Þegar synir mínir voru smákrakkar (hvor um sig) vildu þeir endilega fá að sulla góða stund í baðkerinu áður en fljótvirk sturtan skolaði af þeim sandinn o.fl. um kvöldmatarbil. Það þurfti líka að finna til skipaflota og alls konar aksjón-kalla með í baðið; stundum rétt komst krakkinn oní með öllum þessum fylgihlutum.
Ábyrgðarlaust foreldrið (eins og ég) hékk á meðan yfir tölvunni eða ritgerðaryfirferð en kallaði reglulega, eiginlega ótt og títt: “Ertu ekki örugglega með hausinn uppúr?” Svo lengi sem afkvæmið, í bleyti í baðinu, svaraði spurningunni vissi foreldrið að allt var í lagi. Augljóslega hefði ekki verið hægt að svara ef krakkaskömmin lægi í kafi.
Nú fékk sá sautján ára að fara á húllumhæ norður í landi yfir verslunarmannahelgina. Útsjónarsamir foreldrar (annarra) höfðu sett upp ansi gott plan og skaffað ansi fínar aðstæður. Samt sem áður hefur mér þótt rétt að hringja a.m.k. einu sinni á dag til að vita hvort ekki sé örugglega allt í lagi. Unglingurinn er dauðpirraður á þessu tékki og lætur móður sína finna það. Ég kann samt ekki við annað en athuga statusinn; alveg eins og í gamla daga þegar ég þurfti staðfestingu á því að 3, 4, 5, 6 o.s.fr. ára gamalt barnið væri með hausinn upp úr.
Míns er lagður af stað heim og ekur sínum bíl – krakkinn er góður bílstjóri svo ég hef ekki tiltakanlegar áhyggjur af heimleiðinni. Vonandi hafa aðrir unglingar sem flestir haft hausinn upp úr um þessa svallhelgi.
Í gær skruppum við hjónin til þurrabúðarinnar og horfðum á Mömmu Míu. Mér þótti þetta aldeilis frábær mynd! Spurning hvort ég ætti að fá systur mína með á fimmtudagskvöldið en þá, altént í Laugarásbíó, verður “Sing along” sýning. Einhverja hef ég heyrt væla yfir að söguþráður myndarinnar væri ómerkilegur – en ekki hvað? Hafa óperur merkilegan söguþráð upp til hópa? Eða aðrir söngleikir? Yfirleitt eru þetta elskendur sem ná ekki saman fyrr en í lokin eða ná alls ekki saman og syngja fimm aríur á dauðastundinni með trukki! eða eitthvað álíka. (Ég hef verið að reyna að rifja upp söguþráðinn í Rauðu myllunni / Moulin Rouge en mér er eiður sær að ég man bara eftir lögunum.”
Enn hef ég ekki haft orku í að fínpússa útlit og linka en þetta hefst allt með hægðinni.