Berg-Önundur Þorgeirsson


Berg-Önundur var sonur Þorgeirs þyrnifótar, bónda á Aski í Fenhring, á Hörðalandi.  Hann var hverjum manni stærri og sterkari en var bæði ágjarn og ódæll (erfiður).  Berg-Önundur átti tvo bræður, þá Atla hinn skamma (sem var heldur lágvaxinn, en rammur að afli) og Hadd.

Berg-Önundur kvæntist Gunnhildi Bjarnardóttur, hálfsystur Ásgerðar.  Þegar Björn Brynjólfsson andaðist tók Berg-Önundur allt sem hann lét eftir sig;  hirti lausafé en leigði jarðirnar.  Um sama leyti komst Berg-Önundur í náið vinfengi við konungshjónin í Noregi, einkum þó Gunnhildi drottningu.

Þetta frétti Egill Skalla-Grímsson  og þótti honum Ásgerður hlunnfarin því hún fékk engan  föðurarf.  Egill dreif sig til Noregs,  fór á fund Berg-Önundar og rukkaði arf Ásgerðar.  En Berg-Önundur brást ókvæða við og  útlistaði þá skoðun sína að Ásgerður væri þýborin að móðerni, þ.e. fædd af ambátt.  (Hann á sennilega við að Þóru hafði verið rænt þegar Ásgerður kom undir.)  Egil reyndi að reka mál gegn Berg-Önundi á Gulaþingi en Gunnhildur drottning lét bróður sinn hleypa upp dómnum.  Þá bauð Egill Berg-Önundi hólmgöngu en uppskar einungis reiði konungs með því tiltæki og varð Egill að flýja af vettvangi.  En Egill snéri aftur, þegar allir héldu að hann væri farinn til Íslands, fór að Aski, drap Berg-Önund og Hadd (auk fjölda annarra) og brenndi bæinn.  Síðan hélt hann til Íslands.

Seinna reyndi Egill að rukka Atla hinn skamma sem tók við eigum Berg-Önundar eftir víg hans.  Egill var þá að koma úr mikilli svaðilför til Jórvíkur á Englandi, en hafði tekið að sér að fylgja Þorsteini Þórusyni til Hákonar Noregskonungs og aðstoða hann við erindi sín.  Atli sagði af og frá að hann léti Egil fá fé en benti Agli á að greiða sér frekar bætur fyrir bræður sína.  Egill stefndi Atla til Gulaþings en þegar þangað kom sagðist Atli geta boðið tylftareið þess efnis að hann hefði alls ekki þetta fé undir höndum sem Egill vildi fá.  Egill  skoraði þá Atla á hólm og skyldu þeir berjast um eigur þær sem Björn Brynjólfsson hefði átt.  Atli samþykkti en í hólmgöngunni  beitti hann göldrum svo sverð Egils beit ekki þegar hann fékk höggstað á Atla.  Egill hrinti þá Atla svo hann datt á bakið;  síðan grúfði Egill sig yfir hann og beit sundur á honum barkann!

Eftir þetta eignaðist Egill loks þessar jarðir sem hann taldi að Ásgerður kona sín hefði átt að fá í föðurarf.
 
 

Ætt Ásgerðar