Reykholt nú á tímum

Margt hefur breyst í Reykholti síðan Snorri Sturluson bjó þar á árunum 1206- 1241. Helstu breytingarnar eru þær að íbúum hefur fjölgað, t.d. hefur myndast þar á síðustu árum nokkurskonar húsaþyrping þar sem u.þ.b. 70 manns eiga heimili. Einnig hafa mannvirki orðið stærri og tilkomumeiri. Helstu byggingar eru gamla kirkjan, reist 1886-87, Héraðsskólinn, reistur 1930-31 og nú er ný og stórglæsileg kirkja nánast fullbyggð.

Héraðsskólinn hefur verið starfandi í Reykholti frá því skólahúsnæðið var reist og fram til ársins 1995 en þá var skólinn gerður að útibúi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og starfar nú í samráði við hann. Skólinn heitir því nú Fjölbrautaskóli Vesturlands í Reykholti. Í hópi nemenda sem unni þessar síður um Snorra er einmitt einn sem hóf framhaldsskólanám í Reykholti.

Í Reykholti hefur verið sett á stofn Snorrasafn, en í því á að varðveita sem flestar útgáfur af ritum Snorra Sturlusonar, svo og bækur eða rit sem um hann hafa verið skrifuð fyrr og síðar.

Í Reykholti er setlaug frá dögum Snorra. Frá lauginni lágu jarðgöng til bæjar og hefur hluti þeirra verið grafinn upp og eru bæði laugin og göngin varðveitt til minja um Snorra Sturluson.

Kirkjugarðurinn við gömlu laugina er einnig mjög merkilegur því í honum er reitur sem nefnist Sturlungareitur, en þar er talið að Snorri og fleiri Sturlungar séu grafnir.

Reykholt er í röð merkustu sögustaða Íslands vegna búsetu Snorra Sturlusonar og því eftirsóttur viðkomustaður ferðafólks. Á sumrin er skólahúsnæðinu breytt í Eddu-hótel þar sem þörfum ferðafólks er fullnægt, bæði með mat og drykk og gistiaðstöðu.