Maður Freyju var Óður en hann var löngu farinn frá henni og grét hún gulltárum yfir fjarveru hans. Hún fór með ókunnum þjóðum að leita hans og í þeim ferðum gaf hún sér ýmis heiti, eins og t.d. Mardöll, Hörn, Gefn og Sýr. Eina afkvæmi Freyju var dóttirin Hnoss sem hún eignaðist með manni sínum.
Freyja á þann bæ á himni er Fólkvangur heitir, og hvar sem hún ríður til vígs þá á hún hálfan val en hálfan Óðinn. Salur hennar, Sessrúmnir, er mikill og fagur. Hún á hálsmenið Brísingamen og vagn sem dreginn er af 2 köttum. Einnig á hún valsham, sem hún lánaði m.a. Loka Laufeyjarsyni eitt sinn er hann þurfti að komast í Jötunheima.