Ætti ég að blogga um …

Enn vinn ég að næstu færslu um SSA (Sögu Sögu Akraness) og er sammála þeim þrautreynda söguritara að heimildaleit og úrvinnsla heimilda getur verið tímafrek. Reikna þó með að geta hnoðað saman næstu færslu fyrir helgi … ekki að liggi neitt á … ekki að málið sé glænýtt …

En útaf ákv. vísu sem ég fékk á FB (takk fyrir hana, S.) fór ég aðeins að spá í hvort ég ætti kannski að blogga um eitthvað annað. Blogga svokallað milliblogg (MB). Þá eru helstu kostirnir náttúrlega:

Sjúkdómablogg, sem ég nenni ekki því FB virkar svo ágætlega fyrir heilsufarsstatusa og ekkert hefur breyst.

Endursagnarblogg af ýmsu tæi. Lesendum ætti að vera ljóst að ég er mjög höll undir svoleiðis blogg, sumum, einkum sumum afkomendum, jafnvel til skapraunar. Endursagnarblogg í dag gæti verið sígild og síendurtekin umræða um besserwissara í málefnum geðsjúklinga. Liggur beint við að fjalla um Steinþór vísindasagnfræðing, sem enn og aftur vill beina því til okkar pilluætanna hve heimskar við erum að falla fyrir útspekúleruðum geðlæknum sem eru nánast á mála hjá illum amrískum lyfjaframleiðendum. (Sjá grein í Tímariti félagsráðgjafa.) En ég nenni ekki að hrekja málflutning Steinþórs (sem er snýttur úr málflutningi Héðins) einu sinni enn og ákvað að leyfa honum að hafa sína andlyfja skoðun einu sinni í friði. Á hinn bóginn kætti mig nokkuð að sjá leiðbeiningar félagsráðgjafa til þeirra sem vilja skrifa í hið ritrýnda tímarit (og virðast afar stoltir af  RIT-rýningunni):  

Málfar og textameðferð. Vandað skal til röklegrar samningu texta, málfars og frágangs. Eingöngu er tekið við handritum sem eru vandlega yfirfarin hvað varðar stafsetningu, stafavillur/brengsl og meðferð íslensks máls. Mælst er til að greinarhöfundar hafi að lokinni samningu fengið nákvæman yfirlestur á handrit sitt, bæði málfar og textameðferð áður en það er sent til ritstjórnar.

Veit ekki hvort þessi tilvitnun fellur undir eiðs-svanbergslegt blogg (ESB-blogg) eða bara kvikindislegan húmor.

OMGblogg (sem einnig mætti kalla je-dúdda-mía blogg eða ég-get-svo-svaaaarið’að-blogg), yfirleitt um hvað allt er á leiðinni til andskotans í þjóðfélaginu nútildags. Svona blogg býður upp á ýmsa möguleika, frá lélegri íslenskukunnáttu unga fólksins á þessum síðustu og verstu tímum til blammeringa á pólitíkusa, sem bloggari brigslar þá í leiðinni um að vera siðblindir, siðlausir, siðvilltir, geðveikir, þroskaheftir, veruleikafirrtir eða eitthvað álíka (fer eftir orðaforða bloggara). 

Ýmis stílafbrigði af OMG-bloggum standa til boða, t.d. að hafa greinaskil að lokinni hverri málsgrein eða raða færslunni saman nær eingöngu úr afrituðum bútum úr bloggum annarra, fréttum úr vefmiðlum, jafnvel YouTube-myndböndum. Hvort tveggja gerir sig vel, hið fyrrnefnda staðfestir hve bloggara er mikið niðri fyrir og hvernig þarf að stoppa til að taka andköf, hið síðarnefnda staðfestir að bloggari standi ekki einn í sinni hneykslan eða kemur í stað heimildaskráa og tilvísanaskráa (sem ég viðurkenni fúslega að eru hallærislegar í sumu bloggumhverfi, t.d. mínu eigin).

Blogg beinskeytta byltingarmannsins (BBB-blogg); í dæmigerðu BBB-bloggi í dag gæti ég fjallað um hve andstyggilegt og ljótt var að kála Osama bin Laden og tengt það einhvern veginn við að ísbjörn var felldur í Rekavík, sem er líka ljótt.

BBB-blogg byggjast á svipaðri aðferðafræði og sú ágæta bók 1066 And All That þar sem atburðir í Bretlandssögu eru flokkaðir klárlega í góða og vonda (Which was a Good Thing eða Which was a Bad Thing) og er að því leytinu ákaflega þægileg til að mynda sér söguskoðun. Í BBB-færslu um Ósama væri rétt að benda á hve helv. kaninn hefur alltaf verið mikið ógeð og helst að tengja við Ísland úr Nató-herinn burt eða Víetnam-stríðið eða að fæðingarvottorð Óbama sé örugglega falsað. Um leið yrði að tengja við krúttið Knút og vesalings landflótta grænlenska bangsa í sjálfsvígssunds-hugleiðingum sem lenda á því illa Íslandi þar sem morðóð og byssuglöð löggan plaffar þá niður og fær kikk út úr öllu saman, sem mætti svo tengja við almenna fyrirlitningu á dómskerfinu hér á landi, útrásarvíkinga og óhæfi sérstaks saksóknara, ásamt því að vorkenna fótboltaliði á Vestfjörðum sem glaptist til að hafa ísbjörn í sínum einkennisfána.

BBB-blogg eru stundum dálítið lík OMG bloggum en má styðjast við, í greiningu, að þau síðarnefndu minna oftast dálítið á kerlingaklúbba fyrri tíma, þar sem húsmæður hittust í eldhúsinu, með rúllur í hárinu og keðjureyktu og fóru með ég-get-so-svaaarið’að! – eða afbrigðið ég-get-so-GUÐ-svaaarið’að! (þetta var reyndar fyrir mína tíð en bloggynja er sæmilega lesin og vídjófróð). BBB-blogg eru aftur á móti frekar tengd byltingarmanni án málstaðar, t.d. uppgjafa allaballa sem reynir að ríghalda í þá gömlu góðu (löngu liðnu) tíma þegar heimsmyndin var svarthvít og tiltölulega einfalt að hafa hina einu réttu skoðun og þótti sú hin eina rétta skoðun almennt smart í ákveðnum kreðsum.

Blogg-um-blogg (BUB-blogg) eru löngu sígild. Þá er náttúrlega bloggað um blogg af ýmsu tagi, þau flokkuð í blogggreinar og undirblogggreinar, kastað smá skít í stutt-skítkasts-blogg (oft kennd við moggann) og fárast svolítið yfir hve FB hefur gengið af blogginu dauðu og hve öllu fer aftur (ó-temora-ó-móres-fílingurinn).

Þetta er dæmigert BUB-blogg, ég sé það núna.

  

6 Thoughts on “Ætti ég að blogga um …

  1. Frásögn um margboðað blogg. Fyrirtaksmaðurinn sjálfur bíður milli vonar og ótta. En svona allsherjar BUB blogg er ágætt. Þetta er ekki neitt milliblogg. Eiginlega er þetta alveg sjálfstætt blogg (SB) Mun betra en ekki neitt. FB minnir mig alltaf á fjölbrautaskólann í Breiðholti. Get ekki að því gert. Vísulaus verður þessi athugasemd. Þetta er fyrsta og eina skiptið sem ég reyni. Annars fer ég bara á FB.

    SSB

  2. Harpa on May 5, 2011 at 08:36 said:

    Er doldið spæld yfir að ekki var splæst vísu! 😉 En í alvöru gerði ég fjölda tilrauna til að skrifa athugasemd á þitt blogg og niðurstaðan var sú að athugasemdin birtist alls ekki nema hún sé mjög stutt. Og, eins og flestir ættu nú að hafa tekið eftir, það liggur ekki mjög vel fyrir mér að vera stuttorð. Takk fyrir kommentið (sem hefði auðvitað vel mátt vera lengra). 🙂

  3. gua on May 5, 2011 at 11:14 said:

    Það var maður í mínu f.v. byggðarlagi sem laug aldrei meira en þegar hann bætti “éggetsvoguðsvariðþað” aftan við söguna 🙂

  4. Hvernig væri nú að skella í eins og eitt hressandi OMG blogg fyrir helgina? Bara svona til að lífga upp á lífið og tilveruna.

  5. gua on May 5, 2011 at 16:19 said:

    mæli með því :)))

  6. Harpa on May 5, 2011 at 17:48 said:

    Stenst illa áskoranirnar! Nú þarf ég bara að láta mér detta í hug gott OMG-efni … Uppástungur? (Helst ekki pólitík – mér leiðist pólitík. Og helst ekki neitt um málvöndun / hvurnig íslensk tunga kuðlast og daprast og skrælnar nútildax … en flest annað kemur til greina.)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation