Órækja

Órækja er sá af börnum Snorra sem mestar sögur fara af. Hann grípur langmest inn í sögu Snorra og oftlega á ógæfusaman hátt, enda virðist framkoma föður hans gagnvart honum oft á tíðum vafasöm. Órækja ólst upp hjá Snorra í Reykholti og 27 ára að aldri var hann látinn ganga að eiga Arnbjörgu, systur Kolbeins unga, til að binda endi á deilu milli Snorra og Kolbeins unga um arf Hallberu. Þrátt fyrir þessi tildrög hjónabandsins, reyndist hún honum góð kona og stóð með honum þegar á reyndi.

Órækja var ógæfumaður og virðist allstaðar hafa fylgt honum ófriður og órói og endaði það með því að hann var dæmdur í þriggja ára útlegð, en hann lést í útlegðinni árið 1245.