Steinn Skalla-Gríms í Rauðanesi

Skalla-Grímur var járnsmiður góður og lét hann gera smiðju niður við sjóinn skammt fyrir vestan Borg. Hét sá staður Raufarnes í þá daga en kallast núna Rauðanes.

Skalla-Grímur fann engan stein sem var nógu sléttur eða harður að hann gæti hamrað járn þar á. Því var það kvöld eitt að hann réri einsamall á áttæringi á haf út. Þar kafaði hann eftir steini sem honum líkaði og flutti til lands. Steininn setti hann fyrir utan smiðjuna.

Í dag er smiðjan og ummerki um hana því miður horfin nema steinninn en hann er staðsettur í fjöruborði skammt frá þar sem talið er að smiðjan hafi staðið.

Ég sem skrifa þessar línur á heima á þessari jörð og hef alist upp við ýmiss konar leiki tengda Skalla-Grími. T.d. fóru margir klukkutímar og dagar í fjársjóðsleit því okkur krökkunum var alltaf sagt að silfur Skalla-Gríms væri falið í nágrenninu. Einnig voru kraftarnir prófaðir á steininum því allir vildu líkjast Skalla-Grími að afli en engum tókst það, jafnvel þótt við værum nokkur saman við að reyna að lyfta steininum.

Halldóra

Steinn Skalla-Gríms í Rauðanesi




Laxdæla Snorra Edda Snorri Sturluson