Starfsmannaeinelti í Akranesbæ

Í sambandi við umfjöllun um siðblindu hef ég fjallað dálítið um vinnustaðaeinelti. Má nefna færslurnar Skólastjórar sem leggja kennara í einelti og Siðblindir á vinnustað en þar er nokkuð ítarleg umfjöllun um vinnustaðaeinelti almennt, sem þarf ekkert endilega að vera tengt siðblindu. Einnig ber vinnustaðaeinelti á góma í færslunum Siðblindir í kirkjunni  (þar er m.a. nefnt dæmi af presti sem beitir formanni sóknarnefndar fyrir sig til að leggja organistann í einelti) og Siðblindir í viðskiptum  (þar eru áhrif og tækni siðblindra í viðskiptafyrirtækjum útskýrð, t.d. hvernig þeir ná sér í verndara og hvernig þeir reyna að losa sig við þá sem sjá í gegnum þá, m.a. með beinu einelti eða að kynda undir einelti. Ætla má að siðblindir beiti þessari tækni almennt á vinnustöðum af  ýmsu tagi.).

Staðan á Akranesi

Höfnin á AkranesiEftir að hafa uppgötvað að skv. breskum, bandarískum og áströlskum upplýsingum eru kennarar taldir í einna mestri áhættu á að verða fyrir vinnustaðaeinelti og eftir að hafa séð umfjöllun um rannsóknir á vinnustaðaeinelti af nýlegra taginu sem leiða í ljós að hlutur stjórnenda í gerendahópi er mjög stór fór ég að velta fyrir mér hvernig ástandið væri hér í mínum góða bæ, Akranesi. Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu, var svo vinsamleg að veita mér ýmsar upplýsingar og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Hún útskýrði líka fyrir mér hvernig stjórnsýslu bæjarins væri háttað og benti mér á dæmi um æskilega framtíðarskipan vinnustaðaeineltismála, sem sjá má í Mosfellsbæ. Ég er sammála henni um að það skipulag virkar mjög skynsamlegt en ekki jafn sannfærð um að það þurfi að ráða einhvern mannauðsstjóra í miklu minni bæ (Akranes) svo hrinda megi álíka skipulagi í framkvæmd.1  Helga sagði mér líka að í „stærri sveitarfélögum“ væri sami háttur á stjórnsýslu varðandi skóla og er hér í Akranesbæ eftir stjórnsýslubreytingar 1. jan. 2009. Lausleg úttekt mín leiðir í ljós að þessu er öfugt farið en hugsanlega hefur Helga átt við að Akranesi hentaði að máta stjórnsýslu sína við Reykjavík eða álíka „stærri sveitarfélög“ og það sé minn misskilningur að hún hafi átt við álíka stór sveitarfélög og Akranes.2
 

Rétt til að rifja upp hvað felst í vinnustaðaeinelti, skv. skilgreiningu í Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, 1000/2004, 3.gr.: „Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“

Og hvað er ekki einelti: „Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.“
 
 

Grunnskólakennari sem lagður er í einelti af skólastjóra
 

Setjum svo að ég væri grunnskólakennari hér í bæ og samstarfsmaður minn legði mig í einelti. Þá gæti ég kvartað við skólastjóra. En ef skólastjórinn stendur fyrir eineltinu? Þá gæti ég, væri ég kennari í Grundaskóla, kvartað við aðstoðarskólastjóra. Málið vandast ef ég er kennari í Brekkubæjarskóla því þar er enginn aðstoðarskólastjóri. Starfið var lagt niður vorið 2007 og þess í stað skipaðir tveir deildarstjórar, sem á heimasíðu skólans eru yfirleitt kallaðir „deildarstjórar á stigi“ til skólaársins 2010-2011 en þá ber annar starfsheitið „deildarstjóri“ og hinn er nú „deildarstjóri verkefna“. Skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu mun hinn fyrrnefndi vera staðgengill skólastjóra og blessunarlega fær hann greitt eins og aðstoðarskólastjóri. Ég gæti því leitað til hans legði skólastjórinn mig í einelti, reikna ég með, þótt hann hafi ekki fínni titil en deildarstjóri.
 

Dugi þetta ekki, hvað ætti ég þá að gera? Einu sinni var starfandi skólanefnd hér í bæ sem fjallaði um málefni grunnskólanna og hugsanlega hefði ég, ímyndaður grunnskólakennari sem skólastjórinn legði í einelti, getað leitað til hennar, a.m.k. formanns skólanefndar, þó ekki væri nema um ráðleggingar. En 1. janúar 2009 varð róttæk breyting á stjórnsýslu Akraneskaupstaðar, ýmsar nefndir voru lagðar af (ekki þó Ritnefnd um sögu Akraness – guði sé lof!) og í staðinn komu svokölluð ráð og stofur.
 

Hverjir sinna málefnum sem snerta grunnskólann í stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar?
 

GrásleppukarlarnirUndir Fjölskylduráð heyra nú öll fagleg mál sem tilheyra málaflokknum fræðslu-og uppeldismál og félagsþjónusta. Meðal verkefna ráðsins eru öll mál sem heyra undir lög nr. 66/1995 um grunnskóla. Fjölskylduráð heyrir undir „pólitíska kerfið með lýðræðislega kjörnum bæjarfulltrúum .. .Hins vegar er embættismannakerfið með bæjarstjóra í fararbroddi.  Stofnaðar hafa verið svokallaðar stofur yfir málaflokka sveitarfélagsins þ.e. Fjölskyldustofa með Helgu Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra…“ 3 Nýju pólitísku ráðin voru víst hugsuð til að auka valddreifingu í stjórnsýslu bæjarins. Ætli stofunum hafi ekki verið ætlað að spara útgjöld?

Sem þykjustu grunnskólakennari sem skólastjórinn leggur í einelti get e.t.v. ég leitað til Fjölskyldustofu um úrlausn minna mála. En ég get ekki leitað til Fjölskylduráðs, skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu, af því „svona mál heyra ekki undir pólitíska nefnd“. Í samtali okkar kom fram að engin fordæmi eru til fyrir formlegri afgreiðslu á úrlausn vinnustaðaeineltismála sem heyra undir Fjölskyldustofu og því ekkert vinnuferli ljóst. Að sögn Helgu hafa komið upp vinnustaðaeineltismál í einhverjum stofnunum sem heyra undir Fjölskyldustofu en þau hafa öll verið leyst í samræðum og samráði við hlutaðeigandi á óformlegan hátt og ekki borist á borð Fjölskyldustofu. Hugsanlega hefur þar orðið breyting á nýverið.

Hjá Fjölskyldustofu starfa margir en allir nema framkvæmdastjóri og verkefnastjóri tengjast þeir félagslega kerfinu og enginn þeirra er menntaður kennari eða skólastjóri. Í erindisbréfi framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu er ekkert sem bendir til þess að sá aðili hafi með eineltismál að gera. Það mætti skýra með því að Akraneskaupstaður hefur enga stefnu um meðferð eineltismála, hvorki vinnustaðatengd né annars eðlis.4  Að vísu hefur bærinn starfsmannastefnu, þar sem segir m.a.: “Siðareglur starfsfólks  Bæjarstjórn setur fram eftirtaldar siðareglur til leiðbeiningar fyrir starfsfólk um hvað sé við hæfi í starfi … 8.1. Að starfsfólk Akraneskaupstaðar starfar fyrst og fremst í þágu bæjarbúa, sem leggur því þá skyldu á herðar að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er í sínum eigin eða einstakra hópa; …“5
 

Í þykjustunni er ég frábær kennari (og einmitt þess vegna sem skólastjórinn vill flæma mig brott með einelti því algengasta ástæðan fyrir skólastjóraeinelti er öfund). Það eru því hagsmunir nemenda og skólans að ég haldi starfi mínu. Svo ég gæti hugsanlega leitað til framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu og treyst því að hún setti almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og muni skoða mín mál með hlutlausum hætti. En ég get ekki leitað til fjölskylduráðs af því það er pólitískt kjörið og framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu ber ekki að greina fjölskylduráði frá þessu ímynduðu erindi mínu, skv. upplýsingum Helgu Gunnarsdóttur í símtali okkar. Málaleitan mín yrði því tveggja manna tal.
 

Hugsanlega gæti framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu leitað vil Vinnueftirlitsins eftir ráðgjöf. Líklega mundi það borga sig í skipulagi eins og Akraneskaupstaðar þar sem völd eru á ótrúlega fárra hendi þegar kemur að skólamálum og ljóst að enginn á Fjölskyldustofu hefur kennaramenntun. Fimm þjónustuaðilar með áherslu á andlega og félagslega áhættuþætti á vinnustöðum eru viðurkenndir af Vinnueftirlitinu.  Flestir þeirra rétt tæpa á einelti, sálfræðistofan Líf og sál býður námskeið og þrenns konar aðkomu að eineltismálum á vinnustað  en Úttekt úrlausn er eini aðilinn sem virðist sérhæfður í að fást við starfsmannaeinelti enda er hún rekin af menntuðum vinnustaðasálfræðingi (sem jafnframt er klínískur sálfræðingur). Þetta er líka eini þjónustuaðilinn af þessum fimm sem hefur sérstaka vefsíðu um vinnustaðaeinelti.  Það er því nokkuð augljóst að kysi framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu utanaðkomandi ráðgjöf, til að þurfa ekki að axla ímyndaða eineltismálið ein og sjálf, myndi hún kalla eftir aðstoð Úttektar og úrlausnar.
 

Ef framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu bregst mér þá er eini ópólitískt ráðni yfirmaðurinn þar fyrir ofan bæjarstjórinn sjálfur. Ég get að sjálfsögðu treyst því að hann fylgi 8. grein siðareglna starfsfólks svo það ætti að vera í lagi. Á hinn bóginn reikna ég með að bæjarstjórinn hafi öðrum hnöppum að hneppa en skipta sér af eineltismálum á vinnustað svo ég væri dálítið feimin við að bera mig upp við hann.
 

Skert lýðræðislegt samráð á Akranesi og ótrúlegt áhugaleysi á málefnum grunnskóla
 

AkrafjallHin svokallaða valddreifing stjórnsýslunnar hefur stórlega skert lýðræðislegt samráð hér á Akranesi og dregið mjög úr möguleikum grunnskólakennara sem skólastjóri leggur í einelti. (Sama máli gegnir auðvitað um mögulegt dæmi af skólastjóra sem kennari legði í einelti en af því slíkt er svo sárasjaldgæft, skv. rannsóknum á vinnustaðaeinelti almennt og rannsóknum á vinnustaðaeinelti í skólum, lít ég á það dæmi sem heldur fjarstæðukenndan möguleika.)

Meðan gamla skólanefndin var og hét fundaði hún þetta 6 til 10 sinnum á ári, um skólamál og starfsmannamál grunnskólanna. Fjölskylduráð er einungis þriggja manna nefnd auk eins áheyrnarfulltrúa. Það hefur haldið 60 fundi frá skipulagsbreytingunum á stjórnsýslu bæjarins 1. jan. 2009. Fundargerðir allra funda liggja á vefnum akranes.is fyrir utan þann síðasta sem var haldinn í gær.

Skv. erindisbréfi á að boða áheyrnarfulltrúa grunnskóla (skólastjóra, kennara, foreldra eða starfsfólks) á fundi sem fjalla um málefni grunnskólans og höfða til einhverra þessara aðila. Af 59 fundum hafa áheyrnarfulltrúar skólastjóra mætt á 2  (þ.e. 3,39% af fundunum) áheyrnarfulltrúi kennara á 1 fund og áheyrnarfulltrúi starfsmanna grunnskóla (mögulega kennari) á 1 fund. Að auki hafa fulltrúar Foreldrafélags Brekkubæjarskóla mætt á 2 fundi enda óskuðu þeir sjálfir eftir því að fá að ganga á fund fjölskylduráðs, og nemendaráð Grundaskóla mætti einu sinni til að ræða um skort á kastala og fleiri leiktækjum á lóð skólans. (Því erindi var reyndar ljómandi vel tekið og afgreiðslan bókuð í smáatriðum.) Það er því ekki skrítið að skólastjórar grunnskólans hafi óskað formlega eftir því að „áheyrnarfulltrúar foreldra frá báðum grunnskólunum verði boðaðir þegar málefni grunnskólanna eru til umfjöllunar hjá Fjölskylduráði. Einnig að boðaðir verði bæði aðal og varamenn áheyrnarfulltrúa starfsmanna af sama tilefni.“ Þetta erindi var samþykkt þann 21.9. 2010.6  Samt hefur nú enginn þessara verið boðaður á fund Fjölskylduráðs enn.
 

Fundargerðir Fjölskylduráðs eru óvenju stuttar og snubbóttar og geyma fátæklegar upplýsingar um málefni grunnskólanna hér á Skaganum. En þær hljóta að endurspegla raunveruleikann því í erindisbréfi Fjölskylduráðs segir að „Í tölvuskráða fundargerð skal færa … greinargóða lýsingu á hverju fundarefni“.7
 

Af lestri fundargerða Fjölskylduráðs er því nokkuð augljóst að áhugi ráðsins á málefnum grunnskólanna er sorglega lítill. Má ætla að svo sé einnig í bæjarstjórn því ráðið starfar á vegum hennar. Þann 16. 12. 2009 er t.d. bókuð ósk  Mennta-og menningarmálaráðuneytis eftir upplýsingum um hvenær sveitarfélagið hyggist hefja vinnu við mótun almennrar stefnu um leik-og grunnskólahald. Því svaraði Fjölskylduráð að sú vinna hafi ekki verið tímasett. Málið hefur ekki aftur borið á góma í Fjölskylduráði (a.m.k. ekki svo bókað sé) sem bendir til þess að ráðið hafi engan sérstakan áhuga á að láta vinna þessa vinnu, sem svo verður vart öðru vísi túlkað en að ráðinu þyki ekki mikið til skólamála koma. Engin ástæða er til að ætla að viðhorfið sé eitthvað annað á Fjölskyldustofu miðað við menntun og sérhæfingu mannafla þar og líka sé litið til þess að framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu situr alla fundi Fjölskylduráðs (og er reyndar næstum ævinlega fundarritari).
 

Gamli vitinnÉg, sem er í þykjustunni kennari sem er lagður í einelti af skólastjóra, býst af framansögðum ástæðum ekki við sérlega miklum áhuga á mínum málum af hálfu framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu. Og ég get ekki leitað til neins annars, nema kannski bæjarstjórans, því búið er að fella niður það apparat sem ég hefði kannski getað brúkað, nefnilega skólanefnd. Enn vonlausari verða mín mál þegar ég hugsa til þess að bærinn hefur enga stefnu hvað varðar vinnustaðaeinelti og Fjölskyldustofa enga reynslu af formlegri afgreiðslu slíkra mála. Og svo er alltaf spurning hvort ég geti treyst því, í svona litlu bæjarfélagi, að þeir sem ég leita til haldi siðareglur.
 

Ég hugsa að ég taki einfaldlega þann kostinn að flytja í Mosfellsbæ!
 


 
 

1 Símtal við Helgu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu kl. 15.30-15.40 25. febrúar 2011.

2 Á Akranesi búa rúmlega 6.500 manns. Í færslunni er gerð grein fyrir skipan skólamála í stjórnsýslunni þar. Ég skoðaði hvernig þessum málum er háttað í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ, þar sem búa  tæplega 4000 manns, í Fjarðabyggð, þar sem búa rúmlega 4.500 manns og Mosfellsbæ, þar sem búa rúmlega 8.500 manns.

Í Ísafjarðarbæ er skóla-og fjölskylduskrifstofa en starfsfólk er ekki eins einslitt og á Fjölskyldustofu Akraness, t.a.m. starfa bæði grunnskólafulltrúi og leikskólafulltrúi á þessari skrifstofu Ísafjarðarbæjar. Ég hygg að yfirmaður og sviðsstjóri skóla-og fjölskylduskrifstofu sé lærður tónmenntakennari. Þessi skrifstofa vinnur síðan í samráði við nokkra aðila, þ.á.m. fræðslunefnd. Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar virðist ófeimin við að funda með fulltrúum kennara, skólastjóra og foreldra, skv. fundargerðum. Ísafjarðarbær hefur samið leiðbeiningar fyrir yfirmenn og þolendur sem ná til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni og einelti á vinnustöðum Ísafjarðarbæjar en því miður virkar krækjan í leiðbeiningarnar ekki svo ég gat ekki skoðað þær.

Í Fjarðabyggð starfar Félags-fræðslu-og frístundateymi, sem hluti af embættismannaverki bæjarins. Í teyminu er annars vegar Félagsmálastjóri og hins vegar Fræðslustjóri. Sá síðarnefndi hefur meistarapróf í skólastjórnun. Hann hefur samband við pólitískt kjörna Fræðslu- og frístundanefnd, sem er 5 manna. Loks er Fjarðabyggð aðili að Skólaskrifstofu Austurlands, sem er byggðasamlag 8 sveitarfélaga. Sú skrifstofa veitir m.a. ráðgjöf í deilumálum sem snerta skólastarf. Fjarðabyggð hefur samið ítarlega Fræðslu- og frístundastefnu. Að þeirri vinnu komu fjölmargir, m.a. fulltrúar nemenda, skólastjóra, foreldra og starfsfólks grunnskóla.

Í Mosfellsbæ kallast embættisaðili skólamála Fræðslusvið. Framkvæmdastjóri þess er lærður kennari. Hann er jafnframt starfsmaður Fræðslunefndar, sem er pólitískt skipuð 5 manna nefnd, með 5 varafulltrúum og skal fara með verkefni skólanefndar. Framkvæmdastjóri Fræðslusviðs er jafnframt forstöðumaður Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar. Því miður eru fundargerðir Mosfellsbæjar ekki aðgengilegar á vefnum í augnablikinu svo ég get ekki áttað mig á því hversu mikið vægi fulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra fá í starfi þessara nefnda og stofnana.
 

Kerfi þeirra þriggja bæjarfélaga sem ég skoðaði eru mjög ólík stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar að því leyti að þar eru margir aðilar sem koma að skólastarfi (en slík mál eru á ótrúlega fárra hendi á Akranesi, ekki hvað síst stjórnun og eftirlit með starfsemi grunnskólanna); að greint er milli fræðslu- og frístundastarfs annars vegar og hins vegar félagslegrar þjónustu (á Akranesi er þetta á sömu hendi) og að kennaramenntaður einstaklingur heldur utan um starfið  (á Akranesi er enginn kennaramenntaður á Fjölskyldustofu).
 

3 Breyting á stjórnskipulagi Akraneskaupstaðar með gildistöku 1. janúar 2009.
 

4 Stefnur og markmið Akraneskaupstaðar.
 

5 Starfsmannastefna Akraneskaupstaðar 13. nóvember 2001.
 

6 Sjá fundargerð 48. Fundar fjölskylduráðs þriðjudaginn 21. september 2010.
 

7 Erindisbréf fjölskylduráðs Akraneskaupstaðar.

4 Thoughts on “Starfsmannaeinelti í Akranesbæ

  1. Helga Atladóttir on February 28, 2011 at 08:25 said:

    Skipuleg og skýr umfjöllun hjá þér Harpa, takk fyrir.
    Af þínum ályktunum að dæma væri nú mikilvægt fyrir Akraneskaupstað að leggja tíma og fjármagn í viðfangsefnið að teknu tilliti að búið er að ráða mannauðsstjóra.

  2. Já, ég fékk nánast áfall þegar ég áttaði mig á hvernig málum í sambandi við grunnskóla og leikskóla hefur verið skipað á Akranesi. Má segja að hér sé einveldi (vonandi menntað), t.a.m. hafa grunnskólastjórarnir ótrúlega mikið vald því eftirlit með grunnskólunum er nánast ekkert, sbr. fundargerðir Fjölskyldustofu. Enn meira verður vald grunnskólastjóra þegar starf aðstoðarskólastjóra er lagt af, eftir það ríkir hann nánast einn. Þetta er afskaplega ólíkt vinnuumverfi og það sem ég vann lengstum í, þ.e. framhaldsskólakerfinu.

    Akraneskaupstaður hefur hingað til átt fé í gæluverkefni á borð við ritun hinnar frægu Sögu Akraness. Það er sorglegt að sparnaður bæjarins (sem við bæjarbúar höfum hingað til ekki notið góðs af í álagningu útsvars, fasteignagjalda, sorphirðugjalda, gjalda fyrir gæludýr o.s.fr.) skuli beinast að skólunum, þ.e. mati og eftirliti með vinnuumhverfi kennara, nemenda og annars starfsfólks grunnskóla. Árangur á samræmdu prófunum benti á sínum tíma (meðan hann var gerður opinber) ekki til þess að hér í bæ ríkti halelúja-ástand í báðum grunnskólunum. Aftur á móti minnir mig að Austfirðir hafi ævinlega skorið sig úr landsbyggðinni með óvenju góðum árangri á samræmdum prófum. Þegar ég skrifaði þessa færslu velti ég því einmitt fyrir mér hvort ástæðan gæti verið mikill áhugi á skólamálum sem endurspeglast í stjórnsýslukerfi núverandi Fjarðabyggðar og hve þunga áherslu menn eystra hafa lagt á lýðræðisleg vinnubrögð, t.d. í mótun skólastefnu.

    Vonandi tekur nýráðinn mannauðsstjóri yfir sem mest af þeim verkefnum sem Fjölskyldustofa og fjölskylduráð hefur átt að sinna, skv. erindisbréfi, í skólamálum. Sá aðili hefur enda reynslu af Ísafjarðarbæ þar sem skólamálum er ólíkt betur fyrir komið.

  3. Sæl, þetta eru góðar púnktar hjá þér. Við í foreldrafélaginu Brekkubæjarskóla hafa lengi barist fyrir því að fá að setja hjá fundum fjölskylduráðs. Núna er búið að stofa foreldrafélag (Skagaforeldrar) sem tekur að sér málefni allra skóla á Akranesi. Það félag fær síðan áheyrnafulltrúi á hverjum fundi fjölskyldustofuna. Endilega komdu þínum ábendingum líka þangað: skagaforeldrar@skagaforeldrar.is.
    kv.

  4. Ég hef þegar viðrað ábendingar mínar við framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu, í símtalinu sem ég vitna í, en vitaskuld hafði ég þá ekki forsendur til annars en trúa því að svona væri þessu háttað í “stærri sveitarfélögum” almennt. Ég fagna nýstofnuðu regnhlífasamtökunum, Skagaforeldrum, en bendi á að ekkert er bókað hjá fjölskylduráði um þessi samtök annað en “Fyrirhugað er að stofna foreldrafélag 26. janúar en þar munu foreldrar leik-, grunn- og framhaldsskóla sameinast í einu félagi. Fjölskylduráð fagnar stofnun foreldrafélagsins og óskar því velfernaðar [svo!] í starfi.” (fundargerð 57. fundar 18. janúar 2011) og því alls ekki ljóst að félagið fái áheyrnarfulltrúa á fundum fjölskylduráðs. Af orðum þínum, Alexander, má ráða að um munnlegt samkomulag sé að ræða – við hvern?

    Í samtali okkar Helgu (framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu) kom fram að allt væri löglegt við gjörninga Akraneskaupstaðar í stjórnsýslu og ég reikna með að það gildi um hversu fáir koma að málefnum grunnskólanna og einnig um að felld sé niður aðstoðarskólastjórastaða í Brekkubæjarskóla, líklega undir formerkjum valddreifingar en í praxís leiðir það auðvitað til aukinna valda skólastjóra.

    Í Grundaskóla virðast engir millistjórnendur, þ.e. deildarstjórar eða fagstjórar (nema deildarstjóri dagvistar). Í Brekkubæjarskóla eru nokkrir deildarstjórar en starfið er illa skilgreint úr því einn þeirra er í rauninni aðstoðarskólastjóri og því augljóst að í starfsheitinu deildarstjóri felast ólík völd og ábyrgð. Hinir eru: Deildarstjóri verkefna (hvað sem það nú þýðir); deildarstjóri sérkennslu; deildarstjóri sérdeildar og deildarstjóri dagvistar. Það vekur athygli hvað sérkennsla og sérdeild í Brekkubæjarskóla búa vel með sína millistjórnendur en í venjulegu skólastarfi er sama staða og í Grundaskóla, þ.e. enginn millistjórnandi leiðir faglegt starf eða hefur eftirlit með slíku.

    Mér er ekki kunnugt um hvort þetta er almennt verklag í grunnskólum landsins en það er náttúrlega auðvelt að komast að því.

    Gangi ykkur sem allra best, Skagaforeldrar! 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation