[Egill Skallagrímsson] [Egill í Sýberíu]
 
 

Alkohólismi er langvinn hegðunartruflun sem einkennist af endurtekinni drykkju alkohóls sem ekki er í neinu samræmi við venjulega neyslu í samfélaginu og skaðar heilsufar og félagslega stöðu einstaklingsins.  Alkohólisti drekkur svo mikið að hann er háður áfengi og sýnir merki  um geðtruflun og versnandi líkamlega heilsu.

(Skilgreining Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar á sjúkdómnum alkohólisma)
 

 
Alkohólismi þróast smám saman og vex stig af stigi

Á síðari árum greina sumir sjúkdóminn alkohólisma í undirflokka.  Alkohólismi II („Type II alcoholism“) einkennist af eftirfarandi:
a) afar mörg einkenni erfast frá föður (til sonar)
b) drykkja hefst snemma (oft á unglingsaldri, skv. nútímaskilgreiningu)
c) vart verður andfélagslegrar og stundum ofbeldisfullrar hegðunar.

Alkohólismi II og andfélagslegur persónuleiki (ASPD, antisocial personality disorder) fara oft saman og ráðast hugsanlega af sömu genum. 

(ALCOHOL ALERT nr. 38, 1997 og Type I and Type II Alcoholism: An Update. 1996)


 

Egill bar svip af Skallagrími, föður sínum, sbr. „En er hann óx upp, þá mátti brátt sjá á honum, að hann myndi verða mjög ljótur og líkur föður sínum, svartur á hár. ... Heldur var hann illur viðureignar, er hann var í leikum með öðrum ungmennum.“ (31. kafli) 

Gefið er í skyn að óstýrilæti og stjórnleysi samfara neyslu áfengis hafi snemma gert vart sig hjá Agli.  Þetta kemur t.d. fram þar sem  faðir hans segir:   „Ekki skaltu fara ... því þú kannt ekki fyrir þér að vera í fjölmenni þar er drykkjur eru miklar er þú þykir ekki góður viðskiptis að þú sért ódrukkinn.“ (63. kafli)

Miðtaugakerfi alkohólista virðist aðlagast áfengisáhrifum í byrjun og veldur það auknu þoli.  Sömuleiðis afkastar lifrin meiru með sömu afleiðingum.  Þetta gerist mjög hratt eftir að menn byrja að neyta áfengis.  Svo virðist einnig sem afkomendur alkohólista þoli áfengi betur en aðrir og þurfi að drekka meira til að finna á sér.  Flestir alkóhólistar geta, á upphafstigi, drukkið meira en vinir þeirra og virðast bíða minni skaða af.
(Óttar Guðmundsson. 1992:129-130 og Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:57)
25 ára gamall (sbr. Óskar Halldórsson 1975:12) er Egill staddur á dísablóti  hjá Atleyjar-Bárði.  Þar kemur fram að þol Egils er meira en annarra manna.  Þótt förunautar Egils séu ósjálfbjarga af drykkju drakk hann sjálfur á við tvo og „aldregi drakk svo að eigi segði hann sig þyrsta.“  Í lok veislunnar missir Egill stjórn á sér og drepur Bárð, bústjóra og vin konungshjóna, án þess að hugsa um afleiðingarnar. (44. kafli)
Geðrænir kvillar búa gjarna að baki áfengisneyslu.  Algengastur þeirra er taugaveiklun í ýmsum myndum.  Einkenni hennar er m.a. spenna og ótti.  „Vínandi eyðir þessum einkennum gjarnan, a.m.k. í bili. Taugaveiklun fylgja oft óhóflega miklar hömlur sem fram koma t.d. sem feimni, óframfærni og erfiðleikar við að njóta sín í samskiptum við annað fólk.“ 

(Jóhannes Bergsveinsson. 1997 b)

Á þessum yngri árum getur Egill enn skemmt sér og átt þokkaleg samskipti við aðra þótt undir áhrifum sé.  Dæmi um slíkt er í veislu jarlsins af Hallandi þar sem Egill kemst á séns með undurfagurri jarlsdóttur;  „Þá drukku þau saman um kveldið og voru allkát.“ (48. kafli)

Eftir fall Þórólfs er Egill í svo miklu losti að hann vill ekki þiggja drykk en þegar hann loks tekur við horni og drekkur (eftir að Aðalsteinn konungur hefur rétt honum digran gullhring) getur hann talað við fólk. (55. kafli)

Tengsl milli alkohólisma og alvarlegs kvíða sjást oft, einkum þegar hlé er gert á drykkju.  Mikill skjálfti, spenna, óróleiki og svefnleysi fer þó oftast að lagast eftir svona 4 til 5 daga.  Menn eru þó óeðlilega viðkvæmir fyrir ofsakvíðaköstum (panik) og kvíða svo mánuðum skiptir eftir að drykkju var hætt.

(ALCOHOL ALERT nr. 14, 1991)

Til Noregs heldur Egill á fund Ásgerðar.  Hann er afar þunglyndur og virðist loka sig af og kúra undir feldi.  Engum sögum fer af drykkju Egils.  Er hann að taka sig á til að ganga í augun á Ásgerði?  Óttast hann eigið stjórnleysi með drykkju? Stafar þunglyndið af því að Egill „er á hnefanum“? *   Egill tekur gleði sína á ný eftir brúðkaup þeirra Ásgerðar og afar veglega veislu af því tilefni. (56. kafli)

* „að vera á hnefanum“ er það að stöðva drykkju án þess að nokkur viðhorfsbreyting fylgi.  Þetta er algengur talsmáti meðal óvirkra alkohólista.

Þegar þol alkohólista minnkar og fráhvarfseinkenni verða algengari missir hann fljótt stjórn á drykkjunni.  Hann leitast sífellt við að forðast fráhvarf með því að drekka meira.  „Hraustir alkohólistar geta drukkið í marga daga eða margar vikur og eru með vafasamri aðferð að koma á jafnvægi milli vellíðunar vegna drykkju og aukinna kvala vegna fráhvarfseinkenna.“ 

(Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:80)

Stjórnleysi Egils eykst þegar á líður söguna sem og lýsingar benda til aukinnar drykkju.  T.d. hefur hann dvalið nokkra sólarhringa við drykkju heima hjá Gyðu, systur Arinbjarnar, og fengið sér svo öl í morgunverð þegar hann býðst til að berjast við Ljót hinn bleika.  Svo gætir hann þess að „þynnast ekki upp“ fyrir bardagann. (66. kafli)
Alkohól getur ýtt undir árásargirni eða ofbeldi með því að trufla eðlilega heilastarfsemi, sem alla jafna setur mönnum hömlur.  Slævð dómgreind getur blekkt mann til að mistúlka hegðun annarra og sjá ógnun í hverju horni.  (ALCOHOL ALERT nr. 38, 1997).  Einstaklingar sem bæla sterkar tilfinningar á borð við reiði og ótta geta misst taumhald á sér við áfengisneyslu.  Reiðin og óttinn brjótast þá fram.  „Hættan eykst ef drukkið er mikið áfengi, ekki gætt hófs og drukkið hratt.“ 
(Jóhannes Bergsveinsson. 1993:20)
Geðslag Egils verður æ ofsafengnara og sveiflast öfganna á milli.  Hámarki nær stjórnleysi samfara drykkju þegar Egill ælir framan í Ármóð skegg og krækir úr honum augað daginn eftir!  Þegar hér er komið sögu er Egill alveg sáttur við að vera einn á fylleríi og skiptir viðhorf og félagsskapur annarra hann engu máli.  (73. kafli).
Á lokastigi alkohólisma fara ofsóknarbrjálæði (paranoja) og vægur ótti að herja verulega á alkohólistann.  Hann er oft dauðhræddur við að fólk vilji honum illt.  „Réttlætingarnar, afneitanirnar og afsakanirnar hrynja til grunna og alkohólistinn situr uppi með sólundað og eyðilagt líf. “  Inn á milli nær alkohólistinn stuttum afvötnunartímabilum en fljótlega sækir aftur í sama horf. 
(Milam, James R. og Katerine Ketcham. 1986:112-113)
Þegar Þorsteinn klæðist sparislæðum föður síns og Egill bregst ókvæða við stafa viðbrögð hans e.t.v. af óhóflegri tortryggni, jafnvel ofsóknarbrjálæði (paranoju), sem stundum sést hjá langt gengnum alkóhólistum, ekki hvað síst í garð sinna nánustu.  (82.kafli)
Úr AA-bókinni:  Alkóhólismi er ólæknandi og endar með geðveiki eða dauða. (Finna tilvitnun) Rétt fyrir andlátið sýnir Egill merki um hreina geðveiki/stórmennskubrjálæði, þegar hann lætur sér detta í hug að dreifa silfri sínu yfir mannfjöldann á Þingvöllum til þess að geta hlustað á mannskapinn berjast!  (88. kafli)
Nokkur hæpin dæmi um alkohólisma Egils

Settu þig í spor Egils og svaraðu greiningarprófi sem finna má á heimasíðu SÁÁ.  Er Egill alki?
Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir