Tag Archives: íslensk Sjöl

Sjöl, giftingarhringir og álfadrottningar

Hér er fjallað um fræg prjónuð sjöl og síður fræg, bent á hve kóngafólk er áhrifaríkt í markaðssetningu, tengsl sjala við giftingarhringi og spurt hversu vel megi treysta umfjöllun prjónafræðibókmennta þegar kemur að sjalprjóni álfa.

Orenburg sjal

Giftingarhringspróf á Orenburg sjali

Hjaltlandseyjasjölin

Saga prjóns á Hjaltlandi er svipuð sögunni á Íslandi, Færeyjum og víðar: Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, lögðu inn prjónles hjá kaupmanninum og tóku út nauðsynjavörur í staðinn. En laust fyrir miðja nítjándu öld bættist fíngert „knipplingaprjón“ (gataprjónsmunstur) við flóru prjónless á eyjunum.

Hjaltlandseyja-sjal

Hjaltlandseyja-sjal

Upphafið er oft rakið til gataprjónsmunstraðrar skírnarhúfu sem barst einum eyjaskeggja að gjöf árið 1833. (Black, 2012, s. 56 og Rutt, 1989, s. 173-4). Önnur saga segir að sokkakaupmaður sem staddur var í Leirvík hafi kennt kvinnum þar gataprjón því allt útlit var fyrir að sokkaprjón væri dauðadæmt í samkeppni við vélprjónaða sokka. (Nielsen, 1988, s. 58). Fleiri upprunasögur eru til en þær verða ekki raktar hér.

Íbúar eyjanna tóku fljótt við sér og hófu að framleiða fíngerð sjöl með miklu gataprjónsmunstri og selja til Lundúna þar sem slíkar flíkur urðu hátíska. Þau allra fínustu og flóknustu voru prjónuð á nyrstu eyjunni, Unst.

Garnið var spunnið úr fínasta handrúna (‘roo’d’) þelinu [framan] á hálsi fjárins og hin frægu „giftingarhrings“-sjöl prjónuð úr því, í hvert sjal fóru um 120 gr af ull og þau voru nóg fíngerð til að hægt var að smeygja slíku sjali gegnum hring. (Black, 2012, s. 57).

Raunar var giftingarhringsaðferðin til að mæla fínleika sjala ekki fundin upp í sambandi við Hjaltlandseyjasjölin því Feneyjabúinn Niccolo Manucci lýsti því hve fíngerð ofin Kashmir-sjölin við Mughal-hirðina á Indlandi voru á sautjándu öld einmitt með því að nefna að þau mætti draga gegnum þumal-hring. (Rutt, 1989, s. 175.)

Sjal Alexöndru af Wales

Sjalið er talið prjónað 1866 og er eftirlíking af því sjali sem Hjaltlendingar gáfu Alexöndru prinsessu af Wales árið 1863. Það er nú varðveitt á Victoria and Albert’s Museum í London.

Hjaltlendingar gáfu hinni ungu Bretlandsdrottningu Victoriu knipplingaprjónað sjal krýningarárið 1837 sem varð auðvitað til að vekja athygli á sjölunum og þau nutu í kjölfarið mikillar eftirtektar á Heimssýningunni í London 1851. (Black, 2012.) Svo gáfu þeir henni fleiri sjöl síðar og einnig Alexöndru prinsessu af Wales sem gift var krónprinsinum. (Síðar meir léku eyjaskeggjar sama leikinn með símunstraðar hjaltlenskar peysur sem enn eru velþekktar; gáfu Játvarði prins af Wales – síðar konungi Bretlands um skeið – svoleiðis peysu; hann notaði hana þegar hann spilaði golf og peysurnar komust umsvifalaust í tísku. Má og skjóta því að að það var svo sem ekkert vitlaust af Sigríði Magnússon að reyna að tengja íslenskt prjónles við Victoriu drottningu á sínum tíma,  til öflugrar markaðssetningar.)

En aftur að hjaltlensku sjölunum sem Bretadrottningu var gefið: Victoriu líkaði sjalið svo vel að Hunter fjölskyldan á Unst var útnefnd sérlegur konunglegur söluaðili til konungsfjölskyldunnar, ekki bara á sjölum heldur einnig sokkum og undirfötum.

Ekta Hjaltlandeyjasjal er ferhyrnt og var brotið horn í horn þannig að myndaðist tvöföld þríhyrna, allt fram yfir aldamótin 1900 en eftir það urðu þetta langsjöl því tískan breyttist. Grunnprjónið er garðaprjón. Sjalið skiptist í miðjustykki, fjóra mynsturborða þar utan um og fjóra mynsturhluta þar utan um sem mynda kantblúnduna. Hafi einhver áhuga á slíkum sjölum er bent á myndasafn á Shetland Museum and Archives þar sem flestar af rúmlega 300 myndum sýna „knipplinga“-sjöl/giftingarhrings-sjöl, hyrnur, trefla eða fólk sem tengist svoleiðis gripum.

Orenburg-sjölin

Orenburg stendur við ána Úral, örstutt frá landamærum Kasakstan.

Um uppruna Orenburg-sjalanna er til krassandi þjóðsaga sem raunar hverfist um sama markaðssetningartrix og á Hjaltlandseyjasjölunum þótt árangurinn hafi verið eilítið á annan veg. Sagan segir að eiginkona Úral-kósakka hafi fundið upp fyrsta sjalið og sent Katrínu miklu keisaraynju það að gjöf, á átjándu öld. Keisaraynjunni þótti sjalið dýrgripur og greiddi prjónakonunni svo vel fyrir að hún gat lifað af fénu áhyggjulaus ævina út. En til að tryggja að engin önnur eignaðist eins sjal lét Katrín mikla stinga augun úr prjónakonunni í trausti þess að þá gæti hún ekki prjónað meir. Það sem keisaraynjan vissi hins vegar ekki var að prjónakonan átti dóttur og sú prjónaði annað alveg eins sjal: Til þessara sjala megi síðan rekja uppruna allra Orenburg-sjalanna.

Sagnfræðilegar heimildir herma hins vegar að þegar rússneskir kósakkar urðu útverðir keisaradæmisins við rætur Úral-fjalla, á sautjándu öld, fundu eiginkonur þeirra upp á að prjóna næfurþunnar flíkur úr geitaullinni sem þar fæst til að hafa næst sér í fimbulkulda þessa harðbýla svæðis. Af þeim flíkum rann sá kóngulóarvefnaður sem Orenburg sjölin eru.

Orenburg sjöl

Hér sjást prjónakonur í Orenburg halda á lofti sjölum sínum.

Á nítjándu öld kviknaði áhugi Evrópumanna á þessum sjölum, ekki hvað síst eftir að M.A. Uskova, kósakkakona frá Orenburg, vann gullverðlaun á alþjóðlegri vörusýningu í London árið 1862 fyrir sex sjöl sem hún hafði sjálf prjónað. Nokkrum áratugum síðar fengu konur frá Orenburg sex medalíur fyrir sjöl sín á Heimssýningunni miklu í Chigaco 1893.

Orenburg sjal er prjónað úr geitaull, sem áður sagði. Geiturnar eru kembdar einu sinni a ári og hver geit gefur af sér 300-500 gr af ull sem er u.þ.b. það sem þarf í eitt sjal. Ullin er handspunnin með snældu í örfínan þráð. Áður fyrr var síðan prjónað beint úr geitarullarþræðinum en nú orðið er ullin yfirleitt spunnin saman við silkiþráð.

Orenburg sjölin eru oftast ferhyrnd og hefðbundin stærð er rúmir tveir metrar á kant. Samt sem áður eru þau svo létt og næfurþunn að það má þræða slíkt sjal gegnum giftingarhring, fyrir öld tíðkaðist meira að segja sú aðferð til að sanna að um ekta Orenburg sjal væri að ræða. Í þessu myndbandi (með frönsku tali), sem sýnir gerð Orenburg-sjals, sést sjalið einmitt dregið gegnum (giftingar)hring.

Íslensk sjöl

Gataprjónuð íslensk sjöl litu líklega ekki dagsins ljós fyrr en komið var nokkuð fram á tuttugustu öld. Í bók Sigríðar Halldórsdóttur, Þríhyrnur og langsjöl, eru elstu heimildir fyrir þessu tvær nafngreindar konur sem segjast fyrst hafa séð útprjónuð langsjöl í kringum 1920 og ein enn sem telur að gataprjónuð langsjöl og hyrnur hafi fyrst breiðst út á þriðja áratug síðustu aldar. (s. 8.) Gataprjónaðar hyrnur koma sem sagt enn seinna til sögunnar.

Halldóra Bjarnadóttir og íslenskt sjal

Halldóra Bjarnadóttir

Á myndinni hér að ofan er Halldóra Bjarnadóttir með gullfallegt langsjal yfir herðarnar. Sjalið prjónaði Jóhanna Jóhannesdóttir frá Svínavatni sérstaklega fyrir Halldóru sem sýndi það víða á Norðurlöndum á árunum 1924-25. (Halldóra Bjarnadóttir. 1928, nmgr. s. 46-47  )

Sjalið er úr handspunnu togi. Hafi Halldóra ætlað sér að markaðssetja svona sjöl erlendis mistókst það með öllu enda hafði hún ekki sinnu á að gefa neinum konungbornum sjalið heldur átti það sjálf alla ævi.

En þótt íslensku sjölin séu langt innan við aldargömul hefð hérlendis er giftingarhrings-prófið auðvitað tengt þeim líka:

Prjónið til heimanotkunar var vitanlega mjög misjafnt að vöndun, allt frá grófustu togsokkum […] til […] herðasjala úr svo smáu bandi að draga mátti þau gegn um venjulegt fingurgull.
(Inga Lárusdóttir. 1943, s. 181)

Þau íslensku gataprjónssjöl sem njóta hylli núna eru öll úr bók Sigríðar Halldórsdóttur og mörg munstrin eru samin af henni sjálfri, sum tekin upp eftir ekkert mjög gömlum langhyrnum eða sjölum sem gefin hafa verið söfnum. Myndir af svona sjölum má t.d. sjá á http://www.ravelry.com/designers/sigridur-halldorsdottir. Sjölin í bók Sigríðar eru prjónuð úr eingirni (sem nú heitir einband) og mín reynsla er sú að þau stinga hroðalega mikið. Hins vegar á ég gamalt langsjal með krónupjóni úr þeli sem er mun þægilegra.

 

Álfadrottningar og íslensk gataprjónssjöl

Íslensku gataprjónssjölin hafa það fram yfir þau heimsfrægu sjöl sem kennd eru við Hjaltlandseyjar eða Orenburg að svoleiðis sjöl prjóna líka álfar! Í útlendri prjónasögubók segir að til sé íslensk þjóðsaga sem hermi að álfadrottningar ferðist milli mennskra og síns álfaríkis þannig: Þær leggja gataprjónuðu sjölin sín á mýrlendi, standa á þeim miðjum og sökkva djúpt ofan í mýrina. Svo skýtur þeim aftur upp í ríki álfanna og þá eru bæði álfadrottningar og sjölin tandurhrein og þurr! (Nargi. Lela. 2011, s. 134.) Það væri óneitanlega gaman að komast að því hvort þetta er satt því ég man ekki eftir öðru dæmi um að álfar tengist prjónasögu.

 

Prentaðar heimildir

Black, Sandy. (2012). Knitting. Fashion, Industry, Craft. London: V&A Publishing.

Halldóra Bjarnadóttir. (1928), Togtóskapur, Hlín 12(1), 43-46.

Inga Lárusdóttir. (1943). Vefnaður, prjón og saumur. Í Guðmundur Finnbogason ritstjóri, Iðnsaga Íslands síðara bindi (s. 154-192). Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Khmeleva, Galina A. og Carol R. Noble. (2010) Orenburg Gossamer and Warm Shawls from Russia, Knitting Traditions 1(1), 107-111.

Nargi, Lela. (2011). Knitting around the World. A multistranded history of a time-honored tradition. Minneapolis: Voyageur Press.

Nielsen, Ann Møller. (1988). Alverdens strikning – historie og teknik. Fredericia: Forlaget Ariadne.

Rutt, Richard. (1989). A History of Handknitting, 2. útg. Loveland, CO: Interweave Press.

Sigríður Halldórsdóttir. (2005). Þríhyrnur og langsjöl. Sögubrot, leiðbeiningar og uppskriftir, 2. útg. Reykjavík: Höfundur.

 

Heimildir á vef

AUTHENTIC RUSSIAN SHAWLS FROM ORENBURG: A UNIQUE HANDMADE WORK OF ART FROM GOAT’s HAIR AND SILK. Artisan euro Skoðað 30. ágúst 2014.

Belogolovtsvev, Konstantin. (21. okt. 2013). The history and craft behind Orenburg shawls. Russia beyond the headlines. Skoðað 30. ágúst 2014.

Strelnikova, Elena. (4. mars 2013). Orenburg shawls: a classic of Russian folk art. oDR Russia and beyond. Skoðað 30. ágúst 2014.

Orenburg Downy Shawls. (20. okt. 2009). Russia Info-Centre. Skoðað 30. ágúst 2014.

Orenburg shawl. (Janúar 2010). Wikipedia. Skoðað 30. ágúst 2014.