Titillinn er eiginlega tvívísandi, þ.e.a.s. annars vegar á “frýs í æðum blóð” vel við þegar mér finnst renna ískalt eitthvað inni í mér. Mest er þetta aftan á höfðinu – skrítin tilfinning en ekki slæm. Bókmenntaleg túlkun er að ég sé ekki blóðheit persóna. Mér þætti gaman að vita hvort blóðheitar + þunglyndar persónur kvenkyns finnist óverhóved í heimsbókmenntunum.
Hins vegar á fyrirsögnin við það að í gær varð ég svo reið að ég hefði getað drepið mann! Þetta er yndisleg tilfinning þegar maður hefur verið alsljór og freðinn í langan tíma. Í gær var nefnilega húllumhæið Skammhlaup í skólanum mínum og var frá upphafi ljóst að betra hefði verið að sitja heima!
Mér skilst að íþróttaþrautirnar hafi ekki gefið amrískum herskólaæfingum neitt eftir í áhrifum og ástandi þátttakenda eftir fúttið, auk þess sem þær tóku helmingi lengri tíma en áætlað var.
Tímasetning annarra atriða var þar með í hönk. Mér var sama því ég nýtti tímann í að vinna neyðar-kennslugögn því ég er svo á eftir miðað við kennsluáætlun. Þegar litlu ljósin komu í sína íslenskuþraut kom í ljós að nánast enginn kann aðra braglínu þjóðsöngsins en nánast allir kunna 4. línu Piparkökusöngsins. (Ég sting því að Teiti Atlasyni, góðkunningja mínum, og félögum hans að berjast fyrir að “Þegar piparkökur bakar ….” verði gerður að þjóðsöng enda hvergi minnst á guð í þeim ágæta texta.)
Ég gaf fyrir mína þraut og raðaði liðum skv. þar til gerðu matsblaði – júróvissjónröðun var talin alheppilegust í ár. Óumflýjanlega stóðu nokkur lið sig jafn vel, hér og þar á skalanum og því voru t.d. 3 lið með 7 rétt af 10. Svo ég gaf þremur liðum einkunnina 12 (douze points) o.s.fr.
Þegar ég skilaði blaðinu inn þannig varð allt vitlaust: Svona átti nefnilega ekki að gera og einungis 1 lið að fá 12 stig. Ég spurði stjórnandann hvernig svo mætti búa um hnúta ef gerð væri skítlétt þraut í 10 liðum. Svarið var að ég hefði átt að hafa ritunarspurningu! Ég hafði ekki heyrt þetta fyrr og tilkynnti að ég tæki aldrei aldrei aftur þátt í þessu hallæris-húllumhæi og væri þar af leiðandi skítsama. Í sama mund kom eðlisfræðikennarinn með akkúrat eins útfyllt blað og ég (margar tólfur).
Uppi í vinnuherbergi hitti ég Sögukennara A sem hafði fyrirfram vitað af ritunarspurningunni, fékk upplýsingarnar frá Sögukennara B. Aftur á móti hafði Íslenskukennara C verið sagt eftir á að raða nemendum á listann eftir því hver af hæsta hópi kom fyrstur og hver annar o.s.fr. og hafði hann einmitt þurft að grufla svolítið yfir því að muna hvenær hver og einn keppandi mætti. Ég tilkynnti þarna að aldrig í livet tæki ég þátt í svona geggjun aftur!
Niðri við stigavörsluna var hins vegar allt á suðupunkti því sumir í framkvæmdastjórninni höfðu sagt liðunum að þau mættu keppa í bóknámsþrautunum í hvaða röð sem þau vildu. Af hyggjuviti mínu, þótt lítil kona sé, sá ég að þetta myndi nú ekki ríma sérlega vel við tímaröðun efstustiga-liða …
Í ár var keppt í að safna sígarettustubbum í kringum skólann. Þetta er náttúrlega svo brjálæðislega nasísk hugmynd, í besta falli sprottin af illgirni, að ég reiknaði aldrei með að skólameistari tæki hana í mál. En stundum verður að reikna aftur og aftur: Þegar ég var að fara heim, guðsfegin, mætti ég tveimur af mínum nemendum með plastpoka, rennblauta sígarettustubba og blessunarlega hafði einhver haft vit á því að gera þá út með einnota plasthanska. Ég var svona að vona að strákarnir mínir ættu séns en fyrir utan skólann stóð nemandi með tvo risastóra glæra poka, fulla af sígarettustubbum og sígarettupökkum. Ég reikna með að eldri nemendur hafi ekið einn hring um plássið og losað úti-öskubakka og jafnvel rótað í ruslatunnum bæjarins. Þeir nemendur hafa ábyggilega einir náð douze points í stubbaþrautinni.
Næsta ár liggur beint fyrir að safna tyggjóklessum, ef nota á nemendur sem þrifnaðarafl stofnunarinnar. Sennilega er betra að vigta afraksturinn en telja hverja klessu fyrir sig. Klárir nemendur myndu fara yfir alla rusladalla skólans og tína upp nikótínklessurnar út úr kennurum sínum, sem verður orðið svo harð-, harðbannað að reykja nema hinum megin við götuna. Einnota plasthanskar dygðu til að slá á raddir um slef út út öðrum, alveg eins og núna.
Muldrandi fyrir munni mér: “Aldrei meir … aldrei meir” fór ég heim og fór að undirbúa kennslu og nám sem fer ekki fram með fíflagangi.