Útskrifuð

Ég var formlega útskrifuð af geðdeild í dag. (Sem betur fer er manni sagt að maður sé velkominn aftur, sem er virkilega sætt boð, en ég vona að ég þurfi ekki að þiggja það.)

Ég má byrja að vinna á fimmtudaginn. Vona að næstu tveir dagar gangi sæmilega hjá mér, heima á minni einkageðdeild. Ég er a.m.k. ákveðin í að passa mig sem mest og gera sem minnst – hef lítinn áhuga á að versna á ný!

Of þreytt til að skrifa meir …

Frí utanhúss

Ég fékk langt helgarfrí og er komin upp á Skaga. Þetta er líka prófsteinn á hversu vel ég þrífst utan stofnunar. Ég er voðalega þreytt!

Langir eru dagar og enn lengri nætur

paa Galehuset! Í gær var ég nokkurn veginn OK, fannst veður fagurt og fór í langan löbbutúr. Í dag seig allt aftur í sama farið. Má segja að frá því laust eftir hádegi sé ég fötluð, fatlaðri eftir því sem líður á daginn og á kvöldin orðin að múmíu. Að sjálfsögðu leik ég Pollýönnu eftir bestu getu.

Það verður gott þegar þessi dýfa lætur undan síga og ég kemst aftur í hóp lifenda.

Ég er afar hrygg yfir þeim sorglegu fréttum sem berast úr mínum heimabæ en það er tæpast við hæfi að votta samúð á blogginu.

Kramarauminginn heima enn

Það er auðvitað afskaplega gott að komast heim í frí; hér á heimilinu umgangast mínir karlmenn mig eins og ég sé prinsessan á bauninni! (Tek fram að þeir umgangast mig svo sem engin ósköp, allir hafa hér nóg að gera hver við sitt – en þessi litlu samskipti eru mjög meðvirk og mér að skapi. Sjálf er ég að reyna að venja mig af krónísku samviskubiti um að ég sé að bregðast sem móðir, eiginkona, kennari … jú neim itt!) Mér finnst best að allir eru eitthvað heimavið um þessa helgi, bæði stjörnulögfræðingurinn tilvonandi og yngri afkomandinn.

Nývöknuð er ég ég. Þá finn ég enn betur til þess hve ég hef ofreynt mig í gær. Sat við tölvuna mestallan daginn og þurfti heilmikið að hugsa og formúlera. Í gærkvöldi var ég eins og undin tuska og fór að sofa kl. 9, vaknaði svo við vekjaraklukku núna kl. 9, svo pilluátið yrði áfram rétt stillt. Ég má helst ekki leggja mig á daginn svo í gær fór ég í ljós og labbaði svo heim (soldill spotti) og settist svo aftur við tölvuna.  Ég er hryllilega þreytt þótt ég sé nývöknuð.

Það undarlega er að ég rúllaði upp Sunnudagskrossgátunni í gærkvöldi, á engri stund, en er hins vegar jafn ólæs og fyrr. Var að velta fyrir mér að lesa bókina hans Bjarna mágs, sem liggur í eldhúsinu, og veit að hver síða verður glæný fyrir mér og sennilega jafn glæný á morgun. Ég get sem sagt tengt en ekki munað. Venjulega hafa þessir hæfileikar farið saman hjá mér.

Ég er ekki búin að leggja niður fyrir mér daginn en það verða engin stórvirki unnin í dag; halda sér á floti með hausinn upp úr er aðalmarkmiðið.

Snemma kvölds fer ég aftur á 32 A og finnst gott að hugsa til þess að komast í það einfalda umhverfi. Það er ekki harðákveðið hvenær ég útskrifast, e.t.v. í næstu viku, en ég hef eiginlega ákveðið að hafa ekki mikla skoðun á því sjálf og leyfa öðrum að ráða.

Home again …

Ég er komin í helgarleyfi heima hjá mér. Það gengur vonandi að óskum.  Allt í fínu sem komið er og ég hlakka til að fá almennilegan mat (Atli gefur systur sinni lítið eftir í eldhús-meistara-töktum).  Svo náði ég að knúsa Vífilinn minn milli Morfísæfinga og vinnu.

Vikan hefur verið mér afskaplega erfið. Að miklu leyti er það sjálfri mér að kenna; ég hef þurft að horfast í augu við ýmislegt sem er mér ekki að skapi, breyta kannski svolítið áherslum í lífi og starfi og láta af stjórn. Þetta veittist mér erfitt og ég var bæði með beibí-blús skap og missti mig í jarðálfa-takta.

Nú, undir vikulokin, lítur allt mun betur út. Skapið er að vísu eins og ég liggi á fæðingardeild en það má díla við það. Ég hef beðist afsökunar á því sem ég gerði á hlut annarra og á nú bara eftir að fyrirgefa sjálfri mér (sem er einmitt oft erfiðara). Það góða fólk í geðbatteríinu hefur vísað mér á nýja vegu og nýja möguleika og ég ætla að reyna eins og ég get að fara að hollráðum þess.

Ég fer aftur inn á deild 32 A á sunnudagseftirmiddaginn einhvern tíma, reikna ég með. Einhvern tíma í næstu viku verður ljóst hvort ný lyf og ný nálgun að helvítis þunglyndinu skili árangri. Útskriftin mín ræðst náttúrlega dálítið af því … ekki mikið gagn í að senda mig til vinnu ólæsa, óskrifandi og eiginlega doldið mikið grænmeti. (Ég held ég sé með AHCD, öðru nafni “hálfan SKALA”.  Þetta er enn óuppgötvaður geðsjúkdómur …) 

Nemendur mínir eru væntanlega í góðum höndum og ef einhverjir þeirra lesa bloggið mitt þá upplýsi ég hér með að ég er ekki enn hæf til að fara yfir ritgerðirnar ykkar 😉  Svo tók ég þá ákvörðun að vera ekki fésbókarvinur nemenda (það gætu orðið alls konar hagsmunaárekstrar út af því) svo ég neyðist til að ignórera og sparka út yndislegum úllígum (sorrí strákar!).

This.is svæðið mitt er allt í hakki svo allar myndir og myndasöfn eru óaðgengileg í augnablikinu. Þessu get ég ekki kippt í liðinn fyrr en ég er komin á rétt ról. Vefsíðurnar mínar ættu að virka, þökk sé mínum góða kerfisstjóra og eldra afriti. Aftur á móti þarf nauðsynlega að kemba vefina mína og uppfæra og það er svo sem ekkert áhlaupsverk.

Úr eldhúsinu leggur dýrlega gríska matarangan … svo ég hætti núna.

Geðillska dauðans

Ég er í einhverjum tilfinningarússíbana og er stundum svo geðvond að ég gæti barið mann (mundi þá náttúrlega velja einhvern mjög lítinn og ekki með vöðva 😉

Staffið er afar þolinmótt og erfir ekki við mann alls konar tiktúrur og vitleysu, sem betur fer. 

Fer í helgarleyfi seinni partinn á morgun og vona að ég káli ekki fjölskyldunni 😉  Annars gæti þetta verið batamerki því ég er þá ekki eins gaddfreðin og áður.

Hafið það gott!

Mestlítið að frétta af 32A

Ég tala og tala um hvernig mér líður o.s.fr., þegar ég veit hvernig mér líður … svo ég er eiginlega ekki í stuði til að skrifa neitt fyrir ykkur fólkið þarna úti.  Í gær leið mér betur í fyrsta sinn síðan ég kom inn. Verður spennandi að sjá hvort þetta er bati eða óskhyggja og lyfleysuáhrif.

Vona að allir mínir dyggu lesendur hafi það gott 🙂  Ég er ekki enn vel heimsóknarhæf, þreytist alveg nóg á því að leika hinn fullkomna sjúkling. Mér gengur illa að taka ofan grímurnar.

Niðurtúrinn stöðvast ekki

Mér líður verr með hverjum deginum. Lyfjatilraun virðist ekki skila árangri en er sosum ekki fullreynd. Eiginlega er ég ekki í standi til að taka við heimsóknum nema allra nánustu ættingja.

Í svona ástandi hefur maður fátt að segja.

Tíðindalaust af vígstöðvunum

Hin ágæta geðdeild 32A býr svo vel að hafa internettengda tölvu!  Svo ég ákvað að gera aðeins vart við mig.

Hér er gott að vera, mikið skjól frá áreiti umhverfissins og maður þarf ekki eins mikið að vera að þykjast, t.d. vera grímubúin sem kennari og ganga fyrir “feik itt till jú meik itt”! Ekki svo að skilja að hér gangi fólk almennt grenjandi um ganga en mér finnst gott að vera innanum fólk sem er ekki jafn hroðalega frískt og mínir samverkamenn; kennarar og nemendur.

Mínum góða lækni hefur dottið í hug heldur óhefðbundið ráð og að sjálfsögðu hoppaði ég á það; hefði samþykkt allt nema sjósund!  Það er sosum ekkert komið í ljós hvað út úr þessu kemur, eftir nokkra daga, en vonandi skila þessar óhefðbundnu lyfjatilraunir árangri, svo ég komist aftur í vinnuna áður en önninni lýkur.

Ég er annars heppilega dofin, set stundum um grímu hressileikans en finnst svona almennt og yfirleitt ekki neitt … Hef ekki einu sinni áhyggjur af því að íslensk tunga leggist af í FVA og allir verði farnir að tala dönsku þegar ég kem aftur!

 Bið að heilsa öllum!

Blogghlé vegna spítalavistar bloggynju

Á morgun leggst ég inn á geðdeild.  Vonandi tekst læknismenntaða liðinu að púsla mér saman aftur á sem skemmstum tíma.

Því er ólíklegt að bloggað verði hér í bráð. Vona að dyggir lesendur geti leitað á önnur mið á meðan.