Þórir hersir Hróaldsson


Þegar Egils saga hefst er Hróaldur jarl yfir Firðafylki en Auðbjörn hét konungur fylkisins.  Haraldur hárfagri sigraði Auðbjörn konung, Hróaldur játaði honum trúmennsku og hélt því jarlstigninni í skjóli Haralds.  Þórir, sonur Hróalds, var í barnæsku í fóstri hjá Kveld-Úlfi og var jafngamall Skalla-Grími, sennilega fæddur um  863. Þeir Skalla-Grímur voru miklir mátar, auk þess að vera fóstbræður.  Þórir varð snemma lendur maður Haralds konungs hárfagra, þ.e. hafði ákveðinn rétt og skyldur (svipað og ríkisstarfsmenn hafa nú).  Þórir var kallaður hersir, sem talið er að þýði einhvers konar héraðshöfðingi, svo hann hefur verið mjög háttsettur.

Þórir átti fagra systur, Þóru hlaðhönd, og var hún undir forsjá hans, eftir að Hróaldur lést. Björn Brynjólfsson hreifst af Þóru og bað hennar en Þórir synjaði honum ráðahagsins.  Björn rændi þá Þóru og fór seinna með hana úr landi.  Þetta var auðvitað hin mesta svívirða fyrir Þóri og Haraldur konungur gerði Björn útlægan úr Noregi og réttdræpan hvar sem í hann næðist.  Björn fór til Íslands og fyrir tilstilli Skalla-Gríms tókust sættir með honum og Þóri eftir nokkur ár. Þó var óljóst hvort sættirnir væru afturvirkar, þ.e. hvort Ásgerður Bjarnardóttir teldist hjónabandsbarn eða ekki.

Þórir hersir fóstraði Eirík blóðöxi, son Haralds hárfagra.  Eiríkur tók við völdum í Noregi af föður sínum, þegar hann hafði aldur til.

Sonur Þóris hét Arinbjörn.  Hann varð besti vinur Egils.  Þeir bræður, Egill og Þórólfur, dvöldu á heimili Þóris hersis í mörg ár;  fyrst Þórólfur og seinna þeir bræður báðir.   Þegar Egill lenti í útistöðum við Eirík blóðöxi var það Þórir sem sá um að greiða bætur fyrir þá menn sem hann drap og fá  Eirík blóðöx til að fallast á að leyfa Agli að dvelja í Noregi.

Þórir hersir dó einhvern tímann um 937.  Arinbjörn, sonur hans, tók við búinu og gerðist lendur maður Eiríks konungs blóðaxar.
 
 

Ætt Ásgerðar