfirskan bitafisk. Ég er núna vinsælust! 😉
Jósefína er líka búin að venja mig á að klóra sér og klappa, á mjúku teppi inni í stofu. Við stundum stöðvaflangs og aðrar lystisemdir í sófanum á kvöldin.
Bloggynja unir annars við prjónadútl en verður yfirleitt að rekja upp það sem er prjónað að kvöldi því þá fokkast meira að segja prjónainstinktið upp! Ég læt mig ekki dreyma um að lesa bækur því athyglisbresturinn er alger. Nóg að lesa mogga mannsins og gleyma honum strax aftur. Við prófuðum Ritalín til að slá á athyglisbrestinn sem fylgir þunglyndiskasti af verra tæinu, meðan ég lá inni á geðdeild, en það hafði engin áhrif, nema kannski að gera mig grátgjarnari? Ég fann heldur engin fíknaráhrif af Ritalíninu og snögghætti á því á einum degi án fráhvarfa. Samt reikna ég með að hjúkkur læri í skólanum að Ritalín skuli ekki gefið fyrrum fíklum / ölkum …
Sem sagt: Get ekki lesið, man ekki neitt, ruglast í töluðum orðum og (það versta!) ruglast í hannyrðum. Svo líður mér hryllilega illa þegar líður á daginn – eiginlega óútskýranlega illa. Tek daginn í bútum. Og fögur fyrirheit í gær, um að klæða sig og fara á fætur og niðrí hannyrðabúð urðu að engu; skjálfandi á Joe Boxer tældi ég manninn til að fara í búðina fyrir mig, með skýr fyrirmæli í farteskinu.
Ég þarf þá ekkert að fatta upp á neinu nýju í dag, hef bara sama markmið, þ.e. klæða sig og fara út í búðina sem er svona 50 m í burtu frá heimili mínu.
Svo hugsa ég hlýlega til minna góðu fyrrum nemenda sem eiga að þreyta ÍSL 103 prófið í núna á eftir, án mín …
Jósefína II
Til hliðar sést agnarsmá mynd af kisunni Jósefínu, en bloggynja er einmitt pappírslegur eigandi hennar. Smella má á myndina til að sjá stærri mynd af fyrirsætunni, einnig fara á http://this.is/atli/album/2009_12_05_jolahladbord_a_Hotel_Borg/myndir.html ef dyggir lesendur vilja skoða synina og tengdadótturina líka. Bloggynja var engan veginn ferðafær eða sósíal-fær og passaði húsið og köttinn á meðan.
Auðvitað er þetta enginn venjulegur köttur! Hvaða köttur myndi fyrirfram vitja nafns? Svo er Jósefína mín einstaklega gæf og kelin og þæg (og þannig séð kannski ekkert óskaplega lík Jósefínu I, sem ég var svo lánsöm að kynnast fyrir löngu – sú kisa var afar lagin við að láta þjóna sér og kannski ekkert óskaplega þæg?)
Við tókum ekki eftir því fyrr en eftir nokkurra klukkustunda eign að Jósefína er ekki bara fallega bröndótt heldur tónar fullkomlega við nýju hurðirnar, gereftin og eldhúsinnréttinguna! Tilviljun? Ég held ekki …
Þessi litla blíða kisa mjálmar eins og Marge Simpson! Saklaus tengdadóttir mín hélt að hún væri kannski með hálsbólgu. En maðurinn, alinn upp með dýrum eins og Tarsan apabróðir, áttaði sig umsvifalaust á að dýrið væri að framleiða estrógen og það skýrði líka mikinn áhuga þess á að komast út. Við pössum vandlega upp á að hún komist ekki út því hér í hverfinu er allt fullt af fress-flögurum sem gætu fallerað hana á svipstundu. (Hún er reyndar árs gömul og hefur eignast fimm kettlinga en eftir ófrjósemisaðgerðina lítum við á hana sem afturbatapíku – auk þess má hún ekki fara út fyrstu vikurnar því þá er viss hætta á að hún rati ekki heim aftur.)
Af eiganda Jósefínu eru engar góðar fréttir. Mestur partur sólarhringsins fer í algeran sljóleika; næ ekki að fylgjast með sjónvarpi eða lesa (las t.d. moggann í morgun og hef ekki hugmynd um hvað stóð í honum) og ferlega pirrandi málglöp þegar kvöldar, sem ýmist felast í hroðalegu mismæli eða að ég man ekki einföldustu orð. Meðvirkir fjölskyldumeðlimir eru duglegir að sparsla inn í setningarnar sem ég er að reyna að segja. Almennt og yfirleitt líður mér eins og einhver hafi dáið og að ég sé ekki partur af þessum heimi.
Planið í dag er að komast í labbitúr niður í bæ til að kaupa prjóna. Einnig að klæða mig í föt en sjúskast ekki allan daginn í Joe Boxer og náttbol.