Tag Archives: Lífsmörk

Lífsmörk

Narcissus

Narcissus

Á dögunum las ég bók Ara Jóhannessonar, Lífsmörk, og þótti hún mikil ágætissaga. Þeir fáu sem ég hef talað við um bókina eru líka hrifnir en svo virðist sem mismunandi þættir hennar falli mismunandi fólki í geð; Sumum líkar kaldhæðnisleg og raunsæ lýsing á álaginu á spítalanum, þar sem aðalpersónan er svæfingarlæknir, sumum annað … það lesa sem sagt ekki allir bókina á sama hátt. Og einhvers staðar las ég (sjálfsagt í ritdómi) að vendipunkturinn í sögunni væri ansi ótrúlegur. Raunsætt séð er hann það en ég get ekki séð að hægt hefði verið að kúvenda aðstæðum aðalpersónunnar Sölva á algerlega raunsæjan máta, hvað þá þannig að sú kúvending gerði það að verkum að Sölvi næði að einhverju leyti áttum, miðað við hvers lags manngerð hann er.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að þetta væri lykilróman, að aðalpersónan væri byggð á ákveðnum manni. Inn á milli datt mér þó í hug að þetta væri vitleysa, akkúrat þessi manngerð í akkúrat  þessu umhverfi væri kannski ekki sjaldgæf. Svo fannst mér aftur að þetta væri um mann sem ég kannaðist við.

Það var gaman að þekkja sumt sögusviðið vel: Sölvi elst upp í Laugardal, pabbi hans er grár og gugginn kennari (Héraðsskólanum og Menntaskólanum er dálítið slegið saman í sögunni og ekki auðvelt að átta sig á í hvorum skólanum pabbinn kenndi dönsku) og hjólhýsahverfinu (sem stundum var kallað sígaunahverfið ef ég man rétt) eru gerð prýðileg skil.

Þema sögunnar er hybris (ofmetnaður). Gulldrengurinn, Sölvi súper, læknirinn sem tekur allar aukavaktirnar, til að vera ómissandi og baða sig í aðdáun annarra,  til að halda uppi almennilegum lífsstandard í flotta einbýlishúsinu í Garðabæ, sem á réttu eiginkonuna, flottu börnin, stundar rétta heilsusamlega lífstílinn (hlaup) og er sá vinælasti og klárasti á deildinni sinni  er náttúrlega að fara með sig á þessu: Dramb er falli næst. Og fall hans er hátt.

Fallið kemur samt ekki svo mjög við Sölva til að byrja með. Kannski er það vegna þess að þótt hann missi allt, læknisleyfið, familíuna, flotta húsið, flotta bílinn og fínu fjölskylduvinina (sem eru jafninnantómir og hann sjálfir) þá hefur það ótrúlega lítil áhrif á hann vegna þess að í grunninn elskar hann engan nema sig sjálfan: Stóra ástin í lífi Sölva er Sölvi sjálfur. Sá eini sem Sölvi dáist að er Sölvi sjálfur þótt hann hafi auðvitað verið mjög þurfandi fyrir aðdáun allra í kringum sig einnig. Vinnufélaginn Andrés, sem einn kolleganna heldur sambandi við Sölva eftir fallið mikla miðlar það mikið af (takmarkaðri) þekkingu sinni á geðlæknisfræðum að það verður að líta á hann sem málpípu höfundar, sem er kannski óþarfi því hafi lesandi ekki kveikt á því að Sölvi er haldinn narsissíkri persónuleikaröskun á háu stigi þegar hér er komið sögu er ólíklegt að sá lesandi sé bættari með útlistunum Andrésar.

Nú veit ég ekki hvort mögulegt er að fólki með narsissíska persónuleikaröskun batni einhvern tíma. En í lok bókarinnar er gefið í skyn að Sölvi hafi á endanum lært eitthvað sem gæti orðið honum til bjargar, sem gæti gert líf hans að einhverju leyti innihaldsríkt en ekki bara innantóma sýndarmennsku, jafnvel gert honum kleift að vera ekki nákvæmlega sama um aðra en sig.

Þeim sem ekki hugnast pælingar um  tómleika hins fullkomlega sjálfhverfa manns er bent á að lesa bókina sem táknsögu um veltiárin og hrunið 😉