Egill Skalla-Grímsson

Egill var yngsti sonur hjónanna að Borg, þeirra Beru og Skalla-Gríms.  Hann var snemma líkur föður sínum, dökkur yfirlitum og ljótur.  Strax í barnæsku sáust eðliseiginleikar Egils vel, s.s. hve hann var skáldmæltur, drykkfelldur og ofstopafullur.

Þegar Egill var 17 ára gamall fór hann með Þórólfi, bróður sínum, og Ásgerði, uppeldissystur sinni, til Noregs.  Þar eignaðist Egill sinn besta vin, Arinbjörn Þórisson.  Í mörg ár bjó Egill heima hjá Arinbirni og bar ekkert til tíðinda.

En svo var það árið 935, um sama leyti og Þórólfur kvæntist Ásgerði, að Agli sinnaðist við ráðsmann Eiríks blóðaxar Noregskonungs.  Sá hét Bárður og drap Egill hann.  Eftir það rak hvert atvikið annað uns Egill var gerður útlægur úr Noregi.  Egill fór til Englands með bróður sínum, Þórólfi, þar sem Þórólfur féll í orustu. Aðalsteinn Englandskonungur hafði mikið álit á Agli og bauð honum gull og græna skóga ef hann vildi setjast að í Englandi, en það vildi Egill ekki að svo stöddu.  Hann hélt til Noregs og kvæntist Ásgerði, fyrrum mágkonu sinni.  Síðan héldu þau til Íslands þar sem Egill bjó félagsbúi á móti föður sínum, að Borg.

Egill og Ásgerður eignuðust 5 börn, auk þess sem hann gekk Þórdísi Þórólfsdóttur í föðurstað.  Uppáhaldssonur Egils, Böðvar, drukknaði á unga aldri og tók Egil það svo sárt að hann hugðist stytta sér aldur. Þorgerður, dóttir hans, fékk hann þó ofan af því og Egill orti sitt frægasta kvæði, Sonatorrek, eftir Böðvar og Gunnar, annan son sem hann hafði einnig misst.

Egill fór í þrjár reisur til útlanda eftir að hann settist að á Borg með Ásgerði.  Í þeim ferðum bar fjöldamargt til tíðinda sem ekki verður rakið hér.  En Egill kom alkominn heim til Íslands árið 957, enda farinn að nálgast fimmtugsaldurinn.

Þegar Ásgerður dó, árið 974, brá Egill búi og fluttist til Þórdísar, fósturdóttur sinnar, að Mosfelli í Mosfellssveit.  Þar bjó hann til dauðadags en Egill andaðist í hárri elli árið 990.

Egill var fyrst heygður að Tjaldanesi í Mosfellsbæ.  Þórdís lét flytja lík hans í kirkjugarð að Hrísbrú, eftir kristnitöku.  Meir en 100 árum síðar var kirkjan að Hrísbrú rifin og þá fundust bein Egils undir altarisstaðnum.  Þau voru svo flutt í kirkjugarðinn að Mosfelli.