Vinkona mín og sessunautur sagði, með aðdáunarsvip: “You look more stunning every day!” – í morgun. Satt best að segja var ég frekar sammála henni þótt auðvitað hafi ég ekki getað tekið þessu hrósi nema af kvenlegu lítillæti … Frá því skóli hófst (afar nýverið) hef ég reynt að dressa mig upp svo ég standi ekki nýnemapíunum alltof langt að baki. Þetta kostar kannski ekki blóð, svita og tár, en kostar óþægileg föt og háa hæla öðru hvoru (ég er nú enn á 2 cm stiginu). Af reynslu veit ég að fljótlega upp úr næstu viku flyt ég bara í lopann og verð þjóðleg en kannski doldið minna stönning.
Það gladdi mig mjög að Páll Ramses skyldi loksins komast heim til Íslands! Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn upp á Skaga; flest er það í óminninu nema eljan sem hann sýndi við trúboð: Pál langaði mjög til að ég skírðist í hvítasunnusöfnuðinn, enda prestur sjálfur. En þótt mér þyki gospel skemmtileg tónlist fannst mér full langt gengið að láta skírast (eru þetta ekki niðurdýfingarskírnir? Jafnvel sjóböð?). Mig minnir að Páll hafi tekið þessari þrjósku af fullkomnu æðruleysi.
Má ekki vera að meiru bloggi því nú á að leggjast í reitingar leggja (sbr. auglýsinguna gömlu: “Styggðu ekki steggina með loðnum leggjum!”) … ekki þó svo að skilja að ég ætli að fara að mæta í stuttkjólum í skólann …
P.s. Gleymdi að taka fram að börnin (mín) eru dásamleg! Allir hópar líta mjög gáfulega út og hver og einn hefur pússað sinn geislabaug í sumar 😉 Viskum vona að ekki falli alltof fljótt á baugana skínandi!