Eyvindur lambi Kárason hefur sjálfsagt verið myndarmaður, a.m.k. er sagt að Þórólfur Kveld-Úlfsson hafi líkst honum og Ölvi, bróður hans.

Sem ungur maður var Eyvindur í víking og græddi vel á því.  Síðan sinnti hann búi með föður sínum í nokkur ár, uns hann gekk til liðs við Harald konung hárfagra og barðist með honum í Hafursfjarðarorustu, 885.  Eftir það hefur hann sennilega dvalist við hirð konungs.

Eftir fall Þórólfs Kveld-Úlfssonar, árið 890, vill Eyvindur skiljanlega losna úr hirðvistinni, en þá býður konungur honum ekkju Þórólfs, Sigríði á Sandnesi, ásamt "öðrum eigum" Þórólfs.  Eyvindur þekktist boðið, kvæntist Sigríði og settist að í Sandnesi.  Þau eignuðust nokkur börn.  Eyvindur hélst í vináttu við konung meðan þeir lifðu báðir.