Mikilvægi kroppatamningar versus ómerkilegt bókvit

Í því góða lókalblaði Skessuhorninu er sagt frá “Stórhækkun styrkja til íþrótta og tómstunda á Akranesi”  (20. maí, s. 9). ÍA hafði einhvern tíma gert sniðugan samning við bæinn um stighækkandi styrki ár frá ári og átti styrkveiting til þeirra þetta árið því að vera heilar 10 milljónir “en við gerð fjárhagsáætlunar og í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu var ákveðið að hækka upphæðina verulega” (sjá frétt á vef Akraneskaupstaðar).

Ég fatta reyndar alls ekki af hverju “staðan í þjóðfélaginu” hvetur litla fátæka kardimommubæinn minn til að blæða næstum þriðjungi meira en þurfti í ÍA!!  ÍA hefur sína föstu tekjustofna, hvar Lottóið gefur mest, og auk þess er varla hægt að halda því fram að frammistaða stjarnanna (þ.e. fyrrum fótboltaliðsins í meistaradeild) kalli á sérstaka viðurkenningu!

Í frétt Skessuhornsins er vitnað í nokkra sem telja mikla grósku og öflugt starf í íþróttum bæjarins um þessar mundir. Ég skal ekki rengja það en mig langar aftur á móti til að vita hvaða máli þessi gróska skiptir í rauninni, sérstaklega þar sem verið er nær eingöngu að meina keppnisíþróttir og þar af vegur fótboltinn hundraðfalt á við aðrar íþróttagreinar. Ég hef ekki orðið vör við að slík gróska skili öðru en gera nokkra myndarlega unga menn hjólbeinótta fyrir lífstíð og veita þeim góða reynslu í hoppa á hækjum. Ef einhver ætlar nú að fara að pípa um forvarnargildi íþrótta, einkum fótbolta, vísa ég svoleiðis rökum út í hafsauga og hef fyrir því ágætar heimildir, úr félagsskap sem ég hef stundað í tvo áratugi, sem ég get hins vegar ekki gefið upp. Efnaneysla íþróttamanna er síst minni en efnaneysla venjulegra kyrrsetuunglinga.

Ég skal með ánægju upplýsa aðrar heimildir um efnafræði fótbolta, úr því opna starfi sem kennsla í FVA er. Mér sýnist, eftir veturinn, að því lengra sem piltur kemst á fótboltabraut lífsins, því meira noti hann af neftóbaki sprautuðu undir efri vör. (Þetta er séríslensk hallærisredding og þessir piltar gleðjast mjög þegar þeir ná í smyglað snus, sem ekki er skortur á.) Þessir ármenn Akraness hafa setið tíma eftir tíma hjá mér og litið út til munnsins eins og kanínur, mér til óblandinnar gleði því ég er höll undir þá dýrategund. Á sama tíma og reykingingum var endanlega úthýst á lóð FVA í ár fór maður að finna sundurklipptar sprautur (án nála) í kennslustofum eftir kennslustundir. Upptökin að þessum þægilega sið er ÍA. Að óska eftir meiri grósku í fótboltanum finnst mér nú dálítið beggja handa járn!

En ástæðan fyrir því að ég nenni yfirleitt að vekja máls á þessari íþróttatilbeiðslu ráðamanna hér í bæ er að við eigum nú, í fyrsta sinn að ég held, Ólympíukeppanda í stærðfræði! Þetta er *Skagamaðurinn Ingólfur Eðvaldsson, sem að loknum stúdentsprófum mun einbeita sér að undirbúningi Ólympíukeppninnar sem fram fer í Bremen, Þýskalandi, um miðjan júlí í sumar. Ég hef ekki séð neinar fréttir af myndarlegri styrkveitingu til Ingólfs vegna þessa … og fékk reyndar staðfest rétt áðan að Akranesbær sjái sig alls ekki færan um að styrkja hann með því að borga honum einhver laun meðan á sex vikna stífum undirbúningstíma stendur, hvað þá ferðastyrk. Í forbífarten má nefna að önnur bæjarfélög, t.d. borg óttans, styrkja sína menn en e.t.v. mega þau bæjarfélög sjá af krónum í annað en fótmennt, ólíkt mínum litla bæ!  Akranesbær ber sjálfsagt fyrir sig aumum fjárhag á þessum síðustu og verstu tímum og væri það skiljanlegt ef ekki kæmu til fréttir eins og ég endursagði hér að ofan. Ætla mætti að Akranesbær væri kleifhugi þegar að íþróttamennt kemur og svo illa að sér að telja einungis það íþrótt sem stunduð er neðan klofs.

Mér þætti ofsalega gaman að vita hvað Eydís Aðalbjörnsdóttir, formaður Fjölskylduráðs bæjarins, segir við þessu 😉 Vill svo skemmtilega til að hún er líka formaður Skólanefndar bæjarins og ætti því að vera kunnug því starfi sem fram fer ofan hálss á venjulegu fólki, svo ekki sé talað um afburðafólki. Eða er þetta allt runnið undan rifjum Gísla bæjó (sem er ágætlega söngvinn alveg eins og starfsbróðir hans Bastían og hefur að nokkru leyti sömu lífssýn, hefur mér fundist)?

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Fjölskylduráð bæjarins hefur næsta lítil völd og áhrif og það er Bæjarráð Akraneskaupstaðar sem hefur hafnað þessum afreksmanni og Skagamanni um lúsarlaun á vinnskólataxta í sex vikna æfingatímabili fyrir Ólympíuleikana, sjá fundargerð bæjarráðs frá 7. maí 2009:

19. 0905002 – Styrkbeiðni – Ólympíuleikar í stærðfræði.
Bréf Ingólfs Eðvarðssonar, dags. 04.05.2009, þar sem óskað er eftir styrk sem nemur bæjarstarfsmannslaunum í 6-8 vikur,vegna þátttöku í Ólympíuleikunum í stærðfræði sem haldnir verða í Þýskalandi 13.- 22. júlí nk.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

Eru engir aðrir Skagamenn en ég hissa á forgangsröð Bæjarráðs og Fjölskylduráðs þegar kemur að styrkjum til íþrótta- og tómstundastarfs? Hefur þetta fólk ekki haft spurnir af því að stærðfræði er íþrótt og keppt í henni á Ólympíuleikum? Eða meta kjörnir fulltrúar okkar aldrei hæfileika ofar axla? Er það ekki þröngsýni eða a.m.k. lágur  og lítill metnaður!

* Þess ber að geta að Ingólfur ávann sér einnig sæti í Ólympíuliðinu í eðlisfræði en varð að velja milli þessara tveggja greina því undirbúningur hvorrar um sig er það mikill. Bloggynja bendir á að það er sosum ekki allt vaðandi í afreksmönnum á Ólympíuleika, í hvaða grein sem er, hér á okkar góða Skipaskaga, sem þó mætti ætla af bókun Bæjarráðs, lesinni í samhengi við fréttina af stórhækkuðum styrk sama ráðs til íþrótta- og tómstundastarfa hér í bæ! Kona þakkar fyrir að Ragga Run og Kolbrún Ýr kepptu ekki í stærðfræði, á sínum tíma, því þá hefðu þær væntanlega aldrei fengið krónu í styrk!
 

  

Messa og ljúfir dagar

Þetta eru ljúfir dagar! (Hér undanskil ég yfirferð og eftirtekjur prófúrlausna, sem ég kláraði fyrir hádegi í gær …)

Við hjónin fórum í menningarferð til borgar óttans í gær, skoðuðum ljósmyndir frumburðar í Kringlunni og hlustuðum síðan á langt átjándu aldar þungarokksstykki, nefnilega H-moll messu Bachs, í flutningi Vox Academica. Stykkið var flutt í Langholtskirkju þar sem við höfum einmitt einu sinni hlustað á það áður, í flutningi Kórs Langholtskirkju. Við eru sammála (nema hvað … við erum orðin svo sammála með árunum að það vekur manni ugg – hvar er sjálfstæðið?) um að flutningurinn sem við heyrðum í gær sé umtalsvert betri en sá sem við höfðum áður heyrt. Ekki hvað síst var það vegna þess að í þungarokksköflum (t.d. Gloria) setti kórinn allt í botn og maður beið eftir að þakið lyftist og hönd guðs skaffaði sosum eins og eitt kraftaverk! Í alvöru! Einsöngvararnir voru fínir og  heldur hógværir og ekkert að þenja sig um of (enda gefur textinn þeirra ekki mikið tilefni til þess) en í fyrri upplifun af verkinu læf var a.m.k. einn einsöngvari þeirrar skoðunar að óperudívustælar gerðu sig vel í sópranhlutverki. Síðast en ekki síst söng þessi kór textann með klassískum gullaldarlatínuframburði en ekki þeim ömurlegu ítölskuskotna framburði sem maður heyrir allt of oft.  Það  gladdi svo mitt gamla hjarta  að hitta svo gamla latínukennarann minn í hléinu.

Stjórnandinn, Hákon Leifsson (Tumi), var með mér í II. bekk í Héró. Ég var soldið að spekúlera hvort sama vetur hefði Jens sá sem kallar sig Guð verið í almennum III. bekk og var að velta fyrir mér, meðan ég reytti arfann, hvað lífshlaup unglinga verður  ólíkt þótt unglingatýpurnar hafi ekki verið ýkja ólíkar og hvernig við sum endum á allt öðrum stað en lagt var upp til.  Órannsakanlegir vegir guðs, geri ég ráð fyrir.

(Sem sjá má er ég enn undir sterkum kristilegum áhrifum eftir að hafa setið í kirkju – án mikilla óþæginda – í tvo-og-hálfan tíma, gefandi því lítinn gaum að úti var LOGN og 20 stiga hiti.)

En mikið rosalega er þessi kirkja smekklaust innréttuð! Í stað altaristöflu er risastór abstrakt glerlistagluggi sem er út af fyrir sig allt í lagi. Fyrir framan hálfan risagluggann hefur verið skellt risastóru pípuorgeli úr ljósum viði, með sissí rómantískum útskurði, algerlega úr takti við allt annað innanhúss! Áhrifin eru þau sömu og ef ég keypti fjóra Loðvíks 16. rókókóstóla í nýja eldhúsið Atla, við hans nýja eldhúsborð!  Kannski væru þessir gripir OK hvor í sínu lagi en saman? OMG!

Ég sat úti við vegg – svo ég gæti farið með veggjum ef ég fengi gervihjartaáfall – og á þessum vegg voru risastórir kringlóttir keramikdiskar sem ábyggilega áttu að tákna eitthvað en voru aðallega ljótir. Frammi í forstofu hékk listaverk; tré í laginu eins og kross og fljúgandi síld þar í toppi, altént einhver fiskur með ugga sem minntu á vængi. Þetta er sumsé æðri list og alþýðukonur eins og ég fatta ekki hvað fiskur gerir í trjátoppi enda ekki nógu lærð í kristinni táknfræði til þess. Alþýðukonur eins og ég fatta hins vegar mjög vel að eitthvað mega óstand er á klóaki og frárennslisrörum kirkjunnar; fúkka- og klóakfýlan var að drepa mann og ekki bætti úr skák að reynt er að maska lyktina með vinnukonuvatni í brúsa, einhvers konar “air-freshener”. Af því verið var að taka tónleikana upp var ekki hægt að hafa opið út meðan á þeim stóð, því miður.

Í dag hef ég tsjillað, klárað blóðuga reyfarann, reytt smá arfa en passað mig voðavel á að vera sá aumingi sem ég er og séð að skv. veðurspá má dúlla við svona verk fram eftir vikunni (vonandi eru ekki endalausir andskotans fundir í vinnunni!). Maðurinn þrætir fyrir að hafa stillt plastpoka merktum “Pússningarsandur” á eftir-hádegis-pallinn minn en ég sé í gegnum þetta og veit að nú finnst manninum að ég ætti að sandskúra pallinn þar til fjalirnar verða hvítar, eins og gert var í gamla daga. Til þess vantar mig þó strigapoka eða álíka þjóðlega tusku. En ég er að hugsa um að gá hvernig gefst að skrúbba með svona sandi – ekki er pallasápa það skemmtilegt eða auðvelt verkfæri (veit ég af fyrri reynslu) – nú þarf bara að kaupa skrúbb því slík græja er ekki til á þessu heimili.

Sem sagt: Þetta eru ljúfir dagar og morgundagurinn verður ekki síðri, finn ég á mér.

P.S. Ég ætlaði að skrifa um rafrænt einelti fullorðinna kedlinga (af báðum kynjum en einkum kvenkyni) eftir að hafa horft á áhugaverða samantekt Elínar Hirst um þessi efnistök og uppátæki unglingsstúlkna hér á landi, en þar sem sú umfjöllun passar engan veginn við færsluna verður hún að bíða.

Að sögn elstu manna … um Einar frá Hermundarfelli

Þar sem Sesselja þríspyr mig í kommenti við síðustu færslu get ég ekki annað en hnoðað í nýja færslu um þennan Hermundarfellsmann þótt ég þrísegi ekki tíðindin (þess þurfti bara við Njál eða af Njáli).*

Einar þessi var aðallega húsvörður við Barnaskóla Akureyrar í sinni tíð (held ég, athugið að ég nenni ekki að lesa fleiri bindi). Hann er mér og mínum manni í fersku óþægilegu minni frá því einungis var til rás 1 og karlinn hélt úti þættinum “Mér eru fornu minnin kær”, sem okkur minnir að hafi einkum fjallað um frostaveturinn mikla 1918 (þegar kollurnar frusu á hreiðrunum á Sléttu og Skagamenn fóru fótgangandi yfir Flóann til Borgar óttans og það allt …) Maðurinn þurfti að hlusta á þennan harmagrát árum saman, vinnandi í gróðurhúsi frá blautu barnsbeini, þar sem útvarpið átti að stytta mönnum stundir. Ég var svo heppin að vinna bara eitt sumar í gróðurhúsi og á þeim vinnustöðum sem tóku þá við var ekki mikið um rás 1.

Þetta er inngangur til að skýra fyrirframgefna andúð á aumingja Einari Kristjánssyni. Í gær æxlaði ég mér hin bindin af ævisögunni og hellti mér í Ungs manns gaman, sem er 2. bindið, meðan ég horfði á júróvissjónið. Í því bindi segir hann frá sumardvöl á Raufarhöfn, 1929.  Þetta leit nokkuð vel út til að byrja með: “Á Raufarhöfn voru snotrar og glaðlegar yngismeyjar, eins og annars staðar á byggðu bóli …” (s. 22) og svo talar hann fallega um Lúllu Lund (í 1. bindinu var heilsíðumynd af henni … ætli hann hafi verið skotinn í henni?).  Svo snýr hann sér að Búðinni og fólkinu þar.

Til að byrja með er ósmekkleg kjaftasaga um að Jón (langafi minn) hafi ofurverðlagt allt í útibúinu á Kópaskeri og platað bændur. Miðað við framhaldið (s. 24 og áfram) er þessi saga örugglega lygi.

Hann telur að heimilisfólk í Búðinni hafi verið “kaupmaðurinn Sveinn, og kona hans, Guðrún Pétursdóttir. … Þau hjónin áttu að einkabarni son, Pétur að nafni.”  Svo segir hann frá tannkýlinu Péturs, “á miðju sumri 1930” sem varð að blóðeitrun og leiddi hann til bana 1930, “með þessum sviplega hætti og var þá rétt um tvítugsaldur.” Skv. Íslendingabók var Pétur Guðjohnsen Sveinsson fæddur 1904 og dó 1929 (11. september, skv. dánartilkynningu í dagblaði). Í Ættarsögunni miklu, sem enn er í smíðum og óvíst er að verði lokið á næstunni, skiptir talsverðu máli að hann og amma voru jafnaldra og góðir vinir, t.d. græddi hún örugglega á því að fá að læra sumt af því sem Pétri var kennt.  Ég fæ út að Pétur hafi verið 25 ára þegar hann dó en ekki “rétt um tvítugsaldur”. (Myndin er sjálfsagt tekin skömmu áður en hann dó.)

“Guðrún yfirgaf Raufarhöfn ekki löngu síðar og flutti til frændfólks síns í Reykjavík. Hún hafði ekki búið þar lengi er hún hlaut skjótan dauðdaga í ökuslysi.” Þetta er náttúrlega ósköp trist en á hinn bóginn haugalygi! Guðrún Pétursdóttir Guðjohnsen var fædd 1878, giftist Sveini Einarssyni kaupmanni 16. júní 1903 og var gift honum í rúmlega hálfa öld. Sveinn dó rúmlega áttræður, árið 1954, en frú Guðrún varð fyrir bíl í Reykjavík 17. nóvember 1955, eftir að hafa dvalið í Reykjavík í 5 ár til að leita sér lækninga. Ég fæ út að hún hafi verið 77 ára þegar hún lést af slysförum og fullyrðingar Einars á Hermundarfelli um þessa konu og hennar fjölskyldumál eru náttúrlega alveg út úr kú!

Víkur sögunni nú að ömmu minni og afa: “Einar Baldvin, sonur Jóns, bjó einnig í “Búðinni” og var föðurbróður sínum til aðstoðar við verslunina. Einar var hæglátur alvörumaður, vandaður og traustvekjandi. Kona hans var Hólmfríður Árnadóttir frá Bakka við Kópasker. Þau áttu börn á ýmsum aldri. Hómfríður hafði alist upp hjá Guðrúnu og Sveini frá því að hún var á barnsaldri. Hún var bráðmyndarleg í sjón, glaðlynd og þokkarík. Aldrei var hún nefnd annað en Fríða í Búðinni.  … Þar sem ég taldi til náinnar frændsemi við Fríðu, fannst mér sjálfsagt að koma mér í kunningsskap við hana og var það engum vandkvæðum bundið, því hún var félagslynd og gestrisin. Ég hafði því ekki lítið gaman af að heimsækja hana í eldhúsið þegar ég átti frívakt …” (s. 24)

Ég tek að sjálfsögðu undir karakterlýsingar á ömmu og afa. Hitt er náttúrlega nánast pjúra lygi. Til að mynd ólst Fríða amma alls ekki upp hjá Sveini og Guðrúnu heldur var tekin í fóstur af Jóni og Pálínu, foreldrum Einars afa. Ég vona að höfundur ævisögunnar ljúgi líka til um “nána frændsemi” því maður sem ekki tekur betur eftir væri betur kominn í annarri ætt! Mér er ókunnugt um hversu miklum tíma amma mín eyddi í eldhúsinu en tel ólíklegt að hann hafi verið langur; til hvers voru þá vinnukonurnar? Sjálfsagt hefur amma Fríða vorkennt þessum sveitalega slöttólfi austan Fjallgarðs og gefið honum kaffi og spilað soldið fyrir hann, af meðfæddri greiðasemi við lítilmagnann.

Einar á Hermundarfelli tekur svo til að lýsa Sveini Einarssyni sem einhverju ofurnísku fríki (s. 24 – 26). Ég hef það ekki eftir.

Einhver góð sál hafði bent mér á þessar æviminningar og þar gæti ég fundið frásagnir frá Raufarhöfn fyrri tíma, sem e.t.v. gætu nýst mér. Vissulega fann ég svoleiðis frásagnir en árangurinn er sá að ég trúi ekki orði af neinu sem finna má í þeim fjórum bindum sem Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli gaf út, þar af þrjú bindi ævisaga hans sjálfs en hið fjórða frásagnir af öðrum. Best gæti ég trúað að skyldur Einari þessum sé ákveðinn tollvörður með sama nafni, sem laug blákalt að mér í síma, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þangað til hann var gersamlega kominn út í horn með sitt lygimál og neyddist til að afhenda mér hluti sem hann var að reyna að lúra á áratugum saman, án þess að eiga hætis hót í þeim! Einhvern veginn finnst mér að meðferð þessara tveggja Einara á sannleikanum sé svipuð.

Ég er verulega farin að efast um að kollurnar hafi frosið á hreiðrunum 1918, þær gerðu það hins vegar 18hundruðogeitthvað (sjá Jón Trausta einhvers staðar) og eftir þetta tek ég sjálfsævisögum óbloggandi fólks með mörgum varnöglum. (Minnið er valt en blogg er traust. Feisbúkk er húmbúkk!)

* Ég verð að fara að snúa mér að einhverjum nútímabókmenntum – liggur orðið við að ég tali 13. aldar íslensku svona dags daglega. Elsku maðurinn benti mér á að búa til valáfanga um ljóðagerð Nýhílista, með sérstakri áherslu á Eirík Örn Nordahl og Ingólf nokkurn stærðfræðing og netpennavin um skeið (man ekki föðurnafnið).  Best að skoða það í sumar 😉 

**  Almáttugur minn, ég var að fatta að sonur Einars frá Hermundarfelli er vinur foreldra minna og að barnabarn hans situr fundi með manninum mínum. Varnagli: Kannski er allt hitt satt í öllum hinum bindunum en vill bara svo óheppilega til að minningar frá akkúrat sumrinu 1929 hafi skolast til í minni hans.

Blogglægð

Ég er í einhverri blogglægð þessar vikurnar. Veit ekki hvað veldur nema niðurtröppun lyfja gerir mig húðlata án samviskubits. Í sumum kreðsum myndi þetta teljast batamerki hjá jafnfullkominni manneskju og mér 🙂

Talaði lengi við Rögnu í gærkvöld og heyrði ýmis plön um familie-sammenkomst um hvítasunnuna. Það gæti verið gaman. Við Hrefna gætum tékkað á júbílöntum en ég nenni eiginlega ekki að borða með þeim. Hvað ætlar Hrefna að gera?

Verandi ei á Feisbúkk þarf maður að brúka talsíma, jafnvel heimilissíma, og tölvupóst. Ég veit t.d. ekki lengur á hvaða vinnustað litli bróðir er; var honum skilað eftir að hafa verið sjanghæjaður? Og er Freyja búin að vinna sig í hel við liðsinni litlu óöruggu fjarnemanna sinna?

Eina fréttnæmt hér er að unglingurinn, sem ég hafði von um að væri að rísa úr öskustónni í vetur en það reyndist tálvon, sefur álíka mikið og ég (= firna mikið) og einnig án samviskubits. Þetta væri kannski OK ef hann væri ekki í prófum núna, þessi elska. Hann hefur grennst um tíu kíló og stækkað um hálfan metra (áætlað) og ekkert lát á. Mér finnst að það ætti að finna einhver úrræði fyrir unglinga með neikvæðan prófkvíða. Mætti t.d. koma til móts við þá og leyfa þeim að taka prófin milli kl. 2 og 4 að nóttu til (þegar þeir eru upp á sitt besta), leyfa þeim að drekka 2 l af Pepsi Max í hverju prófi og gefa þeim nett raflost á tíu mínútna fresti, svo þeir sofni ekki í prófinu. Í mínum skóla er dobía af úrræðum fyrir prófkvíðakeis – sem því miður vilja ekki fallast á að þetta sé læknisfræðilegt vandamál, sem það er … en engin úrræði fyrir fluggreinda unglinga sem stefna að því að vera þetta 13 – 14 annir að ljúka fjölbraut.

Ég hef trú á að þetta lagist þegar unglingurinn hættir að hækka.

Blogglægðin stendur sjálfsagt eitthvað lengur. Flestir dagar fara í að sofa eða lesa reyfara þar sem blóðið drýpur af hverri síðu! Til mótvægis las ég ævisögu Einars frá Hermundarfelli, 3. bindi. Spurning hvort ég ætti ekki að lesa hin tvö bindin milli morðbókmennta?

Upp og niður

Það er eitthvert f* bakslag í mér núna – mér finnst heimurinn almennt frekar fánýtur og leiðinlegur. Takist mér að rífa mig út úr húsi mun líðanin batna (en ég er bara svo innilega búin að fá nóg af því að rífa mig upp, út, frá o.s.fr. að ég orka því ekki lengur). Ég hugsa að styrkleiki dýfunnar sé lítill og hún standi stutt yfir. Augljóslega er ég ekki á hraðferð í Helvítisgjána, af því hef ég næga reynslu til að meta dæmið og sjálfsagt er þetta rugg á sálarlífinu bara fráhvarfsónot eða af stöðu himintungla. Kannski batnar mér ef ég er duglegri að lesa reyfarann “Ren ondskab”, sem er faktískt soldið ógislegur.

Í kringum mig gerist þó margt skemmtilegt og skondið. Má nefna að nú höfum við loksins fengið nágranna á efri hæðina. Þeir nágrannar fluttu reyndar úr næsta húsi og eru þannig séð ekki spánnýir fyrir okkur. En það er gaman að fá börn í húsið.

Unglingurinn minn er að tærast upp af ást, nokkur kíló á mánuði, svei mér þá. Ég fékk náðarsamlegast leyfi til að tilkynna að hann er að deita stúlku – þó sagði unglingurinn áhyggjufullur að nú þyrfti hann að svara hundrað spurningum frá ömmunum. Ömmurnar verða bara að skrá sig á feisbúkk 😉

Þetta er myndarleg stúlka og greindarleg í þeim örsamtölum sem ég hef átt við hana. Hún býr í Mosó svo notkun strætós 57 hefur nokkuð aukist, auk þess sem hratt gengur á veglykil unglingsins (sem við gáfum honum í jólagjöf og vakti gífurlegan fögnuð!).

Maðurinn sekkur æ dýpra í sín grísku fræði. Nú er ég búin að hundskamma hann fyrir að sofna út frá eða ofan á penna! (Hlítur að vera einsdæmi.) Penninn var rauður tússpenni og lokið ekki á. Þetta er annað sængurverið sem maðurinn spillir með rauðu bleki og löngu ljóst að rautt blek er algerlega þvottekta.

Frumburðurinn er svo til búinn að öllum sínum verkum og getur útskrifast með BA (og vonandi láði) í vor. Ritgerðin er á seinustu stigum. Hann rétt leit hér inn um helgina og virðist vera að tærast upp af sporti; Nú er æft og æft fyrir Laugaveginn í sumar. Mér er óskiljanlegt hvaðan frumburðurinn hefur fengið þessi sportgen (í miklum mæli). Hlítur að vera stökkbreyting!

Tröppun, tónlist og sívaknandi ég

Lengra milli færslna (er n?) er batamerki, a.m.k. stundum. Nú hef ég trappað niður helminginn af Litíum-inu. Fyrstu dagarnir voru slæmir, aðallega vegna þess að ég varð svo geðvond að mig langaði að kála hverjum þeim sem varð á vegi mínum.  Þetta var dulítið óþægilegt þegar ég var að hugga nemendur, stappa í þá stálinu, afhenda þeim annareinkunnir og svoleiðis sömu dagana og þurfti þá að líta út eins og múmínmamma, á meðan. (Ekki hefur komið fram að múmínmömmu langi til að kála nokkrum manni!) Svoleiðis að ég þurfti að dópa niður geðvonskuna og svo trappa niður dópið.

Hjú! Þessa meðalatröppun er bæði löng og leiðinleg.  Hugsið ykkur alka sem þyrfti fyrst að hætta að drekka koníak, svo viskí, svo vodka o.s.fr. en mætti slá á verstu fráhvörfin með einum bjór á dag; Ekki gæfuleg meðferð það og óendanlega seinleg og kvalafull!

Næst er hin Litíum-taflan. Ég fæ smá frí á milli þar til ég vendi mér í hana um miðjan maí. Bæ ðe vei hef ég ekki farið í neina maníu (því miður, mér er sagt að sjúklingnum finnist það gaman), einna helst að ég sé örlítið ör á morgnana. (Sem mætti skýra með þessari þörf til mannvíga, sem gæti líka verið óþekkt Njálusyndróm sem herjar á kennara við tíundu kennslulotu sömu bókar?)

Kostirnir eru þeir að ég skelf ekki, mér finnst margt fyndið; ég sef að vísu mikið og er löt en finnst miklu meira gaman í vökutímanum. Svo finnst mér líka sumt drepleiðinlegt, eins og að reikna út annareinkunnir. Þetta er eðlileg ég. Og eðlileg ég fer ekki að djöflast hér inni í mínu fína bónaða húsi með hefilbekk eða tálguhníf! Kannski má skoða þessa iðju á pallinum í sumar?

Við maðurinn fórum á kaffihúsakvöld Kirkjukórsins á fimmtudaginn. Þar voru marengstertur í hrönnum!  Kórinn söng vel (svona eftir því sem ég hef vit á), Gunnar Gunnarsson skálmaði á flygilinn og Tómas R. var með sinn bassa, í hléi og sem undirspil, og rúsínan í pylsuendanum var lag og ljóð eftir kollega minn og frænda hans. Það var gífurlega flott!  Textinn vegur salt milli þess að vera óhugnalegur og um friðsælan dauða, með vísunum út og suður, sem koma flott út. Lagið er þannig að það má syngja af stórum kór eða trúbadúr með gítar; örugglega jafnflott í hvort sinn. Þetta lag var tvíflutt og ég hlakka til að komast yfir disk / almennilega upptöku.

Við sátum alveg fremst í salnum, við hringborð, og eiginlega uppi í píanói, bassa og sópran. Tvisvar sinnum fann ég fyrir smá óþægindum (fannst að ekkert súrefni væri eftir í salnum, handa mér) en með skynsamlegum öndunaræfingum og tuldri við mig, inni í mér, komst ég út úr þessari aðkenningu að kvíðakasti í bæði skiptin. Miðað við þetta gæti ég setið á miðjum bekk í leikhúsi.

Næstu tónleikar mín og mannsins verður H-moll messan hans Bachs, um miðjan maí. Þar er ég svakalega veik fyrir Agnus Dei og finnst það Agnus Dei-a fegurst. Svoleiðis að ég sveiflast frá ABBA til Bachs á hálfum mánuði, með viðkomu í Kirkjukór Akraneskirkju.

Við maðurinn erum að hugsa um að ganga á Akrafjall (merkilegt nokk afþakkaði unglingurinn að koma með) svo ég geti dáðst að fagurri rótaríbrúnni yfir Berjadalsána. Ég veit nú ekki hversu úthaldsgóð (öllu heldur -lítil) ég er en ætti altént að hafa mig upp Selbrekkuna og svo má taka statusinn og ákveða framhaldið.

Því miður hef ég ekkert unnið í Ættarsögunni miklu undanfarið.  Veldur því aðallega að ég hef þurft að lesa nýjustu bók Lizu Marklund og Rauðbrystinginn Jons Nesbø (?).  Rauðbrystingurinn er æði!  Þær eru báðar í láni núna en ég tek við pöntunum 🙂

Ég er staðföst og læt ekki lokka mig inná Feisbúkk (horfandi á rígfullorðið fólk í fáránlegum leikjum klukkutímunum saman og auk þess í vinahópi Britneyjar Spears!).  Þannig að fréttir af ættarmóti verða að berast mér í venjulegum tölvupósti og sniglapósti, eins og ég fékk einmitt nýverið.

Harpa:1, Seroquel:0!!!

Þetta eru mikilvægustu úrslit helgarinnar á mínu heimili! Það versta er búið (2 fyrstu næturnar og seinnipartar daga) og í lok næstu viku verður eins og ég hafi aldrei snert á Seroqueli. Þar lýkur 9 vikna tröppun! Hárlosið, sem var búið að gefa í skyn að væri ímyndun í mér, er hætt; baðkerið og hárburstar ekki lengur útbíað í hárum en hins vegar fullt af illhærum í vinstra kollviki, sem bendir til að litla góða hárið sé einmitt að fara að vaxa þar!

Næst snúum við okkur að Lítíum-ógeðinu en ég hef ekki trú á að það verði eins erfitt; mun þó væntanlega gleðjast yfir að geta safnað nöglum sem líta út eins og neglur en ekki bárujárn. (Þetta er óskráð aukaverkun af Litarex og því gef-í-skyn-ímyndun mín, svona stundum alla vega.)  Ég hugsa að ég láti Litarexið bíða fram undir næstu helgi. Þar erum við að tala um tvær tröppur. Og næst … sjáum til!

Meirihluti kjósenda á þessu heimili er dulítið spældur en nær sér niður á að hía á kosningasigur minnihlutans hér á bæ. Mér er slétt sama! Auðvitað kaus ég Gutta og Ólínu, ekki hvað síst af því ég held að þau hafi bæði svo gott af því að kynnast hvort öðru! Auk þess vita þau ýmislegt um skóla og menntakerfið í landinu sem er meira en hægt er að segja um kvótakónga og fiskverkunarkonur vestrá Fjörðum eða Nesi. (Nei, ég er ekki snobbuð – bara lífsreynd og raunsæ eftir að hafa unnið í þremur frystihúsum á mínum yngri árum.)

Listar sem troða Skagamönnum í fimmta sæti eða neðar, eins og Akranes sé eitthvert trilluþorp í kjördæminu, geta bara snapað gams og étið það sem úti frýs fyrir mér!

Gleðilegt sumar! Og smávegis af spons-hugmyndum.

Ég óska öllum lesendum mínum (og örfáum ólesandi ættingjum) gleðilegs sumars. Óvísindalegt tékk síðasta vetrardag leiddi í ljós að einungis sirka 5% nemenda minna – nýnema og kannski annars árs – vissu að það byrjaði einhver sumarmánuður þennan fimmtudag, hvað þá að hann héti því gullfallega nafni harpa! Núna vita a.m.k. 85% nemenda í þessum áfanga af gömlu mánuðunum og undurfagra nafninu þessa, miðað við 15% fjarvistir í gær.

Ég fór á ABBA tónleika hjá Tónlistarskólanemendum í gærkvöldi, með vinkonu minni. Þeir voru ekki hnökralausir en náðu þó ABBA fílingnum vel með glansgöllum, ABBA hreyfingum o.þ.h. Mér fannst mjög gaman. Í tilefni þess hvað ég var hress á eftir sagði ég manninum hvað ég ætlaði að kjósa á laugardaginn. Maðurinn saup hveljur og bað mig vinsamlegast að segja ekki sonunum.

Tók svo eina rispu við manninn, með hálfum huga því mér er svo sama um pólitík, um fémútur, sponsora, betlistafi o.fl. Ég var líka nýbúin að horfa á álíka stöff um lyfjafyrirtæki í síðasta Kompás þættinum á vefnum (sá var í janúar en ég hef verið heldur sein að fatta hlutina almennt séð og lítið hirt um fjölmiðla síðastliðið ár).

Svo sá ég að fyrirlestraröðin í HÍ, um mannlíf og kreppu, var sponsuð af …. lyfjafyrirtækjum (Frumtök, Actavis) og þremur annars konar fyrirtækjum. Sem sagt: Þegar góðir fyrirlesarar gáfu sitt efni og fluttu ókeypis og leyfðu birtingu var HÍ það leim að þurfa að borga upptökufyrirtækinu (Kukl ehf) fyrir að koma þessu á vefinn og þurfti til þess að betla út aura hjá hagsmunaaðilum kreppunnar!

Fyrst og fremst vorkenni ég fyrirlesurum að láta fara svona með sig. Var t.d. Guðrúnu Nordal ljóst að hún var í boði Frumtaka (hagsmunasamtaka frumlyfjafyrirtækja) og Brims, sem annað hvort er brimbrettafatnaðarverslun eða sjávarréttafabrikka einhvers konar? Fór hagfræðingurinn Gylfi Zoega út í að fjalla um heilsutengd efni svo Actavis borgaði upptöku og klippingu á hans fyrirlestri? Vissu allir hverjir sköffuðu pening?

Í annan stað má benda á að í flestum framhaldsskólum og grunnskólum eru nemendur sem geta tekið upp efni, klippt og látið birtast í “fullum gæðum” á vefnum. Væntanlega er einhver kvikmyndaklúbbur í HÍ sem gæti hið sama fyrir minna verð. Þess utan laggar myndin alltaf við og við hjá mér, sennilega vegna þess að ég er ekki enn komin með ljósleiðara og ef notandi tölvu er ekki með hraðvirkasta samband sem völ er á þá skipta “full gæði” í skránni sem liggur frammi voða litlu máli.

Fyrir einhverjum árum hafði kennarastofa FVA fundið út kosti sponsunar / betls. Við vorum til í að enda kennslustundir með yfirlýsingum eins og “Þessi íslenskutími var í boði Baugs hf”, “Þessi efnafræðitilraun var í boði Norðuráls” o.s.fr.. En það sem við litum þá á sem brandara er núna greinilega alvara í tilraunum HÍ til að gera sig sýnilegan og höfða til “fólksins í landinu”.

Sem sjá má er ég pirruð á lyfjafyrirtækjum og sponsun. Reyndar er ég nýbúin að fara yfir kaflana um málafærslumanninn Eyjólf Bölverksson, sem stóðst ekki digran gullhring (um arm) og tók að sér að verja vonlaust keis á Alþingi. Hann var auðvitað drepinn, eftir að Snorri goði hafði hlegið að styrktaraðila-gullhringnum hans og spáð honum illu.

Ég er enn í niðurtröppun. Þetta er verk sem tekur tímann sinn! Engin trappa hefur verið stigin síðan síðustu helgi en ég ætti að komast á stigapallinn núna um helgina (með tilheyrandi óþægindum). Enn þarf ég að sofa a.m.k. 2 tíma á dag, auk 10 tíma nætursvefns, sem segir mér að annað hvort er ég svona veik eða svona lyfjuð ennþá. Eina leiðin til að komast að hvort er er náttúrlega að minnka lyfin óendanlega hægt og bítandi. Kannski verður einhvers staðar náð jafnvægi? Besti hugsanlegi árangur væri að geta verið lyfjalaus, þó ekki væri nema í nokkra mánuði. Ég er næstum búin að gleyma því hvernig ég er í raun og veru.

Nú, ég var búin að setja manninum fyrir að koma með mér á karlakórstónleika kl. 17 (ég er svo svag fyrir karlakórum: Brennið þið vitar og Stenka Rasin gefa gæsahúð!) – en þá færði þessi sami maður mér óvænta sumargjöf: Hnausþykkan blóðugan reyfara sem ég hef einungis heyrt jákvæða dóma um! Svo karlakórarnir þrír verða að halda tónleikana sína án mín 🙂

Mér líst vel á sumarið: Páskaliljurnar virðast ætla að hafa þetta af þetta vorið og í sumar verðum við maðurinn á eyjahoppi á Tylftareyjum. Annars hefði ég verið til í Krít eins og venjulega.

Þessa dagana

er allt fínt að frétta af mér.  Reyndar svo fínt að ég hef verið að dúlla við ýmislegt sem ég hafði enga orku til áður og þ.a.l. lendir bloggið dálítið aftarlega á merinni í dugnaðinum.  Maðurinn veltir mér upp úr því að ég sé í rauninni núll og nix eftir að hafa gengið af Feisbúkk og skellt eftir mér dyrunum. Ég læt hann hins vegar vinna fyrir mig ýmis skítverk á feisbúkk, s.s. persónunjósnir ef á þarf að halda en losna við tímaeyðsluna í Feisbúkkar-ekki-neitt. (Sem minnir mig á, Einar: Hvenær í sumar er þetta ættarmót sem er auglýst inni á Feisbúkk? Er það ekki örugglega í júní?)

Eftir síðustu hremmingar var ég séð og tók helgina í hoppið 50 mg niður í 25 mg af “jafnvægisstillandi lyfinu”. Enn fremur tróð ég í mig róandi, svo ég gengi ekki frá familíunni, og reyndi að sofa sem mest, sem er ekki auðvelt í þessu lyfjahoppi. Þetta gekk upp og nú er bara eitt hopp eftir, sennilega um næstu helgi.

Þarf varla að taka fram að mér líður miklu betur – ekki að ég sé ólatari en áður en ég er þó a.m.k. í tengslum við umheiminn og nógu vel að mér í umhverfinu til að vera ekki alltaf að detta (í bókstaflegri merkingu). Hugsandi um erfiðu skammtatröppurnar niður og svo til þess að ég tók 300 mg af þessu lyfi á sólarhring segir mér að ég hafi verið engu betur sett þá en uppvakningur.

Næsta “jafnvægisstillandi” lyf bíður handan við hornið … Með þessu áframhaldi get ég farið að spila á píanó aftur!

Nú er það alls ekki svo að ég stefni á að verða lyfjalaus. Ég hef sáralítið átt við aðalþunglyndislyfið (gamalt og lummó) en vil náttúrlega komast að því hve mikið ég get minnkað töku þess og notið samt lækningamáttarins. Stefnan er hins vegar ekki að hætta á því. Mér dettur ekki í hug að ég sé skyndilega hætt að vera þunglynd og kvíðin og geti bara dansað um og droppað blómadropum og lifað hamingjusömu lífi forever and ever. Á einhverjum tímapunkti getur vel verið að ég hafi þurft á öllum þessum lyfjum að halda en hvorki mér né mínum góða lækni orðið ljóst hvenær sá tími var liðinn og kominn tími til að bakka út úr pilluhrúgunni. Einhvern tíma seinna gæti ég þurft aftur á þeim að halda.

Ég þakka góðar óskir og ábendingar um Detox- meðferð en því miður hef ég enga trú á þeirri hreinsun. Svo myndi ég auðvitað miklu frekar taka Detox í Hvalfirðinum en Póllandi, bara svona af ættjarðar- og nærsveitunga- stuðningi!

Aðrar fréttir eru fáar, sem betur fer því unglingurinn er á Akureyri; leigði pláss í sumarbústað með vinum sínum sjö. (Ekki myndi ég vilja þrífa þann bústað á eftir!) Það er náttúrlega gleðilegt að Kristín Þóra, okkars keppandi, vann keppnina en vonandi hafa Skagamennirnir ekki haldið alltof mikið upp á það. Ég tékka reglulega á vindhraða á Holtavörðuheiði og undir Hafnarfjalli um þessar mundir …

Amman var að spyrja af hverju unglingurinn hafi verið í DV í síðustu viku. Okkur foreldrunum skilst að Vífill hafi sent inn fréttaskot um sig. Fréttaskotið var að hann vissi ekki símanúmerið hjá Obama. Þetta rataði á forsíðu! Svo var síða inni í blaðinu þar sem Vífill sagði af sér helstu fréttir, sem voru þær helstar að af honum væri ekkert að frétta. Síðan hafði hann hugsað sér að rukka DV um 5000 kr. því það er sem upphæðin sem menn fá fyrir fréttaskot. Á síðustu metrunum kikkaði einhver sómatilfinning inn og DV á ennþá fimmþúsundkallinn.

Sloppadagur og kjútípæ

Það sem í uppeldi mínu kallaðist “leggjast í kör fullfrísk manneskjan eins og aumingi!” heitir núna “taka sloppadag svo maður (öllu heldur kona) höggvi ekki mann og annan í fjölskyldunni (ekki bókstaflega, þetta er metaphorically speaking og sýnir áhrif þess að kenna Eglu tvisvar á ári í tuttugu ár!).” – Svo er Leó að spyrja mig hvort ég sakni ekki Eglu? Ég er að reyna að bakka út úr Eglu og verða obbolítið kvenlegri en ekki hugsa um hve væri gaman að gubba framan í þennan eða bíta hinn á barkann.

 Ath. að myndskreytingar við þessa færslu koma færslunni ekkert við. En finnst ykkur þessi litli ekki vera mikið kjútípæ?  Og hann hefur næstum ekkert breyst, þessi elska.

Ég hef sumsé tekið svoleiðis sloppadag  í minni kör enda eru allir hinir á heimilinu frískir á ferð og flugi, í heimsókn í annað kjördæmi eða að skutlast með pizzur hér innanbæjar. Úfin og ótótleg sef ég og les til skiptis og et bara óhollt  og drekk sterkt kaffi og lítrana af sódavatni og með þessum góðu ráðum hefur mér tekist að líða nokk vel í dag. Enda bakkaði ég í mitt eigið niðurtröppunarplan í gær. Virðist skila sér. (Þarf að reykja tvo pakka yfir daginn ef vel á að vera.)

Nú er ég búin með Hetjurnar frá Navarone, en það var soldið skrítið að til þess að skilja hana varð maður að hafa séð myndina Byssurnar frá Navarone (djíses hvað Gregory Peck er sætur!). Maðurinn hafði af hyggjuviti sínu fengið myndina lánaða, alveg sjálfur og einn.  Seinni bókin er sem sagt ekki skrifuð eftir fyrri bókinni heldur eftir myndinni sem var gerð eftir fyrri bókinni. Hálflesnar eru bók eftir Kinsella sem er ekki alveg að gera sig, tveir hálflesnir reyfarar sem ég fann á dönsku í Hagkaup (kaupi alltaf danska reyfara ef ég rekst á þá) og svo náttúrlega Njála en ég hef ákveðið að dagurinn á morgun dugi alveg í að setja mig inn í lögfræðikjaftæðið og hvurnig fyrsta mál klúðraðist fyrir fimmtardómi.

Þarna höfum við annað krútt og ég átti aldrei séns hjá þessum ljósu lokkum og spékoppum!  Sennilega hef ég byrjað að æxla með mér þunglyndi /óyndi / geðhvarfasýki eitt tvö þrjú og allan þann pakka þegar þetta krullaða kjútípæ mætti á svæðið.

Sem sjá má, innan um allan vaðalinn, er ég svona aðeins að vinna í Ættarsögunni miklu.  Verst að það er svo helv… seinlegt að skanna! Og familíunni hefur verið flest betur gefið en myndataka! Og það er snjór á næstum hverri mynd; skaflar, ísjakar o.s.fr.  Ekki skrítið að ég sé kuldaskræfa og inniklessa, eftir vetrartráma bernskunnar! Skil ekki hvernig nokkur hefur getað búið þarna við heimskautsbaug, jafnvel þótt veiddist þar síld. Skil ekki hvernig nokkur maður lætur draga sig úr húsi þegar hitamælirinn sýnir fyrir neðan 0°.  Mundi ekki fara á skíði þó mér væri borgað fyrir það!