Snúið á ný til bloggheima

Ég ákvað að hverfa aftur til hollra lífshátta.  Hollir lífshættir eru m.a. að blogga og una sér við hannyrðir.  Þess vegna hef ég (í huganum) lagt drög að svartri klukku, klukkprjónaðri náttúrlega og rifjað upp ýmsar stillingar á þessu bloggi (ekki allar samt – man ekki hvar maður fer inn í kóðann sjálfan en reikna með að finna það fljótlega út).

Sumarið hefur annars liðið í velsæld, sem sjá má að nokkru leyti á myndasíðu mannsins, http://this.is/atli/album. Af eigin afrekum má helst nefna að ég las ævisögu mína undanfarin 4 ár (1500 bls. af bloggi). Mestallt var þetta nýtt fyrir mér og því mjög spennandi að vita hvernig ýmsum málum lyki 🙂  Þegar ég var farin að lesa í þriðja sinn setninguna “Ég var að klára Fólkið í kjallaranum. Hún er svakalega góð!” einsetti ég mér að  hía á hvern þann geðlækni sem heldur því fram að minnistap eftir raflostmeðferð dekki ekki nema nokkra mánuði!

Ég hef tekið ástfóstri við nýjar hannyrðir sem eru að búa til stafrænar úrklippubækur (“scrap”) af formæðrum mínum og for-hinu og þessu. Hef svifist einskis til að ná í heimildir!

Loks má nefna að ég hef fengið mér nýtt kjörorð eða möntru til að tyggja yfir sjálfri mér, til rósemdar og sáttar við heiminn. Ég var orðinn dulítið þreytt á “einn dag í einu”; “góðir hlutir gerast hægt / með hægðinni hefst það”, “gættu dagsins í dag því hann er lífið sjálft” o.s.fr. Í bíltúr okkar hjóna gerðum við stuttan stans í Húsafelli og þá sá ég þessi kjörorð á legsteini. Síðan hef ég komist að því að þetta er grafskrift á leiði Nikos Kazantzakis (1883 – 1957), frægasta kríska skáldsins, sem m.a. samdi Grikkjann Zorba og Síðustu freistingu Krists. Nýja mantran / tuggan er:

Ég vænti einskis; Ég óttast ekkert: Ég er frjáls. (Δεν ελπίζω τίποτε. Δεν φοβάμαι τίποτε. Είμαι λεύτερος ) 

Keypti mér 2 boli með þessari ályktun og mun kappkosta að lesa grískt letur á haus frá ofan brjósta niður á nafla þegar ég lendi í óvenju ergilegum kringumstæðum í vinnunni og slaka mér þannig niður. Ég vonast t.d. ekki til þess að allir ofvirku nemendurnir séu á ritalíni …

Jæja: Farin að fitja upp og koma mér fyrir til að horfa á hann Barnaby krúsidúllu leysa nokkur morðmál.

12 Thoughts on “Snúið á ný til bloggheima

  1. Velkomin aftur! 🙂

  2. JóhannaH on August 1, 2008 at 23:26 said:

    Mikið er það gott – velkomin 🙂
    og mér líst rosalega vel á þessa svörtu klukku, það voru góðar flíkur.

  3. Velkomin til baka.

  4. Velkomin aftur!
    Svarta klukkan hljómar vel – þú setur inn mynd þegar þú klárar, er það ekki?

  5. Hm … ég er ekki alveg viss um hvernig klukka lítur út, ef ég á að segja eins og er. Aftur á móti man ég að Ásta Sóllilja sat við að prjóna sér klukku áður en hún legði af stað út í heiminn (= færi í slarkferð með Bjarti í kaupstað).

    Það er of snemmt að segja til um hvort þessi dula sem ég prjónaði í gær, yfir Barnaby, er nýtanleg í eitthvað … það kemur í ljós.

  6. Trausti Jónsson on August 3, 2008 at 00:32 said:

    Velkomin aftur á bloggið. En ég hélt að tilvitnunin í Kazantzakis á íslensku væri : Ég vænti einskis, – hún hljómar svo miklu betur þannig.
    trj

  7. Já, Trausti, ég held að þetta sé rétt hjá þér. Minnir að einmitt þannig standi grafskriftin í kirkjugarðinum í Húsafelli … og er sammála því að þín tilvitnun hljómar miklu betur.
    Ég vendi því kvæði mínu í kross og brúka “Ég vænti einskis” … þótt grískmæltur heimspekingur hér á heimilinu hafi tosað mig í ranga átt með tilvísunum í allskonar beygingarkerfi!”

    Reyndar er enn kórréttara (að mati hins grískmælta) að segja “Vonast ekki eftir neinu, óttast ekkert, frjáls”, á þeim forsendum að Grikkir brúka ekki persónufornöfn, líkt og Latverjar forðum …

  8. Gott að þú sért aftur farin að blogga. Svo á maður einskis að vænta enda er einskis að vænta!

  9. Takk dyggu lesendur: Ég svissaði yfir í laglegri íslensku þýðinguna þótt e.t.v. sé einhver önnur kórréttari. Heimspekingurinn tekur gleði sína þegar ég bið hann fallega að kenna mér framburðinn í þessari klausu (fyrir óinnvígða: Grískar áherslur eru afar óstabílar sem gerir hvert orð hreinustu grísku í föllunum fjórum!)

  10. Atli (heimspekingurinn) on August 4, 2008 at 15:52 said:

    Ég held að þessi tilvitnun í kasantsakis sé yfirleitt stafsett svona: Δεν ελπίζω τίποτα. Δεν φοβάμαι τίποτα. Είμαι ελεύτερος. Annar er stafsetning í grísku ekki alveg stöðluð svo vel má vera að hitt geti líka gengið.

  11. Þessi lesandi er mættur á vaktina, fullur væntinga, óttasleginn og ófrjáls eftir því.

  12. Eygló on August 11, 2008 at 23:22 said:

    Æ, hvað það er gott að þú ert komin aftur Harpa mín!!!
    Ég saknaði þín!!!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation