Til að ganga í augun á frumburðinum

skal tilkynnt að nú tekst mér að vera 3/4 af þolfimitímanum og fæ þá að fara. Ég er elst í hópnum – fyrsta sinn sem ég upplifi mig sem eitthvað gamla – og obbinn af hinum fimu stúlkum í kickboxinu eru fyrrverandi, núverandi eða tilvonandi nemendur mínir. Þær eru ósköp næs og leggja mig ekki í einelti, þrátt fyrir ágætis aðstæður til þess.

Markmiðið er að vera heilan tíma.  Ég er bara svo dj… slöpp og úthaldslítil.  Reikna með að það lagist eftir því sem á námskeiðið saxast. (Búnir 4 tímar og ég hef bara skrópað í einn … vegna magapestar eða kvíða – það er ekki nokkur vegur að þekkja þetta tvennt í sundur.)

Mér finnst kickbox frekar skemmtileg íþróttaiðkun og mun njóta þess að hugsa um kýlingar þeirra sem mér þykja leiðinlegir, alveg austur – vestur, þegar mér hefur tekist að ná sporunum, a.m.k. 50% af þeim. Ég missti af Salsa tímanum á þriðjdag. Þetta er mun skemmtilegra en pallaþramm og hopp.

Hin líkamsræktin – var mikið pallar í þessa tvo – fjóra tíma sem ég mætti- var alltof mikil stappa af missveittum konum (og einum karli) í alltof litlum sal. Auk þess kunnu allir á pallana nema ég. Ég var sko ekki að fíla þetta! Svo fatta ég ekki af hverju tónlistin er höfð svo hávær (gildir bæði um Jaðarsbakka og Vesturgötuhúisð) að enginn heyrir orð af því sem þolfimikennarinn er að hrópa. Vill til að ég er flink að lesa af vörum 😉

Þetta saxast …

Fundin Rannveig og skemmtileg nektarmynd að auki

Í dótinu sem ég fékk uppi á Laugarvatni um daginn leyndist mynd af hinni dularfullu Rannveigu Dýrleif Stefánsdóttur.  Þetta er myndarstúlka og nú þarf bara að finna út hvort hún var lagsmær eða fóstudóttir Pálínu. Ég setti Freyju fyrir að leita í Ísl.bók … svo mætti skoða Haganes fólkið og á endanum verð ég sokkin ofan í Skagfirðingabækur fyrri tíma.

Skrítin tilviljun er að skv. æskumyndum af afa hefur hann verið blámaður til höfuðsins.  Skyldi Hans Jónatan vera forfaðir okkar?  Og af hverju erfði ég ekki þetta hár? Eiginlega er þetta þó ekki skrítnara en að Einar yngri sem rekur Einarsbúð og afgreiðir okkur í hverri viku skuli vera svona sláandi líkur Einari afa, kaupmanni á Raufarhöfn.  Kannski er þetta eitthvað sammannlegt verslunarmannaútlit?

P.S. á miðvikudegi: Þögn systkinanna veit ekki á gott og sennilega eru þau að baktala mig inni á Feisbúkkinu. Svo ég tók hina fögru nektarmynd út (upp á karríer viðkomandi) og lofa að nota bara andlitsmynd af viðkomandi í framtíðinni 🙂

P.P.S. Það að myndirnar á blogginu mínu eru óralengi að hlaðast inn er væntanlega bilun á myndageymslunni minni, á this.is/harpa

Um allt og ekkert

Í gær fór ég til borgar óttans, öðru nafni þurrabúðarinnar handan Flóans!  Sem betur fer hafði ég ekki náð að líta á vegagerðarsíðuna og vissi því ekki að Kjalarnesið var á nippinu með að vera fært. (Skil ekki hvernig nokkur manneskja getur búið þarna!) Strætóstjórinn var eitthvað stressaður en ég hélt að hann væri kannski nýr og þess vegna óöruggur með sig … fór svo frammí eftir Grundarhverfið og bað hann viljandi að loka hurðinni (sem blakti þarna aðeins í rokinu). Ég held nefnilega að sú tiktúra að bara megi segja “loka dyrum” en ekki “loka hurð” sé tilhæfulaus tiktúra einhverra gömlu kadla o.s.fr. í gamla daga. Úr því hægt er að höggva mann (og annan) sverði og samþykkja þær leifar verkfærisþágufalls (ablatívus instrumentalis), hlýtur sama að gilda um dyr og hurð; menn loka (einhverju) hurðinni (verkf.þágufall, eiginlega merkingin “með hurðinni”)

Áður en ég missi mig út í fjarlægari orðskýringar og fimbulfamb í anda Þórbergs, get ég þess að erindið í þurrabúðina var að ræða stöðu og horfur í mínu heilabúi og hvað væri nú skynsamlegt að gera þegar ég hef verið geðveik í áratug, geðveikin fremur eykst en minnkar samfara auknu meðalaáti. Við vorum búin að undirbúa okkur bæði, ég og læknirinn minn, og ég er mjög ánægð með hvernig tókst til í þessu uppgjörsviðtali. Svo gerðum við plan og nú er að sjá hvussu lukkast til með það plan.

Svo fór ég á bókamarkaðinn, harðákveðin í að kaupa ekki snitti, kom út með tvær bækur og það kalla ég vel sloppið! Ég var alveg voðalega þreytt þegar ég kom heim.  Kannski þess vegna sem ég tjúnaði upp einhverja samstarfsmenn mína með því að taka ekki undir halelújasönginn um grunnskóla þessa litla góða bæjar, á kennarastofunni. Mér er sosum nokk sama hvað þessir samstarfsmenn halda og hef yfirleitt ekki nennt að vera ósammála þeim enda hafa þeir minni reynslu af því að láta krakkaormana sína ganga í aðra grunnskóla (í öðrum Kardimommubæ) hvað þá dreifa börnum á báða skólana okkars K-bæjar.

Úr því ég var hvort sem er byrjuð að móðga kom ég því að við einhverja að mér fyndist óþolandi pxxxx skrækir kvenfólks á sextugsaldri.  Sný ekki aftur með það!  Þetta tengist hópamyndun,

Ég reikna með að hvíslandi hvíandi hópurinn verði alls ekki hamingjusamur yfir þessari færslu og skil hann vel, bilíf mí. Þær geta rætt um illa móðurmálskennara inni á feisbúkk því þar tók ég pokann minn og kvaddi og enginn vegur að ég frétti af því.

P.s.  Hvað hét aftur kerlingin í Friends sem hafði verið gift einum vininum og byrjaði gjarna setningar á “Oh, my god!”?

Gömlu karlar dauðans og hanaslagur sporgöngumanna

Ég var reyndar að hugsa um að skrifa um Útsvar og fatastíl keppenda, til að bregðast ekki mínum góða frumburði. Þess vegna kíkti ég á seinni hluta þáttarins í gær. En hafandi velt fyrir mér hver hinn velklæddi keppandi Norðurþings gæti verið (ég kannaðist soooo við hann) og á endanum fattað að þetta var Sævar frændi – þá horfði ég náttúrlega bara á það liðið.  Mér fannst Norðurþing vera með miklu huggulegra lið, t.d. athyglisvert afbrigði af skeggtísku, svo er ég náttúrlega n-þingeysk að ætt og uppruna. Þegar Sævar o.fl. tróðu uppi í leikfélaginu Hugleik í denn, var gaman að fara í leikshús! Það er heldur verra með leikrit Hugleiks yngra, og á ég þar við hina hryllilegu sýningu Baðstofuna.

Eins og frumburðurinn veit þá þykir mér fyrrum “Gettu-betur-strákar” alls ekki eiga erindi í Útsvar. Í rauninni er þetta svipað og að senda óperusöngkonu í Júróvissjón. Svo nenni ég ekki að tala meira um það stóð (ég hef nú lítið fylgst með) en er soldið paff yfir hve kvenkynið sést sjaldan.  

Áðan fór ég í fjölmennt sextugsafmælisboð skólameistarans míns.  Þar var margt um manninn enda hefur hann Hörður vasast í mörgu.  Tónlistaratriðin voru flott; Þjóðlagasveitin verður æ betri og æ meira orgínal … en ég treysti mér ekki til að vera til loka í veislunni þótt ég missti af KK.

Undanfarið hefur kennarastofan logað í illdeilum um hvað muni best til bjargar í kreppu og hverjum sé þessi kreppa að kenna. Það er náttúrlega óþarfi að taka fram að það eru karlkyns kennarar sem bítast um svörin.  Þeir minna mig mest á íslenska hana í hanasamkeppni. Meira að segja hafa sumir tekið upp “hanastellingu”; standa og reigja sig sem mest þeir mega og liggur við að vanti bara stélið til að fullkomna líkinguna. Ég hef þess vegna tekið þann kostinn að dvelja meir inni á vinnuherbergi og ræða merkilegri mál, s.s. stöðlun sovéskra kommúnista á brauðbakstri … sem er ákaflega sérstakt mál og við kennararnir höfum fengið prufur af staðlaða kommúnistabrauðinu undanfarið. Ef einhver hefur áhuga á svoleiðis brauði get ég bent á sérfræðing.

Kennarastofan endurspeglar heiminn ytra; þetta er svona mikrókosmos-dæmi eins og menn voru svo hrifnir af á 17. og 18. öld. Í ytri  heiminum eru stjórnmálamenn að snúa sér í pólitískan hring eða hvæsa illilega á spyrjanda þáttar. Hér vísa ég til Davíðs og hins fræga Kastljóssviðtals í vikunni.  Náttúrlega kíkti ég ekki á þetta viðtal fyrr en í morgunsárið … heyrði fyrst samræður sem einkenndust af “víst”, “þú ert ekkert skárri” og “þú getur ekki sannað það!” (þessi síðasttalda var einmitt uppáhaldssetningu litlu þunnu nemendanna í ML um árið). Svo datt mér í hug að taka hljóðið af og sjá hvernig Davíð, sem ég hef aldrei séð læf, ýmist hallar sér aftur með útbreiddan faðminn eða skellir olnbogunum í borð og allt að því goggar í Sigmar. Hvað hefði gerst hefði borðið verið mjórra? Svo fann ég út að þægilegast og mest upplífgandi var að hraðspóla gegnum viðtalið – þá heyrir maður ekki orðaskil heldur bara gagg og hreyfingarnar líkjast afrískum dansi, eða hanaati (ég hef heldur aldrei séð svoleiðis læf).

Aldnir stjórnmálamenn snúa til baka (en virðist vanta flokk), s.s. Jón Baldvin. Ég get ekki séð að hann hafi skánað í tíu ára útlegð, sá brot af einhverju viðtali þar sem hann var státnari og óskýrmæltari en fyrr. Ég hugsa til þess með hryllingi ef næsta þing samanstendur af mönnum eins og Jóni Baldvini, Árna Johnsen, Ómari Ragnarssyni og Sturlu trukkabílstjóri. Er t.d. hugsanlegt að Davíð Oddsson verði með Árna Johnsen á framboðslista? Allir sannir Íslendingar vona svo náttúrlega að Steingrímur Hermannsson snúist á sveif með með öðrum ellibelgjum. Svo höfum við óvinsælan forseta sem lagði sitt á vogarskálarnar til að ræsa út sem flesta víkinga og forsetafrú sem virðist ekki stíga neitt voðalega mikið í vitið …

En maður getur sosum alltaf flutt til Færeyja eða Krítar, ef þetta verður svakalega slæmt. Bara halda því fram að maður sé Finni til að afsaka hreiminn því hvern langar að verða aðhlátursefni eins og Íslendingar eru nú í útlöndum?

Smá móðurlegt mont

sem ég skrifa aðallega fyrir ömmurnar! En frumburðurinn er sumsé orðinn andlit skólans síns, HR.  Sé farið á http://www.ru.is þá eru þar kynningarmyndbönd á forsíðunni og drengurinn er bæði í vídjóinu um lagadeild og líka vídjóinu sem er þarna “Um Háskólann í Reykjavík”. 

 

Þótt auðvitað sé vitað frá forneskju að börn erfa gáfur frá mæðrum sínum en útlitið frá feðrum get ég ekki stillt mig um að benda á gáfulegt fas frumburðarins, þar sem þetta tvennt sameinast.

 

 

MacLean í denn

Ég hef aðeins reynt að bakka aftur í óspilltu, ógeðveiku árin mín.  Þetta er svona freudískt endurlit án þess að ég telji líkur á að höndla stórasannleik.  Nema hvað: Ég fékk lánaðar tvær McLean bækur á bókasafni Kardímommubæjarins. Því miður mundi ég endinn á báðum bókunum (eftir meir en 30 ár!) en gat samt alveg notið þess að lesa harðspjalda-reyfara í gullaldarþýðingu Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra

 … og prófdómara í munnlegum prófum í íslenskuskor, í denn.  Það var alger hryllingur því karlinn tuðaði eitthvað allan tímann og maður fipaðist í þessum þó réttu svörum sem maður kunni við að reyna að heyra hvað karlinn var að tuða. Nú nýverið rann upp fyrir mér að vegna gáfna hafi hann þulið eins og Njáll – sem gekk afsíðis og þuldi og mátti enginn trufla hann þegar hann var að leysa mál eins og hvernig meðalbóndi í Fljótshlíðinni ætti að fara að því að greiða skaðabætur fyrir dráp fjórtán manna. Þetta var útúrdúr…

Í Nóttinni löngu segir:  “En öllu má nú nafn gefa. Hvílíkur morgunverður – kaffi, harðar kexkökur og …. Nú áttum við aðeins eftir fjórar dósir með kjöti, fjórar með grænmeti, ein tíu pund af þurrkuðum ávöxtum og svolítið af frosnum fiski, einn bauk með kexi, þrjá smápoka með blásnu korni og tíu dósir með mjólk.” (s. 136) Þegar hér er komið sögu hefur farþegaflugvél nauðlent á Grænlandsjökli, sem betur fer rétt hjá frumstæðri veðurathugunarstöð, frostið úti er yfirleitt um 40° C og auk þess morðingjar á sveimi. Mér finnst þetta mjög raunsæ bók, allt nema þessir smápokar með blásnu korni.  Hvað er blásið korn? Er það ekki poppkorn? Því miður er ekki hægt að finna útgáfudag bókarinnar og ég nenni ekki að leita að honum í Gegni.

Mér finnst blásið korn miklu fallegra en poppkodn. Blásið korn … líður ljúflega af tungu lesandans … eins og bleikir akrar …

 Ég er líka búin að lesa Neyðarkall frá Norðurskauti en rakst ekki á neitt málræktarlega sniðugt í henni.

Næst verða það sjálfsagt Byssurnar í Navarone og Arnarborgin.  Svo þyrfti ég reyndar að lesa svolítið í Njálu.

Kvikindið vaknað = merki um bata

Freyja segir að síðasta færsla hljómi hræðilega.  Ég er alveg sammála henni en þetta er samt bara raunsæ lýsing á deginum; hann var hræðilegur!  Ég hætti umsvifalaust á auknum skammti af Zyban en helv. lyfið er 10 daga að skolast úr líkamanum svo ég tók ekki sénsinn á að henda hinni töflunni út í hafsauga strax.

Góðu fréttirnar eru þær að ég skrifaði mínum góða lækni sem tók hysterísku bréfi sjúklingsins síns af stakri ró og er sammála mér um að endurskoða lyfjatöku mína – og vonandi sjúkdómsgreiningu líka!

Það eru einnig góðar fréttir fyrir mig að ég hvæsti smávegis á póstlista kennara þegar yfir okkur helltist loðmullulegt grunnskólakjaftæði, sem er því miður að finna í framhaldsskólalögunum frá 1996. Við erum auðvitað alla daga að vinna að þessum markmiðum ljóst og leynt, í kennslustundum og utan, og alger óþarfi að núa okkur þeim um nasir. Ég vil alls ekki líta til grunnskólans sem fyrirmyndar; ekki hef ég áhuga á að sinna starfi mínu eftir stimpilklukku eða reyna að hugnast mistækum stjórnendum. (Reyndar hef ég unnið eftir stimpilklukku um ævina, það var í frystihúsinu á Raufarhöfn fyrir svona 35 árum. Mig minnir að stjórnendur þar hafi einnig verið doldið mistækir.)

Mér er ljóst að ekki hafa allir sama álit á köstun í kekki eða smávegis þrasi. Mér leiðist hins vegar þessi óendanlega meðvirkni, þegar einhver reynir að slétta allar misfellur og hamra á að auðvitað séu öll dýrin í skóginum vinir.

Það að ég skuli yfirhöfuð nenna að hafa einhverja skoðun er ákaflega hollt og gott fyrir geðið í mér. Ég hef líka látið eftir mér að vera með smávegis uppsteyt á kennarastofunni og leið ofboðslega vel á eftir. Kvikindið í mér er vaknað og ég er hætt að vera eins og hver önnur læpuleg Þyrnirós. Væri ég enn inni á feisbúkk myndi ég áreiðanlega hella andstyggilegum kommentum yfir fésbókarsvæði hvers systkinis!  Djöst for the fönn of it. Þið heppin að ég skuli hafa yfirgefið svæðið nokkurn veginn ósködduð.

Reið, örg og fallin eins og Bubbi

Mikið djöfull er ég búin að vera hrikalega lasin af einu vestrænu lyfi sem ég er tiltölulega nýbyrjuð að taka. Í gær byrjaði ég að skjálfa upp úr klukkan 6 um morguninn en seldi mér þá læknislegu hugmynd að þetta væri nettur skjálfti sem myndi lagast þegar liði á daginn. Klukkan 8 nötraði ég eins og drykkjumaður í delerium tremens.  Það er ákveðin lífsreynsla að nötra frá hnakka oní stórutá en nú veit ég hvernig hún er og þarf ekki fleiri prufur. Ég hefði meldað mig veika nema af því ég var búin að lofa að vera með “gestafyrirlestur” í sálfræðihópi. Svo ég sagði reynslusögu í þeim hópi hríðskjálfandi og gat ekki drukkið vatn af minni FVA-stútkönnu og átti inn á milli erfitt með mál.  Mér datt samt í hug að það væri betra fyrir hópinn að sjá þá almennilega veikan geðsjúkling en frísklegan.

Ég fór heim að reykja, í tíukaffinu, og náði að skella aftur fyrir mig á bílastæðinu, beint á hnakkann. Það var helvíti vont! Síðan þetta var eru komin 3-4 skipti þar sem ég er næstum að skella á hnakkann. Það er eins og jafnvægiskúlan í mér sé vanstillt.

Í morgun vaknaði ég upp úr kl. 5 við það að ég var að tala hástöfum við einhvern um íslenska stafsetningu; nánar tiltekið hvaða reglur gildi um j í endingum. Í svefni tók ég dæmi af “nýi” og “nýja”. Ég hef talað upp úr svefni undanfarið, kenni það einni pillusortinni og þegar umræðefnið er orðið stafsetning finnst mér þetta hátterni orðið sjúklegt!

Í rauninni fattaði ég þá ég sagði sálfræðinemum frá geðveikinni minni hvað þetta er mikil raunasaga því aldrei tekur hún enda og sárasjaldan hef ég verið algerlega ó-geðveik í meir en áratug! Í rauninni finnst mér stundum að ég sé aðallega veik af aukaverkunum lyfja! Og núna er ég orðin reið yfir því ástandi.

Ég hafði verið komin vel á veg með að trappa mig niður og út úr róandi/kvíðastillandi/bla-bla lyfi.  En nú þurfti að keyra það aftur upp því þetta bla-bla lyf slær á skjálfta. Þar með er ég aftur á byrjunarreit og þannig séð fallinn í alvarlegri edrúmennskutilraun.

Mér finnst gott að blogga þessa færslu til að ná úr mér reiðinni. Mér finnst gott að byrja hana á nákvæmlega því sem ég vildi sagt hafa. Vonandi fara einhverjar pempíur, t.d. af mínum vinnustað, ekki að nötra yfir færslunni. Ég get gefið svoleiðis silkiprinsum nóg Zyban sem fær mann til að hrollvekjast gegnum daginn, bara það sé tekið nóg.

Vilborg: Það rifjaðist upp fyrir mér í þessu reynslusögudæmi hjá krökkunum (Góðan dag, ég heiti Harpa og er geðveik …tónninn) að ég hef lesið Hrafninn þrisvar.  Las bókina þegar hún kom út (enda mikill aðdáandi og búin að kenna Korku sögu um árabil) en Hrafninn stuðaðist úr mér.  Mér sagt að mér hefði þótt hún góð svo ég las hana aftur … og þótti hún svakalega góð. En næst þegar ég fór í raflostmeðferð stuðaðist Hrafninn úr mér, eins og fjöldi annarra bóka, myndbanda o.s.fr. enda eru staðhæfingar um að raflost eyði einkum “sjálfsævisögulegum minningum” ekki annað en hélgilja sem borgar sig að trúa ekki.

Nema hvað: Ég er nýbúin að lesa allar bækurnar þínar, nema Korku sögu sem ég man af því það er svo langur tími síðan ég las hana fyrst. Ég vildi segja þér að mér finnst Hrafninn frábær!  Vonandi ertu að skrifa framhald – verða íbúarnir fluttir á þrælamarkað syðra? Ekki annars segja mér það svo ég hafi til einhvers að hlakka 🙂

Ég er frjáls!

Gerði mér lítið fyrir og strokaði mig út af Facebook. Ég held að fésbókin sé eins og lyngormur og muni vaxa í einhverja gróteska mynd og nærast á notendum.  Ég er mjög glöð yfir frelsistilfinningunni sem “de-activate” veitir einni konu!

Vendi ég mínu kvæði í kross

Ég er að hugsa um róttækar breytingar á mínum meðalahögum. Reikna með að mínum góða lækni lítist illa á. Ég dró meira að segja fram rykfallna 24 stunda bókina og las um daginn í dag, í morgun. Gæti trúað að Fagrar heyrði ég raddirnar myndu leiða til svipaðra markmiða og umhugsunar en man ekki í hvaða hillu hún er.

Ég fór sem sagt í vinnuna en náði ekki að fara yfir öll verkefni.  Ein lífsreglan í þessu kross-vendi-lífi er að vinna ekki á kvöldin.

Í rauninni byrjaði nýja lífið á sunnudaginn en þá fór ég á fund hjá algerlega nafnleyndu samtökunum, eftir að hafa verið óvirkur AA-maður í hálft ár! Nú er stefnt að því að vera ofurlítið virkari.

Þetta er sumsé allt að koma og þar með er ég farin að tsjilla en ekki eyða kvöldinu í tölvunni.