Tag Archives: óprjónaðar Lykkjur

Vefprjón, mósaíkprjón og óprjónaðar lykkjur

mósaíkprjón

Barbara Walker í mósaíkprjónaðri peysu

Hérlendis virðist ríkja einhver misskilningur í heitum á prjónaðferðunum vefprjóni og mósaíkprjóni. Hér verður saga þessara aðferða og heita rakin.

Segja má að þrjár konur, Mary Thomas, Elizabeth Zimmerman og Barbara Walker, beri höfuð og herðar yfir aðra sem fjallað hafa um prjónaðferðir og prjónaskap á síðustu öld. Það er því rétt að athuga hvað þær hafa um umfjöllunarefnið að segja.

VEFPRJÓN

Í Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns, fyrst gefin út 1943 en hér er stuðst við endurprentun frá 1973, eru prjónaðferðir flokkaðar í nokkra flokka. Einn flokkurinn heitir SLIP-STITCH MOTIFS AND PATTERNS, sem snara mætti sem „munstur sem byggja á óprjónuðum lykkjum“. Þar er lýst ýmsum munstrum sem ganga í endurnýjun lífdaga nú um stundir en hið eina sem hún kennir við vefnað, þ.e. Woven Rib og Woven Check or Hopsaic Stitch (s. 95-96) eru einföld munstur þar sem tekin er óprjónuð önnur hvor lykkja og garnið látið liggja yfir þær á réttunni. Áferðin verður svipuð og rangan á bosnískum inniskóm, sem margir hafa spreytt sig á að prjóna undanfarið.

Í eldri bók sama höfundar, Mary Thomas’s Knitting Book, fyrst gefin út 1938, hér er stuðst við endurprentun frá 1972, minnist hún á prjónaðferðina Woven Knitting, sem þýða mætti sem ofið prjón, mögulega vefprjón (s. 109). Þar eru notaðir tveir litir, önnur hvor lykkja er prjónuð í hvorum lit og lausi liturinn ávallt festur í hverri lykkju (líkt og í tvíbandaprjóni). Prjónað er slétt á réttu og brugðið á röngu. Rangan á síðan að snúa út. Um aðferðina segir höfundur: Þessi gerð af klæði var notuð snemma á Viktoríutímunum til að prjóna karlmannsvesti, og var einnig nefnd „Vestisprjón [Waistcoat Knitting] “. Prjónið lítur svona út (myndin er skönnuð úr bókinni):

Vefprjón

Woven/Waistcoat knitting

Barbara Walker nefnir einnig ofið prjón (Woven stitch) í bók sinni A Treasury of Knitting Patterns, útg. 1968, hér vitnað í endurútgáfu frá 1998, s. 94. Hún lýsir nokkrum afbrigðum af þessu prjóni og birtir mynd sem sýnir þær. Hér er myndin:

vefprjón

Sjá má útfærslu í lit af einni næstefstu aðferðinni, að vísu með þremur litum, á þessari slóð.

Heitið vefprjón er miklu þekktara nú til dags yfir norska aðferð sem er ýmist kölluð vevstrik eða doppeltvev. Annemor Sundbø lýsir aðferðinni í bók sinni Usynlege trådar i Strikkekunsten, útg. 2009, s. 32-33. Þar kallar hún hana doppeltvev en í námskeiðum sem Annemor hefur haldið er aðferðin kölluð vevstrik, að sögn þátttakenda sem um slík námskeið hafa bloggað.

Sú aðferð byggir á garðaprjóni í tveimur litum, á réttu er prjónað úr öðrum litnum en af röngunni úr hinum litnum (hvor litur er s.s. notaður í hálfan garð). Eftir hverja umferð verður því að klippa á garnið og þess vegna hentar aðferðin best til að prjóna trefla eða einhver stykki sem eiga að vera með kögri (garnendarnir nýtast í kögur). Munstrið er myndað með því að taka óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan (sem er þá í öðrum lit). Óprjónuðu lykkjurnar eru alltaf teknar í sama lit og mætti því kalla annan litinn munsturlit og hinn bakgrunnslit.

Þetta er gömul aðferð, segir Annemor Sundbø, og stundum kölluð „Mor Astrups strikketeknik“ eftir Ebbu Astrup, sem varð forstöðukona á barnaheimili laust eftir aldamótin 1900. Sagt er að Ebba hafi prjónað trefla á börnin með þessari aðferð.

Einhverjar prjónakonur munu kannast við uppskrift af karlmannstrefli sem Christine Einarsson seldi meðan Prjónasmiðja Tínu starfaði. Uppskriftin heitir Tígull og má sjá mynd af honum á síðu fyrirtækisins á Vefsafninu. Munstrið er sláandi líkt mynd af trefli sem Annemor Sundbø birtir í fyrrnefndri bók, en hvaða munstur sem byggir á skálínum og tveimur litum má útfæra í þessa prjónaðferð. Líklega yrðu tíglar og sikk-sakk munstur alltaf vinsælust. (Sjá má tvær aðrar útfærslur af treflum, byggðum á myndinni í bók Sundbø, á síðu prjónara á Ravelry.)

Hér eru myndir af minni eigin prufu í vefprjóni, sú efri sýnir stykkið á réttu, sú neðri sýnir hvernig rangan lítur út.

Vefprjón

Vefprjón á réttu

Vefprjón

Vefprjón á röngu

 

MÓSAÍKPRJÓN

Skv. Richard Rutt fann Barbara Walker upp mósaíkprjónið (sjá A History of Hand Knitting, útg. 1987, s. 205). Hún gerir þessari aðferð skil í sérstakri bók, Mosaic Knitting, sem kom út 1976 og einnig í tveimur sinna safnbóka munstra, Charted Knitting Designs: A Third Treasury of Knitting Patterns, útg. 1986 og A Fourth Treasury of Knitting Patterns, sem kom út árið 2000.

Mósaíkprjón er garðaprjón þar sem hver garður er prjónaður í sínum lit. Einfaldast er auðvitað að prjóna í tveimur litum en í rauninni skiptir litafjöldi ekki miklu máli því einungis er prjónað með einum þræði í einu og þá heill garður. Óprjónaðar lykkjur mynda munstur á réttunni. En ólíkt norska vefprjóninu sem var lýst hér að ofan er munstrið gert með óprjónuðum lykkjum í báðum litunum. Og auðvitað má nota þessa aðferð í sléttprjóni eingöngu þótt hún sé hugsuð fyrir garðaprjón.

Líklega er auðveldast að útskýra þetta með myndum. Hér að neðan eru myndir af prufu sem ég var að prjóna, fyrri myndin af réttunni og hin síðari af röngunni. Neðsta myndin er svo af munstrinu.

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á réttu

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á röngu

 

Munstur fyrir mósaíkprjón

Munstur fyrir mósaíkprjón

 

Það er stutt síðan íslenskar prjónakonur uppgötvuðu mósaíkprjón en ég giska á að aðferðin verði vinsæl innan tíðar því það er mjög gaman að prjóna með þessari aðferð.  Rétt er að vara við að þótt prjónað sé með garðaprjóni verður prjónlesið lítt teygjanlegt vegna bandanna sem liggja á röngunni, fyrir aftan óprjónuðu lykkjurnar. Eðli mósaíkprjóns er að munstur verða geómetrísk og beinar línur eru oft ríkjandi, geómetrískar skálínunur verða hins vegar alltaf í norska vefprjóninu.  (Ég biðst afsökunar á slettunni geómetrískt en orðalagið „munstur sem minnir á rúmfræðilegar myndir“ er of óþjált, finnst mér.)

Þeim sem hafa áhuga á mósaíkprjóni er bent á að skoða dæmin á The Walker Treasury Project. Munstrin fylgja ekki heldur er vísað í þau í bókum Barböru Walker.

MUNSTUR MEÐ ÓPRJÓNUÐUM LYKKJUM

Eins og nefnt var í upphafi, þegar vísað var í bækur Mary Thomas, er til fjöldi munstra sem gerð eru með því að taka lykkjur óprjónaðar. Á ensku eru slíkar aðferðar oftast kallaðar yfirheitinu “Slip stitch knitting”.

Skv. munnlegri heimild kunnu íslenskar prjónakonur að gera einföld munstur með óprjónuðum lykkjum a.m.k. frá miðri síðustu öld. Sú aðferð hafði ekkert sérstakt heiti.

Má í þessu sambandi benda á peysuuppskrift sem birtist í Húsfreyjunni í mars 1957 (krækt er í uppskriftina). Peysan er eitt af elstu dæmunum um hringlaga berustykki/axlarstykki í íslenskri prjónauppskrift og líklega þýddi Elsa E. Guðjohnson þessa uppskrift úr sænsku (uppskriftin hafði árið áður birst í sænsku prjónablaði). Munstrið er hvítt, blátt og rautt en það er ekki gert með tvíbandaprjóni (eins og íslenskar lopapeysur nútímans) heldur er þessi hluti axlarstykkisins prjónaður fram og til baka og munstrið gert með að taka upp óprjónaðar lykkjur. Úrtökur eru í einlitu röndunum með vissu millibili. Opið (vegna þess að munstrið er prjónað fram og til baka) er á bakinu og gert ráð fyrir að settur sé rennilás til að loka því.

Hér er mynd sem sýnir munstrið á peysunni:

Óprjónaðar lykkjur

Munstur með óprjónuðum lykkjum

NIÐURSTAÐA

Það eru kannski engar stórkostlega niðurstöður af þessari umfjöllun nema þær að það er algerlega út í hött að kalla mósaíkprjón vefprjón s.s. ég hef heyrt fleygt að sumir vilji gera, og að heitið vefprjón getur átt við ýmsar prjónaðferðir aðrar. Loks má benda á að munstur með óprjónuðum lykkjum eru mjög fjölbreytt og engan veginn hægt að fella þau undir yfirheitið vefprjón, þó ekki væri nema vegna þess að mörg þeirra líkjast vef ekki hið minnsta.