Notalegir dagar, ný orð, prjón og dútl

Fr. DietrichUndanfarnir dagar hafa verið ósköp ljúfir. Þegar maður sefur á nóttunni eru dagarnir nefnilega ljúfir, svo ég tali nú ekki um ef maður fær sér middagsblund á daginn líka. Nú sé ég við dægursveiflu-leiðréttingarpillunum, sem virka óvart öfugt á mig og fokka gersamlega upp þeirri litlu dægurstillingu sem í mér býr, með öðrum pillum. Samviskulaust!

Gamla ráðið, að sofa úr sér þunglyndið eða ná a.m.k. smá leiðréttingu yfir í normal með svefni, er jafn gott og gilt og venjulega. Að vísu verður manni kannski ekki mikið úr verki en á hinn bóginn verður manni enn minna úr verki svefnvana.

[Myndin sýnir hina sallarólegu Fr. Dietrich í venjubundinni stellingu ofan á sænginni minni. Mætti margt af henni læra, t.d. æðruleysið sem m.a. felst í því að sofa svona 23 tíma á sólarhring ef páskahret eða veður vott er úti.]

Aukaverkun af aðallyfinu er að ég þoli illa sykur og langar ekki í sykur. Það er slæmt upp á holdafar en gott fyrir hina á heimilinu sem fengu gefins stærstan hluta af páskaegginu mínu 🙂

Blessunarlega hefur veðrið einmitt verið þannig að ég þarf síður en venjulega að koma mér upp samviskubiti yfir að vera inniklessa og frábitin hollum göngutúrum. Svoleiðis að ég hef getað dútlað við hitt og þetta, aðallega samt hangið í tölvunni og reyndar eytt talsverðum tíma í að reyna að fatta hvernig sögu sögu Akraness er varið. Flækjustigið hækkar eftir því sem fleiri fundargerðir eru lesnar. Samt eru mál sögð “í farvegi” öðru hvoru og gladdi mig að sjá þessa gömlu klisju sem ég heyrði svo oft á sínum tíma brúkaða af stjórnendum að mér rann orðið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar orðskrípið bar á góma einn ganginn enn, í denn. En það er svo langt síðan að þegar ég rakst á klisjuna núna var það næstum eins og að rekast á gamlan kunningja – eins og þegar einhver segir “Olræt” (sem minnir mig reyndar alltaf óvart á aumingja Súsönnu “olræt”, flak sem hugsanlega má enn sjá af Höfðanum á Raufarhöfn) eða nefnir blessaðan stakkinn sem allir voru að skera fyrir svona þremur áratugum eða hvaða aðra útjöskuðu slettuna sem hvarf aftur úr málinu.

Svo hafa rekið ný orð á fjörur mínar, t.d.  nýtt hugtak í dag, Makedóníuheilkennið, sem einmitt skýrði prýðilega annars illskiljanlegar klisjur í fundargerðunum sem ég var að lesa, svo ég tali nú ekki um þann eina fund sem ég hlustaði á (endaði með eyrnafíkjur því ekki er tæknin á hljóðritun bæjarstjórnarfunda upp á marga fiska og vonlaust að hlusta á beint úr tölvunni). Lærði svo annað flott orð í fyrradag, sumsé íslensku hljóðlíkinguna “nef-pot-ismi” fyrir nepotisma. Finnst það ná merkingunni glettilega vel. Og komst að því að Jóni Trausta fannst Akranes fegursta “sjóþorpið” á Íslandi (en sama sinnis voru nú ekki Eyrbekkingar um sitt sjóþorp, notandi þó fyrstir orðið, upp úr 1850). Gaman að sagnaritari Akraness skuli pikka upp norðurþingeyskt orðalag (eða eyrbekkst) og gera að sínu og mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar.

(Algerlega utan við þetta er áhugavert nýmæli sem rætt er á FB, ekki á mínum þræði samt, þar sem tveimur snjöllum mönnum hefur tekist að rökstyðja ansi vel að Kryztur skuli skrifast bæði með y og z. Pottþétt rök fylgja, a.m.k. frá sjónarhóli öryrkja og alþýðupíku, en ég veit ekki alveg hvort starfandi íslenskukennarar féllust á þessi góðu rök.) 

Ég segi ekki að Saga Sögu Akraness sé jafnspennandi og siðblinda eða handprjónaðir biskupsglófar á miðöldum en hún er meira spennandi en Furðustrandir Arnaldar svo það má svo sem vel una sér við að greiða úr flækjum og reyna að greina hvernig eitt leiðir af öðru og þræðir hanga saman … enda hef ég ákveðið að fara jafnvel á skjalasafn einsog alvöru fræðimaður til að skoða uppfitina og fyrstu þræði. Að vísu er skjalasafnið á bókasafninu, sem er sjálfsagt ekki nema svona 50 – 100 m í burtu en samt: Ég hef aldrei farið á skjalasafnið áður.

Talandi um uppfit þá lauk ég loksins í kvöld við sokkapar sem á að passa við legghlífar sem ég prjónaði fyrir talsverðu (til að passa við kjól og ég er alltaf að drepast úr kulda svo svellþykkar sokkabuxur duga illa). Ég sá nefnilega í hendi mér að legghlífar + lausir sokkar væru miklu sniðugri en háleistar einir saman. Í ljós kom að teygjan í alpakkagarninu var eitthvað léleg og legghlífarnar héldust bara almennilega uppi (á miðju læri) væru þær nýþvegnar og teygðar … og ég með eilífar kálfslappir fyrir vikið. En nú hef ég komið því í verk að prjóna ofan á langa stroffið með færri lykkjum og á fínni prjóna og viðbótin nýtist prýðilega sem sokkabönd. Svo nú get ég gengið í kjól, útprjónuðum legghlífum sem líta út eins og háleistar en samt komist í háhæluð þröng stígvél (sem aldrei gengi ef sokkarnir væru líka prjónaðir) og innanhúss bruggðið mér í lág-inni-sokka í stíl.

Þessu prjónelsi hefur fylgt sjónvarpsgláp og má þakka Ben Húr fyrir megnið. Lokahnykkurinn var svo ágæt mynd á RÚV í kvöld og reyndar lét ég mig hafa það að hlusta með öðru eyranu á sænska Júróvissjónbesserwissera í korter af því ég var að ganga frá endum og mátti ekki vera að því að skipta um stöð.

Eiginlega fór ég bara inn á bloggið til að hreinsa út óværu (þurfti að kæfa spam sem rignir inn þessa dagana) svo þetta er illa ígrunduð (svo orðað fyrir menntavísindafólk) og óskipuleg (svo orðað fyrir fræðimenn halla undir númerakerfi) færsla.

Sem sagt: Mín bíða spennandi framtíðarverkefni, á borð við fyrstu ferð á skjalasafn og nálastungur á morgun, deit við Djáknann á Myrká fljótlega (sé ekki ástæðu til að skýra þetta nánar) og svo ætti ég nú að fara að drífa í að segja upp stöðunni minni og jafnvel huga að uppboði á kennslugögnum eða stórhendingum og tiltekt uppi í skóla. Skítt með tiltektina en visst vesen fylgir uppsögn, starfslokatilkynningu og biðlaunum sem ég verð þá að þiggja og fokkar upp örorkulífeyrinum á meðan o.s.fr.

   

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation