Tag Archives: Prjón Frá átjándu öld

Kvekarar og nálapúðar

forsidumynd

 

Þessi pistill fjallar um nálapúða á átjándu öld, kvekara, geðveikrahæli og mannréttindabaráttu. Nálapúðinn sem sést hér að ofan er í safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum (sjá hér) og er talinn með þeim elstu af mörgum svipuðum sem hafa varðveist. Hann er jafnframt sá stærsti, 18 x 11,5 cm, og ferhyrndur en hinir eru flestir kúlur eða disklaga. Nálapúðinn er prjónaður úr fínu silkigarni, prjónafesta er 9-10 lykkjur í sentimetra, framstykki og bakstykki eru saumuð saman og saumarnir huldir með snúru/borða. Í púðann er prjónað ártalið 1733 sem sjá má.

Nálapúðar voru, eins og nafnið bendir til, notaðir til að stinga títuprjónum og nálum í og geyma þannig. Sumir telja að það hafi verið ákveðin vörn gegn ryði í saggafullum húsakynnum átjándu aldar.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Talið er að átjándu aldar nálapúðarnir af þessu tagi hafi fyrst og fremst verið ætlaðir til gjafa. Þeir tveir til viðbótar sem til eru á V&A safninu styðja það því í annan er útprjónað „SS loveth the giver 1782“ og í hinn „SL to RL 1805‟. Þeir eru saumaðir saman úr tveimur átthyrndum stykkjum (eins og sá sem sést hér að ofan) og saumurinn síðan falinn með snúru/borða.

Þótt ekki hafi tekist að rekja elstu nálapúðana til kvekara eru munstrin dæmigerð í hannyrðum þeirra og flestir yngri nálapúðar af þessu tagi (frá því seint á 18. öld og fram á þá 19.) eru taldir handverk kvekara.

Kvekarar eru trúarsöfnuður. Opinbert heiti trúfélagsins er Religious Society of Friends og það var stofnað um 1650 á Bretlandi. Þeir hafa enga trúarjátningu en viðurkenna Biblíuna og telja að guð upplýsi trúaða með orði sínu, hinu innra ljósi. Kvekarar hafa alla tíð verið eindregnir friðarsinnar og eru ötulir talsmenn trú- og skoðanafrelsis enda hlutu bresku og bandarísku kvekarahreyfingarnar friðarverðlaun Nóbels árið 1947.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Í Kastalasafninu í Jórvík (York) á Englandi eru nokkrir nálapúðar frá þessum tíma, þar á meðal einn dökkblár með ljósu munstri, ákaflega fínt prjónaður (14 lykkjur í sentimetra) og prjónað í hann orðin „An emblem of love‟ (Tákn ástar/vinskapar). Á röndina milli tveggja disklaga stykkja er prjónað „From the Retreat, near York“.

Retreat, í nágrenni Jórvíkur, var fyrsta geðsjúkrahúsið á Englandi, þ.e.a.s. stofnun af slíku tagi sem stóð undir nafni en var ekki bara hryllings-geymsla undir hlekkjaða geðsjúklinga. Sá sem stofnaði Retreat árið 1792 var William Tuke, kvekari og te-kaupmaður. Kvekarar voru ólíkir samtímamönnum sínum að því leyti að þeir litu á geðsjúka sem veikt fólk og töldu að því gæti batnað við mannúðlega umönnun og réttar aðstæður. Barnabarn Williams, Samuel Tuke, skrifaði bók um meðferðina sem veitt var á Retreat  og þar kemur fram (á s. 100) að prjón var álitið æskilegur hluti af meðferð geðsjúkra kvenna. Kannski voru nálapúðarnir sem sjúklingarnir á Retreat prjónuðu seldir sem gjafavara?

Vegna ofsókna heimafyrir fluttust margir kvekarar vestur um haf og urðu sérstaklega áhrifamiklir í Pennsylvaníu. Þeir reistu mörg hæli fyrir geðsjúka þar vestra og þeirra er sérstaklega minnst í sögu geðlækninga fyrir mannúðlega meðferð og virðingu fyrir sjúklingunum, ólíkt því sem tíðkaðist á hælum og sjúkrahúsum á vegum hins opinbera eða undir stjórn lækna.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Kvekarar komu víðar við sögu bættra mannréttinda og sér þess einnegin stað í þeirra nálapúðum s.s. sjá má á myndinni hér að ofan. Nefndur Wilberforce var þó ekki kvekari heldur breskur stjórnmálamaður sem barðist gegn þrælahaldi og tókst ásamt fylgismönnum sínum að fá samþykkt lög sem bönnuðu að bresk skip flyttu afríska þræla til breskra nýlenda, árið 1807. Það var hins vegar ekki fyrr en mánuði eftir lát hans 1833 sem lög sem bönnuðu þrælahald með öllu voru samþykkt í breska þinginu.

Fleiri nálapúðar með þessu merki eru til og eru yfirleitt taldir verk kvekara, bæði bandarískra og breskra. Aftan á einum þeirra stendur „Am I not your Sister?“

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Nú eru dagar prjónuðu nálapúðanna liðnir þótt komið sé í dálítið tísku að prjóna eftirlíkingar af þeim, á örfína prjóna og úr fínu silkigarni. Mér hefur aðeins dottið í hug hvort jólakúlurnar vinsælu (sem komu fram á sjónarsviðið á þessari öld, kannski ekki fyrr um 2010) sæki fyrirmynd sína í nálapúða kvekara. Og væri þá ekki upplagt að prjóna einhver friðarins slagorð í næstu jólakúlu?

jolakulur

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta

A Modern Campain‟ á Remembering Slavery Online Exhibition. Tyne&Wear archives&museums.

Quaker Sympathy. Nilly Hall.

The Retreat – York, High Royds Hospital.

Harlow, Eve. The Art of Knitting. 1977.

Nargi, Leila. Knitting Around the World. 2011.

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting, önnur útg. 1989.

Utenand, Erica. A Quaker Pinball to Knit. PieceWork, 17(5) 2009.