Mósey (Moussa) á Hjaltlandi
Turnar eins og sá sem sést hér á myndinni að ofan finnast víðar á Hjaltlandi. Þeir kallast 'brochs'. Turninn á Mósey er frá járnöld. Víkingar nýttu sér turninn á sínum tíma. Hann er frægur fyrir að hafa veitt skjól tveimur hjónum á flótta.Um 900 komu þau Björn Brynjólfsson og Þóra hlaðhönd Hróaldsdóttir hingað. Þau dvöldu einn vetur í turninum og Björn gerði brúðkaup sitt til Þóru, þótt ekki væri það með samþykki bróður hennar, Þóris hersis Hróaldssonar. Þetta brúðkaup átti svo eftir að draga dilk á eftir sér þegar deilur hófust um arf Ásgerðar, dóttur Björns og Þóru og eiginkonu Egils Skalla-Grímssonar.
Hitt dæmið er frá 1153. Erlendur nokkur rændi Margréti, móður Haralds Maddaðarsonar jarls á Orkneyjum og flýði með hana til Móseyjar. Haraldur jarl elti þau og hóf umsátur um turninn en tókst ekki að flæma þau út. Loks gafst Haraldur upp og sigldi á brott. Sem betur fer tókust síðar sættir með Erlendi og Haraldi og Erlendur gat kvænst Margréti. Frá þessu segir í Orkneyingasögu.
Árið 1774 bjuggu 11 fjölskyldur á eynni en árið 1861 var hún komin í eyði.
Fróðleikur um turninn á Mósey var einkum byggt á vefsíðunni Brochs, á
http://www.shetland-museum.org.uk/museum/collections_and_history/archaeology/brochs.htm. Sú síða er nú týnd en áhugasömum er bent á http://en.wikipedia.org/wiki/Broch_of_Mousa
Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir