Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?

Saga Sögu Akraness IV 

Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
 
 

Kútter SigurfariÍ næstu færslum verður reynt að komast að því hvernig stendur á því að Akraneskaupstaður hefur eytt tæpum 105 milljónum í ritun sögu Akraness eftir að atrennu með Jóni Böðvarssyni lauk.

Kostnaður við Akranes. Frá landnámi til 1885 var, eins og sagði í síðustu færslu, rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund á núvirði, fyrir utan laun ritnefndar.1 Heildarkostnaður Akraneskaupstaðar við ritun Sögu Akraness frá 1987 til dagsins í dag er á núvirði 120.065.065 kr.  Fyrir þessa upphæð fáum við bæjarbúar tvöfalda útgáfu af sögu svæðisins frá landnámi til 1800, þ.e. útgáfu Jóns Böðvarssonar og útgáfu Gunnlaugs Haraldssonar. Virðist ævintýrinu hvergi nærri lokið því á fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2012 og 2013 er gert ráð fyrir 4,2 milljónum hvort ár í söguritunina endalausu.2

En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur og verður aðalpersónan nú leidd fram á sjónarsviðið: Sagnaritarinn sjálfur.
 
 

Gunnlaugur Haraldsson

Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson er Austfirðingur en kvæntist konu af Skaganum. Hann stundaði nám í sögu og latínu við HÍ „um tíma veturinn 1973-74“ en lauk fil.kand prófi í þjóðháttafræði og fornleifafræði við Lundarháskóla í Svíþjóð 1978. Síðan stundaði hann framhaldsnám í miðaldafornleifafræði við sama skóla 1991-92 en heimild mín, Æviskrár MA-stúdenta, hermir ekki hvort hann lauk einhverri formlegri gráðu þá. [Hann skilaði „4. árs prófritgerð“, líklega svokallaðri D-ritgerð sem er hluti af sænskri fil.mag gráðu. Fil.mag er þriggja anna mastersnám, tvær annir í kúrsum og ritgerð að auki. Gráðan samsvarar því ekki íslensku meistaraprófi, hvorki MA né gömlu cand.mag. gráðunni. Líklega hefur Gunnlaugur ekki lokið nema hluta náms til fil.mag gráðu.]

Gunnlaugur hafði fjölbreytta starfsreynslu, var m.a. kennari við Gagnfræðaskólann á Akranesi 1974-75. Eftir fil.kand próf starfaði hann sem minjavörður Austurlands og forstöðumaður Safnastofnunar Austurlands í rúmt ár en var ráðinn í 3/4 starf sem forstöðumaður Byggðasafns Akraness og nærsveita í Görðum á Akranesi [hér eftir kallað Byggðasafnið] þann 1. nóv. 1979.3 Jafnframt varð hann stundakennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi veturinn 1979-1980 og var stundakennari í þjóðháttafræði við HÍ á árunum 1984-1989.

Gunnlaugur var afar virkur í félagsmálum og stjórnmálum hér í bæ (og víðar) á árunum 1980-90. Hann hafði verið formaður Alþýðubandalagsfélags Fljótdalshéraðs 1978-79 og varð formaður Alþýðubandalagsfélags Akraness og nágrennis 1980. Í stjórn þess félags sat hann í fjögur ár, þar af formaður í 2 ár. Hannn var varafulltrúi í bæjarstjórn Akraness 1986-90 og varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Vesturlandskjördæmi 1987-91. Í Æviskrám MA-stúdenta segir að hann hafi setið í ritnefnd um sögu Akraness frá 1987 til júní 1991 en þar er augljóslega rangt farið með því Leó Jóhannesson tók sæti Gunnlaugs í ritnefndinni í júní 1990.4
 

Þegar Gunnlaugur skrifaði undir samning um sagnaritun fyrir Akraneskaupstað, þann 23. apríl 1997, voru ritverk hans fyrir utan námsritgerðir, greinar í blöð og stutta bæklinga eða texta í ljósmyndabækur um Akranes: Æviskrár MA-stúdenta I-V ; Lögfræðingatal 1736-1992 I-IV og  Viðskipta-og hagfræðingatal 1877-1997 I-III  Gunnlaugur var ritstjóri þessara rita. Æviskrár MA-stúdenta vann hann frá grunni en stéttartölin eru öll endurskoðaðar útgáfur eldri stéttartala. Enn eitt ámóta stéttartalið í ritstjórn Gunnlaugs kom út seint á árinu 1997, þ.e. Tannlæknatal 1854-1997 (og raunar dróst útgáfa síðasta bindis Lögfræðingatals sennilega þar til seint á árinu 1997).

GarðarEina bók hafði Gunnlaugur ritað, Akraneskirkja 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi. Útgefandi var Akraneskirkja og bókin kom út í ágúst 1996, á aldarafmæli kirkjunnar. Ég fann einungis einn ritdóm um bókina.5

Tildrög þess að Gunnlaugur Haraldsson var ráðinn af sóknarnefnd Akraneskirkju til að skrifa sögu hennar eru mér ekki kunn. Hann var í fullu starfi sem forstöðumaður Byggðasafnsins auk þess að vinna meðfram að ritstjórn stéttartala ýmiss konar, eins og áður hefur verið rakið. Um miðjan maí 1995 hafði Gunnlaugur Haraldsson ákveðið að fara í launalaust leyfi frá starfi sínu á Byggðasafninu, líklega vegna ritstarfa fyrir sóknarnefnd Akraneskirkju.6

Á fundi Menningarmála-og safnanefndar Akraneskaupstaðar 5. sept. 1995 er fyrsta mál á dagskrá bréf frá Gunnlaugi Haraldssyni þar sem hann segir upp starfi sínu sem forstöðumaður safnsins. Síðar á sama fundi er bókað: „Bréf frá Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar sem hefur yfirfarið reikninga safnsins frá jan-okt 1995. Þar er bent á að útlit sé á að verulega verði farið fram úr áætlun. Gunnlaugur Haraldsson taldi skýringu á þeim mismun sem fram kemur stafa af því hvernig færslur færu fram hjá aðalbókara.“ Síðan var samþykkt að til að fá botn í málið myndu formaður Menningarmála-og safnanefndar, Guðrún Geirsdóttir, Eirný Valsdóttir sem sat í nefndinni og Gunnlaugur Haraldsson ganga á fund aðalbókara. Ég leitaði í næstu fundargerðum Menningarmála-og safnanefndar til að reyna að finna hvort niðurstaða hefði fengist í þessu máli en fann ekkert bókað meir um það.7

Gunnlaugur var því líklega í aðalstarfi við að skrifa bókina um Akraneskirkju frá því sumarið 1995 til þess er bókin kom út seint í ágúst 1996. Eftir það vann hann að ritun nokkurra stéttartala, sem áður var getið.

Á fundi Ritnefndar um sögu Akraness seint í febrúar 1997 (30. fundi) tilkynnti Gísli Gíslason, formaður nefndarinnar og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, að Jóni Böðvarssyni hefðu verið send samningsdrög um starfslok. Þá hefur þegar verið rætt við Gunnlaug Haraldsson um að taka að sér áframhaldandi vinnu við verkið því hann mætti á þennan fund, lagði fram yfirlit yfir umfang og tímaskeið átján annarra byggðasagna og „Gunnlaugur lagði einnig fram drög að efnisskrá fyrir þrjú bindi að Sögu Akraness.“ Nefndin fór yfir drög að verkáætlun fyrir verkið og ræddi um ýmsa þætti sem vörðuðu útgáfu. Gísla var falið að vinna áfram að málinu.8

Þann 22. apríl 1997 samþykkti bæjarstjórn Akraness að ráða Gunnlaug Haraldsson til að ljúka ritun sögu Akraness9 og daginn eftir skrifuðu þeir Gísli Gíslason bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir „Samning um ritun Sögu Akraness“.

Um þennan samning, efndir hans og fleira verður fjallað í næstu færslu.
 

Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …


 

1 Formaður Ritnefndar um sögu Akraness, Gísli Gíslason bæjarstjóri, þáði ekki laun fyrir fundarsetur. Upphæðir sem greiddar voru í nefndarlaun 1987-1996 liggja ekki fyrir en bent skal á núverandi nefndarlaun sem Akraneskaupstaður borgar, þ.e. að almennur nefndarmaður fær greiddar 9.269 kr. fyrir hvern fund. Ofan á þá upphæð bætast 17,35% launatengd gjöld sem bærinn borgar. Nefndin hélt 29 fundi á þessu tímabili og í henni sátu fjórir almennir nefndarmenn.

2 Upplýsingar um kostnað eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.

3 Ráðningu Gunnlaugs Haraldssonar ber að með nokkuð undarlegum hætti miðað við bókanir í fundargerðum stjórnar Byggðasafns Akraness og nærsveita. Á s. 38. í fundagerðarbók hennar segir að fundur sé haldinn „þann oktober ´79 [en dagsetningu vantar]  Fundar menn voru eftirtalin: Þórarinn Ólafsson, Sveinn Guðmundsson, Ragnheiður Þórðardóttir, Þorsteinn Jónsson og Anton Ottesen.“

Aðalmál fundarins var hvort „tímabært væri að ráða forstöðumann að safninu.“ Kemur fram að til þessa hafi fjárhagur  verið of þröngur til svo mætti verða en nú sé að rætast úr „en spurning væri hvort hér yrði um að ræða heilt eða hálft starf. … Samþ. var að fela framkvæmdastj. að athuga fjárhagsgrundvöll fyrir að ráða starfsmann að safninu og ef sú athugun yrði jákvæði skildi [svo] auglýsa eftir þjóðháttarfræðing [svo] til starfsins.“ (s. 38-39 í fundargerðabók.)

Á síðu 39 er síðan límdur gulur miði neðan við fundargerðina. Hann er dagsettur 22.10. ’79 og á honum stendur:
„Gunnlaugur Haralds ráða hann.
3/4 stöðu frá 1/11 ’79.
Sveini falið að tala við hann-
laun 300.000 –
Tekjur áætlaðar ’79 6,000,000 –
Ákveðið að auglýsa
eftir þjóðháttafræðing.
Sveinn taki á móti upplýsingum.“

Fundargerðina í október ritaði Anton Ottesen og sama rithönd virðist vera á litla gula miðanum.
 

4 Upplýsingar um Gunnlaug Haraldsson og beinar tilvitnanir eru úr MA-stúdentar 1973. Æviskrár MA-stúdenta V. Ritstjóri Gunnlaugur Haraldsson. Steinholt 1994, s. 496-497.

5 Sjá: Sigurjón Björnsson. „Kristnihald á Skaga“ í Morgunblaðinu 18. september 1996. Í frétt af ráðningu Gunnlaugs sem sagnaritara, „18 milljónir í ritun sögu Akraness“, DV 28. apríl 1997, segir að Gunnlaugur hafi „til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi.“ Þar er vitnað í einhverja ónafngreinda bæjarstjórnarmenn, ekki þó fulltrúa sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn.

Saga Akraneskirkju var síðan endurrituð í Kirkjum Íslands 13. bindi, sem Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Biskupsstofa og Borgarfjarðarprófasdæmi stóðu að og kom út 2009. Sérprentið sem ég á úr þessu bindi, Akraneskirkja, er gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi og höfundar eru Björk Ingimundardóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, Lilja Árnadóttir, Guðmundur L. Hafsteinsson og Gunnar Bollason. Þessi útgáfa er mun árennilegri fyrir leikmann utan þjóðkirkju (eins og ég er) því bók Gunnlaugs er að stórum hluta saga sóknarnefnda og starfsfólks kirkjunnar, auk ítarlegrar forsögu sem ég hef reyndar lesið víðar áður, t.d. í  Akranes. Frá landnámi til 1885 Jóns Böðvarssonar. Hafi menn einungis áhuga á sögu þessarar gullfallegu kirkju og gripum hennar, en minni áhuga á smáatriðum og sóknarnefnd,  er Akraneskirkja ólíkt þægilegri; styttri, skorinorðari og fallegri. Það er auðvitað fráleitt að bera útlit svo misgamalla bóka saman, báðar eru reyndar prentaðar á vandaðan pappír en í nýrri sögunni er mikið af litmyndum en fáar slíkar í bók Gunnlaugs enda var litprentun eitthvað dýrari þegar sú bók kom út. Það litla sem hægt er að segja í samanburði mynda er að augljóst er að ekki hefur verið mikið lagt í myndvinnslu í bók Gunnlaugs (þótt sú tækni hafi verið sæmilega aðgengileg 1997). Það sést m.a. með því að bera saman gamlar myndir í báðum bókunum, t.d. mynd Sigfúsar Eymundssonar, merkt Þjms. SEy 81. Hún er afar vel unnin á s. 18 í Akraneskirkju en  algerlega óunnin á s. 144 í bók Gunnlaugs.

Ritnefnd af hálfu sóknarnefndar Akraneskirkju, sem starfaði með Gunnlaugi að Akraneskirkju 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi, var skipuð Braga Þórðarsyni, Þjóðbirni Hannessyni og Þorgils Stefánssyni. Enginn úr ritnefnd skrifar formála heldur hefst bókin á formála söguritara, Gunnlaugs Haraldssonar, ávarpsorðum eftir herra Ólaf Skúlason biskup Íslands og ávarpsorðum sr. Björns Jónssonar sóknarprests. Í þeim eina ritdómi sem ég fann og gat hér að ofan er lýsing á efni bókarinnar.
 

6 Sjá fundargerð Menningarmála-og safnanefndar Akraneskaupstaðar 18. maí 1995. Um þetta ber heimildum ekki alveg saman því í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1995 segir á s. 152:
„Gunnlaugur Haraldsson safnstjóri fékk launalaust leyfi frá 1. ágúst en sagði síðan starfi sínu lausu í desember. Var Guttormi Jónssyni, sem starfað hefur lengi við safnið, falið að veita því forstöðu um sinn.“ Í fréttinni „Byggðasafn Akraness: Forstöðumaðurinn var kominn í annað starf“ í DV 15. desember 1995 segir: „Í frétt um Byggðasafn Akraness hér í blaðinu 12. desember kom fram að Gunnlaugur Haraldsson hefði sagt starfi sínu lausu frá og með 5. des. sem forstöðumaður safnsins. Gunnlaugur hefur verið í launalausu fríi hjá Byggðsafninu frá 1. september og var fyrir allnokkru búinn að taka ákvörðun um að segja upp starfi sínu sem forstöðumaður safnsins enda kominn í annað starf. Hann sagði því ekki upp starfi sínu vegna skýrslu endurskoðanda byggðasafnsins.“ (Vísað er í fréttina „Deilur um reikninga byggðasafnsins“ á baksíðu DV  þann 12. des. 1995.)
 

7 Í stjórn Menningarmála- og safnanefndar sátu Guðrún Geirsdóttir, Jósef H. Þorgeirsson, Hörður Pálsson, Eirný Valsdóttir og Ástríður Andrésdóttir.
 

8 Í Ritnefnd um Sögu Akraness sat sami kjarni yngra fólks og áður er getið, Gísli Gíslason, Hrönn Ríkharðsdóttir og Leó Jóhannesson. Í stað Valdimars Indriðasonar sem lést árið 1995 hafði sest Jósef H. Þorgeirsson, sem mætti á sinn fyrsta fund þann 5. sept. 1995 (26. fund ritnefndarinnar) og Ólafur J. Þórðarson sat enn í nefndinni. Í neðanmálsgreinum 2 og 3 við síðustu færslu, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni, var fjallað um hversu náin fjölskyldubönd þeirra Gísla, Hrannar og Leós eru. Við þetta má bæta hversu nánir þeir Leó og Gunnlaugur Haraldsson voru:

Leó og Gunnlaugur Haraldsson eru jafngamlir, báðir fæddir 1951. Leó útskrifaðist úr MA árið 1972, Gunnlaugur árið 1973. Þeir stunduðu báðir nám við Háskólann í Lundi á árunum 1975-’78 (Leó hóf sitt nám þar 1974). Leó útskrifaðist með fil.kand próf í sagnfræði og uppeldisfræði og Gunnlaugur með fil.kand próf væntanlega í þjóðháttafræði (hann lærði þjóðháttafræði og norræna fornleifafræði frá 1975 í Lundi) árið 1978. Sjá „MA-stúdentar 1972“ og „MA-stúdentar 1973“ í Æviskrám MA stúdenta V, s. 411-412 og s. 495-497. Ritstjóri Gunnlaugur Haraldsson. Steinholt 1994 og Kenntaratal á Íslandi V, s. 521, útg. 1988. Sænsk fil.kand gráða er lægsta háskólagráða í húmanískum greinum, samsvarar íslenskri BA gráðu. Yfirleitt ljúka menn henni á þremur árum.

Það er frekar líklegt að þessi tveir hafi tekið einhvern þátt í starfi „Félags þjóð- og fornleifafræðinema“, sem minnst var á í fyrstu færslu um sögu Sögu Akraness, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“, þótt hvorugur geti þess í Æviskrám MA-stúdenta V. Og það er meir en líklegt að báðir hafi smitast af hugmyndum sem lágu að baki stofnun þessa félags á sínum tíma, sem m.a. voru að íslenskar sagnfræði-, þjóðfræði- og fornleifafræðirannsóknir til þessa hefðu verið fúsk og ekki byggðar á réttri hugmyndafræði (sjá tilvitnanir í yfirlýsingar hópsins sem vann að svæðisrannsókn sunnan Skarðsheiðar o.fl., í tilvísanaskrá við sömu færslu). Hugsanlega hefur eimt eftir af þessum hugmyndum meðal námsmanna í Lundi eitthvað áfram. Mér er ekki kunnugt um hvenær Hrönn Ríkarðsdóttir stundaði sitt nám við Lundarháskóla (hún er fædd 1954) eða hvaða gráðu í sögu hún lauk þar og get því ekkert fullyrt um hennar sögusýn.

Leó tók á sínum tíma sæti Gunnlaugs í Ritnefnd um Sögu Akraness. Báðir sátu í nefndinni fyrir alþýðubandalagið.

9 Á þessum 843. fundi bæjarstjórnar Akraness 22. apríl 1997 greiddu Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson, Gunnar Sigurðsson, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Pétur Ottesen, Ingvar Ingvarsson og Bryndís Tryggvadóttir öll atkvæði með því að gera samninginn við Gunnlaug Haraldsson. Sigríður Guðmundsdóttir greiddi atkvæði á móti.
 
 
 
 
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation