Þórdís var orðin nokkuð eldri en Ingibjörg þegar hún var gefin rosknum höfðingja, sem víða hafði komið við sögu við vígaferli og ástarmál, Þorvaldi Vatnsfirðingi. Hann var síðan brenndur inni, en Þórdís bjargaðist og stóð þá uppi sem ekkja eftir stutt hjónaband. Hún tók svo við búi þeirra í Vatnsfirði. Hún eignast síðan barn með Ólafi Æðeyingi, en er svo stuttu síðar komin í tygi við höfðingjann á Hrafnseyri við Arnarfjörð, Odd Álason. Hann var giftur en hann yfirgaf fjölskyldu sína
fyrir Þórdísi og eignast síðar með henni dóttur. Órækja drepur síðan Odd vegna gruns um samsæri gegn sér. Þórdís hélt áfram að búa í Vatnsfirði og virtist um tíma vera hæst ráðandi við Ísafjarðardjúp.