[Var Egill alkóhólisti?] [Egill Skallagrímsson]
Hæpin dæmi sem kunna að renna stoðum undir alkóhólisma Egils
(en er einnig auðvelt að skýra með öðrum hætti)


„Áfengi hefur áhrif á sykurmagn lifrar og stjórnun blóðsykurs. ... Hjá alkóhólistum virðist þessari stjórnun vera áfátt svo að þeir þola illa föstur, og blóðsykurmagn líkamans minnkar mjög.  Þetta getur leitt til dauða og er reyndar talið einhver algengasta orsök skyndidauða meðal alkóhólista.  Skyndileg lækkun blóðsykurs getur líka leitt til yfirliðs og svima sem er algengt umkvörtunarefni ofdrykkjufólks.“ 
(Óttar Guðmundson. 1992:139)
Egill reynir sjálfsvíg eftir lát Böðvars, sonar síns.  Hann lokar sig inni og ætlar að svelta sig í hel.  Þetta kann að virðast tímafrek aðferð til sjálfsvígs en e.t.v. hefur Egill tekið eftir því að hann þyldi föstur afar illa, eins og aðrir alkóhólistar.  Er hugsanlegt að Egill hafi valið þessa aðferð af því hann hafi áður merkt áhrif matarleysis á eigin kroppi?

Sennilegra er þó að Egill sé að leita eftir samúð og vilji láta vorkenna sér, en sé ekki raunverulega að hugsa um að farga sér.  Hann hefði varla verið í vandræðum með áhrifaríkari brögð hefði honum verið alvara.
(80. kafli)

 

Skortur á B1 vítamíni  (tíamíni), vegna mjög mikillar drykkju,  getur valdið Korsakoffs geðtruflun.  Einkenni hennar eru ofskynjanir, tap á skammtímaminni og tilheyrandi tilbúnar sögur til að skálda í eyðurnar. Einkennin koma misjafnlega sterkt í ljós eftir því hve drykkjan hefur verið mikil en heilaskaðinn er venjulega talinn ólæknandi. 
(Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:94 og Jóhannes Bergsveinsson. 1997 a)
Á efri árum segir Egill Einari skálaglamm ýmsar frægðarsögur af sér, „en það tal þótt Egli gott.“ (81. kafli)  Ýkjukenndar frásagnir á borð við „Börðumst eg einn við átta en við ellefu tvisvar.“ (50. vísa)  kunna að vera uppspuni sem Egill trúir sjálfur en stafa einkum af lélegu minni vegna heilahrörnunar af áfengisneyslu.  Allt eins líklegt er þó að þetta sé bara venjulegt karlagrobb í ellinni.
Skortur á B vítamínum getur valdið úttaugabólgum sem eru skemmdir á taugum utan mænu og heila  Sjúkdómurinn hefur áhrif á útlimi, einkum fætur og fótleggi.  Alkóhólistar á síðari stigum, með óbætanlegar úttaugabólgur, eiga afar erfitt með gang.  (Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:93).  Rýrnun á litla heila vegna ofneyslu áfengis veldur alvarlegum gangtruflunum og jafnvægisleysi, sem eykur líkur á að detta. Þessar breytingar á litla heila eru óbætanlegar. 
(Óttar Guðmundsson. 1992:133, Jóhannes Bergsveinsson. 1997 a) og ALCOHOL ALERT nr. 40, 1998).
Jafnvægisleysi og gangtruflanir sem hrjá Egil á ellinni, svo sem þegar hann „fellur einn saman“  (88. kafli)  gætu stafað af langvarandi áfengisneyslu.

Líklegra er þó að Pagets sjúkdómi sé um að kenna.

„Sjónskerðing sem er annar sjaldgæfur sjúkdómur, finnst í um það bil einum af hverjum tveimur hundruðum þeirra alkóhólista sem lagðir eru inn á sjúkrahús.  Einkennandi fyrir hana er aukin deyfð eða myrkvun sjónar ...“ (Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:94). Agli glapnaði heyrn og sýn og loks varð hann alveg sjónlaus, skömmu fyrir andlátið.  (88. kafli)

Sömuleiðis er líklegra að sjónskerðing og blinda stafi af Pagets sjúkdómi.
 

 

Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir