Framtakssemi og frumskógalögmál

Saga Sögu Akraness II 
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“ 
 

Titill þessarar færslu er bein tilvitnun í titil greinar Gunnlaugs Haraldssonar sem birtist í Dögun í des. 1980, sjá nánar í tilvitnanaskrá hér að neðan. [Ég fjarlægði gæsalappir því þær koma í veg fyrir að færslan birtist sé smellt á krækju á blogggátinni, hvers vegna veit ég ekki.] Þetta er að mörgu leyti lýsandi titill fyrir þá sögu sem hér er að hefjast en á þó hugsanlega betur við síðari færslur. Ég þekki Gunnlaug Haraldsson ekki neitt en sé að hann hefur verið framsýnn maður.

Ég bætti dálitlum upplýsingum við lok síðustu færslu, þ.e. um söfnun Þorsteins Jónssonar og afraksturinn af svæðisrannsóknum sunnan Skarðsheiðar. Þetta er smotterí en kosturinn við skrif á vef er að þau skrif má laga og leiðrétta jafnóðum, ólíkt greinum á pappír. Ég vonast líka til að fá leiðréttingar og athugasemdir við bloggfærslur um Sögu Sögu Akraness því upp úr þeim hyggst ég skrifa grein og er því vel þegið að rangfærslur hafi sem flestar verið leiðréttar þegar að því kemur.
 

Pólitík að tjaldabaki

Þegar ég fór að grúska í upphafi að ritun sögu Akraness hinni nýrri komu í ljós alls konar þræðir sem lágu í ýmsar áttir og krulluðust saman hér og þar og augljóst að hægt væri að skrifa langa sögu um þá. Það geri ég ekki en finnst nauðsynlegt að geta nokkurra atriða og persóna sem kunna að hafa haft áhrif á gang sögunnar. Eitt sem skiptir talsverðu máli þegar ritun sögu Akraness hefst er hvernig menn röðuðust í pólitískar fylkingar og létu pólitík stjórna skoðun sinni á mönnum og málefnum.  

Sauðfé við AkrafjallUpp úr 1980 virðist Alþýðubandalaginu hér í bæ hafa vaxið mjög fiskur um hrygg. Ég fletti gegnum bunka af Dögun, blaði Alþýðubandalagsins á Akranesi, og Vesturlandsblaðinu, málgagni Alþýðubandalagsins á Vesturlandi, frá því laust fyrir 1980 og svolítið fram yfir 1990. Kosturinn við þessi blöð var einkum að þau komu sjaldan út á ári og ég hafði mjög gaman af því að skoða myndirnar af fólkinu, sama fólkið er nefnilega símyndað í blöðunum tveimur og skemmtilega hárprúðir margir á þessum tíma. Umfjöllunin var yfirleitt of hið sama far og í þeim Þjóðvilja sem ég ólst upp við.

Fólkið sem einna mest er myndað og talað við í þessum blöðum, líklega framvarðasveit Alþýðubandalagsmanna hér í bæ, hefur sumt snúið sér að öðru en sumt er enn í pólitík. En merkilegt er hve fáar persónur koma fyrir aftur og aftur. Þeir karlar sem virtust einna mest áberandi voru: Guðbjartur Hannesson, Jóhann Ársælsson, Engilbert Guðmundsson, Sveinn Kristinsson og Gunnlaugur Haraldsson. Nokkrar konur komu einnig talsvert oft fyrir í blöðunum, einkum Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Guðrún Geirsdóttir og Ingunn Jónasdóttir. Síðastnefndi karlinn, sem er aðalpersóna þessarar sögu, Gunnlaugur Haraldsson, var ritstjóri Dögunar 1979-87 og ritstjóri Vesturlandsblaðsins 1982-87, auk þess að vera formaður Alþýðubandalagsfélags Akraness og nágrennis árin 1980-82.

Mér fannst líka merkilegt að sjá hvernig þeir sem oftast komu við sögu í þessum blöðum röðuðu sér nánast kerfisbundið í hvers konar störf sem tengdust skólum, menntun, söfnum eða annarri menningu hér í bæ, annað hvort í nefndir eða innan stofnananna sjálfra, helst í stjórnunarstöður, fyrir utan það auðvitað að reyna að komast til valda í bæjarstjórn.

Þeir Engilbert Guðmundsson og Gunnlaugur Haraldsson virðast hafa verið miklir samherjar laust upp úr 1980. A.m.k. eyðir Engilbert vel rúmlega heilli síðu (af takmörkuðum síðufjölda) í að verja Gunnlaug eftir að sá fyrrnefndi hafði í Dögun veist annars vegar að tannlækni bæjarins fyrir að byggja of stórt hús (að mati stéttvísra Alþýðubandalagsmanna þeirra tíma) og hins vegar að nýráðnum forstöðumanni dvalarheimilis aldraðra fyrir að vera af alkunnri íhaldsætt. Vörn Engilberts byggist aðallega á því að þá sem gagnrýndu Gunnlaug skorti húmor og fer hann um það mörgum orðum. Sjálfur hafði Gunnlaugur skrifað álíka langa grein til að bera af sér sömu sakir ári áður (blaðið kom sjaldan út) og segir þar m.a.: „Það er allavega augljóst mál, að launþegarhópar búa við mismunandi aðstöðu til að semja um kaup sitt og kjör. Tannlæknar eru aðeins hluti þess hóps, sem greinilegra forréttinda nýtur við verðlagningu á þjónustu sinni við neytendur. Gæti t.d. ekki verið að svo horfi víðar í heilbrigðiskerfinu, dómskerfinu og öðru opinberu kerfi? Og að ekki sé nú minnst á þá aðila sem sjálfstætt starfa og óþarft er að telja upp hér.“1
 
 

Ingimundur Sigurpálsson var ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar árið 1982, einkum með fulltingi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Ráðning hans dró dilk á eftir sér því fulltrúi Alþýðubandalagsins, Engilbert Guðmundsson, sleit þess vegna meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokk. Bæjarstjórnin hélt eigi að síður velli og Ingimundur var bæjarstjóri næstu fjögur árin. Þegar nýr meirihluti Alþýðubandalags og Framsóknarflokks tók við völdum vorið 1986 samþykktu Alþýðubandalagsmenn áframhaldandi ráðningu hans, hugsanlega til að geta myndað meirihluta með Framsóknarflokknum. Fulltrúar Alþýðubandalagsins í meirihlutabæjarstjórn 1986 voru Guðbjartur Hannesson og Jóhann Ársælsson og varafulltrúi var Gunnlaugur Haraldsson. Engilbert Guðmundsson hóf störf við alþjóðleg þróunarmál um líkt leyti og hætti afskiptum af stjórnmálum.

Virtist Ingimundur reikna með að starfa áfram sem bæjarstjóri, a.m.k. var hann þess sinnis seint í september 1986, en vorið eftir réði hann sig sem bæjarstjóra í Garðabæ. Þrír umsækjendur sóttu um auglýsta stöðu bæjarstjóra á Akranesi, óskuðu allir nafnleyndar. Þann fyrsta september 1987 var Gísli Gíslason ráðinn sem nýr bæjarstjóri en hann hafði áður starfað sem bæjarritari á Akranesi um tveggja ára skeið.

Sinn síðasta dag í embætti skrifaði Ingimundur undir samning við Jón Böðvarsson þar sem Jóni var falið að rita sögu Akraness.
 

Jón Böðvarsson
 

Kýr við AkrafjallJón Böðvarsson (1930-2010) fæddist í Reykjavík en báðir foreldrar hans voru úr Innri-Akraneshreppi. Jón var á hverju sumri í sveit hjá afa sínum í Gerði í Innri-Akraneshreppi til 16 ára aldurs. Hann þekkti því mætavel til á þessum slóðum. Jón var cand.mag. í íslenskum fræðum og einnig menntaður í sögu. Hann var löngu landsþekktur árið 1987, hafði getið sér afar gott orð sem kennari, landvörður og leiðsögumaður, var einn af frumkvöðlunum í stofnun áfangaskóla og fjölbrautaskóla, var skólameistari FS, fyrsti heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands og margt fleira. Árið 1987 starfaði Jón sem ritstjóri Safns til Iðnsögu Íslendinga. Sá bókaflokkur var hans eigin hugmynd, hann fékk leyfi frá skólameistarastörfum í FS 1985 til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og kom fyrsta bókin út 1986, sú næsta 1988 og alls urðu þær 12 talsins. Þegar litið er yfir æviferil Jóns Böðvarssonar virðist hann hafa verið maður sem átti nokkuð gott með að vinna með öðrum, vera góður leiðtogi og afar hugmyndaríkur. Hann hafði trausta menntun í íslensku og sögu og feikilega reynslu af ferðum um landið og utan lands. Á yngri árum var Jón virkur í Fylkingunni og Sósíalistaflokknum en hafði þegar hér var komið sögu hætt afskiptum af pólitík.

Á hinn bóginn hafði Jón ekki mikið skrifað sjálfur þegar hann var ráðinn til að skrifa sögu Akraness. Hann hafði séð um útgáfu á ýmsum ritum, var lunkinn við að ritstýra öðrum og drífa áfram iðnsöguverkefnið en hafði einungis gefið út ljóðabók og leiðsögubók auk verka sem tengdust íslenskukennslu eða hans íslenskunámi. Það gekk meira að segja þjóðsaga um hversu stirt honum væri um skrif og sjálfur sagði hann löngu seinna: „Þannig er að setji ég tvær setningar á blað er ég varla búinn að því þegar ég fer að breyta þeim og aldrei verð ég ánægður.“2

Ingimundur bæjarstjóri hefur því varla ráðið Jón Böðvarsson til verksins af því hann hefði afkastað svo miklu í riti áður heldur væntanlega vegna annarra kosta hans (sem voru raktir að nokkru hér að ofan).
 
 

Samningurinn við Jón Böðvarsson um ritun sögu Akraness

Samningurinn sem Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri á Akranesi, og Jón Böðvarsson undirrituðu þann 31. ágúst 1987 var í stórum dráttum þannig:

Í 1. gr. kemur fram að Jóni er falið að rita þrjú bindi um sögu Akraness, „alls um 900 blaðsíður í Skírnisbroti“ sem komi út 1992. Bindin skuli skiptast þannig:

   I. bindi fjalli um tímabilið frá landnámi til einokunar.
  II. bindi fjalli um tímabilið frá 1602 til 1942.
 III. bindi fjalli um sögu Akraneskaupstaðar.

Í samningum er síðan kveðið nánar á um 10 verkþætti í sögurituninni. Fram kemur að Jóni er í sjálfsvald sett í hvaða röð hann skilar einstökum verkþáttum. (2. gr.) Verkið hefjist 1. sept. 1987 og skuli lokið fyrir árslok 1992. Skráningu og öflun allra heimilda skal þó lokið fyrir 1. apríl 1990 og ritun I. bindis á að vera lokið fyrir 1. apríl 1991 enda stefnt að því að gefa það út 1. janúar 1992. (3. gr.) Jóni ber að lesa prófarkir án endurgjalds (5. gr.), leggja til alla vinnuaðstöðu utan Akraness og standa straum af öllum kostnaði vegna verksins, þ.m.t. ferðkostnaði, ljósritun, ljósmyndun og öðrum eðlilegum kostnaði sem Jón telur nauðsynlegan (7. gr.). Jón skal halda eða láta halda allt að sex opinbera fyrirlestra á Akranesi um söguritunina í samráði við „þá sem verkkaupi [Akraneskaupstaður] setur til umsjónar með verkinu.“ (6. gr.)

Akraneskaupstaður velur aðila sem „meta hvern verkþátt og skila áliti eigi síðar en sex vikum eftir afhendingu. Telji þeir verkið fullunnið skal greiða verktaka … Meti þeir verkþátt ófullnægjandi skulu þeir tilgreina á hvern hátt honum er áfátt og skilgreina hvernig úr skuli bæta. … Rísi ágreiningur milli samningsaðila um gæði verkþáttar, sem ekki tekst að leysa, skal ágreiningur lagður undir mat tveggja sagnfræðinga sem verkkaupi [Akraneskaupstaður] og verksali [Jón Böðvarsson] velja og skuldbinda samningsaðilar sig til að hlíta úrskurði þeirra.“ (2. gr.)

Í samningnum er skýrt kveðið á um að standist ekki skil sé heimilt að segja honum upp: „Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma … getur verkkaupi gefið verksala frest í minnst 30 daga og síðan rift samningnum hafi handriti ekki verið skilað að fresti liðnum.“

Jafnframt er kveðið á um að „frumhandrit“ sé „eign verksala“ en verður ekki öðru vísi skilið en það eigi við „fullgert handrit“ (4. gr.) og að „Allar safnaðar heimildir verða eign verkkaupa jafnskjótt og verkþáttur er greiddur eða vinna stöðvast af öðrum orsökum“ (9. gr.)

Greiðslur eru tíundaðar í 8. gr. samningsins. Fyrir allt verkið á Akraneskaupstaður að greiða 5.540.000 kr. (miðað v. 1. júlí 1987 en í undirgreinum kemur fram að upphæðin er verðtryggð, þ.e. tengd ákv. launaflokki BHMR).

Við undirritun greiðir Akraneskaupstaður Jóni 10% samningsupphæðar, þ.e. 554.000 kr., en síðan 9% við skil hvers verkþáttar. Til að tryggja að Jón uppfylli skyldur sínar leggur hann fram tryggingarvíxil fyrir sömu upphæð og hann fékk við undirritun, 554.000 kr. Í hvert sinn sem Jón fær greitt fyrir unninn verkþátt á að endurnýja tryggingarvíxilinn og hækka upphæðina í samræmi við sömu verðtryggingu og launin, þ.e. upphæðin skal tengd sama launaflokki BHMR.3
 
 
 

Það er afar áhugavert að bera þennan samning saman við vinnubrögðin sem beitt var eftir að Ritnefnd um Sögu Akraness tók að starfa með söguritara. En ritnefndin, ritun sögunnar, efndir samningsins, greiðslur til Jóns, útgáfa og viðtökur bókarinnar verða að bíða næstu færslu.

Fyrri færsla:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
 


1 Gunnlaugur Haraldsson. 1980. „Framtakssemi og frumskógalögmál – Síðbúin fréttaskýring“. Dögun  3. árg. 5. tbl.  22. des. 1980, s. 4 og s. 10. Engilbert Guðmundsson. 1981. „Af útúrsnúningameisturum.“ Dögun 4. árg., 7. tbl. 18. des. 1981, s. 7 og s. 10. 
 

2 Upplýsingar um Jón Böðvarsson eru fengnar úr Guðrún Guðlaugsdóttir. 2009. Sá á skjöld hvítan.Viðtalsbók við Jón Böðvarsson. Bókaútgáfan Hólar. Bein tilvitnun í Jón Böðvarsson er á s. 9.

Athyglisvert er að Jón minnist ekki einu orði á ritun sögu Akraness í þessari viðtalsbók. Rit hans, Akranes. Frá landnámi til 1885, er talið upp í ritaskrá og í bókinni er ein mynd af því þegar forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, var afhent fyrsta eintakið af bókinni [ranglega nefnt Saga Akraness frá landnámi til 1885]. Á myndinni eru Indriði Valdimarsson, Jón, Steinunn Ólafsdóttir, Vigdís og Gísli Gíslason. Jón talar um ýmislegt í ævi sinni í þessari bók, jákvætt og neikvætt, sigra og vonbrigði og er ekkert alltaf sáttur, en liggur þó ekki illt orð til nokkurs manns, fremur að hann segi kost og löst í Íslendingasagnastíl um andstæðinga sína. Um samskipti við Ritnefnd um sögu Akraness og þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir Akraneskaupstað kýs hann að þegja.
 

3 Upphafsgreiðslan til Jóns við undirritun samnings, 554.000 kr. árið 1987, er rúmlega tvær milljónir króna á núvirði. Heildargreiðslan, um fimm og hálf milljón 1987, væru tæp tuttugu og ein milljón á núvirði. Því fer fjarri að Jóni hafi verið greidd sú upphæð. En nánari grein fyrir launum Jóns og kostnaði við ritun og útgáfu sögunnar verður gerð síðar. Það er alltaf mjög erfitt, nánast ógerlegt, að bera saman launakjör milli margra áratuga en til samanburðar má nefna að mánaðarlaun skólameistara í mars 2010 voru tæp 660.000 kr., árslaun slíkra því tæpar 8 milljónir (en árið 1987 var Jón í leyfi úr skólameistarastöðu FS). Miðað við þennan samanburð, sé haft í huga að samningstíminn var rúm 5 ár og innifalinn í greiðslum til Jóns var kostnaður sem hlaust af vinnu verksins, sést að Jón var langt í frá í fullu starfi við ritun sögu Akraness. En ítrekað er að samanburðinum ber að taka með fyrirvara, hann er einungis til að gefa lesendum einhverja hugmynd um hvað þessar tölur í samningnum þýða.
 
 
 

3 Thoughts on “Framtakssemi og frumskógalögmál

  1. Það er miklu áhugaverðara að lesa þessar færslur um það hvernig fáránlega mikil útgjöld sveitarfélagsins verða til heldur en að lesa endalausar færslur um uppdiktaða blindusjúkdóma 😀

    Ef ég reikna þetta rétt átti Jón Bö að fá rúmlega 25 milljónir kr. að núvirði fyrir öll þrjú bindin, ég miða við vísitölu neysluverðs með húsnæði, grunn frá 1984. En ég er ekki neinn sérfræðingur í núvirðingum.

  2. Uppdiktaðar blindusjúkdóma? Skil ekki hvað þú átt við, elskan (það er mæðradagurinn í dag), en get fullvissað þig um að eftir að hafa lært svona mikið á skrifum um UB skil ég heiminn miklu betur og mennina með. Á hinn bóginn skil ég ekki hvernig stílsnið á þessu bloggi virka og tekst alls ekki að hemja hástafi þótt ég margfari inn í kóðann og breyti … kóðinn hrekkur aftur í sama gírinn við fyrstu vistun. Það verður bara að hafa það.

    Sko, ég reiknaði þetta ekki sjálf. Er með alla útreikninga frá sérfræðingi og treysti honum fullkomlega. En eina rétta leiðin til að reikna þetta sæmilega raunsætt væri að breyta öllum upphæðum í aura silfurs eða mjólkulítra (fiskur hefur hækkað of óðeðlilega til að hægt sé meta til fiska í verðlagsútreikningum). Því miður hef ég engan sérfræðing til að reikna fyrir mig á svoleiðis máta.

    Það er svo sem ekkert fútt komið í þessa sögu ennþá … þetta er eins og í Íslendingasögunum að fyrst kemur löng kynning … fljótlega byrja ættfærslur meira að segja 🙂

  3. Pólitíkin, dómskerfið, efnahagslífið, vísindi og fræði, menningarstarf og listir… Það virðist vera nákvæmlega sama hvar mann ber niður, Ísland er háborg ófagmennskunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation