Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis

Í haust byrjaði ég að setja mig inn í sögu prjónaskapar en neyddist til að leggja það áhugamál á hilluna þegar ég veiktist – því er í rauninni sjálffrestað fram á næsta ár. En eitthvað langar mig að skrifa um efnið og bloggið er ágætis geymsla fyrir pistla sem betur má vinna síðar. Efni þessarar færslu er fyrsta “eskimóapeysan” en vinsældir slíkra peysa urðu mjög miklar næstu áratugina og má rökstyðja að þær séu fyrirmynd íslensku lopapeysunnar. (Sjá fyrri færslu, Íslenska lopapeysan.)

Þessi fyrsta Eskimó-peysa var hönnuð fyrir 80 árum. Höfundurinn var afar merkileg norsk kona, Annichen Sibbern (1905-1978), sem bætti svo Bøhn, ættarnafni mannsins síns, aftan við sitt nafn síðar. (Ævi þessarar konu er svo merkileg að hún er efni í aðra færslu og verður ekki rakin hér en lesa má helstu æviatriði í pdf-skjalinu “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”  .)

Eskimópeysa Annichen SibbertMyndin af Eskimo peysunni birtist í norska kvennablaðinu Urd (nr. 48) árið 1930. Sama ár gaf Annichen Sibbern út uppskrift af peysunni í sérhefti en árið eftir var uppskriftin með í bókinni Strikkeopskrifter. (Sé smellt á litlu myndina birtist stærri útgáfa. Í sumum heimildum er sagt að það sé Annichen Sibbern sjálf sem klæðist peysunni en það ber dóttir hennar, Sidsel Kringstad, til baka.)

Peysan varð strax gífurlega vinsæl. Til þess lágu einkum tvær ástæður; Annars vegar féll hún að þáverandi baráttu Samtaka um hagnýta listsköpun (Foreningen Brukskunst) fyrir því sem þau kölluðu “fegurri hvunndag” (“en vakrere hverdag”) og hins vegar var hún tengd hápólitísku máli, nefnilega baráttu norskra yfirvalda fyrir yfirráðum yfir hluta Grænlands, vegna  fiski- og veiðréttinda þar. Norðmenn höfðu allt frá árinu 1916 krafist yfirráða yfir óbyggðum í landnámi Eiríks rauða, þ.e.a.s. hluta Austur-Grænlands enda dýrmætar veiðlendur og fiskimið þar. Norska ríkisstjórnin eignaði sér svo þessi landsvæði 1931 og 1932 en þá kærðu Danir fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag, sem úrskurðaði 1933 að eignarhald Norðmanna væri ólöglegt. Á árunum 1930 -33 var heit umræða í Noregi um þetta meinta eignarhald. Peysa Annichen Sibbern verður að skoðast í ljósi þessarar umræðu og einnig mikils almenns áhuga í Noregi á menningu við Íshafið, sem hafði blómstrað allt frá því að Friðþjófur Nansen kannaði Grænland 1888.

Kvikmyndin EskimoUpphaf peysunnar tengist þó fremur kvikmyndagerð (sem tengist einnig pólitískum áhuga Norðmanna og Dana á Grænlandi). Fyrsta norska talmyndin (sem var nú reyndar danskt-norskt samvinnuverkefni) var myndin Eskimo, byggð á skáldsögu eftir Ejnar Mikkelsen (danska pólfarann) en handritið var eftir Helge Bangsted, danskan blaðamann sem m.a. hafði fylgt Knúti Rasmussen í fjölda Grænlandsferða. Myndin var frumsýnd árið 1930.

Kvikmyndin Eskimo segir frá ungum dönskum yfirstéttarmanni sem lendir í sjávarháska við Grænland og ung inúítakona bjargar honum af ísjaka. Þau verða ástfangin og enda á að giftast. (Á myndinni úr kvikmyndinni sést að inúítakonan Evaluk er klædd í þjóðbúning fra Vestur-Grænlandi. Leikkonan hét Mona Mårtenson.)

Hér er vert að taka fram að sá grænlenski þjóðbúningur sem við sjáum oftast er ekki nema u.þ.b. 50 ára gamall. Perlukragarnir komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um aldamótin 1900 og voru þá tiltölulega einfaldir að gerð. Þeir urðu síðan æ flóknari og stærri með tímanum enda aðgengi að lituðum perlum æ meira. (Á  myndasíðu Danska þjóðminjasafnsins má sjá nokkra gamla grænlenska perlukraga.)

Til að gera langa sögu stutta: Annichen Sibbern fór í bíó og sá myndina Eskimo. Hún varð strax hugfangin af grænlenska búningnum og hannaði sína Eskimó-peysu, sumir segja á næstu dögum. Eskimó-peysan var hönnuð bæði fyrir vélprjón og handprjón.

Það var svo ekki fyrr en 1947 sem fyrsta peysan frá hinu sænska Bohus Stickning með hringprjónuðu munstruðu berustykki leit dagsins ljós (hin fræga Blå skimmer) og enn síðar (1951) sem Unn Søiland Dale (norsk) markaðssetti sína línu af eskimópeysum. Skv. Elsu Guðjónson (Astrid Oxaal vísar í grein hennar “Traditionel islandsk strikning” í Stickat och virkat í nordisk tradition, Österbotten Museum 1984, s. 52) var peysa með eskimómunstri, sem birtist í Húsfreyjunni 1957, líklega kveikjan að því sem við þekkjum sem íslensku lopapeysuna. Ég held að Elsa hafi þýtt uppskriftina sjálf, úr dönsku blaði. Það er dálítið skondið að hinar frægu Farmers market peysur nútímans minna svolítið á upphaflegu peysuna hennar Annichen Sibbert með sínum háa kraga og einnig yfirbragð munstursins, einkum á það við peysuna Gil

Annichen SibbertSvo Annichen Sibbern er tvímælalaust frumkvöðull í hönnun á eskimóa-peysu, hátt í 20 árum á undan öðrum. Þetta er spennandi fyrir Íslending því af peysu Annichen þróuðust aðrar peysur í sama dúr sem enduðu sem “hefðbundin” íslensk lopapeysumunstur. (Myndin til vinstri er af Annichen Sibbern Bøhn.)

Hér er upphafleg uppskrift Annichen Sibbern af peysunni Eskimo. Það sem er sérstakt við þessa peysu, að mínu mati, er að fitjað er upp á kraganum og peysan síðan prjónuð niður; sú aðferð við peysuprjón er einmitt að ryðja sér til rúms aftur á allra síðustu árum.

Ég hef áhuga á að prjóna þessa peysu, í tilefni 80 ára afmælis hennar (eða 81 árs afmælis, ég næ nú ekki að prjóna hana fyrir áramót enda er ég rétt byrjuð að prófa ýmiss konar garn til að ná réttri prjónafestu). Þess vegna þýddi ég uppskriftina á íslensku og teiknaði upp munstrið. 

Þýdda uppskriftin og munstrin eru hér. Væri gaman að heyra ef einhver prófar að prjóna Eskimo-peysu Annichen Sibbern. Sjálf reyni ég að birta mynd af mér í dýrindinu einhvern tíma um mitt næsta ár, ef heilsan leyfir 🙂

Heimildir:

Bøhn Kringstad, Sidsel og Annichen Bøhn Kassel: “Norske strikkemønstre”: KVINNEN bakom boken”, Kulturarven 47, 2009, s. 46-48.
Oxaal, Astrid: “Et norsk strikkemønster fra Grønland”, Kunst og kultur 3, 2003, s. 158-171.
Shea, Terri: “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”, Piecework Magazine, Interweave Press LLC. Aðgengileg sem pdf-skrá á vefnum, án síðutals, slóð http://www.interweave.com/needle/projects/Norwegian-Article-100802.pdf
Sundbø, Annemor: Unsynlege trådar i strikkekunsten, 3. útg. 2009 (upphafleg gefin út 2005), Det Norske Samlaget.
Bréfaskipti mín við Sidsel Kringstad (dóttur Annichen Sibbert) og Annemor Sundbø.  

8 Thoughts on “Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis

  1. Hulda Hákonardóttir on December 26, 2010 at 14:39 said:

    Takk kærlega fyrir þessa færslu og rannsóknarvinnu. Ég hafði heyrt að frú Auður Laxness hafi þróað hugmyndina að fyrstu íslensku nútíma lopapeysunni í kringum 1950 – og þá eftir hugmyndinni af grænlenska perlukraganum. Sennilega hefur hún þá verið búin að sjá þessa útfærslu hennar Annichen.
    Aftur takk og gangi þér vel með prjónaskapinn!

  2. Þjóðsagan um Auði og lopapeysuna hefur verið lífseig og má nefna að viðtal Önnu Kristínar Magnússon við Auði Sveinsdóttur Laxness, sem birtist í Vikunni 7, 1988, s. 6-8, ber yfirskriftina “Hún innleiddi lopapeysumynstur á Íslandi!”.

    Guðný Dóra Gestsdóttir, forstöðumaður safnsins að Gljúfrasteini, telur þetta rangt. Auður prjónaði vissulega peysur með hringlaga berustykki á fimmta áratug síðustu aldar, skv. fyrrnefndu viðtali byrjaði hún á því árið 1947. Þær peysur eru taldar prjónaðar eftir sænskum fyrirmyndum, Bohus-peysunum sem minnst er á í færslunni, en satt best að segja finnst mér ótrúlegt að ártalið standist, þ.e. að Auður hafi fylgst svo vel með tískustraumum ytra að hún hafi náð að prjóna svona peysu sama ár og Bohus markaðssetti þá fyrstu. (Bohus-fyrirmyndar-skýringin á lopapeysumunstrum er ættuð frá Elsu Guðjónssen og hefur hver tekið hana upp eftir henni.)

    En þau Auður og Halldór lögðu sig reyndar fram um að fylgjast með tísku og tíðaranda og keyptu gjarna tímarit um slíkt á ferðum sínum ytra. Að mati Guðnýjar Dóru er allt eins líklegt að Auður hafi snemma kynnst þessari nýjung og lagt sitt af mörkum í að koma henni á framfæri þótt ekki sé hægt að kalla hana höfund íslensku lopapeysuprjónshefðarinnar.

    Þessar upplýsingar eru fengnar úr BA ritgerð Soffíu Valdimarsdóttur (í þjóðfræði, dagsett í febrúar 2010), Ull er gull: Lopapeysan við upphaf 21. aldar, s. 22 – 24. Ritgerðin er aðgengileg í Skemmunni, sjá http://skemman.is/stream/get/1946/4613/13293/2/ull.er.gull.pdf

  3. Sigríður on December 27, 2010 at 02:01 said:

    Er það rétt skilið hjá mér að þróunin á lopapeysumunstrum eigi rætur sínar að rekja til grænlensku perlukraganna?

  4. Já, í rauninni er það svo. Þessi færsla fjallar um frumhönnun Annichen Sibbern, frá 1930, sem byggði á þeirri einföldu gerð grænlensku perlukraganna sem þá tíðkuðust. Árið 1947 markaðssetti Bohus Stickning (sænskt fyrirtæki) peysuna Blå skimmer, en munstrið minnir meir á gömul sænsk vefnaðarmunstur en grænlenska perlukraga, aftur á móti má tengja hringúrtökuna í munstrinu við lausn Annichen Sibbern. (Sjá http://www.kulturnat.net/kulturvast_templates/Kultur_ArticlePageWide.aspx?id=40066).

    Unn Søiland / Søyland Dale (norsk) hannaði “eskimó-peysu-línu” frá 1951 (fyrsta peysan birtist í Norsk Ukeblads Strikkebok það ár en sú líkist víst hinni sænsku Blå skimmer talsvert), að sögn eftir að hafa séð mynd af heimsókn dönsku konungsfjölskyldunnar til Grænlands þar sem þau klæddust grænlenskum þjóðbúningum. Sagt er að Unn hafi talið að perlukragarnir væru prjónaðir. Eskimó-peysur Unn Søiland urðu mjög frægar (en hún er þó frægust fyrir hönnun “klassískrar” norskrar peysu sem er kölluð Marius-peysan). Sjá má hönnun Unn Søiland Dale á http://www.lillunn.no/default.pl?showPage=181, neðarlega á síðunni koma myndir af eskmó-peysunum. Einnig er þægileg stutt umfjöllun um Unn og eskimópeysur á http://www.nrk.no/programmer/radioarkiv/sann_er_livet/samfunn/portrett/945654.html

    Eins og ég rakti í færslunni Íslenska lopapeysan, http://harpa.blogg.is/2010-08-17/islenska-lopapeysan/ er talið að sænsku eða norsku munstrin hafi borist til Íslands, hugsanlega gegnum dönsk blöð eða íslensk blöð sem birtu þýddar uppskriftir, og orðið kveikjan að íslenska lopapeysumunstrinu, sem byggir á reglulegri hringúrtöku. Aftur á móti hafa þessi munstur fyrir löngu verið aðlöguð lopanum (sem er miklu grófara garn en þessar skandinavísku peysur voru prjónaðar úr), bætt inn ýmsum norrænum eða alþjóðlegum munstrum (sem sumir telja séríslensk) o.s.fr. Þannig að vegurinn frá upphaflegu eskimópeysunni hennar Annichen Sibbern til íslensku lopapeysunnar er langur og krókóttur og verður ekki rakinn beint. Þetta snýst um áhrif á prjónamenningu þar sem hugmyndir eru teknar upp og endurnýttar og frumsamið út frá þeim.

  5. Hafdís Helgadóttir on December 27, 2010 at 18:14 said:

    Frábært að lesa prjónafróðleik hjá þér … hlakka til næsta pistils :o) Vona að þú sért búin að hafa það gott.
    Kv. Hafdís

  6. bergþóra gísladóttir on November 23, 2011 at 12:11 said:

    Fróðlegt og skemmtilegt

  7. Margrét Sigrún Jónsd on November 23, 2011 at 16:50 said:

    mjög skemmtileg lesning og takk fyrir uppskriftina. ég er viss um að ég mun prjóna eftir henni einhverntímann.

  8. Takk fyrir áhugavert blogg, ég er núna í Noregi og les þig gjarnan á f.b. veit að þú ert alger snillingur í svo mörgu en
    átt við veikindi að stríða. Þú ert samt alltaf að. Ég klæðist gjarnan hefðbundnum lopapeysum enda kallar fólk það
    þjóðbúninginn minn og er ég glöð með það. En finnst ykkur ekki skrýtið að þetta perlufínerí sé svo grænlenskt.
    Ekki eru perlurnar grænleskar. Lopinn er og verður íslenskur svo lengi sem sauðkindin okkar fær að lifa með okkur í landinu.
    Mér var sagt að grænlendingar hefðu fengið perlur fyrir mat þegar þeir fluttu út verðmæti frá sínu landi. Já og hugsið ykkur hvað konurnar létu sig hafa það að gera gott úr öllu og fóru bara að perla í snjóhúsunum sínum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation