Freyr er hinn ágætasti af ásum. Snorri lýsir Frey sem fögrum yfirlitum, máttugum og góðum. Hann ræður fyrir regni og skini sólar og þar með ávexti jarðar og á hann er gott að heita til árs og friðar. Hann ræður fésælu manna.
Freyr var mikið dýrkaður í Svíþjóð og sést það á því að Svíakonungar ráku ættir sínar til Freys. En á Íslandi var Freyr næstur Þór af goðum. Örnefni tengd Frey eru víða í Svíþjóð en á Íslandi finnast einungis tvö, sem eru Freysnes og Freyshólar. Og í Reykjavík eru til Álfheimar sem voru heimkynni Freys. Þar bjó hann ásamt konu sinni, Gerði Gymisdóttur. Hana sá hann fyrst er hann settist í hásæti Óðins, Hlíðskjálf. Freyr sér hana er hann horfir í norður og verður þá svo ástfanginn að hann talar ekki, né borðar eða sefur. Skírnir, skósveinn Freys, fer til Gerðar og fær hennar fyrir Frey, en fær í staðinn sverð Freys, sem berst sjálft. Eftir þetta er Freyr vopnlaus og það verður hans bani í Ragnarökum.