Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“

Saga Sögu Akraness I

Undanfarna viku hef ég reynt að setja mig inn í söguna sískrifuðu, þ.e.a.s. reynt að átta mig á hvers vegna bæjarfélagið mitt hefur eytt ómældu fé í að láta endurskrifa sama hluta sögu Akraness aftur og aftur. Þetta er flókin saga sem ég reyni að gera skil í nokkrum bloggfærslum. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í heimildaöflun en ég reikna með að geta skrifað færslurnar smám saman … ekki á sautján árum heldur á næstu vikum. En byrja auðvitað á byrjuninni. Þessum færslum er safnað í sérstakan færsluflokk, sem sjá má á flokkalista hér til hægri. Fyrirsögn þessarar fyrstu færslu er að hluta tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms hreppstjóra Jónssonar.
 
 
 

Landnám BresasonaÞað er upphaf þessa máls að Ketill og Þormóður Bresasynir námu land í kringum Akrafjall og af frændum þeirra, fylgdarliði og afkomendum fer nokkrum sögum en næsta fáum af þeim sjálfum. [Myndin sýnir landnám þeirra bræðra, sem afmarkaðist af Urriðaá og Kalmansá. Rauða brotalínan sýnir hvernig þeir skiptu landinu milli sín.] Mætti með góðum vilja kalla sumt af þessum fornu sögum „sögu Akraness“ því nessins og nánasta umhverfis er getið á stöku stað.

Það er ekki þó efni þessarar umfjöllunar að tína saman brot úr fornritum. Sömuleiðis sleppi ég yfirleitt að geta einstakra greina og þátta sem hafa verið skrifuð um sögu Akraness en tek fram að margt af slíku efni er ljómandi gott og vel unnið. Hugmyndir um að skrifa sérstaka sögu bæjarins Akraness og svæðisins í kring koma ekki fram fyrr en talsvert er liðið á síðustu öld.
 

Hallgrímur hreppstjóri og fyrirlestur hans

Hallgr�mur hreppstjóri JónssonÞó virðist nokkur hefð komin á að telja fyrirlestur Hallgríms hreppstjóra Jónssonar, fluttan 1889, um lífið á Skaganum síðastliðin 100 ár, sem fyrsta innlegg í sögu Akraness. [Myndin er af Hallgrími hreppstjóra.] Þar sagði Hallgrímur m.a. um sagnafátækt af þessu útnesi: „Þetta frásöguleysi er líka eðlilegt, því hér hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki – en einstakir menn og þjóðirnar hefja bæina og löndin. Sem sagt, hafa aldrei á Skaganum verið fram yfir miðja þessa öld, neinir menn, sem kveðið hefur að. Enginn lærður maður, hvorki til munns né handa, enginn embættismaður búið þar, ekki svo mikið sem presturinn, ekkert skáld, sem plássið hefði getað borið minjar um í bæjarrímu eða formannavísum, eða nokkrar ritsmíðar sem getandi sé.“1

Kannski er öll síðari tíma vinna við ritun sögu Akraness í og með til að hrekja þessa kenningu Hallgríms hreppstjóra?
 

Héraðssaga Borgarfjarðar

Í kringum 1935 var unnið að ritun Héraðssögu Borgarfjarðar af miklum metnaði.  Út komu tvö bindi með ýmsum þáttum eftir marga höfunda og hið þriðja fjallaði um skólann á Hvanneyri. Áformað var að fjalla sérstaklega um sögu Akraness, „Sögu Akraness og væntanlega utan Skarðsheiðar er nú verið að safna til og skrá, og eru líkur til, að hún, komi á sínum tíma út sem sjálfstætt bindi héraðssögunnar.“ (Kristinn Stefánsson í Tímanum 7. maí 1936) eða verði a.m.k. „langur þáttur og fróðlegur“ (Kr. Þ., væntanlega Kristleifur Þorsteinsson, í Lögbergi 31. des. 1936). Ekkert virðist hins vegar hafa orðið úr þessari ætlan.
 
 

Ólafur B. Björnsson: Saga Akraness I og II

Ólafur B. Björnsson og Saga Akraness IÓlafur B. Björnsson (1895-1959) fæddist á Akranesi og bjó hér alla tíð. Hann gaf sjálfur út tímaritið Akranes í 17 ár, þar sem birtust margir þættir, frásagnir og viðtöl sem vörðuðu lífið á Skaganum og sögu plássins og safnaði Ólafur miklu efni um þetta. Svo réðst hann í útgáfu á Sögu Akraness, sem átti að verða í fimm bindum. Einungis Saga Akraness I og II komu út (1957 og 1959) því Ólafur lést áður en verkið var fullunnið, var þá langt kominn með þriðja bindið. Þessu virðist hann að mestu hafa áorkað á eigin spýtur og í hjáverkum með öðrum störfum. Bæjarstjórnin styrkti hann þó í upphafi með 10.000 kr. framlagi. (Væri gaman að vita hvað sú upphæð 1957 er há á núvirði.)

Efnisþættirnir sem Ólafur náði að gera skil í þessum tveimur ritum eru: Saga fyrstu jarða á Skaga, saga sjávarútvegs og saga verslunar á Skaganum. Ég hef oft gluggað í þessar bækur og finnst þær mjög skemmtilegar, ekki hvað síst af því Ólafi er persónusaga hugleikin sem og lýsingar á mannlífinu á ýmsum tímum og mér finnst hann segja vel frá. (Hef þó séð þess getið að honum hafi verið stirt um skrif en hef ekki tekið eftir því sjálf.)  Bækurnar eru myndskreyttar en auðvitað eru myndirnar svarthvítar. Sömuleiðis má í þeim finna kort (yfir bæjarstæði, mið og fleira), töflur (yfir hundraðatal jarða, aflamagn o.fl.) og ég sé ekki betur en hann vísi í fjölbreyttar heimildir; prentaðar, munnlegar og óprentuð skjöl.

Því miður auðnaðist Ólafi ekki að fjalla um nema afmarkaða þætti en það væri gaman að vita hvað varð um allt það efni sem hann hafði safnað til ritunar Sögu Akraness. Það efni er tíundað í „bréfabindatali“ í viðtalinu sem ég vísa í hér að neðan. Sennilega er það upphaf þeirrar hefðar að lýsa vinnu við ritun sögu Akraness í bréfabinda- og blaðsíðutali gagna fremur en afrakstri eða afköstum. Innbundin eintök af tímaritinu Akranesi og Sögu Akraness I og II er hins vegar auðvelt að nálgast á bókasafni bæjarins og bera myndarskap og elju Ólafs gott vitni.

Um ritunarstörf frumkvöðulsins Ólafs B. Björnssonar má m.a. lesa í viðtalinu „Ekkert gerir sig sjálft“ í Þjóðviljanum 27. ágúst 1958 og um æviferil hans í minningargrein sem Ásmundur Ólafsson skrifaði um hann á hundrað ára fæðingarafmæli hans, í Morgunblaðinu 6. júlí 1995.
 
 

Áform bæjarstjórnar um að gefa út framhald af sögu Ólafs B. Björnssonar

[Viðbót 16. maí 2011: Í lítilli frétt í Tímanum 19. apríl 1978, „Flytur þætti úr sögu Akraness“, er sagt frá smáblaðinu Umbroti sem kom út á Akranesi á þeim tíma. Í grein sem Þorsteinn Jónsson skrifaði í þá nýútkomið Umbrot, 4. tbl., er „birt samþykkt sem gerð var af bæjarstjórn Akraness 1964, þar sem samþykkt var að láta semja og gefa út framhald af sögu Akraness, sem Ólafur B. Björnsson hóf útgáfu á árið 1957, og skildi [svo] fé varið úr bæjarsjóði til útgáfunnar. Nefnd var skipuð og fjárveitin fékkst en ekkert var gert í málinu.“]

Næsta skref í söguritun Akraness var að bæjarstjórn Akraness samþykkti um mitt ár 1967 að láta gera tvennt í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því að Akranes fékk verslunarréttindi: Annað var að gera afsteypu af höggmynd Marteins Guðmundssonar, Sjómaður, og komst það í verk; sú stytta stendur niðri á Akratorgi og er ofast kölluð Sjómaðurinn. Hitt var að „láta semja og gefa út framhald af Sögu Akraness, sem Ólafur B. Björnsson hóf útgáfu á árið 1957. Ráðinn verði ritstjóri að verkinu í samráði við eigendur höfundarréttarins og fé varið út bæjarsjóði til útgáfunnar.“  (Sjá „Minnismerki sjómanna á Akranesi“, frétt dags. 16 júní 1964 í Alþýðublaðinu 17. júní 1964.)

Mér finnst áhugavert að árið 1967 hafi bæjarstjórnin haft sinnu á að huga að höfundarrétti. E.t.v. var hún eingöngu með rétt á titlinum í huga, líklegar þó með aðgang að því efni sem Ólafur hafði þegar safnað og handritið að III. bindinu í huga. Ekki er ljóst hvort átti að ráða einhvern einn söguritara eða einungis ritstjóra sem byggði þá væntanlega á því sem til var fyrir og sæi um að verkið yrði klárað (gæti þess vegna hafa átt að fá marga höfunda til að skrifa einstaka þætti).

En af hverju varð ekkert úr því að framhaldið væri skrifað? Eins og stór hluti íbúa Akraness er ég aðflutt, á ekki ættir að rekja til Skagans, er ekki innvikluð í fótboltann og veit ekki hvers vegna ekkert gerðist í söguritun áformaðri 1967. Var ráðinn ritstjóri? Eða var ráðinn söguritari sem engu skilaði af sér? Eða tímdi bærinn aldrei að eyða fé í framhaldið af Sögu Akraness I og II? Víst er að hefðu þessi loforð eða samþykkt bæjarstjórnar Akraness árið 1967 haldið hefði miklu öngþveiti og fjáraustri sem síðar tók við í sagnaritun Akurnesinga verið forðað. Kannski getur einhver lesandi upplýst málið?
 
 
 

Áhrif Háskólans í Lundi og „Safn til sögu Akraness“

Hér er ekki lýst ákveðinni atrennu að skrásetningu á sögu Akraness heldur einhvers konar undirbúningsvinnu sem átti að leiða til einhvers konar niðurstöðu sem ætti að vera hægt að nota í einhvers konar tilgangi, e.t.v. skrásetningu sögu byggðarlagsins. Þetta skiptir þó máli því vinnan hefði átt að skila góðum grunni fyrir framtíðarsöguritara. Sjálf tel ég að hugmyndafræðin sem tiltölulega fámennur hópur aðhylltist, eigandi það sammerkt að hafa stundað nám í Háskólanum í Lundi laust fyrir 1980 (og e.t.v. loddi stefnan eitthvað lengur), hafi haft sitt að segja síðar meir þegar hið rándýra ævintýri um söguna sískrifuðu hófst og hélt áfram í meir en tvo áratugi. Þess vegna get ég þessa hér.

Árið 1975 stofnuðu íslenskir nemar við Háskólann í Lundi „Félag þjóð- og fornleifafræðinema“. Félagið samdi plagg, „Hugmynd að þjóðminjastofnun á Íslandi“ sem var sent ýmsum stofnunum og söfnum hérlendis og virtust þessir nemar í upphafi hafa hug á samstarfi við þau. En samstarfið gekk ekki, sem kemur reyndar ekkert á óvart þegar yfirlýsingar hluta þessara námsmanna í fjölmiðlum 1976-78 eru lesnar. Þeir vissu nefnilega allt miklu betur en aðrir og gáfu hikstalaust í skyn að þeir sem til þessa hefðu staðið að þjóðháttasöfnun, fornleifauppgreftri, skráningu hvers konar o.þ.h. á Íslandi hefðu verið illa menntaðir fúskarar.2

AkrafjallStrax vorið 1976 hóf lítill hópur störf við „réttframkvæmdar“ svæðisrannsóknir eða mannlífsrannsóknir, að sögn að frumkvæði námsmannanna í Lundi. Fyrir valinu varð svæðið sunnan Skarðsheiðar.  Eitt af mörgu sem rannsaka átti sérstaklega var útgerðarsaga Akraness „sem lítt hefur verið könnuð þjóðfræðilega, þótt margt hafi verið um hana ritað frá öðrum sjónarmiðum“ svo sem lýst er yfir í „Athugun af nýjum sjónarhóli: Byggðasaga sveita sunnan Skarðsheiðar“ í Tímanum 4. júlí 1976, s. 39.

Vinnan 1976 fólst einkum í frumsöfnun ritaðra heimilda og skipulagðri skráningu þeirra; að fara gegnum örnefnaskrár og fara í viku könnunarleiðangur þar sem aflað var upplýsinga um fornar minjar og aðrar sögulegar leifar. Var þess vænst að með því móti fengist nokkur mynd af menningarsögu þjóðarinnar.

Í þessum sex manna hópi voru: Þorsteinn Jónsson, nemandi í þjóðháttum og fornleifafræðum við Háskólann í Lundi, og Þorlákur Helgason, útskrifaður í hagfræði og mannfræði (þessi tveir voru einkum í forsvari fyrir hópnum), Inga Dóra Björnsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson, Margrét Hermannsdóttir og Eiríkur Guðmundsson. Sagt var að þetta væru nemar og fullnemar (svo) í fornleifafræði, þjóðhátta- og þjóðfræðum, þjóðfélagsfræðum og sagnfræði.

Til verkefnsins fékkst myndarlegur styrkur úr Vísindasjóði þrjú ár í röð, 1976, 1977 og 1978, og líklega einhverjir fleiri styrkir.3

Er skemmst frá því að segja að engin merki um hina miklu söfnun hópsins sjást við leit í gagnasöfnum á Vefnum (en hafi mér yfirsést merkisplögg frá þessum hópi bið ég lesendur vinsamlegast að benda mér á það í athugasemdum). Þetta fólk snéri sér flest skömmu síðar að öðrum viðfangsefnum og engin ritverk, t.d. skýrslur, greinar eða annað sem varðar þessar merku mannlífsrannsóknir sunnan Skarðsheiðar eru skráð eftir þau í Gegni, með einni undantekningu. Í Akranes. Fornleifaskrá, sem Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson unnu fyrir Fornleifastofnun Íslands og var gefin út 1999 er einskis frá þessum hópi getið í heimildarskrá utan þessarar einu undantekningar. Auðvitað er hugsanlegt að djúpt í iðrum Þjóðskjalasafns sé að finna einhvern afrakstur þessa þriggja sumra verkefnis en það svo vel varðveitt að þess sjáist ekki spor á Vefnum.

Undantekningin er framtak Þorsteins Jónssonar. Hann setti árið 1978 upp sýningu í Bókhlöðunni sem nefndist „Akranes gamla tímans“ og hafði safnað til hennar gömlum ljósmyndum af Skaga allt frá aldamótum 1900. Þorsteinn segist í viðtali hafa „unnið að undirbúningi verkefna um menningarsögu Akraness í „Safn til sögu Akraness“ einkum byggðaþróun Akraness. Hefur hann skilað skýrslu um timburhús á Akranesi fyrir aldamót. Þegar að þeim þætti verkefnisins kom að safna á einn stað ljósmyndum, uppdráttum og teikningum varð honum ljóst að frá Akranesi var miklu meira af myndefni en hann hafði grunað. Varð það tilefnið til sýningarinnar. Að baki hennar liggur tveggja mánaða sjálfboðavinna Þorsteins og hefur hann því gripið til þess ráðs að hafa ljósmyndirnar til sölu …“4

Engar frekari upplýsingar um „Safn til sögu Akraness“ finnast í leit á Vefnum og óvíst hvort það verk hafi átt að birtast á prenti eða einhverju öðru formi eða geymast í kössum. Ég man ekki til þess að hafa séð nein „verkefni um menningarsögu Akraness“ en ef einhver veit meira um þetta eru upplýsingar vel þegnar. E.t.v. hefur Þorsteinn hugsað sér að skrifa eitthvað um sögu Akraness. En það gerði hann ekki – hins vegar skrifaði hann sögur nokkurra annarra byggðarlaga ásamt fjölda ættfræðirita, nokkurra stéttartala og rita annars eðlis.5
 
 
 

Ástæðan fyrir því að ég get sérstaklega þessarar skrýtnu vinnu í rannsóknum á byggðarsögu sveita sunnan Skarðsheiðar (skrýtnu að því leytinu að hún virðist eftir á séð ekki hafa skilað neinu en hafa verið ákaflega auglýst og uppblásin á sínum tíma, af aðstandendum) er að mig grunar að hugmyndafræðin frá Lundi hafi haft sín áhrif löngu seinna. Ekki hvað síst sú skoðun þarmenntaðra að þeir einir kynnu réttar aðferðir við rannsóknir og skráningu á sögu byggðarlaga.

Viðbót 8. maí 2011:

Þorsteinn Jónsson upplýsti í símtali mánudaginn 2. maí að hann hefði notað tækifærið á þessari sýningu sem sagt er frá hér að ofan til að safna gömlum myndum af Akranesi og skrá upplýsingar um nokkur hundruð óskráðar myndir af fólki sem til voru á Byggðasafninu í Görðum. (Hið sama kemur fram í viðtali við Þorstein, „Akranes gamla tímans“ í Vesturlandsblaðinu. Málgagni Alþýðubandalagsins á Vesturlandi 1. tbl. 3. árg. 16. jan. 1979, s. 5.) Það sem skiptir þó öllu meira máli er að á meðan á sýningunni stóð skráði Þorsteinn örnefni eftir upplýsingum sem eldri safngestir gáfu. Alls sóttu um 6000 gestir þessa sýningu og komu sumir, aðallega eldra fólk, dag eftir dag. Þorsteinn var með stórt grunnkort af Akranesi eins og það leit út 1901 og færði jafnóðum inn á það örnefnin og upplýsingarnar. Akranesbær keypti sýninguna (stækkuðu myndirnar) að henni lokinni og fékk ódýrt. Öllum upplýsingum, þ.á.m. örnefnakortinu, skilaði Þorsteinn svo upp á Byggðasafnið í Görðum. Það merkilega er að starfsfólk Ljósmyndasafns Akraness, Skjalasafns Akraness og Landmælinga Íslands hefur aldrei heyrt um þetta örnefnakort og aldrei séð það en þætti í því talsverður fengur. Sömuleiðis hafði Ljósmyndasafn Akraness ekki heyrt af þessum stækkuðu myndum sem Akranesbær keypti af Þorsteini. Hugsanlega er þetta góss geymt upp á Byggðasafninu, mér tókst ekki að ná í upplýsingar um það, en mér þykir þó fremur ólíklegt að kortið sé þar því seinna meir lagði forstöðumaður Byggðasafnsins frá 1979, Gunnlaugur Haraldsson, þunga áherslu á örnefnasöfnun og einmitt örnefnakort, þegar hann tók sæti í svokallaðri Ritnefnd um sögu Akraness árið 1987. (Eftir að Gunnlaugur tók svo við sagnaritarastarfinu sjálfur lagði hann enn meiri áherslu á ýmiss konar örnefnakort og örnefnasöfnun en það er ekki efni þessarar færslu.)

[9. maí – viðbót: Forstöðumaður Byggðasafnsins, Jón Allansson, staðfesti að örnefnakortið af Akranesi 1901 er geymt uppi á Byggðasafni og ljósmyndirnar sem bærinn keypti á sínum tíma eru líka þar.]

Þorsteinn Jónsson kannaðist ekki við að hafa skrifað neitt rit sem héti eitthvað í líkingu við það sem Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson telja upp í heimildaskrá í sinni skýrslu, Akranes. Fornleifaskrá, og er þar væntanlega enn eitt dæmið um frámunalega léleg vinnubrögð í heimildaskrá Adolfs og Orra. 

Þorlákur Helgason staðfesti í símtali sama dag að ekkert hefði komið út úr þriggja sumra svæðisrannsókn á byggð sunnan Skarðsheiðar. Engum gögnum hefði verið skilað neins staðar, hugsanlega hefði verið skilað einhverjum skýrslum um verkefnið [það hlýtur að hafa verið gert því ella hefði tæplega fengist styrkur þrjú ár í röð frá Vísindasjóði, auk annarra styrkja] og hefði verið til eitthvert handrit um eitthvað af þessari vinnu væri það löngu glatað.]  

Framhaldið, sem komið er:

Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …


1 Tilv. í Hallgrím er fengin  úr formála Ólafs B. Björnssonar að Sögu Akraness I, s. 6-7, útg. 1957. Fyrirlestur Hallgríms hét „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár“ og var fluttur í nýreistu barnaskólahúsi hér í bæ þann 13. janúar 1889. Hallgrímur hóf sögu sína 1789 þegar Ólafur Stephensen stiftamaður bjó á Innra-Hólmi og átti Skagann. Þá bjuggu hér 67 manns í 10 moldarbæjum og þrem tómtúsbúðum. Árið sem Hallgrímur flutti fyrirlesturinn hafði íbúum Akraness fjölgað upp í tæplega 600 manns sem bjuggu í 16 bæjum, 36 timbur- og múrhúsum og 34 tómthúsbúðum. Um fyrirlestur Hallgríms má fræðast í þeim tveimur sögum Akraness sem út hafa verið gefnar og væntanlega einnig í þeirri þriðju sem kemur út 19. maí næstkomandi. Einnig má benda á „Frá Akranesi 24. marz:“ í Ísafold 17. marz 1889. 

Af því Hallgrími lá talsvert illt orð til Stefánunga í þessum fyrirlestri hafa sumir hampað honum sem sérstökum vini alþýðunnar. En Hallgrímur var ódauðlegur gerður í heimildaskáldsögu Þorsteins frá Hamri, Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi: söguþáttur úr Borgarfirði, sem kom út hjá Iðunni árið 1990. Þar kemur nokkuð vel fram að Hallgrímur hreppstjóri var ekki sérstakur vinur alþýðunnar.

2  Hér og í næstu efnigreinum er endurorðað og samantekið úr ýmsum greinum í fjölmiðlum enda var hópurinn ákaflega yfirlýsingaglaður í fyrstu. Sjá:

Svæðisrannsókn á byggð sunnan Skarðsheiðar – yfirgripsmikil rannsókn á sögu heils byggðarlags“. Alþýðublaðið 3. júlí 1976, s. 4
Fundu íslenzka spunavél í haughúsinu“. Morgunblaðið 20. ágúst 1976
Athugun af nýjum sjónarhóli: Byggðasaga sveita sunnan Skarðsheiðar“. Tíminn 4. júlí 1976, s. 39
Svæðisrannsókn á byggðinni sunnan Skarðsheiðar“. Þjóðviljinn 4. júlí 1976, s. 24
Stúdentar á rannsóknarferð um landið. Svæðisrannsókn“. Stúdentablaðið 28. júlí 1976, s. 5
Nýstárlegar rannsóknir: Mannlíf sunnan Skarðsheiðar“. Dagblaðið 2. júlí 1976

 

3 Sjá ofangreindar heimildir og einnig:
Frétt í Morgunblaðinu 25. júní 1977 um úthlutun Vísindasjóðs
Frétt í Morgunblaðinu 25. júní 1978 um úthlutun Vísindasjóðs

Um milljónafélag stúdenta“ eftir Árna Björnsson. Alþýðublaðið  30. júní 1978
Um „prófhroka” og „milljónafélag stúdenta” Athugasemd frá Margréti Hermannsdóttur“. Morgunblaðið 4. júlí 1978.
Athugasemd frá skrifstofu Þjóðminjasafns Íslands“ og „Tvö úr hópi „þjóðháttasafnara 1976“ skrifa: Heiður þeim sem heiður ber“. Þjóðviljinn 7. júlí 1978, s. 9.

4Akranes gamla tímans“. Þjóðviljinn 20. desember 1978.

 
Eftir Þorstein Jónsson liggur Hús og býli á Akranesi sem virðist eingöngu aðgengilegt í Bókasafni Akraness. Verkið er 147 síður og í því eru myndir, teikningar og uppdrættir. Þetta er óprentað handrit ársett 1978.
 

Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson telja í heimildaskrá við Akranes. Fornleifaskrá, útg. 1999: Þorsteinn Jónsson. „Þættir úr sögu Akraness. Húsheiti á Akranesi, fyrri hluti, 2 þáttur“ (Ópr.) og hafa hugsanlega fengið eitthvert handrit hjá höfundinum. Reyndar er heimildaskrá Adolfs og Orra illa unnin og í henni óafsakanlegar villur svo erfitt er að draga af henni ályktanir. Kannski eru þeir að vísa í fyrrnefnt Hús og býli á Akranesi.

5 Byggðasögur Þorsteins Jónssonar eru skráðar í ritröð sem kallast Íslendingar, ættir, byggðir og bú, nema sú elsta. Hann virðist standa einn að þessari ritröð og hafa ritað sögurnar að beiðni og fyrir tilstyrk viðkomandi sveitarfélaga. Af bókfræðiupplýsingum í Gegni er óljóst hversu mikið Þorsteinn hefur ritað þessar bækur sjálfar eða hversu mikið verið ritstjóri yfir ritun annarra. Byggðasögurnar eru: Eylenda: mannlíf í Flateyjarhreppi á Breiðafirði (útg. 1996), Kjalnesingar: ábúendur og saga Kjalarneshrepps frá 1890 (útg. 1998); Hrunamenn: ábúendur og saga Hrunamannahrepps frá 1890 (útg. 1999); Eyja- og Miklaholtshreppur: ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900 (útg. 2000) og Kolbeinsstaðahreppur: ábúendur og saga Kolbeinsstaðahrepps frá 1900 (útg. 2000).
 
 
 
 
 
 
 

4 Thoughts on “Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“

  1. Þ Lyftustjóri on April 30, 2011 at 14:26 said:

    Þökk fyrir fróðlega úttekt og með hlökkun til framhaldsins. Þó langaði mig til að vekja athygli á að tenglarnir í eftirmálsgreinunum hafa farið nokkuð á skjön og væri ánægjuríkara ef þú hefðir tíma til að lagfæra þá svo unnt sé að lesa um þetta viðstöðulítið.
    Annars gengur allt sinn vanagang suður með sjó; menn fæðast, vaxa upp og falla frá. Þannig var dimissio í gær og fór vel fram og drengilega.
    Vonandi nærðu bata þannig að þú komir til starfa að nýju; að fólki eins og þér er sjónarsviptir.
    Libbðu heil, Þorvaldur

  2. Takk Þorvaldur minn, nú vona ég að ég sé búin að laga þetta.

    Hér í bæ fór einnegin fram dimmisjón (sem ég reyndi að fá dimmittanda heimilisins til að kalla frekar “Mission Impossible” enda enska núorðið alheimstungumál og óþarft að halda í latínufrasa, sem auk þess hættir til að breytast í dimmisjóv). Börnin voru léttklædd og áreiðanlega hafa fleiri mæður en ég haft áhyggjur af skinninum litlu – þau voru strandverðir (Baywatch). Aftur á móti held ég að brúnkusprautunaraðilar bæjarins hafi þarna eignast dágóða búbót svo fyrir atvinnulífið í okkar góða bæ var vel valið. Hef engar fregnir fengið, drengurinn sefur enn og segir auk þess móður sinni aldrei neitt. (Til að vinna á eigin púrítanisma, stúkuhugsjónum og fordómum hraðrifjaði ég upp mína eigin dimmisjón og sá í hendi mér að ástandið gæti aldrei orðið nema skárra, í þeim nútíma fjölgrautaskóla.)

    Bata? Tja … nálastungurnar virka kannski eitthvað. Fáir kostir eru eftir í stöðunni og þeir fáu útheimta græjur eða heilaskurð og ég er ekki tilbúin í slíkt upp á von og óvon. Þannig að maður spilar þetta eftir eyranu, tekur einn dag í einu. Og reynir að finna verðug viðfangsefni til að sökkva sér ekki í eigin kröm. Störf að nýju eru því miður ekki í sjónmáli en takk fyrir hrósið 🙂

    Svo vona ég að uppfæddur og innfæddur Skagaaðalinn fái ekki flog yfir að N-Þingeyingur fari yfir hið ævintýralega drama sem ritun Sögu Akraness er … færslur munu verða meir krassandi en þessi hin fyrsta meinlausa inngangsfærsla.

  3. Adolf Friðriksson on June 5, 2011 at 23:19 said:

    Sæl Harpa,

    Ritið “Þorsteinn Jónsson. „Þættir úr sögu Akraness. Húsheiti á Akranesi, fyrri hluti, 2 þáttur“ (ópr.) er á bókasafni Byggðasafns Akraness og nærsveita.

    Ef þú hefur fundið eitthvað sem miður hefur farið í heimildaskrá fyrir fornleifaskrá okkar Orra Vésteinssonar um Akranes 1999 þætti mér vænt um að fá frá þér ábendingar þar um.

    Kær kveðja,

    Adolf Friðriksson

  4. Harpa Hreinsdóttir on June 6, 2011 at 08:02 said:

    Það sem mér þótti einkum gagnrýnivert í heimildaskrá ykkar Orra er að þar er þrástagast á röngu föðurnafni, þ.e.a.s. taldar eru upp fimm örnefnaskrár og höfundur sagður Ari Jónsson. Sá sem safnaði örnefnunum og er höfundar skráanna hét Ari Gíslason og var reyndar einn af stórvirkustu örnefnasöfnurum Örnefnastofnunar, að sögn Hallgríms J.  Ámundasonar, starfsmanns Örnefnasafns Nafnfræðisviðs Árnastofnunar. Mér þótti því heldur hlálegt að geta ekki haft föðurnafn hans rétt eftir og ekki benda til vandaðra vinnubragða í heimildaskrá.

    Ritið eftir Þorstein Jónsson sem einungis er til í fjórum skráðum eintökum (auk dularfulls eintaks í fórum Gunnlaugs Haraldssonar) heitir: “Hús og býli á Akranesi” og er óútgefið handrit frá 1978, 147 síður (sjá upplýsingar í Gegni). Þessi skráðu eintök eru varðveitt í bókasafni Akraness.

    “Þættir úr sögu Akraness” birtust í blaðinu Umfangi sem gefið var út á Akranesi, a.m.k. árið 1978. Væntanlega ertu þá að vísa í handrit af einum þeirra þátta? Ég hafði orð Þorsteins Jónssonar fyrir að hann hefði ekki skrifað neitt rit (ópr.) sem héti “Þættir úr sögu Akraness. Húsheiti á Akranesi, fyrri hluti, 2. þáttur”. Sjálfsagt hefur hann ekki grunað, þegar ég spurði hann um tilvist þessarar heimildar,  að um væri að ræða handrit að blaðagrein sem þið vísið í, ef það skyldi vera skýringin. Og sé svo, hefði þá ekki verið rétt að spyrja höfundinn leyfis? Og vísa í geymslustað handrits ef um er að ræða óskráð handrit að blaðagrein? Raunar teljið þið þetta verk Þorsteins upp undir Prentaðar heimildir sem er út af fyrir sig undarlegt úr því tekið er fram að það er óprentað og í heimildaskrá er fyrst flokkurinn Óprentaðar heimildir  😉

    Ég skoðaði einungs heimildaskrána því ég ætlaði að leita mér upplýsinga um örnefni út frá henni (en hef ekki sérstakan áhuga á skráningu fornleifa á Akranesi). Ég komst að því að heimildaskráin ykkar er ekki góður byrjunarreitur, eins og sést af ofantöldu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation