[Víkingaferðir Egils] [Egill Skallagrímsson] [Egill í Sýberíu]



Egill  fékk að fara í víkingaferð með Þórólfi, bróður sínum, vorið 936 (Óskar Halldórsson. 1975, s. 12).   Egill var þá 26 ára gamall.  Þeir bræður „bjuggu um sumarið langskip og fengu manna til og fóru um sumarið í Austurveg og herjuðu þar.  Fengu þeir of fjár og áttu orrustur margar og héldu um sumarið í Kúrland og lágu þar við land um hríð.  Þeir lögðu við landsmenn hálfs mánaðar frið og höfðu kaupstefnu við þá.  En er friði var lokið þá tóku þeir að herja. “ (46. kafli)

Þarna kemur ágætlega fram tvískiptur tilgangur víkingaferða, þ.e. þær gátu jafnt falist í verslun eða hernaði.

Í Kúrlandi lenti Egill í miklum lífsháska, þegar heimamenn tóku hann höndum, en komst þó heill á húfi til skips á ný.

Þórólfur og Egill héldu síðan er á leið sumarið til Danmerkur, „lágu þar enn fyrir á kaupskipum og rændu þar er þeir komust við. “  Þegar þeir komu í Eyrarsund rændu þeir kaupstaðinn í Lundi.  „Var þar tréborg um staðinn ... Varð þar mannfall mikið.  Rændu þeir kaupstaðinn en brenndu áður þeir skildust við. “ (47. kafli)

Þeir urðu að leita vars við Halland, vegna veðurs.  Arnfinnur jarl á Hallandi samdi víkingana um frið, enda þótti Þórólfi ekki taka því að ræna á Hallandi, „sagði að þar var land ekki auðugt.“ Þess í stað sátu þeir Þórólfur og Egill, ásamt völdum félögum, glæsilega veislu hjá jarlinum.

Loks halda bræðurnir til Brenneyja en „þar var í þann tíma víkingabæli mikið því þar sigldu kaupskip mjög í gegnum eyjarnar.“ (48. kafli)  Í lok viðburðaríks sumars sigla þeir svo heim til Þóris Hróaldssonar, þar sem þeir höfðu aðsetur í Noregi.
 
 
  


Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir