Heilsufar, afbrigðilegar læknisaðferðir og dásamleg sundföt

Til að byrja með er rétt að væla yfir því að Statcounter-teljarinn minn á bloggsíðunni “dó”. Sá teljari hafði þann kost að sýna hvaðan lesendur komu; þótt ekki hafi sosum verið mikið að græða á IP-tölunum gáfu nöfn tölva eða netþjóna fínar vísbendingar um einstaka lesendur. Ég get sosum látið núverandi teljara (sem ég læt nú birtast) duga … þótt hann sýni sorglega fáa lesendur. En ég er náttúrlega uppvakningur í bloggheimum! Einnig reyndi ég að setja inn mynd af mér í prófíl, sem var ekki mál en reyndist ómögulegt að fá litlu myndina til að krækja í stærri. Ég sýni þá stærri útgáfuna hér og nú og málið er dautt!

Heilsufar mitt er með betra móti, finnst mér. Ég tók tímann í morgun og niðurstaðan er sú að frá vöknun og framundir klukkan 11 hríðskelf ég.  Ég hugsa að ég meiki að krota F og S í kladdann en ekki mikið meira en það. En í fyrra vatt ég mínu kvæði í kross, af sömu ástæðu, og gerðist heilmikill glærukennari, af því ég á svo erfitt með að skrifa á töfluna fyrri hluta dags. Mínum góða lækni fannst að ég væri farin að gadda óhóflega í mig pillum sem eitthvað virka á skjálfta og þ.a.l. væru þær hættar að virka á akkúrat hann. Ég ákvað að trappa mig niður á núllið og nota pillurnar eingöngu spari – svona tek ég mikið mark á mínum góða lækni 🙂

Maðurinn (minn) heldur hins vegar mjög á lofti sjósundi, sem allsherjar lækningu við hverslags kvilla. Ég veit samt ekki til þess að maðurinn hafi nokkurn tíma synt í sjó norðar en Miðjarðarhafið en vissulega er það rétt hjá honum að sumir brúki þessa aðferð, t.d. einhver Benedikt, kona í Stykkishólmi, Grettir Ásmundsson og fleiri. Miðað við þann síðastnefnda virðist sjósund ekki alltaf virka vel á geðveiki.

Ég harðneita að synda í sjó en labbaði Sandinn í dag og horfði á öldurnar … hafandi ekki hreyft mig lengi var þetta fínn skammtur af hreyfingu.  Mér til yndis og ánægju hitti ég gamlan uppáhaldsnemanda á Langasandi og var knúsuð og kysst á báðar kinnar 🙂 [Er búin að segja manninum frá því!]

Stúlkan hér til hliðar stundar greinilega sjósund og er óskaplega hraust að sjá. Þetta er mynd úr skóreimaalbúminu öðru, sjálfsagt tekin einhvers staðar í útlöndum fyrir fyrri heimstyrjöld. Kosturinn við þessa mynd er að henni má bjarga, þ.e. hún er í skárra ástandi en flestar hinar í albúminu. Gallinn er aftur á móti sá að sennilega veit enginn hver þetta er eða hvar stödd. (Ég veðja þó á Stavanger 🙂 Sundfötin eru æði!  Skjólgóð, víð og þægileg … ég gæti vel hugsað mér að spóka mig svona klædd á sólarströndu, jafnvel Langasandi þessa tvo daga á sumri sem gefast fyrir ekta strandlíf.

2 Thoughts on “Heilsufar, afbrigðilegar læknisaðferðir og dásamleg sundföt

  1. Tvær kaldar sturtur á dag, við þunglyndi, sögðu fréttir fyrr í sumar, þannig að hver veit með sjóböðin. (Ekki það, væntanlega dugar slíkt skammt við svona alvarlegu þunglyndi…)

  2. elva on August 25, 2008 at 23:17 said:

    Mér finnst mjög áhugavert að lesa bloggið þitt og saknaði þess þegar þú tókst þér frí. Við eigum margt sameiginlegt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation