[Egill í Sýberíu]


Kóngar á tímum Egils sögu


Í upphafi Egils sögu er Haraldur lúfa að berjast til valda í Noregi.  Honum tókst ætlunarverk sitt og var eftir það kallaður Haraldur hárfagri.  Ríki hans stóð frá því um 870 - 945.  Haraldur settist síðan í helgan stein en fól Eiríki blóðöxi, syni sínum, að stjórna Noregi.  Þegar Haraldur lést blossuðu upp deilur milli Eiríks og bræðra hans um konungdóm í Noregi.  Þeir börðust og  hafði Eiríkur sigur.  Hálfbróðir Eiríks, samfeðra, var Hákon, sem alinn var upp á Englandi hjá Aðalsteini konungi.  Þess vegna var hann kallaður Hákon Aðalsteinsfóstri.  Hákon krafðist valda í Noregi og fór svo að hann steypti Eiríki blóðöx af stóli og gerðist sjálfur konungur í Noregi, 934 - 960.  Eiríkur hrökklaðist til Englands og fékk ríki í Norðimbralandi, gegn því að gerast landvarnarmaður Englandskonungs.  Seinna meir hugðist Eiríkur endurheimta konungdóm í Noregi en tókst það ekki.  Aftur á móti sigraði Haraldur gráfeldur, sonur Eiríks, Hákon Aðalsteinsfóstra löngu seinna og varð kóngur yfir Noregi. 
Tengsl Skallagríms, Egils
og vina þeirra við 
konungsættina í Noregi.

Þórir hersir, fóstbróðir Skallagríms, var vinur Haralds hárfagra og fóstraði Eirík blóðöxi.  Skallagrímur var hins vegar svarinn óvinur Haralds hárfagra.  Eiríkur blóðöx er því fóstbróðir Arinbjarnar, vinar Egils. Egill er hins vegar svarinn óvinur Eiríks blóðaxar. Arinbjörn fóstrar son Eiríks blóðaxar, Harald gráfeld. 
 

 

Aðalsteinn hinn sigursæli ríkti á Englandi 925 - 940.  Hann hafði sigur í miklum bardaga við Ólaf Skotakonung, sem þeir Egill og Þórólfur tóku þátt í.  Aðalsteinn fóstraði Hákon, son Haralds hárfagra.  Hann leyfði Eiríki blóðöx að setjast að í Jórvík á Englandi, eftir að Eiríkur hafði hrakist úr landi í Noregi.  Eftir lát Aðalsteins tók Játmundur bróðir hans við völdum. 
Tengsl Egils og Arinbjarnar
við konung á Englandi og
fósturson hans.
 

 

Aðalsteinn Englandskonungur heldur mjög upp á Egil eftir glæsilega frammistöðu hans í bardaganum við Vínu.  Hákon Aðalsteinsfóstri er samt ekki hrifinn af Agli vegna framkomu hans fyrrum í Noregi.  Hákon vantreystir Arinbirni því Arinbjörn er fóstri Haralds gráfeldar Eiríkssonar, sem Hákon býst við að reyni að steypa sér af stóli. 

 
Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir