Hildiríðarsynir 

Hildiríður Högnadóttir átti tvo syni með Björgólfi á Torgum.  Þeir voru nefndir Hárekur og Hrærekur, en oft voru þeir bara kallaðir Hildiríðarsynir, enda oftast saman.  Þeir voru fríðir menn en smávaxnir og ekki miklir kjarkmenn.  Hárekur hafði ævinlega orð fyrir þeim.

Hildiríðarsynir ólust upp í Leku, hjá Högna afa sínum, eftir að Brynjólfur hálfbróðir þeirra rak móður þeirra með þá í burtu, þegar Björgólfur lést.   Hildiríðarsyni skorti ekki fé, því Högni var vel stæður, en þeim sveið sárt að vera ekki viðurkenndir því þeir fengu engan arf eftir Björgólf föður sinn.  Þeir reyndu að rukka Brynjólf og síðar Bárð Brynjólfsson en án árangurs.

Þegar Bárður lést arfleiddi hann Þórólf Kveld-Úlfsson að öllum eigum sínum.  Hildiríðarsynir snéru sér þá til Þórólfs og báðu um að fá einhvern hluta eignanna því þær hefðu tilheyrt Björgólfi, föður þeirra, upphaflega og þeir hefðu aldrei fengið greiddan föðurarf sinn.  Þórólfur svaraði með skætingi og sagði að þeir væru alls ekki hjónabandsbörn og ættu því ekki rétt á arfi.

Hildiríðarsynir brugðu þá á það ráð að rægja Þórólf við Harald konung, til að koma honum á kné.  Þeir töluðu ævinlega illa um Þórólf, lugu upp á hann og snéru öllu sem hann gerði á versta veg.  Smám saman lagði konungur trúnað á orð Hildiríðarsona, enda voru þeir duglegir að rökstyðja mál sitt.  Konungur gerði loks Torgar upptækar og afhenti Hildiríðarsonum búið, ásamt embætti skattheimtumanns á Finnmörku.  Þeim hafði nú tekist ætlunarverk sitt, sem var að fá eigur þær sem eitt sinn tilheyrðu Björgólfi.

Þegar Haraldur konungur hafði vegið Þórólf fór Ketill hængur, fjarskyldur frændi Þórólfs, með 60 manna lið að Torgum og drap Hildiríðarsyni.

Ætt Hildiríðarsona