Arinbjörn Þórisson


Arinbjörn hét sonur Þóris hersis. Hann var snemma skörulegur maður og hinn mesti íþróttamaður, segir í Eglu.   Af því Þórir hersir fóstraði Eirík blóðöxi, sem seinna varð konungur í Noregi, var Arinbjörn fóstbróðir konungsins.  Hann varð lendur maður konungs eftir að Þórir faðir hans lést og í lok stjórnartímabils Eiríks blóðaxar var Arinbjörn orðinn höfðingi yfir öllu Firðafylki.

Arinbjörn varð strax góður vinur Egils Skalla-Grímssonar, þegar hann kom til Noregs 17 ára að aldri, þótt Arinbjörn væri nokkru eldri en Egill. Vinátta þeirra hélst til æviloka og reyndist Arinbjörn Agli ævinlega vel, var jafnvel tilbúinn að leggja líf sitt í sölurnar fyrir hann ef því var að skipta.

Engum sögum fer af fjölskyldu Arinbjarnar svo sjálfsagt hefur hann verið ókvæntur og barnlaus.  En hann ól upp Harald, son Eiríks blóðaxar og Gunnhildar, sem seinna varð konungur í Noregi og var kallaður Haraldur gráfeldur.  Einnig ól Arinbjörn upp Þorstein Þóruson, systurson sinn.

Af því Arinbjörn var svo nátengdur Eiríki blóðöx fylgdi hann honum gegnum súrt og sætt.  Þegar Eiríkur hröklaðist frá völdum í Noregi og fluttist til Jórvíkur á Englandi fór Arinbjörn með.  Eftir að Eiríkur blóðöx féll í vesturvíking flutti Arinbjörn aftur til Noregs og var í sæmilegum sættum við Hákon Aðalsteinsfóstra, þáverandi konung í Noregi, uns Egill kom í heimsókn.  Þá kólnaði heldur milli þeirra konungs, þegar Arinbjörn þurfti að ganga erinda Egils.  Arinbjörn ákvað að halda til Danmerkur og ganga í lið með Haraldi gráfeldi Eiríkssyni, fóstursyni sínum.  Þegar Haraldur gráfeldur hafði sigrað Hákon Aðalsteinsfóstra og tekið við konungdómi í Noregi, flutti Arinbjörn enn einu sinni til Noregs og tók við sínum fyrri völdum í Firðafylki.  Það bjó hann uns hann féll í orustu í Danmörku, þar sem hann var að berjast fyrir Harald gráfeld.  Sjálfsagt hefur Arinbjörn verið milli fimmtugs og sextugs þegar hann lést.
 
 

Ætt Ásgerðar